02.04.1970
Neðri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

171. mál, sauðfjárbaðanir

Flm. (Björn Pálsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki þreyta d. með langri ræðu. Ég flutti þetta frv. í fyrra ásamt hv. 3. þm. Austf., og við endurflytjum það nú. Það dróst, að við legðum það fram og svo hefur það legið lengi án þess að komast til n., eftir að við lögðum það fram, en það skiptir sennilega ekki miklu máli. Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði að l. á þessu þingi, úr því sem komið er. Hins vegar væri það æskilegt, ef landbn. vildi senda það til umsagnar. Ég geri ráð fyrir, að það verði sent til umsagnar til yfirdýralæknis og eins til Búnaðarfélagsins. Raunar hef ég talað bæði við yfirdýralækni og eins við Búnaðarfélagið, og þeir eru því báðir meðmæltir.

Frv. þetta veldur ekki miklum breyt. á l. Efnisbreytingar eru ekki aðrar en þær, að það sé leyfilegt að baða í marz og apríl, í stað þess að böðun ætti að vera lokið 1. marz. Og í öðru lagi, að það sé heimilt að baða aðeins þriðja hvert ár, ef yfirdýralæknir álítur það gerlegt eða óhætt. Sú breyting er gerð í samráði við yfirdýralækni. Hann taldi, að það væri ekki ástæða til að baða eins oft og gert væri, ef um engin óþrif í sauðfé væri að ræða.

Ástæðan fyrir því, að við flytjum þetta, er fyrst og fremst sú, að við álítum, að það sé í mörgum tilfellum hagkvæmast að baða í mánuðunum marz og apríl. Fyrri hluta vetrar þá er fé ekki víst hjá bændum. Ég var fyrir norðan fyrir fáum dögum og átti tal við oddvita þar. Þá sagði hann, að það væri mikið af lús í fé í sinni sveit, og það væri einfaldlega af því, að það vantaði fé, þegar baðað væri. Það væri venjulega gert fyrri hluta vetrar, en það vantaði alltaf eitthvað. Eðlilega mega þeir sem vilja, baða að haustinu. Það er ekkert því til fyrirstöðu samkv. þessum 1. En þar sem víðlendi er mikið og heiðalönd, eru bændur ekki búnir að heimta fé sitt, ef tíð er góð, fyrr en kemur fram undir áramót. Annað það, að fyrri hluta vetrar þá eru ær ókyrrar í haga og oft illt að ná þeim saman. Náttúrlega geta verið svo harðir vetur, að almennt sé búið að taka fé á gjöf löngu fyrir jól. Og það má vel vera, að í sumum héruðum sé fé yfirleitt tekið inn fyrr, en það er ekki alls staðar. Og t. d. á Breiðafirði þá er fé haft í eyjum, og yfirdýralæknir sagði mér, að það væri eiginlega ógerlegt fyrir þá að baða fyrir jól vegna þess. Það eru því aðallega 2–3 mánuðir, sem bændur geta baðað, eins og l. eru nú, þannig að þeir séu tryggir að hafa féð allt. Það er janúar og febrúar og í sumum tilfellum desember. Þetta er frekar óhentugur tími til að baða sauðfé á, dagurinn er stuttur, og þetta eru frosthörðustu tímar ársins. Nú er með marga, að þeir hafa fé sitt í mjög einföldum húsum, húsum, sem e. t. v. eru að mestu úr járni eða þá steypt með einföldu járnþaki. Þetta er nokkuð misjafnt, þau eru mishlý húsin, og sannleikurinn er sá, að féð þrífst vel í köldum húsum. Og þessi íburður, sem er í fjárhúsabyggingum nú, er óhagkvæmur fjárhagslega séð. Fjárhúsin eru í mörgum tilfellum byggð allt of dýr. En þegar húsin eru köld og frost mikið, þá er alls ekki hættulaust að baða féð, og það er aðalhættan við böðun, að fénu verði kalt.

Hér er aðeins rýmkuð heimild um tímann. Það hefur ekki aðra breytingu í för með sér. Enn fremur er rétt að láta þess getið og fyrir því hef ég eigin reynslu, að það fæst meiri ull af fénu, ef það er baðað seint. Reynsla mín er sú, að ég fái allt að þriðjungi meiri ull. Það getur verið talsvert fjárhagslegt atriði fyrir bændur yfirleitt, ef það væri almennt gert, og ullin verður því mun meiri, það gæti munað svona 6–9 millj. kr. yfir allt landið. Það verður farið að vinna úr allri ull. Það gengur ágætlega að selja lopa og fleiri ullarvörur, og þá verður þetta margfalt meira að verðmæti, þegar búið er að vinna það, þannig að það er ekki ólíklegt, að ef ullarmagnið yxi þannig, að það yrði að verðmæti 6–9 millj., þá gæti verðmæti ullarinnar, þegar búið er að vinna hana, orðið svona 20–30 millj. meira. Það fer ekki allt í vasa bændanna, en það fer í vasa fólksins, sem vinnur úr ullinni.

Ég vil engan dóm á það leggja, hvort ráðlegt er að baða sjaldnar en gert hefur verið. Það verður að fara eftir því, hvort óþrif koma upp í fénu eða ekki, og dýralæknir á að hafa það í hendi sér samkv. þeim l., sem fyrir eru og verða væntanlega, þá getur hann fyrirskipað tvíböðun, þar sem kláði kemur upp.

Þetta er í aðalatriðum ástæðan fyrir því, að við höfum flutt þetta frv. Það er þannig, að þeir, sem hafa fátt fé, geta baðað, hvenær sem er, en þetta er að breytast þannig, að sumir bændur hafa svo að segja eingöngu nautgripi og aðrir nær eingöngu sauðfé. Það eru ýmsir bændur, sem vilja heldur hafa aðra tegundina. Þá verður féð mun fleira. Ég geri ráð fyrir, að búin stækki, og það má búast við því, að það verði margra daga verk fyrir fjárflestu bændurna að baða. Tíð er umhleypingasöm á Íslandi, þannig að þó að byrjað sé í sæmilegri tíð, þá getur verið komin stórhríð daginn eftir, og aldrei er veðrið ótryggara en einmitt um háveturinn. Ég sé satt að segja ekki, hvaða ástæða er til þess að banna mönnum að baða þá mánuði ársins, sem hagkvæmast er að baða, bæði hvað vinnuafl snertir og eins fyrir skepnurnar og afurðirnar. Það er eins og hver önnur fíflska. Og ef menn vilja endilega baða, þegar frostin eru sem mest og dagurinn sem skemmstur, þá er það sjálfsagt að lofa þeim það, enda er ekkert í þessu frv., sem meinar mönnum það. Ég get ómögulega skilið, að það sé ástæða til þess að banna mönnum að baða þá mánuðina, sem hagkvæmast er að baða allra hluta vegna. Og ég veit ekki betur en búnaðarþing hafi samþykkt það í fyrra að fara fram á það, að böðunartíminn yrði lengdur. Hitt má aftur um deila, hversu mikið á að lengja hann. Ég hef reynslu fyrir því, að það er hættulaust að baða um sumarmálin. Meira að segja hef ég baðað ær einum eða tveimur dögum áður en þær báru, og það gerði þeim ekkert til. Ef vel er með féð farið, þá gerir þetta ekkert til, og tíðin er hlý. Hins vegar er alls ekki hættulaust að baða, þegar frost eru mikil. Mannfátt er víða á heimilunum, og menn geta ekki komið því við að framkvæma verkið í skammdeginu, það eru erfiðleikar með vatn og ýmis önnur vandkvæði.

Ég hef flutt þetta með hv. 3. þm. Austf., og hann er vanur fjárbóndi og mjög athugull um allt, sem varðar skepnuhirðingu og meðferð þeirra, þannig að ég hygg, að þegar við erum sammála um, að þetta sé hagkvæmt og yfirleitt jákvætt, þá séu afar litlar líkur til þess, að það sé vitleysa.