06.04.1970
Neðri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

155. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi með nokkrum orðum lýsa afstöðu minni til þessa frv., sem hér er nú til 1. umr. Í frv. er gert ráð fyrir því, að breytt verði um tilhögun á skipan stjórnar Fiskveiðasjóðs. Þegar ákveðið var hér að taka upp þá skipan um stjórn Fiskveiðasjóðs, sem nú er í gildi, þá lýsti ég yfir andstöðu minni við þetta skipulag og ræddi hér allítarlega á Alþ., að ég teldi, að hér væri verið að fara inn á ranga braut, og lagðist á móti þessari breytingu. Ég benti þá alveg sérstaklega á, að það fyrirkomulag að gefa bönkunum slíkt vald yfir Fiskveiðasjóði, sem þarna var gert ráð fyrir, þ. e. a. s. að stjórn Fiskveiðasjóðs væri skipuð tveimur bankastjórum Útvegsbankans, tveimur bankastjórum frá Landsbankanum og síðan einum bankastjóra frá Seðlabankanum, væri óeðlilegt og óréttlátt á allan hátt. Það hefur lengi verið skoðun mín, að það væri miklu eðlilegra að Fiskveiðasjóður, jafn öflugur stofnlánasjóður og hann er, yrði gerður algerlega sjálfstæður og honum skipuð stjórn á þann hátt, að Alþ. veldi stjórnarnefnd sjóðsins. Hitt kæmi vissulega til greina að gefa þeim stéttarsamtökum, sem þarna eiga mestan hluta að, þ. e. a. s. samtökum útvegsmanna og samtökum sjómanna, einhverja hlutdeild í stjórn sjóðsins, en ég tel, að fyrst og fremst eigi Alþ. að kjósa stjórnarmenn þessa sjóðs. Og það hefur lengi verið skoðun mín, að það eigi að halda stofnlánasjóðunum verulega sérskildum frá rekstrarlánabönkunum. Það er mjög óheppilegt að láta hin almennu rekstrarlánasjónarmið koma þar allt of mikið til greina, enda eru til ýmis dæmi um það, að beinlínis ákveðin rekstrarlánasjónarmið bankanna eða hagsmunir viðskiptabankanna í sambandi við rekstrarlán, séu látin hafa áhrif á það, hverjir fái stofnlán og hverjir ekki. Að þessu leyti til er ég sama sinnis og áður. Ég tel, að það ætti að breyta um fyrirkomulagið á skipan sjóðsstjórnar Fiskveiðasjóðs. Hins vegar er ég ekki ánægður með þá till., sem kemur fram í þessu frv. Ég tel, að skipan stjórnarinnar með þeim hætti, sem lagt er til í frv., sé ekki hagkvæm og sé ekki eðlileg, svo að ég álít, að það þyrfti að taka það til frekari athugunar.

Önnur ákvæði, sem koma hér fram í þessu frv., stefna að mínu viti heldur til bóta. Ég get því tekið undir þá skoðun, sem hér hefur komið fram, að það væri æskilegt að taka löggjöfina um Fiskveiðasjóð til endurskoðunar m. a. með það í huga, að breyta stjórnarfyrirkomulaginu á sjóðnum, en það sé vafasamt, að það takist að ganga frá slíkri endurskoðun nú á þessu þingi.

Svo eru það aðeins örfá orð, sem ég vildi segja hér í sambandi við einn þátt þessara mála, sem talsvert hefur verið ræddur hér í sambandi við þetta frv., en það er sú lánatilhögun hjá Fiskveiðasjóði að hafa veitt á ákveðnu tímabili sumum aðilum stofnlán án gengisákvæða, en hins vegar öðrum aðilum, — að vísu ekki á nákvæmlega sama tíma, en bæði á tímabili þar á undan og eins á tímabili þar á eftir, — sams konar stofnlán með gengisákvæðum, og einnig varðandi framkvæmdina á þessu, hvernig að þessu er staðið. Ég verð að segja það, að mér þykir það alveg furðulegt, að það skuli vera upplýst hér á Alþ., að hinn 18. apríl 1967 skuli bankastjórarnir í Fiskveiðasjóði og það undir forsæti bankastjóra Seðlabankans, hafa fundið upp á því að telja, að gengi íslenzkrar krónu væri orðið svo stöðugt, að það þyrfti a. m. k. ekki í náinni framtíð að reikna með gengisbreytingu, og því væri óhætt að veita orðið lán úr sjóðnum án gengisákvæða. Það er alveg furðulegt, að þetta skuli hafa gerzt hinn 18. apríl 1967, eftir að þessir vísu menn áttu þó að vita það, að hið margumtalaða áfall, sem þjóðarbúið hafði orðið fyrir, gerði verulega vart við sig seinni hluta árs 1966, og ábyggilega á þessu tímabili á árinu 1967, enda var ekki langt í það, að þessir sömu aðilar legðu til, að það þyrfti að gera verulega breytingu á skráningu íslenzkrar krónu. En það var, eins og hér hefur verið bent á, 18. apríl, ekki langt í kosningar, sem þá fóru í hönd á árinu 1967, svo að það er svo sem ekkert óeðlilegt, að menn fari að setja þetta nokkuð í samband hvort við annað. Ég verð að segja það, að miðað við framkvæmdina á lánveitingum frá sjóðnum, þá er það mjög furðulegt, að þetta skyldi ákveðið hinn 18. apríl 1967 að veita lán með þessum hætti og það í rúmlega heilt ár þar frá, og þó þykir mér framkvæmdin vera enn þá einkennilegri, eins og hér hefur verið bent á, en framkvæmdin hefur orðið sú, að það er ekki aðeins, að þeir aðilar, sem fengu lán úr sjóðnum á tímabilinu frá 1961 og þarna fram að árinu 1967, þegar þessi breyting verður, séu látnir greiða gengistöp, sem sjóðurinn hefur orðið fyrir vegna erlendra lána, sem sjóðurinn átti þá, heldur er einnig gert ráð fyrir því, að þessir aðilar haldi áfram að borga gengistöp, sem Fiskveiðasjóður verður fyrir með gengisbreytingunni 1968. Þessi framkvæmd er fráleit í sjálfu sér, því að lágmarkið var vitanlega það, að gengisákvæðin í lánsskjölum þeirra, sem höfðu lán með gengisákvæðum, sem veitt voru á tímabilinu 1961 og fram að 1967, yrðu skilin þannig, að þeir ættu að taka að sér þau gengistöp, sem Fiskveiðasjóður varð fyrir vegna þeirra lána, sem urðu til á þessu tímabili eða voru til fram að þessari breytingu. En síðan yrði þá framkvæmdin þannig, að þau gengistöp, sem yrðu vegna erlendra lána Fiskveiðasjóðs, sem yrðu til eftir þetta tímabil, þegar engin lán voru veitt með gengisákvæðum, yrðu að greiðast af þeim, sem þá tækju lán. Það er því alveg ljóst, að eins og haldið er á framkvæmd mála í þessum efnum, þá er verið að mismuna mönnum þarna alveg herfilega. Það er greinilegt, að þeir, sem fá ógengistryggðu lánin á tímabilinu frá apríl 1967 og fram í maí 1968, búa hér við alveg sérstök kjör. En hinir, sem höfðu tekið þessi gengistryggðu lán þar á undan, búa við langlökust kjör. Ég held nú, að það sé full ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh., sem hefur fylgzt hér með umr. um þetta mál, að kynna sér þetta rækilega og athuga, hvort ekki sé hægt að koma hér við sanngjarnri leiðréttingu, en það er auðvitað ljóst mál, að fyrir tiltekin mistök í þessum efnum verður ekki hægt að bæta, vegna þess að skilyrði í lánsskjölum standa áfram. En það er hægt að hafa framkvæmdina á þessu með nokkuð mismunandi hætti. Ég held því, að það væri mjög æskilegt, að hæstv. ráðh. athugaði nánar framkvæmd þessara mála til þess a. m. k. að gera þetta misrétti eins lítið og hægt er. En frv., sem hér er til umr., gengur að sjálfsögðu til n., og verður þá nánar athugað um það að gera á því nauðsynlegar breyt.