30.01.1970
Neðri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (2659)

154. mál, orlof

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þetta mál þarf ekki langrar framsögu við, enda skal ég vera frekar stuttorður um málið, það liggur ljóst fyrir.

Það var á árinu 1964, sem orlofslögin voru endurskoðuð, og þá voru réttindi þeirra færð í nálega öllum atriðum til samræmis við það, sem þá var í gildi á Norðurlöndum. Síðan hafa orlofslögin á öllum Norðurlöndum, í öllum nágrannalöndum okkar, verið endurskoðuð, og orlofið hefur alls staðar verið lengt nema hér. Það hefur staðið óbreytt hér frá því á árinu 1964, en síðan hefur mikið vatn til sævar runnið.

Lengd orlofsins hér á landi er nú 21 dagur á ári eða 13/4 úr degi á mánuði hverjum fyrir hvern unninn almanaksmánuð, miðað við síðasta orlofsár alltaf. En þessi lágmarksákvæði rýra auðvitað í engu orlofsrétt þeirra manna, sem samkv. samningi eða venju hafa eignazt meiri orlofsrétt, en undantekningar frá þessari lögfestu reglu eru allmargar. Það eru margir launþegar, sem hafa nokkru lengri orlofsrétt en lágmarksákvæði l. segja til um.

Þegar orlofsfé skal greitt í peningum, á það að greiðast með launum með sérstökum hætti, með orlofsmerkjum, þó að þau lagaákvæði séu því miður allt of oft brotin, sem ég harma. Orlofsféð á að vera 7% af greiddum launum orlofsárið á undan. Í þessu frv. er aftur lagt til, að lengd orlofsins verði tveir dagar fyrir hvern unninn almanaksmánuð á síðasta orlofsári og orlofsféð verði 8% í stað þess, að það er 7% núna.

Ég vil þá gefa nokkrar upplýsingar um nágrannalönd okkar, og eru þá þessar upplýsingar helztar, sem ég vil draga fram. Orlofslögin í Noregi breyttust fáum vikum eftir að íslenzku orlofslögunum var breytt, — það var 15. maí 1964, — og þar var þá lögfest fjögurra vikna orlof, og svo hefur það verið síðan í Noregi. En ákvæðin um orlofsfé hjá Norðmönnum voru sett 9½ %. Það er því þannig um Norðmenn, að þeir eru búnir að hafa miklu hærra orlofsfé og miklu lengra orlof eiginlega frá því, að lagabreytingin var síðast gerð hjá okkur, og svo mundi verða hjá Norðmönnum áfram, þó að þetta frv. væri samþ., að þeir væru með mun lengra orlof og mun hærra orlofsfé en ákvarðast með þessu frv. Það má segja: Hvers vegna leggur þú þá ekki til, að orlofsféð hér verði 9½%, og orlofslengdin fjórar vikur. Ég býst við, að í launauppgjörinu í vor, ef við tökum mjög djúpt í árinni í orlofsmálinu, þá mundi það kannske rýra kaupgreiðsluna, en það veitir ekki af að fá allt, sem mögulegt er að knýja fram, í beinu kaupi, og þess vegna kannske betra eftir mínu mati að halda sér hér nokkurn veginn við það, sem almennast er á Norðurlöndum í þessu efni, og spenna ekki bogann kannske þarna eins og beint tilefni gæfist til eftir fordæmi Norðmanna.

Í Svíþjóð er lengd orlofsins ákveðin í l. 24 virkir dagar á ári, þ. e. a. s. 2 dagar, eins og hér er farið fram á, á hvern unninn almanaksmánuð. Þar er svo útreikningsreglan sú, að ef unnið er hálfan mánuð eða meira, þá lengist orlofið, en sé brotið úr mánuði minna, þá hefur það ekki áhrif.

Í Danmörku var skipuð af verkamálaráðuneytinu þar nefnd 12. maí 1967. Það var fjölmenn nefnd, skipuð fulltrúum frá öllum meginaðilum vinnumarkaðarins, og hún átti að endurskoða l. um vinnutíma og orlof í Danmörku. Þessi n. hefur fyrir nokkuð löngu lokið störfum og skilað miklu nál., og hef ég haft það í höndum, það er bók upp á 240 bls. í Stjórnartíðindabroti, og er ég fús til þess að láta þn., sem fær málið til meðferðar, þá bók frjálsa til afnota, ef óskað verður. Þar eru margvíslegar rannsóknir framkvæmdar á þessum málum í flestum löndum Evrópu, og niðurstöður birtar þar í glöggu skýrsluformi um það. Í frv. til l., sem flutt er í þessari bók og öll n. stóð að sem lágmarki, er gert ráð fyrir, að orlofsdagar verði tveir fyrir hvern unninn mánuð, 24 dagar á ári, og eftir reglunum, sem þeir fara eftir út frá vinnutímanum, yrði prósentutala orlofsfjár 8.59% í Danmörku. Hér er lagt til, að það verði 8%. M. ö. o., þegar þetta danska frv. er samþ., er orlofsdagafjöldinn sá sami og hér er lagt til í frv., en orlofsfjárgreiðslan sjálf rúmlega ½% hærri, en það er út frá öðrum útreikningsreglum. Fulltrúar Alþýðusambandsins danska voru þó ekki almennilega á það sáttir að lúta þessari reglu, og lögðu til í n., að með frv. yrði fjögurra vikna orlof lögfest í Danmörku. En meiri hl. n. fékkst ekki inn á það, og eftir að borgaralega ríkisstj. í Danmörku tók við og jafnaðarmenn voru þar orðnir í minni hl., þá fluttu þeir frv. um 10% orlofsfé og fjögurra vikna orlof í Danmörku, en hafa ekki enn, svo að ég viti, komið því fram. En ég tel alveg víst, að borgaralega stjórnin standi við það að fylgja fram frv., sem meiri hl. n. stóð að um tveggja daga orlof á mánuði eða 24 daga orlof á ári, og ef það er ekki orðið að l. nú í Danmörku, þá hygg ég, að það geti varla farizt fyrir á því þingi, sem nú starfar.

Af þessu, sem ég nú hef sagt, má vera fullljóst, að ef það samræmi, sem á var fallizt árið 1964 hér á landi um orlofsréttindi, þannig að þau væru að öllu leyti hliðstæð gildandi ákvæðum á Norðurlöndum, þá er það í algeru lágmarki, að þetta frv. verði samþ. Ef menn vildu gera betur og fylgja t. d. fordæmi Norðmannanna, yrði að hækka þetta verulega frá kröfum frv., sem sé í fjórar vikur orlofið og 9½% orlofsfé. Ég geri nú ekki ráð fyrir því, en ég tel, að það sé alveg einsætt, að úr því að menn féllust á þessa viðmiðun 1964, eigi að færa ákvæði orlofslaganna íslenzku til samræmis við það, sem almennt er nú á Norðurlöndum, og þar höfum við þá bæði Danmörku og Svíþjóð til þess að miða við, en værum eftir sem áður lægri en Norðmenn.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn. og 2. umr.