20.01.1970
Neðri deild: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (2652)

131. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þrem öðrum hv. þm. að flytja frv. til l. á þskj. 186 um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, en í gildandi l. um tekju- og eignarskatt eru ákvæði um sérstakan frádrátt til handa sjómönnum. Það er talað þar um tvenns konar frádrátt, hlífðarfatafrádrátt, og nemur hann um 500 kr. á mánuði nú, og hann miðast við þann vikufjölda, sem þeir eru háðir greiðslu slysatryggingariðgjalda, og svo er annar frádráttur, sem sjómenn fá, 3000 kr., fyrir hvern mánuð, sem er reiknaður á sama hátt, en til þess að ná þessum frádrætti, verða þeir að hafa verið skráðir á íslenzk skip a. m. k. í 6 mánuði af skattárinu. Í grg. með þessu frv. getum við þess, flm., að það hafi verið tvennt, sem hafi orsakað þessi sérstöku skattfríðindi sjómanna. Það er annars vegar, að Alþingi hefur viljað viðurkenna sérstöðu þessarar atvinnustéttar meðal þegna þjóðfélagsins, sérstöðu, sem skapast af langtímafjarveru þeirra frá heimilum sínum, af löngum vinnutíma og mjög erfiðum starfsskilyrðum, og einnig þeirri miklu hættu, sem þeir búa við í starfi sínu, sem við höfum nú, því miður, svo raungóð dæmi um á síðustu dögum. Þá er því ekki að leyna, að vegna þess að það hefur verið viðurkennt af öllum aðilum, að þessum mönnum bæri að bera meira úr býtum en starfsstéttum í landi, og það hefur líka orðið að viðurkenna það, að útgerðin hefur oft á tíðum ekki verið þess megnug að greiða það, sem þar þurfti til að koma, þá hefur Alþ. leyst viðkvæm vandamál milli útgerðarmanna og sjómanna, þegar þeir hafa átt í samningum um kaup sín og kjör, og m. a. þess vegna hafa þessar undanþáguheimildir komist inn í þessi l., sem við flytjum nú frv. um að breyt. verði gerðar á. Það er auðvitað ljóst, að á undanförnum árum, miðað við þessa krónutölu óbreytta, þá hefur gildi þessara ákvæða fyrir þessa menn rýrnað, og til þess að vega nokkuð á móti því, þá leggjum við til með þessu frv., að ákvæði þessara l. um skattvísitölu nái einnig til þessara fríðinda íslenzkra sjómanna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vænti þess, að það verði ekki andstaða gegn því. Mér sýnist þetta vera mikið sanngirnismál og reyndar fleirum, og ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. þá verði frv. vísað til 2. umr. og fjhn. Ég tel, að það eigi bezt heima þar.