27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2656)

150. mál, almannatryggingar

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram hér frv. til breyt. á 1. nr. 40 frá 30. apríl 1963, um almannatryggingar, og l. nr. 83 frá 29. desember 1967. Með mér flytja þetta frv. þeir hv. 1. þm. Austurl., Eysteinn Jónsson, og hv. 1. þm. Vestf., Sigurvin Einarsson.

Frvgr. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir e-lið fyrri málsgr. 46. gr. l. (4. gr. l. nr. 83 frá 1967) bætist nýr stafliður svo hljóðandi:

f. Að greiða óhjákvæmilegan ferðakostnað sjúklinga svo og barnshafandi kvenna úr þeim héruðum, þar sem ekki er læknir til staðar eða sjúkrahús.

Nánari reglur um þessar sérstöku ferðakostnaðargreiðslur setur tryggingarráð.“

Og 2. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eitt mesta vandamál margra héraða nú, er læknaskorturinn. Íbúarnir í þessum héruðum búa við svo mikið öryggisleysi og erfiðleika, að vart er hægt að lýsa með orðum. Þótt aðstöðumunur landsins barna sé mikill á mörgum sviðum, þá er hann mestur og geigvænlegastur í þessum efnum. Ef slys ber að höndum eða snögg, lífshættuleg veikindi, er það oftast atvikum háð, hvort mögulegt reynist að ná til læknis í tæka tíð. En þó að óvissan sé mest yfir vetrarmánuðina í afskekktum, snjóþungum héruðum, sem búa við ófullkomin vegakerfi, er hún alls staðar fyrir hendi, þar sem miklar vegalengdir eru til næsta læknis í vetrarveðráttu. Það hefur því orðið fangaráð, að barnshafandi konur, sem búsettar eru í þessum héruðum, hafa tekið sig upp, nokkrum vikum áður en þær vænta sín, og flutzt til þeirra staða, sem hafa næga lækna- og sjúkrahúsþjónustu. Þessu hlýtur að fylgja mikill kostnaður, sem er óeðlilegt og ósanngjarnt, að þær beri. Ef þessi sjálfsagða þjónusta er ekki til staðar heima í héruðunum, eins og búið er að viðurkenna, að eigi að vera með því að skipta landinu öllu í læknishéruð, þá má ekki minna vera en að þeir, sem þurfa á henni að halda og fá hana ekki í sinni heimabyggð, þurfi ekki að borga ferðakostnaðinn. Annar kostnaður og óþægindi, sem af þessu leiðir, eru næg fyrir því.

Í l. um almannatryggingar frá 1967, 7. gr., sem er breyt, á 49. gr. l. frá 1963, segir í h-lið: „Óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúks samlagsmanns á sjúkrahús innanlands að 3/4 hlutum, enda sé flutningsþörfin svo bráð og heilsu hins sjúka svo farið, að hann verði ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningaleiðum að dómi samlagslæknis og sjúkrasamlagsstjórnar.“

Þetta lagaákvæði er gott, svo langt sem það nær. Hins vegar skiptir allt öðru máli, sé héraðið læknislaust. Þá er eðlilegra, að sjúkratryggingadeild greiði þennan kostnað, fremur en sjúkrasamlög, og að þessi kostnaður sé greiddur, hvort sem farið er með áætlunarferðum eða ekki. Og það sýnist vera eðlilegt og sanngjarnt, að hinn sjúki fái allan ferðakostnaðinn greiddan í þeim tilfellum, því að ef þjóðfélagið innir ekki þá sjálfsögðu skyldu af hendi við héruðin að sjá þeim fyrir læknisþjónustu, þá hlýtur samfélagið að eiga að bera þann kostnað, sem af vanrækslunni leiðir.

Það er í sjálfu sér furðulegt, að ekki skuli hafa verið gerðar breytingar á almannatryggingal. fyrir löngu á þann hátt, sem hér er lagt til, þar sem aðstöðumunur og kostnaðarauki þess fólks, sem hefur enga læknaþjónustu, hlýtur að vera augljós hverjum manni og ekki aðrar leiðir eðlilegri til þess að draga úr þessum mismun, sem af læknisleysinu leiðir, en að kostnaðurinn sé greiddur af almannafé, þegar fara þarf langar leiðir til þess að komast undir læknishendur.

Mér verður lengi minnisstætt, er ég átti tal við húsfreyju á Langanesi sumarið 1968. Hún var að sýna mér túnið, sem var ýmist dauðkalið eða graslaust. Þá komst hún þannig að orði, er við ræddum um þessi mál: „Þó er þetta með grasleysið ekkert hjá því öryggisleysi, sem við búum við hér, enginn læknir fyrr en á Vopnafirði eða Húsavík.“ Í þessum fáu orðum felst e. t. v. meira en hv. alþm. átta sig á í fljótu bragði, því að þetta var sagt undir óvenjulegum aðstæðum. Þegar þetta samtal fór fram var komið fram í miðjan júlímánuð. Túnið var að miklu leyti dautt af kali, og það, sem óskemmt var, var aðeins komið á það þelið, varla sauðgróður, á þeim tíma, sem í öllu venjulegu, að sláttur er hafinn. Mér fannst a. m. k. ekki heyskaparhorfur þá álitlegar á þessum slóðum, en þó var það ekkert hjá því öryggisleysi að hafa engan lækni nema í órafjarlægð. Á þessu sést, hvernig þetta fólk hugsar og finnur til, sem hefur enga læknaþjónustu í heimabyggð sinni.

Um þessi mál hafa farið fram miklar umr. að undanförnu, og fyrir þessu þingi liggur frv. þess efnis að heimila að ráða erlenda lækna í þau héruð, sem ekki fást í íslenzkir læknar. Þótt Alþ. samþykkti þessa heimild, hef ég ekki trú á, að hún leysi þennan vanda. Í fyrsta lagi þá eru litlar vonir til þess, að erlendir læknar fáist hingað, því að gengisfellingarnar 1967 og 1968 hafa lækkað laun fyrir hina erlendu lækna um helming frá því, sem var fyrir þann tíma. Í öðru lagi myndu vera á því allmikil vandkvæði að fá menn í þessa þjónustu, sem ekki kunna tungu okkar. Hinu neita ég ekki, að betra er að fá erlenda lækna í þessi héruð, séu þeir fáanlegir, en að hafa þau læknislaus, en það er ekki sú lausn, sem við getum sætt okkur við, nema til bráðabirgða. Við hljótum því að stefna að öðrum úrræðum, og því þarf að reyna að gera sér ljóst, hvað þar veldur, að ekki hefur tekizt að fá lækna í þessi héruð. Ég hef ekki trú á þvingunum í þessu efni eða öðrum og tel, að aðgerðir stjórnarvalda í þá átt séu líklegri til að auka þann vanda sem fyrir er, en að draga úr honum. Ég hef heldur ekki trú á því, að um sé að kenna skorti á íslenzkum læknum eða tekjur lækna séu minni úti í héruðunum eða í þéttbýlinu. Ég hef rætt þessi mál við marga lækna og óskað eftir áliti þeirra, hvað muni fyrst og fremst valda því, að læknar fáist ekki út í héruðin. Þetta hafa verið starfandi héraðslæknar og starfandi læknar í þéttbýli og sérfræðingar á ýmsum sviðum. Mér hefur skilizt á þeim flestum, að þeir telji höfuðástæðuna fyrir þessu, hvernig kennslunni í háskólanum er háttað hér. Hún sé ekki þannig, að hún búi menn undir alhliða lækningar eins og héraðslæknis, sem er einn í stóru héraði. Eigi að vera einhver von til þess, að úr rætist að þessu leyti, verður að miða kennsluna í háskólunum við þessi störf. Í öðru lagi segja þeir, að þar sem sé aðeins einn læknir í héraði, sé vinnuálagið oft allt of mikið og bindandi, svo að fáir geti unað því til lengdar. Í þriðja lagi þá sé það oftast þannig, að þegar þeir hefja störf að námi loknu þá komi þeir í héruð, þar sem þeir og fjölskyldur þeirra séu öllum ókunnugir. Kynningin fyrir konur þeirra gangi misjafnlega, en þeir oftast störfum hlaðnir og geti því sjaldan um frjálst höfuð strokið. Þegar þeir séu í vitjunum, sé konan bundin við símann, ef kall skyldi koma, og ekki muni það einsdæmi, að það sé lækniskonan, sem unir ekki slíku lífi, sem leiðir svo til þess, að fjölskyldan tekur sig upp og flyzt í þéttbýli, þar sem hún er ekki eins bundin. Ég held, að þessi mál þurfi að athuga og þá sérstaklega að breyta kennslunni og miða hana við læknisstörfin í héruðunum. Kemur mér þá fyrst í hug, hvort læknanemarnir ættu ekki að starfa einhvern hluta af námi sínu með héraðslæknum, búa þá á þann hátt undir starfið, og um leið mundi vinnast við það, að héraðslæknirinn, sem hefði með sér nema, væri ekki eins bundinn þann tíma og vinnuálagið þá minna.

Öllum ætti að vera ljóst, að það er mjög aðkallandi, að gerðar séu einhverjar ráðstafanir, sem að gagni koma, til þess að ekkert hérað sé læknislaust, og í þeim starfi íslenzkir læknar. Að því hljótum við að stefna. En á meðan það er ekki, ber okkur að létta þær byrðar, sem af læknisleysinu leiðir. Að því er stefnt með flutningi þessa frv.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar að sinni. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.