17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (2776)

211. mál, siglingalög

Flm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. gerði hér smáathugasemd. Það er ekki nema sjálfsagt að reyna að svara henni. Ég verð að segja það, að mér datt í hug, þegar hann talaði, að það væri hið lögfræðilega sjónarmið, sem þar kæmi fram, það er ekki mannúðarsjónarmiðið, sem fyrst er verið að tala um. Hann talaði ekki um bað, en varðandi björgunarlaunin, þá segir svo í frv.: „Reglur þessar gilda þó eigi, ef skipi er bjargað úr stórkostlegri neyð.“ Hvað stórkostleg neyð er, skýrir frv. sjálft nánar þannig, að það sé, þegar allar líkur eru til þess að skipið hefði annars farizt eða eyðilagzt að miklu leyti. Er nokkuð nánar vikið að þessu í grg. með drögum frv. 20/11 1968, er sent var rn. Mjög er hæpið, að heppilegt sé að draga þessi mörk, eins og hér er gert. Það er alveg rétt, er hann telur, að þarna sé gengið nokkuð lengra heldur en tíðkast, og það gæti verið vafamál, hvort það stangist ekki nokkuð á við alþjóðalög, en sé svo, þá hefur það ákvæði, sem í gildi hefur verið hjá Samábyrgðinni síðan 1938, gert það öll þessi ár, og það þarf að fara með varfærni og ganga ekki á eignarrétt eða þann rétt, sem aðilar geta átt í þessum efnum, en ég held, að einmitt með þeirri gegnumlýsingu, sem gerð var við samningu þessarar frvgr., sérstaklega af prófessor Magnúsi Torfasyni, þegar hann samdi hana, þá sé reynt að sigla sem næst því, sem við getum forsvarað, og við verðum að vona, að þegar um landa okkar er að ræða, þá sé ekki fyrst og eingöngu hugsað um pyngjuna, heldur verði mannúðarsjónarmið látið ráða.