21.04.1970
Neðri deild: 79. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

93. mál, lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar

Frsm. minni hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram,. varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. leggur til, að það verði samþ., en minni hl. leggur til, að það verði fellt. Það er rétt, að það er víða um land ástæða til þess að huga að sameiningu sveitarfélaga, enda er uppi mikil hreyfing í þá átt. Þetta er þó víðast hvar viðkvæmt mál, og þarf að athugast vel, ekki síður heima fyrir en á æðri stöðum.

Í þessu máli er ljóst, að bæjarstjórn Húsavíkur vill að vísu taka við Flatey, en bæði forsvarsmenn Flateyinga sjálfra og öll sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu mæla eindregið gegn því, að hrapað verði að samþykkt þessa máls nú, heldur verði það athugað nánar, til þess að unnt sé að sjá, hvort þetta ástand breytist ekki. Við vitum, að Flatey er gagnauðug eyja. Þar eru hús og aðstaða til atvinnurekstrar, og þar hefur fólk jafnan komizt vel af. Ég hef heyrt, að hin raunverulega ástæða fyrir því, að Flateyingar fluttu í land, e. t. v. um stundarsakir, sé sú, að þeir hafi ekki fengið kennara til eyjarinnar. Það ástand kann því að breytast, og ég sé ekki ástæðu til að samþykkja þetta frv. nú gegn eindregnum andmælum sýslunefndar og ég held yfirleitt allra heimamanna, því að mér er ekki kunnugt um, að nokkur hvatning hafi komið heiman að til þess að ýta þessu máli áfram. En nú stendur fyrir dyrum aðalfundur sýslunefndar Suður-Þingeyinga, væntanlega innan skamms, og getur hann að sjálfsögðu athugað málið á ný, ef tími þykir nú til kominn. Við leggjum því til, að frv. þetta verði fellt.