27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

126. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Mér finnst rétt að víkja að því í upphafi, að fram að þessu hefur öll skattlagning byggzt á einni meginreglu. Hún hefur byggzt á þeirri meginreglu að hlífa þeim, sem lægst hafa launin og þyngsta framfærsluna. Í samræmi við það var skattlagningin áður fyrr fyrst og fremst byggð á fasteignum og náði því eingöngu til þeirra, sem voru eignamenn í þjóðfélaginu og þeir voru þá tiltölulega fámennur hópur. Síðar voru tekin upp útsvör, tekjuskattar og tollar, sem öll byggjast á þessu meginsjónarmiði, að leggjast þyngst á þá, sem breiðust hafa bökin, en hlífa hinum, sem minni hafa getuna.

Tekjuskattar og útsvör eru stighækkandi eftir því, hve háar tekjurnar eru og þeir, sem þessa skatta eiga að bera, þola þá. Á sama hátt hafa tollar verið mismunandi eftir því, hversu nauðsynlegar þær vörur hafa verið taldar, sem þeir hafa verið lagðir á. Það hefur verið leitazt við því að hlífa sem mest við tollum öllum þeim vörum, sem taldar eru mestu lífsnauðsynjar almennings.

Það er því ekki fjarri lagi, sem sagt hefur verið um þetta frv., að það marki byltingu í skattamálum, vegna þess að hér er lagt til að fella niður tolla í allstórum stíl, sem hingað til hafa lagzt mishátt á vörur eftir því, hvað nauðsynlegar þær hafa verið taldar, en í staðinn er tekinn upp söluskattur, sem leggst jafnt á allar vörur, ekki síður á þær, sem taldar eru nauðsynlegastar, heldur en hinar, sem má telja óþarfastar.

Það hefur verið vitnað til þess í þessu sambandi, að í ýmsum öðrum löndum, t.d. á Norðurlöndum, hafi söluskattur verið hækkaður á undanförnum árum og það af ríkisstj., sem hafa stuðzt við verkalýðssamtök. Þetta er rétt. En þegar slík hækkun á söluskatti hefur átt sér stað, þá hefur þess jafnan verið gætt að gera ýmsar hliðarráðstafanir og aðgerðir, sem yrðu þess valdandi, að skattarnir legðust ekki með eins miklum þunga á þá, sem hafa veikasta aðstöðu í þjóðfélaginu, eins og hina, sem hafa hin breiðari bökin. Þetta hefur verið gert með því, að alls konar tryggingar hafa verið stórauknar í þessum löndum og yfirleitt eru slíkir skattar ekki í þeim löndum, nema þar sem tryggingakerfið er miklu fullkomnara en hér. Þess hefur jafnframt verið gætt í þeim löndum, sem slíkir skattar hafa verið lagðir á, –en þar á ég fyrst og fremst við Norðurlöndin, því helzt hefur verið vitnað til þeirra, — að fylgja þeirri stefnu í verðlags– og kaupgjaldsmálum, að verðlagið hækkaði alltaf heldur minna en kaupgjaldið, þannig að um raunverulegar kauphækkanir væri að ræða og þá sérstaklega hjá þeim, sem hafa haft lökust kjörin fyrir. Í þessum löndum hefur sem sagt verið fylgt allt annarri stefnu í kaupgjalds– og verðlagsmálum en hér, eins og ég mun víkja nánar að síðar.

Hér er hins vegar, í sambandi við þetta frv., um engar slíkar aðgerðir að ræða, nema það, sem nú var lýst yfir af hv. frsm. meiri hl., að ætlunin er að fella niður söluskattinn af neyzlufiski og svo það, sem hæstv. ráðh. tilkynnti við 1. umr. þessa máls, að ætlun ríkisstj. er að greiða niður söluskattshækkunina, sem nú er ráðgerð, á dilkakjöti og smjöri. Aðrar hliðarráðstafanir á ekki að gera í þessu sambandi. Og það á ekki heldur að gera neitt til þess að tryggja það, sem annars staðar hefur verið lögð megináherzla á, þar sem söluskattinum er beitt, að stefnunni í verðlags– og kaupgjaldsmálum verði hagað þannig, að kaupgjaldið hækki alltaf heldur meira en verðlagið. En það, sem hefur einkennt efnahagsstefnuna t.d. á Norðurlöndum, seinasta áratuginn, er það, að þar hefur kaupgjaldið ár frá ári hækkað tiltölulega meira en verðlagið.

Hér hefur alveg gagnstæð þróun átt sér stað, eins og ég mun víkja nánar að. Og það er náttúrlega meginmunur undir þessum kringumstæðum, þegar söluskattar eru hækkaðir, hvaða stefna er ríkjandi í verðlags– og kaupgjaldsmálum, hvort sú stefna er ríkjandi, eins og hér hefur átt sér stað, að láta verðlagið hækka meira en kaupgjaldið, eða öfugt, eins og Norðurlandaþjóðirnar hafa gert.

Mér finnst rétt að vekja strax athygli á þessu, þegar ég hef mál mitt, vegna þess að hér er um svo stórfellda megin breytingu að ræða í skattamálum og það því frekar sem það er boðað í grg. tollskrárfrv., sem hefur verið þessu frv. samferða í þinginu, að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í þá átt að afnema aðflutningstolla með öllu. Það er ekkert talað um það, hvað þá eigi að koma í staðinn. En af þessu frv. virðist mega ætla, að það sé söluskattur fyrst og fremst, sem eigi að koma í staðinn fyrir aðflutningstollana, sem hafa lagzt mismunandi á vörur eftir því, hvað nauðsynlegar þær hafa verið taldar og í staðinn fyrir þá á svo að koma söluskattur, sem leggst jafnt á allar vörur.

Þetta er sú meginbreyting, sem menn verða að gera sér vel ljósa, þegar þeir eru að afgr. þetta frv. Og ef það fer svo, að þetta frv. verður samþ., án þess að nokkrar hliðarráðstafanir séu gerðar jafnhliða, þá er hér verið að marka alveg nýja stefnu í skattamálum, þá stefnu, sem réttilega hefur verið nefnd „bylting í skattamálum“.

Við, sem myndum 2. minni hl. fjhn., höfum borið hér fram á sérstöku þskj. nokkrar till., sem eiga að miða í þá átt að draga úr nokkrum mestu rangindunum, sem leiðir af því, ef þetta frv. verður samþ. óbreytt.

Við leggjum til í fyrsta lagi, að felldur verði alveg niður söluskattur á nokkrum lífsnauðsynjum eða eins og brtt. á þskj. 276 bera með sér, þá er lagt til, að söluskattur falli alveg niður á raforku og heitu vatni frá rafmagnsveitum og hitaveitum. Þá er ennfremur lagt til, að söluskattur falli alveg niður á smjöri, osti, skyri, kjöti og kjötvörum, kartöflum og fiskmeti, enn fremur að kaffi, sykur og kornvörur verði undanþegnar söluskatti og einnig olía til heimilisnota. Hér er um að ræða nokkrar brýnustu nauðsynjar, sem allir þurfa að nota og ef þessar vörur væru undanþegnar 11% söluskatti, þá mundi það hafa verulega verðlækkun þeirra í för með sér og draga úr mestu rangindunum, sem af því mundu hljótast, ef samþ. væri söluskattshækkun, sem legðist jafnt á allar vörur.

Í öðru lagi leggjum við til, að meðan innheimtur sé 11% söluskattur, þá verði fjölskyldubætur hækkaðar um 20% frá því, sem ákveðið var við seinustu fjárlagaafgreiðslu, en það mun nema útgjaldaaukningu fyrir ríkið um 70–75 millj. kr. Þetta ætti að hækka þær allverulega og þá sérstaklega verða þeim til hagsbóta, sem hafa stærstu fjölskyldurnar og þyngst framfæri. Almenn hækkun á söluskatti mundi því ekki bitna eins hart á þeim og ella.

Í þriðja lagi leggjum við svo til, að gerðar verði ráðstafanir til þess að bæta stórlega innheimtuna á söluskatti, í fyrsta lagi með því, eins og kemur fram í brtt. við 18. gr. söluskattslaganna, að fjmrh. herði stórlega eftirlit með innheimtu söluskattsins og í öðru lagi fái hann heimild til þess að taka upp innheimtuaðferð, sem hefur verið reynd víða annars staðar og að því mér er sagt með góðum árangri. Við viljum hins vegar ekki alveg lögbinda það að þessu sinni, hvort þessi aðferð verður tekin hér upp eða ekki, vegna þess að á henni þarf að sjálfsögðu meiri rannsókn, miðað við íslenzkar aðstæður. En til þess er að sjálfsögðu ætlazt, að ráðh. kynni sér þessa aðferð og hafi heimild til þess að taka hana upp, ef honum sýnist svo við nánari athugun. En mér er sagt, að t.d. í Danmörku, Bandaríkjunum og víða annars staðar sé þessari aðferð beitt við innheimtuna og hafi þar gefið góða raun, þannig að söluskattur hafi skilað sér miklu betur eftir en áður, þegar búið var að taka þessa aðferð upp.

Við, sem stöndum að þessum brtt., teljum einnig nauðsynlegt og réttmætt, að samhliða því, sem þessar breytingar verði samþ. á söluskattsfrv., þá verði einnig samþ. það frv., sem liggur fyrir Alþ. um leiðréttingu á skattvísitölunni. Sú leiðrétting mundi hafa í för með sér verulegar kjarabætur fyrir langflesta launþega, sem ekki hafa neina aðstöðu til þess að telja fram með þeim hætti, að þeir sleppi undan þeim sköttum, sem þeim ber. Ég skal að þessu sinni sleppa því að nefna tölur um það, hvað mikill ávinningur mundi verða af þessu fyrir t.d. fólk, sem hefur lágar tekjur eða meðaltekjur, af því það verður hægt síðar, þegar þetta mál kemur hér til umr., en þær tölur, sem ég hef hér undir höndum um þetta, sýna, að hér mundi verða um verulegar hagsbætur að ræða fyrir þá, sem hafa lágar tekjur og miðlungstekjur. Hins vegar mundi ágóðinn hlutfallslega minnka með þessu hjá þeim, sem hafa háar tekjur, vegna þess að eftir að tekjurnar eru komnar upp í ákveðið mark, þá leggst að sjálfsögðu sami skattur og sama útsvar á þær eftir sem áður. Þannig nær hagnaðurinn af breytingu á skattvísitölunni aðeins til tekna upp að vissu marki, en ekki meira. Það er því rangt, sem haldið hefur verið fram, að lagfæring á skattvísitölunni yrði til þess að bæta sérstaklega hlut hátekjumanna. Þetta veit ég að hæstv. fjmrh. er sérstaklega kunnugt, því hann mun hafa verið fyrsti maðurinn, ásamt öðrum hv. núverandi ráðh., sem flutti till. um það hér á Alþ. að taka upp skattvísitölu með þeim hætti að miða hana við framfærsluvísitölu, eins og lagt er til í því frv., sem ég vitnaði til áðan. Þannig ætti það ekki að vera annað, en ánægjulegt starf fyrir hæstv. ráðh. að koma þessari gömlu æsku hugsjón sinni fram með því að styðja þetta frv. okkar. En ef þær ráðstafanir, sem ég hef hér nefnt, væru framkvæmdar jafnhliða þessari hækkun söluskattsins, þá mundi staða þeirra, sem hafa erfiðasta aðstöðuna, vera talsvert mikið bætt, miðað við það, að frv. yrði samþ. óbreytt og þar með dregið úr verstu ágöllunum á þessu frv, þó að sjálfsögðu væri æskilegt að gera á því frekari og víðtækari breytingar, en hér hefur verið lagt til.

Ég vil svo enn fremur benda á það, að þær breytingar, sem hér er lagt til að gerðar verði á frv., eru mjög mikilvægar fyrir landbúnaðinn, sökum þess að á undanförnum missirum hefur dregið æði mikið úr sölu á ýmsum landbúnaðarvörum, því að verðið á þeim er orðið of hátt, miðað við þá markaðs möguleika, sem eru fyrir hendi. Sú þróun hefur nefnilega átt sér stað í þessum efnum, að á sama tíma og verðlagið á þessum vörum hefur hækkað, þá hefur kaupgetan í bæjunum minnkað og þess vegna hefur salan á þessum afurðum, eins og t.d. kjöti, dregizt verulega saman. Það væri þess vegna líklegt til þess, að salan á þessum vörum ykist nokkuð, ef söluskattur á þeim yrði alveg felldur niður. Því ætti það að geta orðið bæði neytendum og bændum til gagns að þessi breyting yrði gerð, þ.e.a.s. að fella alveg niður söluskattinn á landbúnaðarvörunum.

Ég býst við, að hæstv. ráðh. muni nú segja um þessar brtt., vegna þess að hann er nú oft sléttur og mjúkur í máli, – og ber að viðurkenna hann fyrir það, – að það væri nú sjálfsagt að fallast á að gera þetta og alveg réttmætt, bara ef ríkið hefði efni á því. En ég held, að ef ráðh. íhugar þessi mál nánar, þá geti hann gert sér það fullkomlega ljóst, að ríkið hefur efni á því að gera þessar ráðstafanir. Að því er nokkuð vikið í því nál. 2. minni hl., sem nýlega hefur verið útbýtt hér í d. Eftir því sem ráðh. hefur sjálfur reiknað út, mun tollalækkunin ekki hafa í för með sér tekjurýrnun fyrir ríkið nema sem nemur eitthvað í kringum 410 millj. kr. Það var að vísu sett upp þannig áætlun í hans ræðu, þegar hann fylgdi frv. hér úr hlaði, að tollalækkunin mundi kosta ríkið 535 millj. kr. En svo dró hæstv. ráðh. á eftir frá ýmsa liði, sem hann reiknaði samtals á 125 millj. kr., þannig að hann fékk ekki út sem heildartekjurýrnun hjá ríkinu nema 410 millj. kr. Við þetta hefur að vísu bætzt það, að samþ. hafa verið nokkru meiri tollalækkanir við meðferð frv. hér í Nd., en þó vart meira en svo, að þær jafni það upp. Þessi áætlun ráðh. var mannleg, þannig að ég reikna með, að þrátt fyrir breyt. á tollskrárfrv. verði tekjumissir ríkisins vegna þess frv. ekki mikið yfir 400 millj. kr.

Aftur á móti mun sú hækkun, sem er ráðgerð á söluskattinum í þessu frv., gefa ríkinu miklu meiri tekjur, en sem þessu nemur. Samkvæmt áætlun ráðh. sjálfs eða þeirra, sem hafa unnið að þessari áætlunargerð fyrir hann, eiga tekjur ríkissjóðs af söluskattshækkuninni á þessu ári að nema 665 millj. kr., en þá er aðeins miðað við innheimtu hans fyrir 10 mánuði ársins. Ef hins vegar er miðað við allt árið, þá er reiknað með, að hagnaður ríkisins af þessari söluskatts hækkun verði um 780 millj. kr.

Nú vill ráðh. halda því fram, að ríkissjóði veiti ekki af þessum tekjumismun, sem er á söluskattshækkuninni og tollalækkuninni og nemur sennilega 250 millj. kr., vegna ýmissa útgjalda, sem voru samþ. fyrr í umr. fjárlaganna. Ég held, að þetta sé alveg rangt reiknað hjá ráðh. og fengið með þeim hætti, að svo að segja allir tekjuliðir fjárl. eru áætlaðir lægri en ástæða er til og búast má við. Tekjuáætlun fjárl. 1970 er að mestu leyti byggð á útkomunni á þessu ári, að vísu með nokkurri hækkun, en allar líkur benda til þess, að árið 1970 verði það miklu meira veltuár en árið 1969 var, að það væri óhætt að hafa þessa tekjuáætlun fjárl. miklu ríflegri, en þar er gert. Þetta kemur líka heim við reynslu undanfarinna ára, því ef við lítum á fjárl. annars vegar og ríkisreikningana hins vegar, þá kemur í ljós, að tekjurnar hafa á öllum undanförnum árum, eða síðan hæstv. núverandi fjmrh. tók við, farið mjög verulega fram úr áætlun. Á árinu 1966 fóru tekjurnar t.d. um 884 millj. kr. fram úr áætlun, árið 1967 427 millj. kr. og árið 1968 um 500 millj. kr. og mér er sagt, að þær muni hafa farið eitthvað svipað fram úr áætlun á s.l. ári. Þetta sýnir, að tekjuáætlun fjárl. hefur alltaf verið og er enn mjög varfærnisleg og þess vegna getur ríkið bætt verulegum útgjöldum við sig umfram það, sem fjárl. gera ráð fyrir. Ég held, að þetta sé mjög vafasöm stefna og það hafi vafasöm áhrif á ríkisfjárhaginn að áætla tekjubálk fjárl. alltaf lægri, en ástæða er til. Það verður til þess, að fjmrh. hefur alltaf handa á milli svo og svo mikið af peningum umfram hin lögboðnu útgjöld, og þetta verður til þess, að hann freistast til þess að eyða þeim í ýmis aukin útgjöld, sem ella væru spöruð. Ég er þess vegna sannfærður um, að það mundi hafa heppilegri áhrif á ríkisreksturinn, ef tekjuáætlunin væri höfð nákvæmari og réttari og fjmrh. hefði minna svigrúm til þess að eyða umfram fjárl. heldur en hann hefur nú, vegna þess hve umframtekjurnar verða alltaf miklar

Þetta er atriði, sem varðar þetta mál ekki sérstaklega, en ástæða er til að athuga nánar við annað tækifæri. En það, sem ég hef nú rakið, sýnir það fullkomlega, að ríkinu er vel fært að standa undir þeirri útgjaldaaukningu, sem leiðir af þeim till., sem við þrír alþm. flytjum hér á þskj. 276. En eins og rakið er í nál. okkar í 2. minni hl., þá munu þessar ráðstafanir ekki hafa meiri útgjöld í för með sér á árinu 1970 en í kringum 300 millj. kr. Þá er að sjálfsögðu miðað við það, að mest af þessum útgjöldum, t.d. niðurfellingin á söluskattinum, gildi ekki nema 10 mánuði ársins, alveg eins og það er heldur ekki reiknað með, að hækkun söluskattsins gildi nema 10 mánuði ársins. Við þetta má svo bæta því, að ef eftirlitið með söluskatts innheimtunni er hert og teknar upp nýjar aðferðir, eins og bent er á í þessu frv., þá má búast við því, að tekjur ríkisins geti vaxið verulega af þeirri ástæðu. Og það mundi stuðla að því, að hæstv. ráðh. þyrfti ekki á neinn hátt að kvíða greiðsluhalla hjá ríkinu, þó í þær aðgerðir væri ráðizt, sem þessar till. gera ráð fyrir.

Ég skal þá í stuttu máli minnast á þann ávinning, sem ég tel að fylgi till., sem við flytjum á þskj. 276. Ég hef þegar vikið að þeim kosti, að þetta mundi verða til þess að draga verulega úr þeim rangindum, sem í því fælust fyrir láglaunastéttirnar, ef söluskattur hækkaði jafnt á öllum vörum. Með því að undan þiggja helztu neyzluvörurnar söluskatti og auka fjölskyldubæturnar er mjög verulega dregið úr þessum rangindum og aðstaða þessara aðila bætt.

Í öðru lagi vil ég svo nefna það, að með því að lækka þannig verðlag og auka fjölskyldubætur, þá er komið í veg fyrir a.m.k. 3 stiga hækkun á framfærsluvísitölunni. Og það út af fyrir sig yrði mikilvægt atriði bæði fyrir launþega og fyrir atvinnuvegina í landinu. Það er tiltölulega lítilvægt fyrir launþega að fá þær bætur, sem fylgja framfærsluvísitölunni, þó þær séu betri en ekki neitt og þeir mega ekki undir neinum kringumstæðum afsala sér þeim, því reynslan hefur verið sú, að þessar bætur hafa verið teknar nokkurn veginn jafnharðan af þeim aftur með hækkuðu verðlagi og þannig hefur þetta gengið koll af kolli, að ýmist verðlagið eða kaupgjaldið hækkar, án þess að aðstaða launþeganna hafi nokkuð batnað, en hins vegar hefur þetta óneitanlega þrengt aðstöðu atvinnuveganna. Með því að fá þá verðlækkun og þær fjölskyldubætur, sem felast í þessu frv., er hlutur launþeganna áreiðanlega miklu betur tryggður en með einhverri hækkun á vísitölustigum og fyrir atvinnuvegina er þetta miklu heppilegra.

Talið er, að hvert stig vísitölunnar hafi í för með sér útgjaldaaukningu fyrir atvinnurekstur í landinu — þá er ríkisreksturinn meðtalinn — sem nemur um 110 millj. kr. á ári. Og þá sjá menn, að hér myndast nokkuð fljótt verulegir baggar, sem atvinnuvegirnir verða að bera, ef vöxtur framfærsluvísitölunnar er mjög hraður. Það er líka ljóst, að ef tekst að stöðva vöxt framfærslukostnaðarins með eðlilegum hætti og þeirra hækkana, sem af honum leiðir fyrir atvinnuvegina, þá geta atvinnuvegirnir betur staðið undir gengishækkunum og þær miklu frekar orðið raunverulegar, á sama hátt og átt hefur sér stað í öðrum löndum, en aldrei hefur orðið hér.

Mér finnst sérstök ástæða til þess að gera það að umtalsefni, að hér er stefnt í þá átt að færa niður verðlagið og stöðva vöxt framleiðslukostnaðarins á þann hátt, vegna þess að það er alger stefnubreyting frá því, sem ríkt hefur í þessum málum á undanförnum árum. Hæstv. viðskrh. hefur stundum verið að hafa orð á því, að hér á landi væri fylgt nákvæmlega sömu stefnu í efnahagsmálum, atvinnumálum og fjármálum og gert er annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er sú mesta missögn, sem hægt er að hafa yfir, svo að ekki séu notuð sterkari orð um þetta. Annars staðar á Norðurlöndum hefur þeirri stefnu verið fylgt að reyna með öllum hætti að halda verðlaginu sem mest niðri og tryggja það, að þær grunnkaupshækkanir, sem átt hafa sér stað, yrðu raunverulegar. Niðurstaðan hefur líka orðið sú, að á seinasta áratug hefur raunverulegur kaupmáttur launa þar aukizt um 30—40%, þá er átt við kaupmátt tímakaupsins. Hér á landi hefur verið fylgt alveg öfugri stefnu. Hér hefur nær ekkert verið hirt um það, hvað verðlagið vex mikið og þó það geri hverja kauphækkunina, sem launþegar fá, að engu á stuttum tíma og meira en það. Hér hefur líka niðurstaðan orðið sú, að á seinasta áratug hefur orðið allt önnur útkoma en í nokkru öðru Evrópulandi, sú útkoma, að kaupmáttur tímakaupsins er í dag verulega minni en hann var fyrir 10 árum. Þetta er hægt að sanna með ákaflega auðveldum samanburði á því t.d., hvaða hækkun hefur orðið á helztu lífsnauðsynjum almennings og hver hækkunin hefur orðið á tímakaupi verkamanna. Ég held að það sé næstum því sama, hvaða lífsnauðsyn er tekin og reiknuð út, því niðurstaðan verður alltaf sú, að verkamenn og launþegar yfirleitt þurfa lengri tíma til þess að vinna fyrir þessum lífsnauðsynjavörum heldur en fyrir 10 árum. Ég held að það sé næstum útilokað að finna nokkurt dæmi um slíkt annars staðar á Norðurlöndum. Þetta sýnir það ljósar en nokkuð annað, hve gerólíkri stefnu hefur verið fylgt hér á landi og í nágrannalöndum okkar.

Annað sýnir þetta ekki síður ljóslega. Hér á landi hefur gengið verið fellt fjórum sinnum á seinasta áratug. Í Noregi hefur engin gengisfelling átt sér stað á þessum tíma, engin í Svíþjóð og aðeins ein í Danmörku, þegar gengið var lækkað um 8%. Þessar staðreyndir tala sínu máli um það, hve gerólíkri efnahagsstefnu hefur verið fylgt hér á landi og í nágrannalöndum okkar og hvílík fjarstæða það er, þegar hæstv. viðskrh. heldur því fram, að hann hafi fylgt sömu stefnunni og flokksbræður hans hafa gert á Norðurlöndum. Þar hefur verið um gerólíkar aðferðir að ræða og árangurinn eða niðurstaðan líka verið eftir því. Hér hefur ekkert verið um það hirt, þó verðlagið hækkaði takmarkalaust og þær kauphækkanir, sem verkalýðurinn hefur tryggt sér, yrðu þar með að engu og oft verra en það, en í hinum löndunum hefur verið stefnt að því að halda verðlaginu þar í skefjum og að kaupmáttur launanna ykist alltaf nokkuð jafnt og þétt, þó ekki væri um mikla aukningu að ræða árlega.

Þessi stefna hefur að sjálfsögðu haft áhrif á ríkisreksturinn. Útgjöld ríkisins hafa vaxið hér vegna þessarar stefnu með meiri hraða en dæmi eru til um annars staðar. Ég sé, að fjmrh. hristir höfuðið, en það er ákaflega auðvelt að finna sönnun fyrir þessu. Við höfum t.d. séð það með því að fara í gegnum ríkisreikninga Norðurlandanna og Íslands á undanförnum árum, en til þess er ekki aðstaða nú. En ég veit, að hæstv. fjmrh. ber ekki nema takmarkaða ábyrgð á þessu. Það hefur atvikazt þannig, að bæði fjmrh. og forsrh. hafa að verulegu leyti sleppt því að hafa áhrif á það hver efnahagsstefnan í landinu er og látið efnahagsmrh. og sérfræðingum hans eftir að marka stefnuna. Fjmrh. hefur yfirleitt ekki gegnt öðru hlutverki, en því að safna peningum í kassann með miklum og nýjum álögum og ekkert skipt sér af því, af hvaða ástæðum þessi mikla útgjaldaaukning ætti sér stað. Hann hefur bara verið ánægður, ef hann hefur fengið aðstöðu til að hækka skattana og fá nóga peninga til að mæta útgjöldum. Þá er hann áhyggjulaus. Því miður hefur ráðh. aldrei hugsað út í það, hvort það eru ekki til einhverjar leiðir til þess að koma í veg fyrir, að það þurfi alltaf að vera að hækka skattana og alltaf að hækka útgjöldin. Það hefur hann því miður ekki gert og það hefur forsrh. enn síður gert, þótt þetta heyri að sjálfsögðu meira undir hann en nokkurn annan, vegna þess að hann hefur afsalað sér öllum rn. til þess að geta fylgzt betur með þessum málum en ella. En hann hefur trúað á sinn efnahagsmrh. og þá vitringa, sem hann hefur haft sér til aðstoðar og útkoman úr þessu er sú, sem ég hef verið að lýsa, gerólík þeirri, sem blasir við annars staðar á Norðurlöndum, vegna þess að hér hefur allt annarri stefnu verið fylgt.

Þeir menn, sem mótað hafa efnahagsstefnuna hér á landi, hafa trúað því, að það gerði ekkert til, þó að verðlagið hækkaði og léki lausum hala og þó ekkert væri gert til þess að hafa hemil á verðbólgunni. Þeir hafa haldið að það mætti lækna þetta, eins og einu sinni var sagt, með einu pennastriki, eða t.d. gengisfellingu. Og þeirri aðferð hafa þeir líka ótrauðir beitt. Hér hefur það þess vegna gerzt, sem er óþekkt annars staðar í Evrópu á sama tíma, að gengið hefur verið fellt fjórum sinnum á 10 árum. Þetta hefur haft þær afleiðingar í för með sér, eins og ég er búinn að lýsa, hvað snertir kjör launastéttanna, að kaupmáttur launanna hefur minnkað hér, á sama tíma og hann hefur stór aukizt annars staðar.

En þó að þetta hafi farið illa með launastéttirnar, þá er það einn hópur manna, sem hefur farið enn verr út úr þessu og það eru þeir, sem hafa safnað sparifé. Þessi stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt, undir forystu viðskrh. og hans sérfræðinga, hefur leitt til þess, að sparifé hefur verið gert svo að segja að engu. Þeir hafa komið hér upp undanfarið, ýmsir ágætir sjálfstæðismenn, t.d. einn ágætur varaþm., sem sat hér nýlega á þingi, Eyjólfur Konráð Jónsson og kvartað réttilega undan því, hve lítið væri eigið fé atvinnufyrirtækja. Af hverju er eigið fé atvinnufyrirtækja jafnlítið og raun ber vitni? Mörg þessara atvinnufyrirtækja voru búin að koma sér upp sæmilegum sjóði fyrir 10 árum. Áttu þá nokkur þeirra það veltufé, sem þau þurftu á að halda. Gengisfellingarnar hafa gert það að verkum, að þetta fé hefur orðið að engu eða svo til engu. Og það er ein meginorsök þess, hve eigið fé atvinnufyrirtækja er miklu minna hér á landi, en í öðrum löndum. Gengisfellingarnar hafa eyðilagt sjóði atvinnufyrirtækja. Og á sama hátt hefur verið farið með hina smærri atvinnurekendur.

Ég held, að hæstv. fjmrh. ætti að fara að íhuga það betur, hvers vegna hann þarf alltaf að vera að leggja á nýja og nýja skatta, miklu meiri heldur en starfsbræður hans í nágrannalöndunum. Það er vegna þess, að hér hefur verið fylgt allt annarri efnahagsstefnu, en í hinum löndunum, verðbólgustefnu. Þess vegna ætti hann að bjóða velkomnar þær till., sem við andstæðingar hans flytjum hér að þessu sinni, því þær stefna þó í þá átt að draga úr verðbólgunni, þó að vísu sé ekki stórt skref, en nokkurt skref þó. Þær stefna að því, að launþegar og almenningur fái kjarabætur á þann hátt, að það raunverulega lækkar framleiðslukostnaðinn í framfærsluvísitölunni og léttir jafnhliða byrðar atvinnuveganna.

Þetta er sú stefna, sem við þurfum að fylgja í miklu ríkari mæli, en gert hefur verið að undanförnu, því það hefur í raun og veru verið fylgt öfugri stefnu í þessum efnum. Og hæstv. ráðh. má vera viss um það, að það mun gerast æ oftar nú á næstu mánuðum og missirum, að hann þurfi að koma hér fram og biðja þingið um aukna skatta. Það verður skammt í næstu gengisfellinguna, ef þessu heldur áfram, sem nú á sér stað. Þess vegna er kominn tími til þess, að við reynum að stöðva okkur á þessari braut. Og þó að hér sé ekki nema um lítið viðnám að ræða, þá gæti það hjálpað til að stíga stærri spor á eftir. Ég nefni það t.d., að ef þessar ráðstafanir ná fram að ganga, þ.e. að undann þiggja þessar lífsnauðsynjar neyzlusköttum, hækka fjölskyldubæturnar og lagfæra skattvísitöluna, þá munu launþegar ekki þurfa að krefjast eins mikilla kauphækkana á vori komanda og ella. Ef þessar ráðstafanir verða allar felldar, þá verður óhjákvæmilegt fyrir launþega að reyna að rétta hlut sinn með kauphækkunum, þó að það hafi því miður ekki hin æskilegustu áhrif oft og tíðum á atvinnuvegina og betra væri að rétta hlut launþega með öðrum hætti.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín öllu fleiri að sinni. Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég vænti þess, að hæstv. ráðh. taki þessar till. okkar til vinsamlegrar athugunar, ekki aðeins vegna þess að þær eru hyggileg leiðrétting á því frv., sem hér liggur fyrir, heldur einnig vegna þess, að þær marka að nokkru leyti nýtt viðhorf eða nýja stefnu í efnahagsmálum, sem við þurfum að taka upp, ef sama ólagið á ekki að vera á þessum málum hjá okkur og verið hefur á undanförnum árum og þess verði skammt að bíða, að þjóðin standi frammi fyrir fimmtu gengisfellingunni.