13.04.1970
Neðri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (2762)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjhn. gat hér um réttilega, flytur n. þetta frv. eftir minni ósk, og vil ég í fyrsta lagi þakka það, að n. skuli hafa fallizt á að flytja frv. með þessum hætti, og í öðru lagi vil ég gera nokkra grein fyrir því, áður en ég vík að efnisatriðum málsins, hvernig þetta mál er til komið og hvernig stendur á, að hv. fjhn. hefur verið beðin að flytja málið, en það ekki lagt fram sem stjfrv.

Svo sem segir í grg. frv., sem því fylgdi frá rn., var snemma á árinu 1969 skipuð nefnd embættismanna til þess að gera till. um skattalega aðstöðu fyrirtækja hér á landi fyrst og fremst með tilliti til hugsanlegrar aðildar að EFTA og einnig með önnur sjónarmið í huga, sem ég mun nánar víkja að á eftir. Hér var, eins og ég gat um, um embættismannanefnd að ræða eingöngu, en í n. áttu sæti þeir Árni Vilhjálmsson prófessor, dr. Gísli Blöndal hagsýslustjóri, dr. Jóhannes Nordal bankastjóri, Sigurbjörn Þorbjörnsson ríkisskattstjóri og Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóri í fjmrn. sem var formaður n. Ástæðan til þess, að hér var skipuð embættismannanefnd til að fjalla um þetta mál og gera um það till., er fyrst og fremst sú, að hér er um mjög hátæknileg vandamál að ræða, sem ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sé ljóst, þegar þeir athuga það frv., sem hér liggur fyrir, sem er mjög flókið í útfærslu. Hins vegar var það að sjálfsögðu pólitísk ákvörðun, eftir hvaða meginstefnumiðum skyldi unnið, en engir sérstakir fulltrúar frá stjórnmálaflokkum og þá heldur ekki frá stjórnarflokkunum voru settir í þessa n. Það var því ekki nema eðlilegt, að eftir að n. hafði skilað þessu frv., — en að vísu er ekki heldur nema hluti af verkefni hennar leyst með því, — þá vildu menn fá nokkurt svigrúm til þess í stjórnarflokkunum og raunar fyrst og fremst í ríkisstj. sjálfri til að átta sig á málinu og gera sér grein fyrir því, hvort það væri í öllum efnum hentugasta úrlausnin á þeim vanda, sem n. hafði verið ætlað að leysa, en að sjálfsögðu var það í upphafi ákvörðun ríkisstj., að hverju skyldi stefnt með frv. Menn töldu sem sagt ekki nægilegt svigrúm til að kanna það til hlítar, hvort n. hefði útfært þetta verkefni með þeim hætti, að ríkisstj. væri í fyrsta lagi sammála um það, að frv. skyldi lögfest með þessum hætti, og í annan stað, sem að sjálfsögðu var ekki minna atriði, að stjórnarflokkarnir hefðu kannað málið svo rækilega, að þeir hefðu gert það upp við sig, að þeir vildu standa að samþykkt frv., sem var efnislega útfært á þennan hátt. Því var að vonum ekki grundvöllur til þess að leggja frv. fram á þessu stigi sem stjfrv. Nú munu menn væntanlega þá spyrja: „Af hverju var frv. lagt fram engu að síður?“ Og ég get hér lýst yfir því, að það var mín skoðun, fyrst og fremst, að það væri brýn nauðsyn, og var það í samráði við nm., til að fá viðbrögð við frv. fyrst og fremst á Alþ. og einnig frá ýmsum öðrum aðilum í þjóðfélaginu, og mér fannst það eðlilegra mál, að frv. væri lagt fyrir Alþ. og umr. hæfust um það, eftir að það hefði gerzt, en að væri farið að senda frv. út hinum og öðrum aðilum, áður en Alþ. hefði fengið að sjá það. Þetta er því ástæðan til þess, að frv. var flutt með þessum hætti. Það er ekki flutt sem stjfrv. og ekki yfirlýsing um það, að ríkisstj. standi að því endanlega nákvæmlega á þann hátt eins og það liggur fyrir.

En ég tel rétt, að það komi fram hér, að ég álít, eftir að hafa kynnt mér þetta mál að sjálfsögðu nokkuð ítarlega, að í meginefnum sé náð þeim tilgangi, sem til var stofnað í upphafi með skipun n., og því ber að líta á þetta frv. í meginefnum sem skoðun mína á því um leið, hvernig eigi að leysa þetta vandamál. Það merkir ekki það, að ég telji ekki fært að fallast á einhverjar breyt. á frv., en ég legg á það áherzlu, sem ég gerði í upphafi, að hér er um mjög flókið mál að ræða og einnig flókið að því leyti til, að hvert atriði málsins er í rauninni öðru tengt, þannig að eins og menn munu vafalaust komast að raun um við nánari athugun, þá leiðir breyting á einu atriði af sér, að það getur verið óumflýjanlegt að breyta þá jafnvel þeim megingrundvelli, sem frv. hvílir á, þó að alltaf sé hægt að hugsa sér minni háttar breytingar.

Þetta er í stuttu máli sagt orsök þess, að frv. ber nú að með þessum hætti, en er ekki lagt fram sem stjórnarfrv. En ég tek það einnig fram, að það liggur heldur ekkert fyrir um það, að um frv. sé ágreiningur í ríkisstj., heldur eingöngu, eins og ég sagði áðan, að tóm hefur ekki unnizt til þess, að menn gætu kynnt sér frv. ítarlega og gert upp hug sinn um það, hvort það nákvæmlega túlkaði stefnu, sem menn teldu rétt að fylgja í þessum efnum eða ekki.

Ég skal þá víkja að því meginstefnumarki, sem sett var þeirri n., sem vann að frv., en það er að sjálfsögðu pólitísk ákvörðun, sem þar kemur til, og hið pólitíska mat á því, að hverju eigi að stefna með þessum skattalagabreytingum. Það er komizt svo að orði í því erindisbréfi, sem ég setti n. á sínum tíma, að n. bæri að kanna og gera till. um skattalega aðstöðu fyrirtækja hér á landi með tilliti til hugsanlegrar aðildar að EFTA. Sérstaklega er n. falið að kanna leiðir til að örva myndun eigin fjármagns í fyrirtækjum, auðvelda samruna þeirra og jafnvel tryggja, að fjármagn leiti ekki út úr fyrirtækjunum í öðru formi en hæfilegum arðgreiðslum. Þetta er viðfangsefnið, sem n. var fólgið.

Það þótti nauðsynlegt að hafa hér þá samsetningu n., sem ég gerði grein fyrir áðan, og m. a. að tengja Seðlabankann við athugun málsins, vegna þess að hér er um mjög víðtækt efnahagslegt og fjárhagslegt markmið að ræða og sömuleiðis vegna þess að af hálfu Seðlabankans hafði farið fram sérstök athugun á því og m. a. einn nm. unnið að þeirri athugun, hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til að auðvelda samruna fyrirtækja og hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til þess að koma á eðlilegri verðbréfasölu í landinu og stofnun kaupþings. En allt er þetta veigamikill þáttur í þessum málum. Þegar n. var skipuð, var það ekki endanlega ljóst, hvort Íslendingar yrðu aðilar að EFTA, en það þótti hins vegar sýnilegt, að allt stefndi í þá átt fyrr eða síðar, og þess vegna þótti rétt að hefjast þá þegar handa um það, sem auðvitað er grundvallaratriði fyrir atvinnureksturinn, að hann hafi einnig skattalega séð jafnréttisaðstöðu á við fyrirtæki í EFTA-löndum. Þetta, hygg ég, að muni ekki verða ágreiningur um, enda hefur það komið fram og kom fram í sambandi við umr. um aðild að EFTA, að hér væru skattabyrði félaga með þeim hætti og fyrirtækja, að þegar af þeirri ástæðu er ekki búið að tryggja þeim nægilegan starfsgrundvöll og samkeppnisaðstöðu gagnvart fyrirtækjum EFTA-landa. Það var því grundvallaratriði í málinu, að það yrði skoðað út frá þessum sjónarhóli og breytingar gerðar, ef ástæða þætti til að jafna hér metin, og atvinnurekendum og þá ekki hvað sízt iðnrekendum var gefin yfirlýsing um það af hálfu ríkisstj., að þessi endurskoðun skattalaga og breytingar, sem af því leiddi, skyldu fara fram og verða lögfestar.

Það er öllum kunnara en frá þurfi að segja, að það hefur verið mikið vandamál hér í atvinnurekstri, hve lítið eigið fjármagn hefur verið í fyrirtækjum. Það á sér að sjálfsögðu margar orsakir, en oft verið haldið fram, að það væru fyrst og fremst skattalegar forsendur, sem hér væru til hindrunar. Nú er það að vísu ekki svo, að skattarnir séu eins afgerandi í því efni og menn oft hafa haldið, en þeir eiga þó sinn veigamikla þátt í að hindra þessa eigin fjármyndun, og það er að sjálfsögðu hin brýnasta nauðsyn, sem ég hygg naumast, að menn greini á um, að fundin verði leið til þess að leiða eigið fjármagn í ríkari mæli inn í fyrirtækin.

Þá er einnig eitt vandkvæði, sem snertir í rauninni EFTA-aðild, og er einn þáttur í viðfangsefni n., þ. e. að auðvelda samruna fyrirtækja, en það hefur a. m. k. verið talið svo, að skattalögin íslenzku hindruðu það mjög, að hin smærri fyrirtæki gætu sameinazt að einhverju eða öllu leyti, en gera má ráð fyrir því og raunar ljóst,

að til þess að samkeppnisaðstaða fyrirtækja hér á landi batni, þá verður nauðsynlegt að stefna að meiri samvinnu og samruna fyrirtækja en verið hefur.

Loks leiðir það af eðli málsins, að ef á að veita fyrirtækjum stórbætta aðstöðu til eigin fjármyndunar og til uppbyggingar og veita þeim skattfríðindi, þá að sjálfsögðu verður um leið að gera ráðstafanir til þess að tryggja það, að fjármagn leiti ekki út úr fyrirtækjunum í öðru formi en í hæfilegum arðgreiðslum. Þessa hlýtur þjóðfélagið að gera kröfu til, því að vitanlega er hin bætta aðstaða fyrirtækjanna ekki hugsuð til þess, að einn né neinn geti óeðlilega hagnazt af því, sem stendur að atvinnurekstrinum, heldur er þetta gert með hagsmuni þjóðfélagsins sjálfs fyrir augum til þess að efla atvinnureksturinn og þar með bæta lífskjör alls almennings í landinu.

Í sambandi við þetta viðfangsefni er svo framhaldið eðlilega það, að það verði lagður grundvöllur að því, að hér verði hægt að koma upp eðlilegri verðbréfasölu, verðbréfamarkaði og kaupþingi, þar sem verzlað sé með hlutabréf og verðbréf, svo sem gerist í þeim löndum, þar sem atvinnulífið er orðið þróað, þannig að fólk finni hvöt hjá sér til þess að leggja fjármagn sitt í vaxandi mæli í uppbyggingu atvinnurekstrar í landinu i formi eigin fjármagns.

Þær till., sem nú liggja fyrir í þessu frv., fjalla um meginefni þessa viðfangsefnis, sem hér er um að ræða, og mun ég gera nánari grein fyrir þeim síðar, en legg á það áherzlu strax í byrjun, að með till. er út af fyrir sig ekki haggað þeim reglum, sem nú gilda um skattálagningu, þ. e. a. s. hvað varðar skattstiga. Þeim er ekki breytt né heldur er breytt hlutföllum milli einstöku félagsforma, ef svo má segja. Á ég þar við samvinnufélög og önnur hlutafélög og einkaaðila. Það eru ekki gerðar breytingar í því efni að öðru leyti en því, að eitt félagsform er fellt niður, en það eru sameignarfélög, sem gert er ráð fyrir, að ekki verði viðurkennd sem skattaðilar, og mun ég koma nánar að því, af hvaða ástæðu það er.

Svo sem ég gat um, að hefði verið í erindisbréfi n., átti hún fyrst og fremst að hafa það sem meginsjónarmið, að till. beindust í þá átt, að skattlagning félaga og fyrirtækja yrði sambærileg við það, sem er í EFTA-löndum. N. aflaði sér margvíslegra upplýsinga um þessi mál, þ. e. a. s. skattareglur, sem gilda í hinum ýmsu EFTA-löndum og þá fyrst og fremst Norðurlöndunum, en það kom í ljós, að þar var nokkuð erfitt um vik að átta sig til hlítar á þessum málum og gera nákvæman samanburð, vegna þess að skattkerfi í EFTA-löndunum sjálfum er töluvert ólíkt, og ýmsar sérreglur valda því, að það er mjög erfitt að gera nákvæman samanburð, enda koma þar til greina ýmis önnur atriði, sem liggja utan skattalaganna, sem hafa áhrif á hin opinberu gjöld fyrirtækjanna. Hins vegar er rétt að leggja áherzlu á það, að svo miklu leyti sem hægt var að komast að niðurstöðu um þetta efni, þá hefur n. miðað till. sínar við það, að skattabyrði fyrirtækja hér, yrði að lögfestum þessum reglum og að vísu framhaldsbreytingum, sem þarf að gera á skattalögunum, sambærileg við það, sem er í öðrum EFTA-löndum, en það er þó rétt að taka það fram, að eitt frávik er þar enn um að ræða, sem skapar sérstöðu hér á landi, og það er álagning aðstöðugjalda, sem er mjög sérstætt gjaldform, eins og menn þekkja, og getur valdið því varðandi fyrirtæki, sem hefur litla arðgjöf, að skattbyrði þeirra verður óhæfilega mikil, og verður því að taka þetta mál til sérstakrar meðferðar. Þá kemur það einnig til, að það er nokkuð erfitt um vik að gera samanburð, vegna þess að aðstaða fyrirtækja í löndum, þar sem virðisaukaskattur gildir, er með nokkuð öðrum hætti en í löndum, sem ekki hafa það skattform eða þar sem venjulegt söluskattsform gildir. Aðstaða fyrirtækja og greiðsla þeirra á þessum skatti er með nokkuð öðrum hætti en gildir um söluskattinn. Þá er einnig erfiðleiki að gera hér samanburð, vegna þess að mismunandi útsvarsstigar eru í gildi hér á landi, og frádrættir og álagning á þessa stiga gerir það einnig að verkum, að það er mjög erfitt að sjá alltaf fyrir um það, hvernig skattaðstaða félaga hér er.

Till. miða í meginefnum að því, eins og ég áðan sagði, að í fyrsta lagi almennt séð verði skattaleg aðstaða félaga hér og fyrirtækja svipuð og í EFTA-löndum, að með till. sé hvatt að hagkvæmri stærð fyrirtækja, að fyrirtæki verði hvött til þess að auka eigið fjármagn og að síðustu, sem ég áðan gat um, að fjármagn haldist innan fyrirtækja, nema að því leyti, sem tekur til hæfilega útborgaðs arðs.

Ég gat um það áðan, að það mætti hugsa sér ýmiss konar mismunandi útfærslu á einstökum atriðum í sambandi við það viðfangsefni, sem n. fékk, og kemur það m. a. fram í því, að einn nm., ríkisskattstjóri, hefur um ýmis atriði till. skilað séráliti, sem ekki er að vísu prentað hér með, en ég tel sjálfsagt, að hv. fjhn. fái það til athugunar. Það er ekki um grundvallaratriði að ræða eða neina breytingu frá þeim meginsjónarmiðum, sem n. var falið að starfa eftir, heldur útfærsla á einstökum atriðum.

Ég mun þá víkja að frv. sjálfu og gera grein fyrir meginefni þess, en ekki fara samt út í að reyna að skýra öll þau einstöku atriði, sem er að finna í hinum ýmsu gr. frv., heldur reyna að gefa yfirlit yfir það, hvað í frv. felst efnislega og hvernig leitazt er við að útfæra þær till.

Í frv. er fólgin mikil breyting á heimildum til fyrninga á fjármunum í atvinnurekstri frá því, sem nú gildir. Mikið hefur verið um það rætt hér á landi undanfarið, að verðþróun, eins og hún hefur verið, geri með öllu óhjákvæmilegt að leyfa atvinnurekstri að fyrna eignir sínar á endurkaupsverði hverju sinni, en ekki á upphaflegu kostnaðarverði, eigi fyrningin að ná tilgangi sínum. Það er ljóst, að tilætlun fyrningar er sú, að í lok fyrningartíma hafi atvinnurekandi lagt til hliðar af rekstrartekjum á notkunartíma hinnar fyrndu eignar, sem svarar því, sem kostar að endurnýja hana. Með fyrningu á upphaflegu kostnaðarverði miðað við þá verðþróun, sem hér hefur verið ríkjandi, fer því víðs fjarri, að þessu marki sé náð, og því er upp komin hugmyndin um fyrningu á endurkaupsverði. Með frv. hefur verið tekin sú afstaða, að ekki hefur þótt fært að taka upp fyrningu á endurkaupsverði, sem almenna reglu. Ræður þar mestu, að mótun á framkvæmd nothæfra reglna um slíka fyrningu sýnist vera óvenju flókið verk. Fyrning á endurkaupsverði er ekki þekkt í öðrum löndum, en í frv. er reynt að koma til móts við þann vanda, sem er undirrót umr. um fyrningu á endurkaupsverði með tvennu móti. Annars vegar er notuð sú aðferð, sem tíðkast í öðrum löndum, að gefinn er kostur á tiltölulega mjög örri fyrningu fjármuna í atvinnurekstri og miklum mun örari en svarar til slits eða verðrýrnunar. Með því að festa með einhverjum hætti það fé, sem þannig losnar, á verðtryggðan hátt, geta fyrirtæki þannig sneitt hjá því, að fyrningar raunverulega rýrni í verði. Á hinn bóginn er svo gert ráð fyrir endurmati eigna, sem fyrirtæki nú eru að fyrna, til að vega upp á móti verðþróun síðustu ára. Þess er vert að geta til upplýsingar, að fyrning á endurkaupsverði á sér nú þegar stað að því marki, sem erlendar skuldir við gengisfellingu valda því, að raunverulegt kostnaðarverð eigna hækkar. Eins og getið var, eru fyrningar þannig hugsaðar, að árlega sé lagt til hliðar í atvinnurekstrinum fjárhæð, sem svarar til slits eða verðrýrnunar, sem orðið hefur á hinni fyrnanlegu eign, t. d. vél eða skipi. Þess var sömuleiðis getið, að víðast hvar í löndum hefur verið hneigð til að leyfa mun örari fyrningu fjármuna í atvinnurekstri en svarar til slits. Þannig hefur skattskyldur hagnaður á fyrningartímanum verið lægri en ella, og fjármagn, sem fyrirtækið þannig hélt eftir í rekstrinum af rekstrartekjum, þeim mun meira.

Fyrningar samkv. gildandi reglum hér á landi eru mjög rúmar í ýmsum greinum atvinnurekstrar, en misjafnar milli greina. Hins vegar eru þær bundnar, þannig að atvinnurekanda er veitt lítið svigrúm um fyrirkomulag fyrninga. Sem dæmi um þetta má nefna, að skip má fyrna með 20% af kostnaðarverði á ári fyrstu þrjú árin og síðan nokkru minna. Iðnaðarvélar má fyrna, sem svarar 16.2% á ári, hvort tveggja niður í 10% af kostnaðarverði. Aðrar fyrningar eru mun minni, og minnstar eru heimilar fyrningar á skrifstofu- og verzlunarhúsnæði, enda miðast fyrningin við gamalt fasteignamatsverð.

Stefnubreytingin, sem frv. gerir ráð fyrir að þessu leyti, er mjög mikil. Gert er ráð fyrir, að allur atvinnurekstur verði jafnt settur gagnvart fyrningarreglum og jafnframt gert ráð fyrir mjög verulegu valfrelsi atvinnurekenda um, hvernig og hversu ört hann fyrnir fjármuni í rekstri sínum. Með þessu móti er fyrirtækjum gefinn kostur á að fyrna eignir sínar ört, þegar og ef það hefur góðan hagnað og notar féð, sem þannig bindist í fyrirtækinu, til að treysta fjárhag sinn eða til að festa fé í frekari aukningu umsvifa fyrirtækisins. Þannig getur fyrningarkerfið, sem lagt er til að taka upp, leitt til lítillar eða engrar skattlagningar fyrirtækja, sem eru að komast á legg eða hafa ráðizt nýverið í meiri háttar fjárfestingu. Vert er að minnast þess, að fyrning er í rauninni aðeins frestun á skattgreiðslum. Að því kemur, að eign er fullfyrnd, en heldur þó áfram að skila tekjum, sem þá verða skattlagðar með fullum þunga, nema því aðeins að þá ráðizt fyrirtækið í frekari fjárfestingar og stækkanir. Kerfið ýtir þannig undir sífellda aukningu í umsvifum atvinnurekstrar fyrirtækja.

Sveigjanleiki í fyrningum, sem lagt er til að veita með frv., er tvenns konar. Annars vegar er fyrirtæki gefinn kostur á að velja sér árlega fyrningarprósentu fyrir hverja fyrnanlega eign innan tiltekinna marka. Hins vegar er fyrirtæki gefinn kostur á að flýta fyrningu síðustu 30% af fyrningarverði og nota þann hluta fyrningarinnar, hvenær sem er á notkunartíma eignarinnar, eftir því sem fyrirtækinu hentar. Með frv. er ráðgerð sérstök heimild til þess að fyrna í 30%, jafnvel á byggingartíma, þ. e. áður en hin fyrnanlega eigu er tekin í notkun, þegar sérstaklega stendur á.

Eins og rakið var hér að framan, er þetta fyrirkomulag um afskriftir æskilegt vegna þess, hversu það hvetur til og örvar arðbæran atvinnurekstur. Á hinn bóginn er þess að gæta, að örar afskriftir opna að öðru óbreyttu möguleika til að koma tekjum undan skattlagningu með óeðlilegum hætti. Markmið sveigjanlegra fyrningarheimilda er að gefa atvinnurekstrinum kost á að fresta skattlagningu, en þá því aðeins,að féð sé áfram bundið í atvinnurekstrinum og geri fyrirtæki þannig fjárhagslega öflugra. Með rúmum fyrningarreglum er mögulegt að fyrna eignir mjög ört og selja þær síðan og þannig sleppa með tekjur undan skatti í formi söluhagnaðar af eigninni.Vegna þessa er nauðsynlegt jafnhliða ákvörðunum um rúma fyrningu að setja nýjar reglur um söluhagnað. Raunar eru gildandi lög gölluð að þessu leyti, því að þau heimila ríflegar fyrningar fyrir ýmsar eignir, en gera söluhagnað síðan skattfrjálsan af lausafé eftir þriggja ára eignarhald, en fasteignum eftir fimm ára eignarhald. Hefur þessi galli á gildandi löggjöf opnað mönnum leið til að koma nokkrum fjármunum undan skattlagningu.

Með frv. er lagt til, að söluhagnaður skattleggist með öðrum tekjum skattþegns með þrennum hætti. Söluhagnaður, sem svarar til fyrninga, en er umfram lágmarksfyrningu, er ætlazt til, að teljist tekjur að fullu, en frekari söluhagnaður teljist tekjur að fullu, að helmingi eða 1/4, eftir því hvað seljandi hefur lengi átt eignina. Sé reynt að segja í einföldu formi, hver eru aðaleinkenni þeirra reglna, sem lagt er til með frv., að upp verði teknar, má segja, að hinar nýju reglur mundu gefa atvinnurekstrinum kost á lágum eða engum sköttum, meðan hann er að ná aftur inn af rekstrartekjum því fé, sem fest hefur verið í atvinnutækjum fyrirtækis. Ætli atvinnurekandi hins vegar að selja tækið og draga það fé, sem í tækinu er bundið, út úr atvinnurekstrinum, þá kemur til verulegrar skattlagningar.

Eins og getið var, heimila gildandi reglur einungis fyrningu niður í 10% af upphaflegu kostnaðarverði. Þær reglur um meðferð söluhagnaðar, sem hér var lýst, gera mögulegt að leyfa fyrningu samkv. frv. á öllu fyrningarverðinu.

Annað lykilatriði í þessu frv. er hlutabréfaeign og arður af hlutabréfum og skattlagning þessa. Markmið þeirrar stefnu, sem lýst var hér að framan um fyrningarheimildir og skattlagningu söluhagnaðar, er að byggja fyrirtækin fjárhagslega upp með eigin fjármagni innan frá og halda því fjármagni í virkum atvinnurekstri innan fyrirtækjanna. Stefnan, sem fólgin er í till. frv. um skattlagningu hlutabréfaeigna og arðs af hlutabréfum, miðar hins vegar að því að skapa aðstæður til þess að efla fyrirtækin fjárhagslega með fjárframlögum utan frá í formi aukinna hlutafjárframlaga. Það er markmiðið, sem þessi stefna beinist að, að gera hlutabréfaeign áhugaverðari aðferð til að ráðstafa fjármunum en verið hefur.

Eins og kunnugt er, hefur löggjöf á undanförnum árum gert það að verkum, að það hefur verið slæm ráðstöfun fjár að veita því sem hlutafé inn í fyrirtæki. Má taka um þetta dæmi mann, sem er eignarskatts- og eignarútsvarsskyldur á nettóeign. Eigi hann 100 þús. kr. hlutafjáreign í fyrirtæki og fái af því 10% arð, fara 1.2% af þeim arði í eignarútsvar og eignarskatt og nettó um eða yfir 50% í tekjuskatt og tekjuútsvar, þannig að af 10 þús. kr. arði heldur hluthafi nettó sem næst 3600 kr. Sé þetta atriði skoðað með öðrum hætti, á borgari, sem ráðstafar lausafé sínu, kost á tekju- og eignarskattsfrjálsu sparifé og spariskírteinum sem og mjög hagstæðri skattlegri meðferð fasteigna, en á hinn bóginn kemur sú eignarskatts- og eignarútsvarsbyrði á hlutabréfum, sem getið var, og tekju- og útsvarsbyrði, ef bréfin skila arði. Og svo er þar að auki ríkjandi skortur á vernd hluthafa minni hlutans í hlutafélagi. Augljóst er, að allt þetta vinnur beinlínis gegn því, að fjármagnseigandi leggi fé í hlutafélag. Sú mismunun, sem hér hefur verið lýst, er brotameiri og rótgrónari en svo, að henni verði eytt í einu vetfangi. Í frv. er hins vegar gerð till. um mjög mikilvægt skref í þessa átt. Gerð er till. um, að nokkur fjárhæð arðtekna hjá hverjum einstaklingi, eða 20 þús. kr. á ári, verði tekjuskattsfrjáls og 100 þús. kr. hlutafjáreign verði gerð eignarskattsfrjáls hjá hverjum einstaklingi. Það er ljóst, að hér er einungis um að ræða skref í þá átt að gera hlutafjáreign jafnsetta sparifé eða verðtryggðum spariskírteinum. Þannig er ljóst, að þrátt fyrir samþykkt þessa frv. væri enn mismunur milli þessara tveggja sparnaðarforma.

Að því er varðar samanburð milli sparifjár og hlutabréfa í þessu sambandi er vert að hafa gát á því, að ákvæði frv. um skattfrjálsa úthlutun arðs og um úthlutun jöfnunarhlutabréfa opna leið til þess, að hlutabréf í traustu og vaxandi hlutafélagi séu í rauninni verðtryggð eign. Að því leyti má segja, að samþykkt frv. mundi leiða til þess, að hlutabréf verði áhugaverðari eign en sparisjóðsinnstæða að vissu leyti, a. m. k. þegar komið yrði á laggirnar kaupþingi, þar sem menn geta komið hlutabréfum í verð, ef þeim liggur á lausu fé. Eins og sagt var hér, er hér einungis um skref að ræða að því lokamarki að stefna í skattamálum mismuni ekki milli sparnaðarforma, og mun ég nánar víkja að því viðfangsefni síðar.

Margs konar rök má setja fram þessari stefnu til stuðnings. Arðbær félög mundu sjálfkrafa fremur draga til sín fjármagn með hlutafjársöfnun en hin, sem lakari árangur sýna. Hlutabréf í góðu og traustu fyrirtæki væru í rauninni verðtryggð eign, eins og lýst var, og þjóðhagslega æskilegri en fjárfesting í húsnæði er í mörgum tilfellum, sem hefur verið mjög sótt eftir vegna skattalegra ástæðna. Áhugi manna, hluthafa eða væntanlegra hluthafa, á afkomu fyrirtækjanna mundi vakna og sjálfkrafa liggja fyrir traustari vitneskja opinberlega um það, hvers atvinnurekstur er megnugur og hvers ekki, t. d. í kjaradeilu. Eigið fé í fyrirtækjum ætti að geta aukizt og þar með að geta betur staðið af sér sveiflukennda afkomu frá ári til árs.

Fleiri mikilvæg stefnuatriði eru tekin til meðferðar í frv., þótt ekki séu þau eins brotamikil og þau, sem rakin hafa verið. Opnaðar eru leiðir til þess að sameina fyrirtæki til að ná hagkvæmari stærð þeirra og/eða betri nýtingu á framleiðslutækjum þeirra. Er gert ráð fyrir, að slíkur alger samruni hlutafélaga geti átt sér stað án skattgreiðslu vegna samrunans. Sömuleiðis er opnuð leið til að fyrirtækjum, sem í raun eru hætt rekstri, verði slitið með skaplegri skattgreiðslu. Hlutafélögum er samkv. frv. ætlaður kostur á rýmri aðstöðu til útgáfu jöfnunarhlutabréfa en verið hefur. Er með þessu annars vegar reynt að skapa að þessu leyti heilbrigðan grundvöll undir frambúðarviðskipti með hlutabréf, eins og tíðkast í öðrum löndum samfara eðlilegri skattlagningu söluhagnaðar af slíkum viðskiptum. Á hinn bóginn beinist frambúðarheimildin til útgáfu jöfnunarbréfa að því, að nafnverð hlutabréfa svari alltaf nokkurn veginn til fjármagns, sem í fyrirtæki er bundið.

Þá er lagt til í frv., að sameignarfélagsformið verði fellt niður úr skattalöggjöf sem sjálfstæður skattaðili. Með þessu formi skattaðildar getur skattgreiðandi nú sjálfur ákveðið frá ári til árs, eftir því sem hann kann að reikna sér hagkvæmara, með hvaða skattlagningaraðferð og þar með hvaða skattstigum skattar hans skulu reiknaðir, þ. e. a. s. hvort hann lætur félagið telja fram og skattleggja það eða það er skipt niður á milli sameignaraðilanna og skattlagt hjá þeim hverjum fyrir sig. En slíkt valfrelsi verður að telja algerlega óeðlilegt, að skattþegni sé veitt, enda er þetta félagsfarm ekki þekkt í þeim löndum, sem þessi mál hafa verið könnuð hjá.

Það er enn fremur verulegt atriði í þeirri stefnubreytingu, sem mörkuð er með frv., að heimild til skattfrjálsra tillaga í varasjóð verður nú felld niður og núverandi varasjóður leystur upp á nokkrum árum. Eins og kunnugt er, eru varasjóðir í fyrirtækjum skattalega séð í rauninni geymdir, þ. e. óskattlagður hagnaður. Hér er um að ræða séríslenzkt fyrirbrigði, sem veldur ýmsum vandræðum. Ráðstöfun slíks varasjóðs er mjög takmörkuð, og hann verður skattskyldur að því leyti, sem hann er notaður með öðrum hætti. Það má telja fullvíst, að það uppsafnaða, óskattlagða fjármagn, sem í varasjóðum liggur, sé að einhverju marki Þrándur í Götu þess, að fyrirtækjum sé slitið, ef þau hafa hætt starfsemi, þar eð við slit mundi varasjóður koma til skattlagningar.

Að því er varðar úthlutun arðs er sú stefnubreyting gerð, að frádráttarbær úthlutun arðs er aukin úr 10% af stofnfé, svo sem nú gildir eða hlutafé í 10%, sem áfram gildir eða helming hagnaðar, hvort sem er hærra. Þá nær heimildin jöfnum höndum til útborgaðs arðs og framlaga í arðjöfnunarsjóði. Arðjöfnunarsjóður sá, sem frv. opnar leiðir til að mynda, á að geta verið mjög mikilvægur vegna þeirrar sveiflukenndu afkomu atvinnurekstrar, sem er svo almenn hér á landi. Mjög góða afkomu eitt ár má nota til að mæta tapi síðar eða greiða arð, þegar afkoma er ekki nógu góð til arðgreiðslu.

Þá eru loks í frv. nýjar reglur um mat á birgðum fyrirtækja við uppgjör til skatts. Þar er þó ekki um verulegar breytingar að ræða frá því, sem raunverulega hefur tíðkazt.

Ef draga á saman í fáeinum orðum, hvað þetta frv. gerir aðallega, ef að lögum yrði, þá er það þetta: Frv. er hvatning til arðbærrar fjárfestingar fyrirtækja og þá ekki sízt þeirra fyrirtækja, sem hafa góða afkomu. Slíkum fyrirtækjum er gert mögulegt að treysta fjárhagslega stöðu sína með frestun skattlagningar, flýtifyrningum. Frv. hvetur til samruna fyrirtækja og opnar leiðir til að slíta dauðum félögum. Auk þess hvetur frv. til hlutafjáreignar almennings.

Um fjárhagslegar afleiðingar af þessu frv. er engin leið að spá. Þær ráðast bæði af afkomu fyrirtækjanna og stefnuákvörðunum, sem þau taka sjálf, að því er varðar fyrningu og arðsúthlutanir. Heildartekjuskattar ríkisins af fyrirtækjum 1966–1968 voru 75–95 millj. kr. Samtala tekju- og eignarútsvara fyrirtækja til sveitarfélaga voru á sama tíma 110–130 millj. kr. Lánist með þeirri stefnu, sem frv. miðar að, að gera atvinnurekstur í landinu „dynamiskari“ og fjárhagslega traustari en hann hefur verið, eru hagstæðu og óbeinu áhrifin af frv. með öllu ófyrirsjáanleg og gætu auðveldlega bætt upp það, sem kynni að tapast vegna samdráttar eða minnkaðrar skattálagningar vegna þeirrar heimildar, sem frv. að öðru leyti veitir, en eins og ég gat um, get ég ekki með neinu móti spáð um og ekki er auðið að reikna þetta, enda veit ég, að hv. þm. gera sér grein fyrir því, að vegna þeirra frjálsu ákvarðana, sem fyrirtækjum er veitt, t. d. með fyrningar, þá er ekki hægt að gera áætlun um það nákvæmlega frá ári til árs, ekki fyrr en a. m. k. reynsla hefur fengizt af þessum ákvæðum, jafnvel í þrjú ár.

Ég hef þá gert grein fyrir því, sem í meginefnum felst í þessu frv., en svo sem ég áðan gat um, þá fjalla till., eins og þær liggja fyrir, aðeins um hluta vandamálsins, þó að segja megi, að þær gripi yfir öll mikilvægustu atriðin.

Varðandi skattamál atvinnurekstrar og skynsamlega fjármögnun fyrirtækja eru ýmis önnur atriði, sem þarf að íhuga, og vil ég í stuttu máli víkja að því helzta í því efni. Þess ber fyrst að geta, að skattkerfið sjálft er mjög flókið og þarf því nauðsynlega að endurskoðast, hvað álagningarreglurnar snertir, og ég skal aðeins til upplýsingar geta um nokkur dæmi þess, að því er varðar atvinnureksturinn, hversu flókið þetta kerfi er. Tekjuskattur er t. d. núna lagður á svokallaðar hreinar tekjur. Tekjuútsvar er sömuleiðis lagt á hreinar tekjur, en þær hreinu tekjur eru ekki hinar sömu og við álagningu tekjuskatts, heldur þær að frádregnu útsvari síðasta árs, en þó því aðeins, að útsvar hafi verið greitt fyrir tilsettan tíma. Byggingarsjóðsgjald er síðan lagt á samtölu tekju- og eignarskatts. Kirkjugarðsgjald er hlutfall af samtölu tekjuútsvars eignaútsvars og aðstöðugjalds. Aðstöðugjald er lagt á rekstrarútgjöld og sömuleiðis iðnlánasjóðsgjald í iðnfyrirtækjum. Launaskattur er lagður á laun í krónum, en ýmis tryggingaiðgjöld á aðkeypta vinnu í vinnuviku. Þetta er ekki tæmandi talning, er sýnir, hversu flókið þetta álagningarkerfi er og hversu brýn þörf væri á að taka þetta atriði út af fyrir sig til endurskoðunar. Hins vegar þarf þetta atriði og önnur þau, sem ég vil minnast á, miklu lengri aðdraganda heldur en sé hægt að taka þau til meðferðar nú, en nauðsynlegt er að vinna áfram að þessu,enda er ætlunin, að umrædd n. haldi áfram störfum sínum og kanni þá fleiri vandamál, sem við er að fást.

Annað atriði er það, sem þarf að taka til athugunar og sem sérstaklega er brýnt að íhuga með hliðsjón af þeim breytingum, sem felast í þessu frv. varðandi endurmat hlutabréfa, sem mundi þá leiða til endurskoðunar á hlutabréfaeign og auka hana stórkostlega. En það er nauðsyn þess að endurskoða l. um eignarskatt og eignarútsvör. Þessir skattar eru hærri en tíðkast í öðrum EFTA-löndum, og á þetta alveg sérstaklega við skattlagningu á hlutabréfaeignina, sem nú verður miklum mun þýðingarmeiri en áður, ef þessi endurskoðun tekst og hefur þau áhrif, sem að er stefnt. Það virðist sýnt, að hinir háu eignarskattar hafa beinlínis orðið til þess að aftra því, að félög notuðu rétt sinn til útgáfu jöfnunarhlutabréfa, jafnframt því sem um hefur verið að ræða óraunhæfa skattlagningu á hlutabréfaeign í félögum með lága arðgjöf. Þetta atriði þarf að endurskoða, til þess að hvatning verði fyrir hendi til þeirrar hlutafjáraukningar, sem ég gat um og felst í frv., eins og það liggur fyrir. Ástæðan til þess, að þetta atriði var ekki tekið inn í þetta frv., sem hér liggur fyrir, er fyrst og fremst sú, að hér er um miklu flóknara vandamál að ræða, vegna þess að endurskoðun l. um eignarskatt og eignarútsvör yrðu að vera almenn endurskoðun þeirra l. og hefur því miklu víðtækari áhrif á skattkerfið og skattálagningarnar í heild, og það þarf í því sambandi að íhuga sérstaklega mismunandi aðferðir, sem eru nú á skattlagningu hinna ýmsu sparnaðarforma. Ég hef áður vikið að sparifénu og verðbréfunum. Þar er mismunun enn veruleg varðandi verðbréf almennt, og t. d. spariskírteini sömuleiðis. Þá hefur það verið svo, að fasteignir hafa verið vanmetnar, en það má gera ráð fyrir, að einmitt eftir að nýja fasteignamatið kemur til framkvæmda, sem er gert ráð fyrir ekki síðar en um næstu áramót, en væntanlega verður það látið taka þá gildi, þá verði raunhæfara mat á fasteignum, þannig að eðlilegur grundvöllur verði fyrir því að taka eignarskattsmálin almennt til endurskoðunar vegna þessa.

Í samræmi við þetta þarf svo að taka, eins og ég gat um, til athugunar hin mismunandi sparnaðarform, sem n. hefur ekki talið mögulegt að fara út í nú. Svo sem öllum hv. þdm. er kunnugt, er sparifé skattfrjálst og einnig framtalsfrjálst. Sjálft spariféð er undanþegið eignarskatti, og arður af því undanþeginn tekjuskatti og tekjuútsvari. Þetta gildir að öðru leyti ekki um arð í hlutafélögum eða tekjur af verðbréfum, nema um þá, sem hafa keypt hin verðtryggðu spariskírteini ríkissjóðs. Þessu er mætt að litlu leyti í þessu frv., en það þarf að sjálfsögðu að útfærast miklu betur. Þó að hagur hlutabréfanna verði nú gerður mun betri, vegna þess að þau verða í raun og veru, eins og ég hef áður vikið að, að verulegu leyti verðtryggð vegna endurmatsheimildanna, verður engu að síður nauðsynlegt í framhaldsathugun málsins að taka þessi mismunandi sparnaðarform til athugunar og samræma skattskyldu þeirra. M. a. þarf að taka til athugunar, að hve miklu leyti sé rétt að hafa framtalsfrelsi áfram á sparifé, sem leiðir af sér margs kyns vandræði, og einnig í sambandi við spariskírteinin. Það þarf ekki að leiða til þess, að afnumið verði það skattfrelsi, sem þessi bréf hafa. Hins vegar leiðir framtalsfrelsið til mikilla vandræða, m. a. vegna þess, eins og mönnum er kunnugt, að þá er í l. ekki gert ráð fyrir því, að menn fái vaxtafrádrátt frjálsan, ef þeir eiga sparifé á móti, en reyndin í mörgum tilfellum hefur einmitt orðið sú, að menn hafa notið vaxtafrádráttarfríðindanna, enda þótt þeir ættu svo og svo mikið sparifé og arðurinn af því jafn mikill og næmi vaxtafrádrætti. Það er því nauðsynlegt að taka þetta mál til sérstakrar endurskoðunar.

Þá er nauðsynlegt, eins og ég gat um áðan, að íhuga aðstöðugjaldið. Hér er um mikið vandamál að ræða. Þetta er eitt þeirra skattlagningarforma, sem segja má, að Íslendingar hafa orðið brautryðjendur i, og í öðrum EFTA-löndum finnst ekki sambærilegur skattur. En til er svipaður skattur í Sviss og Austurríki, en þó annars eðlis, og það er skoðun þeirrar n., sem að málinu hefur unnið, að aðstöðugjaldið í núverandi formi sé að mörgu leyti mjög gallaður skattur og sé rækileg endurskoðun á því nauðsynleg. Sérstaklega er, eins og menn vita, aðstöðugjaldið þungt á fyrirtækjum, sem hafa mikla veltu, en lítinn arð, þar sem hann kemur að litlu gagni, þó að þau fái að draga aðstöðugjaldið frá sköttum, og tekjum sínum. Vitanlega mætti breyta aðstöðugjaldinu með ýmsum hætti, sem þarf að íhuga nánar, og það eru vitanlega full rök fyrir því, að fyrirtæki, enda þótt þau beri ekki arð nema að takmörkuðu leyti, gjaldi eitthvað fyrir þá aðstöðu, sem sveitarfélög veita þeim, en það verður þó að gæta þess, að þetta gjald verði ekki svo hátt, að það beinlínis verði fyrirtækinu að fjörtjóni, og eins og nú standa sakir, miðað við þá samkeppni, sem fyrirtækin þurfa að vera búin undir, þá verður því meiri nauðsyn að þetta mál sé endurskoðað. Erlendis er svipuðu markmiði víða náð með fasteignarsköttum, og er eðlilegt, að það mál verði rannsakað nánar.

Þá þarf að íhuga það, hvort ekki væri rétt að koma hér upp fjárfestingarsjóðum fyrirtækjanna, t. d. með svipuðum hætti og tíðkast í Svíþjóð. Þar er um að ræða sérstaka sjóði, sem félögin geta lagt í, en skila viðkomandi skatti á bundinn reikning á vegum ríkisins, þannig að það er vissum takmörkum háð, hvernig þetta fé getur losnað undan opinberu eftirliti, þannig að það er ekki hægt að losa þetta fé, nema þegar sérstök ástæða þykir til að örva fjárfestingu af þjóðfélagslegum ástæðum. Þetta hefur hins vegar þann tilgang, að það skapar fyrirtækinu möguleika til að flytja skattlagningu á milli ára, og getur þetta komið sér vel, þegar miklar sveiflur eru í afkomunni. Hins vegar leggur þessi skipan verulega í hendur ríkisins nýtt hagstjórnartæki, ef svo má segja, sem hentar einnig vel til þess að draga þannig úr sveiflum í fjárfestingu. Þetta þarf hins vegar að kanna miklu betur, til þess að bægt sé að gera um það ákveðnar till., og verður það að bíða framhaldsathugunar málsins.

Þá er það, sem ég vék að áðan í mínu máli, sem gerir mjög erfitt um allan samanburð við EFTA-löndin, en það eru tekjuöflunarmál sveitarfélaganna. Þau eru hér með mjög mismunandi hætti í hinum ýmsu sveitarfélögum, og hefur þetta þegar valdið mikilli mismunun í aðstöðu fyrirtækja til starfsemi í hinum einstöku byggðarlögum, þar sem það getur verið mjög mismunandi, hvað þau greiða þungt tekjuútsvar, þótt tekjuskatturinn sé sá sami, og í rauninni, ef á að fá fullt samræmi hér á milli aðstöðu fyrirtækjanna, þá þyrfti að sameina tekjuskattinn og tekjuútsvarið, og þetta hefur einnig komið til athugunar, eins og hv. þdm. er kunnugt, í sambandi við staðgreiðslukerfi opinberra gjalda. Þá hefur staðgreiðslunefndin komizt að sömu niðurstöðu í athugunum sínum um, að þessi mikli munur, sem er á útsvarsálagningum í hinum einstöku sveitarfélögum, veldur stórkostlegum vandræðum, og það er brýn nauðsyn að skapa hér meira jafnrétti. Ég hygg því, að það verði ekki hjá því komizt, ef á að tryggja fyrirtækjum svipaða aðstöðu, hvar sem þau starfa í landinu, og ekki aðeins aðstöðu út á við, þá þurfi að taka þetta mál til víðtækrar athugunar og leita eftir því, hvort ekki er auðið að sameina þessa skattstofna. Mætti þá vel hugsa sér það, að þetta gerðist í sambandi við athugun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og umræður standa nú yfir á milli rn. og Sambands ísl. sveitarfélaga á grundvelli athugunar, sem Samband íslenzkra sveitarfélaga hefur gert á þessu efni, hvort ekki væri rétt að taka upp viðræður milli þessara aðila um það mál, því að vel má hugsa sér, að það væri hentugt að breyta þeirri verkaskiptingu, sem nú er, og þá e. t. v. flytja tekjustofnana á milli með einhverjum hætti. Það skiptir að sjálfsögðu ekki meginmáli, hver leysir hin opinberu þjónustuhlutverk af hendi, hvort það er ríki eða sveitarfélag. Það verður að velja það, sem hentugast er, og á það út af fyrir sig ekki að þurfa að hafa nein áhrif á tekjuöflunina í heild, þó að tekjurnar kunni að skiptast með öðrum hætti en verið hefur.

Framhaldið af þessu, sem snertir ekki beint skattalögin sem slík, er að sjálfsögðu undirbúningur að því að koma hér á fót kaupþingi, en það mundi verða á vegum Seðlabankans að vinna að því máli. Þá er einnig nauðsynlegt, að hrundið sé í framkvæmd sem fyrst og fái lögfestingu, endurskoðun hlutafélagalaga, en málið hefur verið í athugun hjá dómsmrn. um nokkurn tíma. L., sem sett voru um bókhald nú fyrir skömmu, hafa þegar skilað verulegum árangri, og án þeirra hefði í rauninni ekki verið hægt að taka upp þá víðtæku breytingu, sem hér er gert ráð fyrir, í skattalegri aðstöðu fyrirtækja, því að fullkomið bókhald er að sjálfsögðu forsenda þess, að hægt sé að framkvæma þá hluti, sem hér er verið að tala um.

Þá gat ég þess áðan, að virðisaukaskatturinn væri mjög þýðingarmikill í sambandi við þetta kerfi allt og hann út af fyrir sig breytti nokkuð aðstöðu fyrirtækja. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma, en aðeins geta þess, sem ég raunar gat um í fjárlagaræðu minni í haust, að rn. hefur það til sérstakrar athugunar, hvort henta mundi og hvenær það væri tímabært, ef það þætti henta við nánari athugun ríkisstj., að innfæra slíkt kerfi eða lögfesta það hér á landi.

Þetta, sem ég hef hér nefnt, eru þau ýmsu atriði, sem enn á eftir að rannsaka, og reyndar fleiri, og yrði of langt mál að telja upp það allt í einstökum efnum, en sem varða fyrirtækin og uppbyggingu þeirra. Þá er einnig þörf á því, að fram fari í framhaldi af þessu öllu saman athugun á ýmsum atriðum skattalaganna. Og það hefur komið fram í auknum frv.flutningi hér á Alþ. um ýmis atriði, varðandi persónuskatta og frádráttarreglur og ýmis önnur atriði, að það er vaxandi tilfinning fyrir því, að það þurfi að gera hér á einhverjar breytingar. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma, en aðeins taka undir það, að ég er sammála um, að ýmis þeirra frv., sem hér liggja fyrir þinginu, eru þess eðlis, að rétt er að athuga þau nánar, en ég mundi telja mjög æskilegt, þar sem þetta mál er allt í heildarendurskoðun og slíkar breytingar mundu hvort sem er ekki taka gildi við skattaálagningu í ár, að þessum frv., a. m. k. þeim, sem hv. þm. þætti ástæða til að taka jákvætt á, yrði vísað til ríkisstj. til athugunar í framhaldsskoðun á þessu vandamáli og þá eftir atvikum eftir því, hvort það væri mat þingsins, að rétt væri að taka á málunum jákvætt eða neikvætt.

Ég hef áður getið þess, að ástæðan til þess, að ekki hafa verið gerðar ýmsar breytingar, sem vissulega hefði verið þörf á að gera fyrir nokkru síðan á skattalögunum, hefur fyrst og fremst verið sú, að staðgreiðslukerfið hefur verið í sérstakri meðferð, og það var ljóst, eða mér sýndist það a. m. k. augljóst, að það yrði að gera allvíðtækar breytingar á skattakerfinu, bæði tekjusköttum og útsvörum, ef staðgreiðslukerfið yrði innleitt, og það hefur valdið því, að frestun hefur orðið á þessari endurskoðun á ýmsum einstökum atriðum skattalaga, sem rædd hafa verið hér á hinu háa Alþ. Nú skal ég ekki um það segja, hver verður niðurstaðan hjá Alþ. að þessu sinni um þá tillögu, sem hér liggur fyrir, og nál. um staðgreiðslukerfið, en mér sýnist nú margt benda til þess, að það þurfi að eiga miklu lengri aðdraganda að lögfesta það en gert hefur verið, og má því vel vera, að það sé rétt að gera áður ýmsar breytingar á skattalögunum.

Ég sé ekki ástæður til þess að ræða þessi mál frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, en vil aðeins að lokum vekja athygli á því, sem ég gerði í upphafi máls míns, að þetta frv. er þannig úr garði gert, að það er byggt á ákveðnu kerfi og til að ná ákveðnum markmiðum, sem ég lýsti í upphafi máls míns. Ég hygg, að hv. þm. muni allir komast að raun um það við íhugun málsins, að einstök ákvæði frv. eru í svo nánu samhengi hvert við annað, að því verður vandbreytt í meginatriðum, nema því aðeins að kollvarpað verði þá um leið þeim grundvelli, sem það er byggt á, eða kerfinu sjálfu. Þetta tel ég alveg nauðsynlegt að menn íhugi. Breytingar á fyrningarreglum leiða af sér breytingu á meðferð arðs og hlutafjárákvörðunum, þannig að þessi þrjú meginefni eru í svo nánu samhengi hvert við annað, að einu verður naumast breytt að neinu verulegu leyti, án þess að öðru verði breytt.

Ég sagði í upphafi máls míns, að það hefði ekki unnizt tími til að rannsaka þetta mál svo ofan í kjölinn í ríkisstj. eða stjórnarflokkunum, að það væri á þessu stigi flutt með venjulegum hætti sem stjfrv., en ég tók jafnframt fram, að í því fælist engin vísbending um það, að ríkisstj. eða stjórnarflokkarnir mundu ekki efnislega geta náð samstöðu um málið. Ég taldi hins vegar mjög mikilvægt, eins og ég gat um, að þótt þessi heildarathugun málsins lægi ekki fyrir hjá þessum aðilum, þá yrði frv. sýnt hér á Alþ., þar sem ég tel persónulega, að það uppfylli þær kröfur eða þau skilyrði, sem sett voru í erindisbréfi n. Hins vegar er hér um svo víðtækt mál að ræða, sem hefur svo mikla þýðingu í þjóðfélaginu, að það er brýn nauðsyn að fá viðbrögð Alþ. við frv., enda þótt þess yrði ekki kostur að lögfesta það á þessu þingi, og jafnframt, að það kæmi fram í dagsljósið, þannig að aðrir aðilar, sem málið varðar, gætu rætt það nú á næstu mánuðum. Þetta er sérstaklega veigamikið vegna þess, sem ég gat um áðan, að það á eftir að fara fram athugun á ýmsum veigamiklum þáttum málsins enn, og það skiptir að sjálfsögðu miklu máli fyrir framhaldsstarf n., sem að þessu vinnur, hvort viðbrögðin við málinu verða með þeim hætti, að það séu líkur á því, að að lokum fallist Alþ. á að leysa málið á grundvelli þeirrar meginreglu, sem þetta frv. byggist á, vegna þess að framhaldsathugun hjá n. á þeim atriðum, sem enn eru ókönnuð, eða a. m. k. ekki komin niðurstaða á, veltur að sjálfsögðu verulega á því, hvort n. á að byggja á þeim grunni, sem lagður er með þessu frv., eða hvort viðbrögðin yrðu slík, að mönnum sýndist nauðsynlegt að spinna þráðinn með einhverjum öðrum hætti eða byggja kerfið upp á einhverjum öðrum grunni.

Málið í heild þarf að sjálfsögðu að verða lögfest fyrir næstu áramót og þarf að koma til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1971. Hins vegar er eitt atriði í þessu frv., sem óhjákvæmilega þarf að vera lögfest á þessu þingi. Ég geri ráð fyrir því, að flutt verði nú á næstunni sérstakt frv., þar sem það atriði út af fyrir sig verður tekið út úr frv., en það eru bráðabirgðaákvæði um endurmat á fyrnanlegum eignum eða hækkun fyrninga, miðað við skattárið 1970, þ. e. a. s. af eignum 1969 og þá miðað við áhrif gengisbreytingarinnar, sem var 1968, að svo miklu leyti, sem eignir hafa ekki þegar svo til hlotið endurfyrningu eða endurmat, ef svo má segja, vegna gengistjóns.

Herra forseti. Ég hef nú þegar talað nokkuð lengi um þetta mál, en það verður naumast komizt hjá því, ef á að gera því einhver skil, og er þó langt í frá, að því hafi verið gerð tæmandi skil. Hér er um svo víðtækt og vandasamt mál að ræða. Ég legg aðeins að lokum á það megináherzlu, að hugsunin með þessu frv. er að örva íslenzkt atvinnulíf, efla íslenzk fyrirtæki og gera þeim mögulegt að taka upp þá samkeppnisbaráttu, sem þau verða að heyja á næstu árum og áratugum og gera þeim fært að leysa þann stóra vanda, sem á íslenzkum atvinnufyrirtækjum hvílir, að byggja upp nægilega traust atvinnulíf í landinu. Jafnframt er þessum till. ætlað að sjá til þess, að ekki verði með óeðlilegum hætti farið með þau hlunnindi, sem hér eru veitt, og strangar reglur um það settar, að ekki sé hægt að draga með óeðlilegum hætti fé út úr atvinnurekstrinum, vegna þess að hugsunin er ekki sú, að auðga með þessum hætti á óeðlilegan hátt einn né neinn, heldur að efla atvinnureksturinn sjálfan með sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar fyrir augum.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað aftur til fjhn., svo sem hv. n. víkur að í till. sínum í grg. með frv.