02.04.1970
Neðri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (2726)

185. mál, almannatryggingar

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er örstutt, það er um það eitt að fella orðin „umfram 7 daga“ niður úr f-lið 49. gr. l. um almannatryggingar, og hljóði þá þessi stafl. gr. þannig: „Dvöl vegna fæðingar í sjúkrahúsi eða fæðingarstofnun.“ En orðin „umfram 7 daga“, sem nú eru í þessari gr., falli niður.

Þetta er þó meiri breyting á almannatryggingalöggjöfinni en ætla mætti út frá orðanna hljóðan, því að þetta mundi þýða það, að dvöl fæðandi konu á sjúkrahúsi eða fæðingarstofnun yrði greidd af tryggingunum þá 7 daga, sem nú eru undanþegnir greiðsluskyldu trygginganna, en venjulega tekur fæðing, ef hana ber að með eðlilegum hætti, ekki nema 7 daga, og er með þessu furðulega orðalagi komizt hjá því af tryggingunum að taka þátt í sængurlegukostnaði á sjúkrahúsi.

Í 49. gr. 1. um almannatryggingar er margsinnis tekið fram, að sjúkrasamlög, héraðasamlög og sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunarinnar tryggi ókeypis sjúkrahúsvist að læknisráði. Í upphafi 49. gr. segir svo, orðrétt: „Sjúkrasamlög kaupstaðanna og héraðasamlögin tryggja ókeypis vist í sjúkrahúsi að ráði samlagslæknis, sem samið hefur verið við.“ Ég hygg, að enginn geti af orðalagi þessarar málsgr. dregið aðra ályktun en þá, að öll sjúkrahúsvist sé greidd af tryggingunum. Ef einhver skyldi vera í vafa um það, þá er þó hert betur á í 2. málsgr. sömu gr., því að þar segir: „Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunarinnar tryggir samlagsmönnum sjúkrasamlaga nauðsynlega sjúkrahúsvist.“ Og enn er vikið að þessu sama síðar í 49. gr., því að þar er því hátíðlega lýst yfir, að sjúkratryggingadeild tryggi ókeypis alla nauðsynlega sjúkrahúsvist ásamt með hjúkrun, læknishjálp, lyfjum vegna ellikramar og langvinnra sjúkdóma, en eftir þessa ítarlegu réttindaupptalningu kemur þó, að fávitar séu undanskildir, og skyldi maður þá ætla, að þá væru undantekningarnar þar með upptaldar, en það er ekki. Með þessu haglega orðalagi, „umfram 7 daga“, eru einmitt allar sængurkonur, sem dveljast í 7 daga á sjúkrahúsi undanskildar því, að tryggingarnar greiði fyrir þær, og þær verða að bera kostnaðinn sjálfar, þ. e. a. s. í langflestum tilfellum. Þessu er svona fyrir komið í tryggingalöggjöfinni, að það er inngangur að gr., að í samþykktum sjúkrasamlaga skuli tekið fram, hverra réttinda samlagsmenn njóti. Og svo kemur auk þeirra réttinda, sem um ræðir í 1. málsgr. þessarar gr.: „Skal sjúkrasamlag þó ætíð veita þá hjálp, sem hér er talin“ — ætíð. Og svo eru þessi viðbótarréttindi talin upp í stafl. frá a til h, en í f-liðnum segir: „Dvöl umfram 7 daga vegna fæðingar á sjúkrahúsi eða fæðingarstofnun skal greidd,“ en af þessari greiðslu verður ekki, nema orðin „umfram 7 daga“ verði felld niður, og það er efni þessa frv. Þá yrði fæðing á sjúkrahúsi að læknisráði greidd af tryggingunum, en fyrr ekki.

Ég fæ ekki annað séð en upphafið geri ráð fyrir auknum réttindum samkv. þeim stafl., sem koma í gr. En þessi gr. er þó um sviptingu réttinda, hún er um sviptingu réttinda. Hún er um það að undanþiggja fyrstu 7 daga sjúkrahúsdvalar fæðandi konu og leggur þannig greiðsluna yfir á sængurkonuna, sem á sjúkrahúsinu liggur. Mér finnst það vera stórlýti á tryggingalöggjöfinni, að sjúkrahúsvist vegna fæðingar nýs samfélagsborgara skuli heyra til hinna fágætu undantekninga frá því, að sjúkrahúsvist sé greidd af tryggingunum, og óviðunandi missmíði. Þess vegna legg ég til, að orðin „umfram 7 daga“ í f-lið 49. gr. almannatryggingal. séu felld niður, og þannig verði greiðsluskyldan við fæðingu þjóðfélagsþegns færð yfir á tryggingarnar. Þetta virðist, eins og ég sagði áðan, vera smávægileg orðabreyting, en þetta er, og það vil ég að hv. þm. geri sér ljóst, veruleg efnisbreyting á tryggingalöggjöfinni og mundi snerta marga í landinu og verða til mikilla bóta og aukins réttlætis.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.