17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (2784)

212. mál, orkulög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það var hér fyrr í vetur í fsp.- tíma, sem rafvæðing sveitanna var rædd allnákvæmlega, og gefið var yfirlit um framkvæmdirnar, eins og þær hafa verið undanfarin ár. Þá var einnig gefið nokkurt yfirlit um það, hvað væri eftir, til þess að segja mætti, að rafvæðingu landsins væri lokið. Það vita allir, að það verða alltaf nokkuð mörg býli, sem fá ekki rafmagn frá samveitum, vegna þess hve langt er á milli þeirra. Rafmagnsmál þeirra býla verða leyst með dísilvélum. Og ég hygg, að menn geti verið sammála um að segja, að þau býli hafi fengið rafmagn. Þau fá ekki rafmagn frá samveitum a.m.k. í náinni framtíð vegna kostnaðar. Ég man nú ekki alveg þessar tölur, en ég held, að það hafi engum blandazt hugur um í vetur, eftir að þessar umr. höfðu farið fram, að miklar framkvæmdir hafa orðið í dreifingu rafmagns í landinu s.l. 10 ár, og allmiklu meiri en nokkru sinni fyrr. Þetta liggur vitanlega fyrir hér í umr., sem eru teknar niður, og þarf ekki um það að deila.

Í vetur var tekið fram, hve mörg býli væru eftir með vegalengdinni 1.5 km, óg hvað það mundi kosta að ljúka því. Þá var ákveðið nú í vetur að ljúka við rafvæðingu þessara býla á þessu ári og á því næsta. Og til þess að geta staðið við það hafa verið teknar á framkvæmdaáætlun ríkisstj. 15 millj. kr. Þá verður þeim áfanga lokið á árinu 1971. Næsti áfangi er vegalengdin 1.5 til 2 km milli bæja, og það mun kosta, ég man það ekki nákvæmlega, 80 millj. kr., minnir mig, og það má vel vera, að þegar fyrri áfanganum er lokið á árinu 1971, að það væri mögulegt að ljúka því, sem maður getur kallað rafvæðingu landsins á árinu 1973, en ég vil ekkert fullyrða um það, þannig að þau býli, sem hafa ekki meiri fjarlægð heldur en 1.5 til 2 km, væru búin að fá rafmagn frá samveitum og önnur býli, sem eru með meiri fjarlægð, hafi fengið dísilrafmagn. Það gæti orðið á árunum 1973–1974, sem þessu marki væri náð, án þess að það væri hægt að segja, að það væri nokkuð stórt átak.

Það hefur verið undanfarið unnið fyrir um 30 millj. kr. á ári. Það verður vitanlega miklu meira nú vegna þeirrar lántöku, sem fengin er, og ef seinni áfanginn, 1.5 til 2 km, kostar um 80 millj. kr., þá er það ekkert stórt átak að ljúka því á tveimur, í allra síðasta lagi, á þremur árum. Það er því út af fyrir sig alveg eðlilegt, að till. eins og þessi sé flutt til þess að reyna að ýta á auknar framkvæmdir, það höfum við allir sameiginlegt, en við skulum ekki, um leið og við erum sammála um þetta, gera lítið úr því, sem áunnizt hefur, og tala um samdrátt í framkvæmdum að undanförnu, t.d. vegna þess að á s.l. ári hafa ekki verið tengd nema 80 býli. Það var náttúrlega unnið miklu meira að framkvæmdum en sem því svarar. Það var byrjað á mörgum öðrum framkvæmdum, einnig reistir staurarnir og strengdur vírinn víða, og það gæti svarað til þess, að ef miðað væri við kostnaðinn, að það hefði verið lagt á 150 býli á s.l. ári, þó að það hafi ekki verið tengd nema um 80. Og ég held, að það hafi nú verið fá ár, sem 200 býli voru tengd, fyrr en eftir 1960. Ég held, að á áratugnum milli 1950 og 1960 hafi oft verið um 100 býli að ræða og mest 148. En þetta liggur nú allt skjallega fyrir og því ekki ástæða til þess að vera að þrátta neitt um það.

Ég vildi aðeins að gefnu tilefni segja nokkur orð um þessi mál, og ég vil minna á, að það er ekki ástæða til að undrast það, þótt fyrst hafi verið lagt um þær sveitir, sem hagstæðastar eru, sem minnsta fjarlægð hafa á milli bæja, vegna þess að það er kveðið svo á í orkulögunum, að þannig skuli rafvæðingin vera framkvæmd. Það er beinlínis kveðið svo á, og það er AIþ., sem hefur markað þessa stefnu, en ekki framkvæmdavaldið. Það hefur verið leitazt við að fylgja l. frá því fyrst, að þau voru sett, og farið var að framkvæma þau 1947. Síðan hefur þessi lagabókstafur verið ríkjandi, og ég hygg, að það hafi alltaf verið reynt að fylgja honum, og það vitanlega af eðlilegum ástæðum.