02.04.1970
Neðri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (2703)

171. mál, sauðfjárbaðanir

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., er að sjálfsögðu ekkert stórmál, og ekki er ástæða til að hafa um það mjög mörg orð. Ég vil þó hér taka undir það, sem fram kom hjá einum hv. ræðumanni, að æskilegt væri að afgreiða þetta frv. á þessu þingi. Eins tek ég undir það með hv. flm., að ekki sé rétt að hafa heimild í l. til þess að baða í okt. vegna þess, að bæði er, eins og hann gat um, sláturtíð þá naumast lokið og fjárheimtur þá ekki orðnar með þeim hætti, að líklegt sé, að fullnægjandi böðun náist.

Um hitt meginefni frv. að heimila það, að böðun fari fram allt til loka aprílmánaðar, þá er ég flm. mjög ósammála og get tekið undir margt af því, sem hér hefur verið sagt til andmæla. En ég hygg þó, að stærsta hættan, sem í þessari heimild kunni að felast, sé sú, að það séu trassarnir meðal bænda, — það hefur verið nokkuð rætt um trassaskap hér í ræðum manna, — sem falli í þá gryfju að nota sér þessa heimild að framkvæma ekki böðun á þeim tíma, sem það er æskilegt og hagkvæmast, og láta það dragast allt til loka þess tímabils, sem heimild þessi nær yfir. Ef svo fer og þá kemur upp, að e. t. v. eru óþrif í fénu, sem kæmi í ljós við þá skoðun, sem samfara er böðun, og væri komið allt til loka aprílmánaðar, kynni svo að fara, að naumast væri hægt að koma við tvíböðun á fénu fyrir þær sakir, að það rækist á við sauðburð. Því það vita allir, sem við sauðfjárbúskap hafa fengizt, að tæpast er hægt að baða sauðfé á sauðburði, vegna þess að hætt er við, að erfiðlega gangi að láta ærnar taka lömbin, eftir að öll lömb eru orðin löðrandi í baðlegi.

Ég ætla nú ekki að víkja hér mikið að ræðu 1. flm. frv. Hann hefur vitaskuld sagt hér margt skemmtilegt, m. a. það, að hann hafi helzt aldrei baðað fyrr en í kringum sumarmál, og það lýsir þá m. a. því, að hann hafi æ ofan í æ gerzt brotlegur við lög, sem um þetta fjalla, og hann sagði jafnframt, að engum manni mundi vitaskuld detta í hug að innheimta sektir þess vegna hjá sér.

Um áhrif baðs á gæði og magn ullarinnar finnst mér nú þær tölur, sem hv. flm. hefur nefnt, næsta fullyrðingakenndar og mótsagnakenndar, þar sem annars vegar er í frv. lagt til, að heimilað sé að baða aðeins þriðja hvert ár, því að baðlyf ár hvert muni í landinu kosta 2–3 millj., en svo segir hann í hinu orðinu, að ef baðað sé seint eða nálægt sumarmálum, þá muni það auka verðgildi ullarinnar um 20–30 millj. Þetta eru mótsagnakenndar og að mér sýnist, fjarstæðukenndar fullyrðingar. Mér er það kunnugt af minni reynslu, að ef um sauðfjárbúskap er að ræða, þar sem fé er sæmilega fóðrað, þá týnir það yfirleitt ekki ull. Og ég hygg, að enda þótt hv. flm. hafi lagt inn mikið magn ullar hjá Álafossi s. l. haust, þá munu þeir bændur finnast, þó að ekkert hafi baðað það ár, sem gætu lagt inn jafnmikið magn ullar miðað við fjárfjölda og hann hefur gert að þessu sinni.

Um það atriði, að ullin þófni ekki við bað, þá kann svo að vera, ef ullin er gisin og lítil, eins og stundum vill vera, þar sem fé er beitt mikið. En ef um innistöðufé er að ræða, fé, sem vel er alið og mikið ullað, sem fengi á sig bað undir lok aprílmánaðar, þá yrði sú ull tvímælalaust mjög flókin og afleit vinnsluvara.

Ég hef reynslu fyrir því að baða um þetta leyti. Það var fjárskiptaárið hjá okkur í Húnavatnssýslum. Þá voru tvíböðuð öll lömb um haustið, eftir að fénu hafði verið skipt, og fannst þá kláði í nokkrum hluta þeirra. Síðar, þegar nálgaðist sumarmál, fannst kláði í einum hrút hjá mér, svo að ekki hafði dugað hið fyrra kláðabað, og ég neyddist því til að baða um þetta leyti. Ég fullyrði, að það bað varð mér mjög óhagkvæmt í afurðum fjárins, þótt ekki stafaði af því mikið lambalát. Öllum, sem til þekkja, er vitanlegt, að hætt er við, að ekki einasta hnjaskið á fénu, heldur einnig áhrif baðsins á féð hafi mjög verulegar verkanir á þrif og afurðahæfni þess, þegar svo langt er liðið á meðgöngutíma ánna. “

Ég ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég aðeins endurtek það, að ég tel æskilegt, að frv. sé skoðað og það fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég reikna ekki með því, eins og hv. flm. sagði hér áðan, að hv. þdm. allir séu komnir á þá skoðun, að þetta sé skynsamlegt frv., en e. t. v. eru þó punktar í því, sem laga má að gildandi l., og afgreiða ætti frv. þannig á þessu þingi.