27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

126. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef gefið út sérstakt nál. um afstöðu mína til málsins á þskj. 272. Meginafstaða mín til frv. er sú, að ég legg til að frv. verði fellt. Ég er andvígur efni frv. En eins og hér hefur komið fram, þá er meginefni þessa frv. það, að gert er ráð fyrir því að hækka söluskattinn úr 7 1/2% upp í 11%. En það mun nema heildarhækkun á söluskattinum um 830 millj. kr. á ársgrundvelli. Þar miða ég við hliðstæða umsetningu í landinu, sem söluskattur er lagður á og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. því, sem lagt var fyrir yfirstandandi Alþ. Þegar söluskatturinn hefur verið hækkaður þetta mikið, eða í 11%, þá mundi söluskatturinn nema alls um 2.600 millj. kr., eða 2.6 milljörðum kr. miðað við ársviðskipti, sé sú umsetning lögð til grundvallar, sem í fjárlagafrv. var reiknað með. Það er því ekkert um það að villast, að með þessari hækkun á söluskattinum er söluskattsinnheimtan hér á landi orðin gífurlega mikil.

Þetta frv. er, eins og allir hv. alþm. vita, fylgifrv. með þeirri ákvörðun Alþ., sem hér hefur verið tekin um aðild Íslands að EFTA. Því hafði verið lýst yfir við undirbúning EFTA–málsins á sínum tíma, að um leið og lækkaðir yrðu tollar á ýmsum vörum, svonefndum EFTA–vörum, þá yrðu gerðar ráðstafanir til þess að afla ríkissjóði tekna þar á móti með hækkun söluskatts. Ég vil taka það alveg skýrt fram, að þetta kom fram hvað eftir annað við undirbúning EFTA–málsins í svonefndri EFTA–nefnd, þar sem flokkarnir allir höfðu fulltrúa til þess að fylgjast með málinu. Það kom þar m.a. fram hjá hæstv. fjmrh., að afstaða hans til EFTA hlyti að sjálfsögðu að fara eftir því, hvernig færi með tekjur ríkissjóðs. Hann gæti ekki tekið afstöðu með því að lækka tolltekjur ríkissjóðs, eins og leiddi af EFTA–aðild, án þess að um leið yrði gengið frá því, hvaða tekjur kæmu í staðinn. Og það var ekki farið dult með það á neinn hátt, að það, sem í staðinn ætti að koma, væri hækkun á söluskatti. Ég tel því, að allir þeir, ekki aðeins stjórnarflokkarnir, heldur einnig þeir, sem hér eru nú orðnir fulltrúar fyrir nýjan flokk á Alþ. og stóðu að samþykkt þess, að Ísland yrði aðili að EFTA, að þeir beri alveg ótvírætt ábyrgð á hækkun þeirri á söluskattinum, sem hér liggur fyrir. Undan því er ekki hægt að skjóta sér með neinum hætti.

Ég fyrir mitt leyti hef lengi verið á þeirri skoðun, að söluskatturinn væri einn óréttlátasti skatturinn, sem á er lagður á Íslandi. Og því óréttlátari verður hann sem hann er hækkaður meir. Það er vitað, að söluskatturinn er lagður á svo að segja allar vörur og alla þjónustu í landinu með jöfnum þunga, þannig að af öllum nauðsynlegustu vörum verður að greiða jafnhátt gjald og af þeim, sem siður verða að teljast nauðsynlegar. Ég tel því, að slík skattheimta sé miklu óréttlátari en tollainnheimtan hefur verið, þó ég neiti því ekki, að ég sjái á tollainnheimtunni, sérstaklega eins og hún hefur verið, margvislega annmarka og telji, að það þurfi að gera fullkomna endurskoðun á okkar tollalöggjöf. Það er enginn vafi á því, að það er þörf á að lækka ýmsa tolla og gera þar á ýmiss konar samræmingu.

Þá er ekkert um það að villast, að söluskatturinn innheimtist fremur illa. Það er á allra vitorði, að ýmsir aðilar í landinu, sem eiga að innheimta söluskatt af sínum viðskiptamönnum, hafa aðstöðu til þess að skjóta nokkrum hluta af þeim skatti undan og skila honum aldrei í ríkissjóð. Þetta hefur komið greinilega fram í nokkrum tilvikum, þar sem upp hefur komizt um slík skattsvik. Hafa ýmsir hv. alþm., m.a. hæstv. ráðh., stundum gert hér áætlanir um það, hvað þessi undanskot muni nema háum fjárhæðum á ári hverju. Auðvitað er erfitt að segja til um það, en ég fyrir mitt leyti efast ekkert um, að þessi undanskot á söluskatti eru verulega mikil. Það er því skoðun mín, að undir þeim kringumstæðum, sem við búum við nú í dag., sé sérstaklega varhugavert að hækka söluskattinn frá því, sem orðið er.

Það hafa verið gerðar tilraunir til þess á undanförnum árum að koma fram ákvæðum í löggjöf, sem miðuðu að því að tryggja betur, en verið hefur innheimtu á söluskatti. Að þessu sinni flyt ég ásamt tveim fulltrúum Framsfl. brtt. við þetta frv., þar sem m.a. er gert ráð fyrir því, að sett verði í lög ákveðin ákvæði, sem gætu miðað að því að tryggja innheimtu á söluskattinum nokkru betur, en verið hefur. Ég mun ekki ræða þessar till. hér nema mjög lauslega, af því að mælt verður fyrir þeim af 1. flm. till., hv. 4. þm. Reykv., en meginatriðið er það, að þar gerum við till. um tvenns konar öryggisráðstafanir:

1) Að söluskattsskil þeirra, sem innheimta söluskattinn, verði tekin til rækilegrar endurskoðunar hjá ákveðnum hópi þessara aðila hverju sinni, í gegnum úrtak, þannig að það verði rannsakað mjög gaumgæfilega, hvernig innheimtu þeirra á söluskatti hefur verið háttað og söluskattsskilum þeirra. Það er enginn vafi á því, að samþykkt ákvæðis sem þessa mundi veita aðhald og bæta hér nokkuð úr.

2) Að fjmrh. fái heimild til þess að mæla svo fyrir, að settir skuli upp sérstakir peningakassar í öllum opinberum verzlunum, afgreiðslu– og sölustöðum, sem séu þannig útbúnir, að auðvelt sé að stimpla inn í þá öll söluskattsskyld viðskipti og auðvelt sé fyrir eftirlitsmenn fjmrn. að líta eftir því gegnum þetta kassakerfi, að innheimtur söluskattur komi raunverulega til skila. Ég ræði svo ekki frekar um þessar till., en ég tel að það skipti miklu máli að fá þær samþ. til þess að reyna að bæta úr þeim ágöllum, sem eru nú á innheimtu söluskattsins.

Ég vil í sambandi við þetta frv. undirstrika það álit okkar Alþb.–manna, að við teljum, að sú stefna í skattamálum, sem verið hefur ríkjandi á undanförnum áratug, hafi í meginatriðum verið röng. Stefnan á þessu tímabili hefur verið sú að hækka í sífellu söluskattinn, sem er þess vegna svona óhagkvæmur fyrir t.d. láglaunafólk og að bæta í sífellu við ýmsa nefskatta og ýmsa sérskatta, sem alltaf er verið að leggja á í hinum ýmsu tilfellum. Þessi skattlagning öll hefur verið láglaunafólki í landinu mjög óhagkvæm. Hins vegar hafa litlar ráðstafanir verið gerðar til þess að reyna að sjá um það, að þeir, sem sannanlega hafa mestar tekjur og breiðust hafa bökin til þess að bera skattbyrðar í landinu, beri raunverulega skattana. Þessu teljum við að þurfi að breyta í grundvallaratriðum.

Í framsöguræðu hæstv. form. fjhn. og frsm. meiri hl. fjhn. kom fram, að meiri hl. fjhn. treysti á það, að niður yrði felldur eða a.m.k. lækkaður söluskattur á fargjöldum flugfélaga og skipafélaga, vegna þess að þessir aðilar hefðu beðið um lækkun á skattinum. Ég get tekið undir það með hv. form. fjhn., að það getur verið eðlilegt að fella niður söluskattinn í þessum tilvikum eða lækka hann, en ég vil þá jafnframt leggja á það áherzlu, að verði slíkt gert, þá verði um leið gerðar ákveðnar ráðstafanir til þess, að sú lækkun söluskattsins komi ekki aðeins flugfélögunum og skipafélögunum til góða, heldur komi sú lækkun þá fram í lækkuðum fargjöldum til þeirra, sem fargjöldin þurfa að greiða. Það er þegar búið að ákveða fargjöld flugfélaganna innanlands og skipafélaga í mörgum greinum. Verði söluskatturinn á þessari þjónustu lækkaður, þá verður líka jafnframt að gera ráðstafanir til þess að sjá um það, að þessi lækkun á söluskattinum komi þeim til góða, sem raunverulega er ætlazt til. Að því leyti til, sem þessi söluskattur er bein skattlagning á þessum aðilum, þ.e.a.s. á flugfélögum og skipafélögum, þá vorkenni ég þeim ekkert meira, en hverjum öðrum, sem skatta þurfa að greiða í landinu. En hitt játa ég, að það getur verið hæpið að leggja söluskatt á þjónustu þessara fyrirtækja, ef það verður í fullu ósamræmi við það, sem gert er í okkar nágrannalöndum.

Ég skal svo ekki fara öllu fleiri orðum um málið hér. Afstaða okkar Alþb.–manna til þessa máls er alveg ljós. Við erum á móti þessu frv., því hér er um verulegar nýjar álögur að ræða. Það er viðurkennt, að gert er nú ráð fyrir slíkri hækkun á söluskattinum, að hún verður allverulega miklu meiri en sem nemur tollalækkuninni, sem hér er gert ráð fyrir að samþ. Við erum því andvígir þessari auka tekjuöflun og við erum andvígir þeirri stefnu, sem fram kemur í því að hækka söluskattinn í staðinn fyrir þá lækkun á tollunum, sem fylgdi í kjölfar EFTA–aðildar. En þrátt fyrir að það sé meginstefna okkar að vilja fella frv. af þessum ástæðum, þá viljum við þó gera tilraunir til þess að fá ýmis ákvæði frv. lagfærð nokkuð og koma hér inn, eins og ég segi, nokkrum öryggisákvæðum í sambandi við innheimtu á söluskattinum. En það breytir ekki okkar heildarafstöðu til málsins, þ.e. að við erum andvígir þeirri hækkun á söluskattinum, sem hér er um að ræða.

Að öðru leyti stend ég svo einnig að þeirri brtt. á þskj. 276 með tveim fulltrúum Framsfl., sem fjallar um það að undanþiggja margvíslegan neyzluvarning og nauðsynjaþjónustu söluskattinum.