21.04.1970
Neðri deild: 79. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

93. mál, lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði raunar ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr., vegna þess að ég lýsti andstöðu minni við þetta frv. við 1. umr.

Það má segja það, að það séu ekki horfur á því, að eyjan Flatey byggist á ný. En það er líka hægt að segja, að það geta verið horfur á því, því að raunverulega eru hinir gömlu Flateyingar ekki fluttir úr eyjunni til fulls enn. Þeir eru, eins og hér var getið um áðan, nú þegar í vetur komnir út í ey til grásleppuveiða, flestallir þeir, sem þaðan fóru síðast, og munu verða í sumar fram á haust við veiðar í eynni. Þeir eiga sínar fasteignir í eynni og að vísu fleiri menn en þeir, því að það munu vera upp undir 20 íbúðarhús nothæf í eyjunni, eða a. m. k. milli 10 og 20, og sum góð. En það, sem ég hef sérstaklega við að athuga, að svona frv. sé flutt, er það, að það er ekki gert í samráði við neina, og hreint og beint liggur fyrir skýlaus ósk um það frá sýslunefndinni á síðasta sýslufundi, að þessu byggðarlagi, sem má segja, að sé orðið autt, þó að þar séu á skrá einir 5 íbúar, verði ekki ráðstafað nema í samráði við sýslunefndina. Og það er það, sem ég hef við að athuga, að svona er hlaupið fram fyrir skjöldu og málum slengt inn á Alþ. án samráðs við héraðsbúa. Það er ekki einu sinni ósk frá bæjarstjórninni í Húsavík um, að þetta frv. sé flutt, og sameiningarnefnd sveitarfélaganna lýsti því yfir, þegar það var flutt, að ekki væri komin frá henni ósk um þetta. Þetta er viðkvæmara mál en svo, að það eigi að ganga fram hjá héraðsbúum algerlega í svona máli, og ég tel, að það sé ekki ástæða til að fresta umr. um þetta nú, heldur eigi að fella frv. En ég get gengið inn á það með hv. 1. þm. Norðurl. e., að umr. sé frestað og það athugað, hvort hægt sé að finna þarna einhverja leið fyrir þingið að ganga frá þessu máli öðruvísi en fella frv., sem ég tel raunar eðlilegast, eins og það ber að.