13.04.1970
Neðri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (2765)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur gert nokkra grein fyrir frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 530. Það verður nú að segja það, að þetta er mikill bálkur og tekur það áreiðanlega tíma að kynna sér það gaumgæfilega, enda bar ræða hæstv. fjmrh. það með sér, að það mundi ekki vera í ráði að gera annað en að sýna það nú og kynna þetta þingheimi og almenningi, en um það gæti orðið að ræða að taka viss ákvæði úr frv., sem yrði lögfest á þessu þingi. Ég ætla ekki að fara að ræða neitt ítarlega um þetta frv., en ég tel, að hér séu mjög mörg athyglisverð ákvæði, sem eiga að geta orðið atvinnurekstrinum til framdráttar, þegar það hefur verið athugað nákvæmlega og fullar upplýsingar gefnar, svo að þessi mál liggi alveg ljóst fyrir.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að í frv. er gert ráð fyrir með einu pennastríki að skera á eitt form í félagarekstri um atvinnurekstur niður og leyfa það ekki áfram. Þess vegna langar mig til þess að fá frekari upplýsingar um það hjá hæstv. fjmrh. Ég hlustaði með mikilli athygli á hans ræðu, og hann gaf það í skyn, að hann mundi gefa gleggri upplýsingar um þetta atriði en er hér á bls. 8 í hinni almennu grg. um sameignarfélögin. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. gerir ráð fyrir mjög ákveðinni stefnubreytingu, að því er varðar sameignarfélög. Er lagt til, að sameignarfélög sem sjálfstæðir skattaðilar verði felld niður úr skattkerfinu. Hér er um að ræða félagsform, sem er nánast óþekkt sem sjálfstæðir skattaðilar í öðrum EFTA-löndum, auk þess sem fyrirkomulagið, sem hér hefur gilt, felur í sér, að sameignarmönnum, þremur eða færri, er gefinn kostur á að velja sér skattálagningarform og þar með skattstiga, eftir því sem hentar ár hvert, ýmist sem hluti af sameignarfélagi eða sem einstaklingar. Er talið mjög óæskilegt að veita slíkt valfrelsi í skattalöggjöf. Að því er varðar sameignarfélög er sömuleiðis gert ráð fyrir niðurfellingu varasjóðsheimilda og upplausn núverandi varasjóða á nokkrum árum.“

Ég tel ástæðu til þess, þótt hæstv. fjmrh. kæmi að þessu atriði, að fá gleggri skýringar en fram komu í ræðu hans um þetta atriði. Eins og ég sagði áðan, hlustaði ég nákvæmlega, en þær skýringar sannfærðu mig ekki um þetta. Í sambandi við það að leggja niður þetta form, þá tel ég, að það geti verið mjög varhugavert. Ég varð var við það á fundi, sem ég mætti á með n. þeirri, sem fjallaði um þetta mál, eða hluta úr henni, fyrir s.l. áramót, og skattstjóri ríkisins upplýsti einmitt þar, að það væri í l., og efast ég ekki um, að rétt sé með farið, að menn gætu ákveðið frá ári til árs, hvort þeir teldu fram sem sameignarfélag eða sem einstaklingar. Þó að ég hafi fylgzt talsvert með félagsformum og félagsmálum, þá kom þetta mér dálítið einkennilega fyrir eyru. Ég ræddi þetta við endurskoðanda, sem lengi starfaði á Skattstofunni, og kom þetta honum einnig mjög einkennilega fyrir eyru, að með þetta skattaform væri rokkað til frá ári til árs. Ef sameignarfélag er stofnað með vissu framlagi og það tilkynnt, þá hef ég álitið, að það væri sjálfstæður skattframteljandi og skattlagt eftir því. Vel má vera, að l. ákveði, að það eigi að tilkynna það í byrjun árs þess, sem á að skattleggja, hvort formið verði notað, við tökum t.d., að í byrjun ársins 1968 hefði átt að tilkynna, hvort talið yrði fram fyrir það ár sem sameignarfélag eða skipt á einstaklingana fyrir það skattár. Ég tel t.d., að í þeim atvinnurekstri, sem ég þekki bezt til, þá sé mjög erfitt að segja í ársbyrjun, hver útkoman verði, svo að þess vegna, ef aðilarnir hafa valið sér þetta form, þá telji þeir yfirleitt þannig fram, en fari ekki að skipta tekjunum á einn, tvo eða þrjá annað árið, heldur fari eftir þeirri reglu, sem ákveðin var í upphafi.

Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., en ég ætlast ekki til að hann svari því á þessum fundi, það gæti komið fram síðar við umr. um þetta mál, í hvað mörgum tilfellum hafi verið breytt til á síðustu árum í sambandi við framtöl sameignarfélaga. Ég veit það, að t.d. í útgerð, bæði í mínum fæðingarbæ og í stærstu bátaverstöð landsins, er þetta form, sameignarfélag um útgerðarrekstur, mjög almennt notað, og ég veit, að það er til, að þessir aðilar telja fram sitt í hvoru lagi og fylla út þá sjávarútvegsskýrslu að þeim hluta, sem þeir eiga í skipunum, en þá gera þeir það eftir á, en ég held, að það sé líka nokkuð almennt, en mér er ekki kunnugt um það, að breytt sé til í þessum efnum á milli ára. Ef félag er tilkynnt sem sameignarfélag með ákveðnu framlagi, þá er félagið sérstakur framteljandi og það skattlagt eftir því. Mér er kunnugt um, að það er hægt að vera með sameignarfélög með takmarkaðri ábyrgð, en frá tryggingarsjónarmiði þeirra aðila, sem skipta við þessi félög, þá geri ég ráð fyrir, að þetta sé ekki óhagkvæmt fyrirkomulag, vegna þess að það er ekki eingöngu það framlag, sem um er að ræða, nema sérstök ákvæði séu sett þar inn í, og til þess þarf forsetaleyfi, svo að takmörkun gildi. Sameignarfélög tryggja viðskiptaaðila með öllum eignum einstaklinganna, sem í sameignarfélögunum eru. Ég tel því mjög varhugavert að fella þetta niður.

Það er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði í sambandi við hlutafélög, að þau hafa til skamms tíma verið alltof fjárvana og hlutaféð verið yfirleitt alltof lágt. Það kemur til af tvennu, bæði því, hve lítið fjármagn hefur verið í landinu og svo einnig, að fyrirkomulag hjá þessum félögum og l. í sambandi við þau hafa verið þannig, að það hefur verið mjög erfitt að fá fé til baka. Ég tel, að þetta frv. muni bæta þar mjög mikið úr, þegar það kemur til framkvæmda, en í mjög mörgum tilfellum hafa eigendur lánað fjármagn, þar sem þá hefur verið auðveldara að fá það til baka og fá vexti af því. Raunverulega hefur verið meira fé frá eigendum en almennt er talið.

En í þessu sambandi, þótt það komi ekki beinlínis þessu máli við, þá má minna á það, hvernig lánastofnanir meðhöndla hin ýmsu hlutafélög, þegar hluthafar og þá sérstaklega stjórnendur þeirra eru látnir ganga í svo og svo miklar ábyrgðir, svo að raunverulega er þarna um að ræða a.m.k. meiri eign á bak við en skrásett hlutafé. Ég veit einnig, að það eru 1. og reglur um að gefa út jöfnunarhlutafé, en á þessum sama fundi, sem ég minntist á áðan, þá upplýsti ríkisskattstjóri, að ótrúlega fá hlutafélög hefðu notað sér þá heimild til útgáfu jöfnunarhlutabréfa. Með þessu frv., sem hér er lagt fram, er áreiðanlega stefnt í meginatriðum í rétta átt fyrir atvinnureksturinn og ætti að verða til þess, að fjármagn rynni, frekar en áður hefur verið, til hlutafélaga, og tel ég það vera til hagsbóta. Það er náttúrlega alveg útilokað, eins og l. eru í dag, að arðgreiðsla, sem getur verið 10%, sé í raun og veru, þegar til eigendanna kemur, aðeins 2.9%, og vitna ég þá í ræðu, sem einn virtur hæstaréttarlögmaður flutti ekki alls fyrir löngu suður í okkar kjördæmi.

En sem sagt, ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég tel, að þetta frv. sé í megindráttum til bóta, og það stórbóta, vil ég segja, því að hér á að brjóta í blað og örva aðila til þess að leggja fé í atvinnurekstur, en ég fyrir mitt leyti þarf að fá frekari skýringar en ég hef þegar fengið frá hæstv. fjmrh. um, hvers vegna á að skera þetta form, þ.e. sameignarfélagsformið, niður við trog, því að ég held, að við eigum eftir að heyra margar raddir um það, að það sé ekki heppilegt. Mér er einnig kunnugt um það, að einstaklingar, sem reka fyrirtæki, hvort sem það er við sjávarsíðuna eða annars staðar, hafa ekki leyfi til að leggja í varasjóð, svo að þess vegna hefur verið farið inn á þetta form. En raunverulega eru þeir gagnvart lánastofnunum og gagnvart ríkisheildinni í enn þá meiri ábyrgð en þeir, sem leggja hlutaféð fram, ef lánastofnunin gerir ekki aðra samninga. Er þetta óheppilegt fyrir þjóðfélagið? En á þessu langar mig til þess að fá skýringu, og það er ekki nóg fyrir mig að það sé sagt, að þetta félagsform finnist hvergi í EFTA-löndum, það verða að koma frekari rök fyrir því en þegar eru fram komin.