17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (2774)

211. mál, siglingalög

Flm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Á þskj. 533 flyt ég ásamt hv. 2. þm. Vestf. frv. til l. um breyt. á siglingal. nr. 66 31, des. 1963. Breyt. þessi er við 199. gr. siglingal. um, að þar komi ný málsgr., er þm. hafa fyrir framan sig. Ástæðan fyrir því, að við hv. þm., Matthías Bjarnason, berum fram þetta frv. ér sú, að í maí 1968 skipaði sjútvmrh. nefnd manna til þess að gera till. um lækkun á gjöldum Tryggingasjóðs fiskiskipa og reyna að færa það nokkuð til samræmis, og m.a. var tekið fram, að n. endurskoðaði reglur um björgunarlaun og björgunaraðstoð. Í þessari n. áttu sæti Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur, sem var formaður, og hann er einnig forstjóri tryggingasjóðsins, Bjarni Bragi Jónsson hagfræðingur, sem var tilnefndur af Efnahagsstofnuninni, Baldvin Einarsson forstjóri, tilnefndur af Sambandi ísl. tryggingafélaga, Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands, Matthías Bjarnason alþm., stjórnarformaður Samábyrgðar Íslands og Sverrir Júlíusson alþm., tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna.

Verkefni þessarar n. var það að finna leiðir til lækkunar á útgjöldum Tryggingasjóðs, en mjög var komið í mikið óefni í þessu máli. Það leit út fyrir, að tryggingaiðgjöld endurtrygginga mundu hækka um 50–100%, og vann þessi n., mér er óhætt að segja, mikið og gott starf. Allar till. hennar eru komnar til framkvæmda að meira eða minna leyti í gegnum samninga við tryggingafélögin og tilfærslu og hagræðingu, sem tryggingafélögin hafa gert, nema ein till., sem var send hæstv. sjútvmrh. hinn 15. nóvember 1968, en n. var sammála um að gera till. um breyt. á siglingal., og er hún samhljóða því frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil taka það fram, að þær till., sem þessi n. gerði, gengu allar í þá átt að skerða tryggingaskilmála fyrir skipaeigendur, og var gengið nokkuð á þá. Einnig hefur verið tekið upp sterkara eftirlit og stífari samningar gerðir við tryggingafélögin með samtryggingu allrar endurtryggingar á skipum yfir 100 rúmlestir, en samkv. l. eru skip undir 100 rúmlestum öll tryggð hjá Samábyrgð Íslands.

Ástæðan fyrir því, eins og ég sagði áðan, að við Matthías Bjarnason berum fram þetta frv., er sú, að við þekktum þetta mál og vissum, að þarna kreppir að, en sjútvmrn. hefur ekki borið till. fram sem frv., en eins og segir í grg., var gengið út frá því, að þetta yrði stjfrv., og er búið að ræða mikið um það við rétta aðila. Þetta hefur dregizt, en það skal tekið fram, að frv. er flutt með fullri vitund og vilja sjútvmrh.

Það, sem hér er um að ræða, er mjög hliðstætt þeim reglum og skyldum, sem í gildi eru um björgun eða aðstoð, sem bátar undir 100 rúmlestum eru skyldaðir til að veita bátum, sem eru í sama tryggingafélagi, þ.e.a.s. í Samábyrgð Íslands, og fá þeir ekki greiðslur fyrir aðstoð nema í samræmi við kostnað, er þeir hafa orðið fyrir og beinu tjóni, en ekki sé föst regla, að um björgun væri að ræða. Á undanförnum árum hefur ýmislegt verið gert til þess að draga úr þessum kostnaði, en það sýndi sig, einmitt þegar við vorum að athuga þessi mál, að útgjöld tryggingafélaganna fyrir björgun og veitta dráttaraðstoð o.þ.h. námu milli 15–16% af útgjöldum tryggingafélaganna. Við ætlum okkur ekki þá dul, að þetta frv. breyti öllu í sambandi við það. Ef til vill er það bjartsýni, ef við göngum út frá því, að þetta mundi lækka aðstoðar- og björgunarkostnað um 5–6%. Vissulega nemur það háum fjárhæðum og kemur sér vel fyrir tryggingasjóðinn í framtíðinni, vegna þess að hann berst alltaf í bökkum og er févana. Hann hefur fasta tekju stofna, en þó er það svo, að hann er í dag um 6 mánuði á eftir með greiðslur og hefur verið

þetta frá 6 og upp í 8 mánuði á eftir með sínar greiðslur. Hér er um að ræða að setja nokkrar kvaðir á skipaeigendur í sambandi við björgun. Það eru ekki eingöngu mannúðarmálin, sem við túlkum, heldur er þarna um lagaskyldu að ræða, sem sett yrði, og ég vil undirstrika það, að þetta er mjög í samræmi við það, sem skip, er hafa verið tryggð hjá Samábyrgð Íslands allt frá 1938, hafa orðið að hlíta.

Þetta mál var mjög rækilega athugað af þessari n., sem ég minntist á áðan, og var leitað umsagnar og álits hjá Magnúsi Torfasyni prófessor um þetta atriði. Það hafa stundum verið vangaveltur um, að þetta gæti jafnvel brotið í bága við alþjóðalög, en ég ætla ekki að fara að tefja þingheim með því að fara að lýsa þessari álitsgjörð. Hin endanlega frvgr. er samin af prófessor Magnúsi Torfasyni, og eins og menn sjá, þá er þar gert ráð fyrir, að ef um sannanlega björgun sé að ræða, þá eigi viðkomandi aðili að fá greiðslu fyrir það sem björgun, en þetta gæti leitt til þess, ef að l. verður, að aðstoð tryggingafélaganna mundi lækka, og þar af leiðandi mundi tryggingasjóður standa betur að vígi í samningum um iðgjöldin fyrir næsta ár. Það skal tekið fram, að búið er að ganga frá samningum um þessi atriði fyrir yfirstandandi ár, og þess vegna mundi það ekki fara að verka, fyrr en samningar verða teknir upp aftur fyrir árið 1971, en það væri mikils virði, að hv. n., sem fær þetta frv. til umsagnar, afgreiddi þetta frv. ef mögulegt væri á þessu þingi, vegna þess að þótt það mundi ekki ráða úrslitum, að það yrði ekki samþykkt núna, en yrði borið fram aftur á næsta þingi, þá er það nauðsyn, að þeir, sem semja um iðgjaldagreiðsluna og ákveða iðgjöldin, viti um þennan þátt málsins, og þá mundi það geta orkað til lækkunar á útgjöldum og koma útvegnum þar af leiðandi til góða og tryggingasjóðnum, sem eins og ég sagði áðan, berst ávallt í bökkum.

Vissulega getur það legið fyrir, áður en langt um líður, að nauðsynlegt verði að leita eftir frekari tekjum fyrir hann, en það liggur ekki fyrir nú. Þetta er viðleitni til þess að draga úr þeim útgjöldum, og þótt það hafi nú dregizt svo lengi hjá hæstv. sjútvn. að koma því á framfæri, mér til mikilla vonbrigða, þá vona ég, að hv. d. taki þessu vel og afgreiði þetta á þessu þingi, svo framarlega sem nokkur kostur er.

Ég vil að svo mæltu, herra forseti, leggja til, að frv. verði vísað til sjútvn. og til 2. umr.