17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (2785)

212. mál, orkulög

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð. Ég get vel skilið það, að hæstv. ráðh., sem hefur farið með raforkumálin nú lengi, sé illa við það að heyra talað um samdrátt í orkudreifingunni. En fram hjá því er hins vegar ómögulegt að komast, að samdráttur var orðinn og hann mikill. Það er alveg fráleitt, sem hæstv. ráðh. segir nú, að ef reiknað er með því fé, sem búið er að leggja til byrjunarframkvæmda, þá hefði það nægt til þess, að 150 býli hefðu verið tengd á árinu 1969, þ.e. á. s.l. ári. Það voru tengd rétt liðlega 70 býli, og það kom fram í ræðum hjá þessum sama hæstv. ráðh. í fsp.-tíma, að það hefði verið byrjað að leggja fé til eitthvað um 80 býla. En 70 býli voru tengd og byrjað á 80 býlum, en það getur engan veginn komið út sem tenging 150 býla. Þetta er alveg fráleitt.

En í annan stað verður líka að taka tillit til þess, þegar meta skal, hvort það hafi orðið samdráttur í þessum málum eða ekki á umræddu ári, að þá var unnið nokkuð mikið fyrir lánsfé heiman úr héruðum, og þess vegna urðu framkvæmdir þá drýgri en þær hefðu ella orðið. En það er í sjálfu sér ástæðulaust að vera að bítast neitt um þetta frekar. Það liggur nú fyrir, hvernig sem á því stendur, að það er von á í sumar miklu meiri framkvæmdum en voru í fyrra sumar, og því fögnum við auðvitað allir saman.

Það þótti mér ákaflega vænt um að heyra hjá hæstv. ráðh., þegar hann lét í ljósi þá skoðun hér, að það væri í sjálfu sér ekkert heljarátak að ljúka rafvæðingunni á þeim tíma, sem till. fjallar um, eða því sem næst. Það munar að vísu nokkuð miklu, hvort menn hugsa sér lokin á rafvæðingunni bundin við þær reglur, sem gilt hafa um meðalfjarlægðina á milli býla, eða menn hugsa sér, að þær verði endurskoðaðar. En með tilliti til þess, sem hæstv. ráðh. sagði hér áður í vetur um þetta mál, þá veit ég, að hann er inni á því að endurskoða þessar reglur. Hvorki hann eða ég getum á þessu stigi sagt um það, hvað af þeirri endurskoðun hlýzt. En ég veit, að hann reiknaði með endurskoðun, þegar hann sagði hér áðan, að til þess að ljúka rafvæðingunni fyrir árslok ,1973–1974, þá þyrfti raunverulega ekki að gera neitt stórátak. Ég er þessu alveg sammála. Ég álít, að það sé ekki nema manndómsverk, en vissulega þarf þó samt að taka til hendi, ef það á að komast í kring.

Ég vil svo aðeins árétta það, sem ég sagði áðan, að við flm. þessa frv. teljum það út af fyrir sig mjög mikils virði fyrir það fólk, sem bíður, að sem allra fyrst verði gerð heildaráætlun um framkvæmdir, þannig að menn geti, eftir því sem næst verður komið, vitað, hvar þeir standi í þessu efni og hagað aðgerðum sínum, hver og einn í samræmi við það.