27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2802)

31. mál, rannsóknarstofnun skólamála

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um mjög merkilega þætti í starfi íslenzkra skóla, og ég fagna þeim áhuga, sem flm. frv. sýna þessum málum með flutningi þess, og þeirri hóflegu og skynsamlegu ræðu, sem hv. 1. flm. þess var að ljúka við að flytja. Ástæða þess, að ég kveð mér hljóðs, er sú, að mig langar til þess að koma á framfæri örfáum viðbótarupplýsingum um þessi mál við það, sem kom fram í framsöguræðu hans og víkja að atriði, sem hann ekki beint gerði að umtalsefni, en varðar mjög mikilvægt fjárhagsatriði í sambandi við þetta mál.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að komið sé á fót sjálfstæðri stofnun, ráðgjafar- og rannsóknarstofnun skólamála, sem hafa skuli með höndum annars vegar sálfræðiþjónustu og hins vegar rannsóknarstofnun. Eins og kom fram hjá hv. frsm., hefur verið á undanförnum árum um að ræða bæði nokkra sálfræðiþjónustu og nokkur rannsóknarstörf í þágu skólamála almennt, svo sem einnig er í nálægum löndum. Eins og allir, sem þekkja til skipulags þessara mála í nálægum löndum, vita, þá er þar um að ræða þrenns konar möguleika, þrjár leiðir, sem allar eru farnar með nokkuð ólíkum hætti þó. Sums staðar er litið á þessi verkefni sem verkefni ríkisvaldsins fyrst og fremst eða einvörðungu. Sums staðar er litið á þessi verkefni sem hlutverk hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélaga, og sums staðar hafa ríki og bæjar- og sveitarfélög samstarf um að vinna að þessum verkefnum, eins og um rekstur skóla væri yfir höfuð að tala. Hér á landi hefur sú leið verið farin í þessum efnum, að sú sálfræðiþjónusta, sem er nú innt af hendi í þágu íslenzkra skóla, hefur verið og er verkefni hlutaðeigandi sveitarfélaga. Þar hefur Reykjavíkurborg gengið á undan með ágætu fordæmi og starfrækt hjá sér sálfræðiþjónustu um margra ára skeið, eins og hv. þm. tók fram, á sinn eigin kostnað. Nú eru fleiri sveitarfélög farin að gera þetta sama, nokkur sveitarfélög á Suðurnesjum munu hafa tekið sig saman um að efna til slíkrar þjónustu, en upphaf þessa mun vera það, að á stjórnarárum stjórnar Hermanns Jónassonar efndi Kópavogskaupstaður til slíkrar sálfræðiþjónustu, að vísu með nokkrum tilstyrk ríkisins. Og var það einmitt Jónas Pálsson, sem hv. frsm. vitnaði til, sem ráðinn var til þessa starfa. En það er rétt, að þar var um að ræða samvinnu Kópavogskaupstaðar og menntmrn. um það brautryðjendastarf, sem þar var unnið. Síðan hefur verið farið inn á þá braut, að Reykjavík hefur kostað þessa starfsemi algerlega á eigin spýtur, og sveitarfélög á Suðurnesjum munu gera það sama. Ég veit, að uppi hafa verið raddir um það um nokkur undanfarin ár, að eðlilegt væri, að ríkið gerðist aðili að þessari starfsemi, þ.e.a.s. hér yrði um að ræða sameinaða starfsemi ríkis og bæjar. En niðurstaða um það hefur engin orðið enn. Alþ. er nýbúið að afgreiða skólakostnaðarlög, taka skýrt fram um það, hvað ríkið skuli greiða eitt í verk og kostnað við skólana og hvað skuli vera sameiginlegir liðir í rekstri skólanna, og sálfræðiþjónusta er ekki talin meðal þeirra verkefna, sem ríkið á að inna af höndum, né heldur ríki og sveitarfélög skuli greiða sameiginlega. Með þessu móti, tel ég, að sjálft Alþ. hafi markað þá stefnu, að þessi starfsemi skuli vera, a.m.k. þangað til öðruvísi er ákveðið, á vegum sveitarfélaganna einna.

En sannleikurinn er sá, að hér er ekki aðeins um að ræða spurningu um, hver skuli greiða kostnaðinn við að öðru leyti mjög nauðsynlegt og mjög gagnlegt starf. Hér er einnig um að ræða spurningu um skipulagningu starfsins. M.ö.o., hvort sálfræðiþjónustan eigi að vera sentraliseruð, eins og hún eflaust mundi verða, ef hún væri í höndum ríkisvaldsins fyrst og fremst, eða hvort hún eigi að vera desentraliseruð, þ.e.a.s. hvort hún eigi að vera unnin í hverju sveitarfélagi eða í skólunum sjálfum, og þá er talið eðlilegra, að hún sé skipulögð og þá líklega líka kostuð af sveitarfélögunum sjálfum. Um þetta tvennt greinir sjálfa skólasálfræðingana og sjálfa fræðimennina og kennarana talsvert á. Sumir eru þeirrar skoðunar, að hún skuli vera sentraliseruð, og hélt ég Jónas Pálsson vera einn höfuðforvígismann þess sjónarmiðs. Mjög margir eru þeirrar skoðunar, að hún skuli vera desentraliseruð og fyrst og fremst í höndum skólanna sjálfra eða nánar tiltekið sveitarfélaganna, en ekki í höndum ríkisins. Það er því á misskilningi byggt, þegar því er haldið fram, eins og kom fram í ræðu hv. frsm., að ríkisvaldið hefði ekki enn viðurkennt þessi störf af sinni hálfu. Sannarlega allir, sem til þessara mála þekkja og um þau fjalla, viðurkenna að sjálfsögðu nauðsyn þessa starfs, sem hérna er unnið, og viðurkenna líka nauðsyn þess, að auka þetta starf og bæta það ár frá ári.

En það, sem hér hefur verið að ræða um, er það, að enn hafi ekki verið lögtekin ákvæði um það, að þetta starf skuli vera í verkahring ríkisstj. eða menntmrn. Öðru máli gegnir um skólarannsóknirnar. Það verkefni hefur ríkisvaldið tekið að sér algerlega á sinn kostnað, þó að þessu sé ekki alls staðar þannig farið í nálægum löndum, þar sem hliðstætt starf er unnið sumpart á vegum sveitarstjórna og sumpart er skoðað sem eitt af sameiginlegum verkefnum ríkis og sveitarstjórna í skólamálum. Þegar tekin var sú ákvörðun að efna til íslenzkra skólarannsókna, var það gert með þeim hætti, að stofnuð var sérstök deild í menntmrn. og henni ráðinn deildarstjóri, Andri Ísaksson sálfræðingur, og á undanförnum árum hefur starfskraftur þessarar deildar smám saman verið aukinn. Hér er dæmi um verkefni, sem ríkið tekur algerlega að sér og kostar algerlega sjálft. Að vísu, eins óg fram kom, er hann nú í nokkurra mánaða orlofi erlendis, en vinnur jafnframt í þágu skólarannsóknanna. Það er misskilningur, sem kom fram í ræðu hv. frsm., að Hörður Lárusson stærðfræðingur hafi verið ráðinn í starf Andra. Hann er viðbótarstarfsmaður við skólarannsóknirnar. Starfi Andra Ísakssonar gegnir hins vegar Þuríður Kristjánsdóttir magister, en hefur þó ekki getað tekið að sér nema hálft starf Andra. En segja má, að móti þessu vegi það, að Andri vinnur að skólarannsóknum í Bandaríkjunum, sem skólarannsóknirnar síðar munu njóta góðs af.

Þá vildi ég upplýsa í sambandi við það, sem hv. þm. sagði og vikið er að í frv., að það á að vera verkefni þessarar stofnunar að fjalla um eða stuðla að jöfnun á námskostnaði unglinga í landinu. Hann gat um það, að samþ. hefði verið í fyrra þál., þar sem ríkisstj. væri falið að gera könnun á þessu máli. Hann sagðist hafa spurt um niðurstöður hennar og fengið þær upplýsingar, að þessar rannsóknir hefðu ekki farið fram. Mér er ánægja í að geta leiðrétt þetta. Þessi rannsókn hefur farið fram, og það er verið að leggja síðustu hönd á mjög ítarlega skýrslugerð einmitt um þetta efni, skýrslu, sem sýnir mjög merkilega niðurstöðu, og ég vona, að það þurfi ekki að líða nema fáeinir dagar, þangað til ég mun við eitthvert tækifæri kynna hinu háa Alþ. niðurstöðu þessarar ítarlegu skýrslu. Þetta verk hefur verið unnið, eins og líka sjálfsagt var að gera.

Þó að ég geti alveg tekið undir niðurlagsorð hv. þm. um það, að það sé nauðsynlegt að efla sálfræðiþjónustuna og nauðsynlegt að efla rannsóknarstarfið í þágu skólamála, þá vil ég samt segja, að ég tel það þurfa nánari athugunar við, hvort það sé rétt að koma á fót sérstakri stofnun, sem hafi þetta með höndum eða hvort halda skuli áfram því starfi á þeirri braut, sem þegar hefur verið farin í þessu efni, m.ö.o., að ríkið annist rannsóknarmálin og sveitarfélögin annist sálfræðiþjónustuna. Ég er ekki að segja, að það sé skoðun mín, að með þessu móti hafi endanlegur vísdómur verið fundinn og þetta sé og svona skuli þetta vera um allan aldur, en þetta tel ég þurfa athugunar við og er reiðubúinn til þess að stuðla að því, að viðræður fari fram um þetta og nánari athugun á því, hvaða skipulag í þessum málum sé æskilegast og með hverjum hætti verði bezt hægt að stuðla að því, að þetta starf geti aukizt, en um það erum við hv. frsm. sammála, að á því er brýn nauðsyn.

Mér þykir rétt að ljúka þessum orðum með því að gefa viðbótarupplýsingar við það, sem hann sagði um sálfræðiþjónustustörfin í Noregi. Ég hef hér upplýsingar um það, hve margir sálfræðingar starfa nú í Noregi. Þeir eru 110. Og þegar höfð er hliðsjón af því, að Norðmenn munu vera um 20 sinnum fleiri en við Íslendingar, þá svarar þetta til þess, að hér á landi ættu að starfa miðað við hlutfallslega stærð 5–6 skólasálfræðingar. En ég hygg, að a.m.k. sú tala skólasálfræðinga eða manna, sem vinna hliðstætt, sé þegar starfandi á Íslandi, þannig að óhætt sé að segja, að við stöndum frændum okkar Norðmönnum ekki neitt að baki í þessum efnum, eins og nú standa sakir. Með því er ég ekki að segja, að ekki sé þörf á því að auka þetta. Það er eflaust þörf á því að auka þetta starf, bæði hér og í Noregi.

Og að allra síðustu langar mig til þess að gefa hv. þdm., fyrst þessi mál ber á góma, nokkrar nánari upplýsingar heldur en hv. þm. gerði í sinni framsöguræðu um þau helztu viðfangsefni skólarannsóknanna, sem nú er verið að vinna að. En þau eru, að í fyrsta lagi er verið að athuga möguleika á því að hefja dönskukennslu fyrr en nú er. Í öðru lagi er verið að vinna að framkvæmdaáætlun um endurbætur í eðlisfræðikennslu. Í þriðja lagi fer fram athugun á námsefni náttúrufræðikennslu. Í fjórða lagi er verið að vinna að athugun á einstökum þáttum landsprófsins. Í fimmta lagi er nýlokið athugun um nýja námsskrá í íslenzku. Í sjötta lagi fer fram athugun á stærðfræðinámsefni bæði barna- og gagnfræðaskóla. Í sjöunda lagi standa yfir tilraunir í tónlistarkennslu, fjölgun kennslustunda á því sviði og nýjar kennsluaðferðir. Í áttunda lagi fer fram athugun á framkvæmd enskukennslunnar, og er það tilraun, sem staðið hefur um nokkurra ára skeið. Í níunda lagi er verið að þýða bók um gerð prófverkefna, og í tíunda og síðasta lagi ber að nefna upphaf rannsókna á því, hvort börn eigi að hefja skólagöngu 6–7 ára. Svo sem sést af þessu, hefur skólarannsóknardeild menntmrn. mikið á sinni könnu og er að vinna að mjög mörgum verkefnum. Hv. frsm. gat um það í framsöguræðu, sem hún hefði þegar unnið að og skilað áliti um, og ég þakka lofsamleg ummæli frsm. um störf þessara embættismanna, sem þarna siga hlut að máli, sem áreiðanlega eiga viðurkenningu fyrir það skilið. En þessu vildi ég að síðustu bæta við, til þess að hv. þdm. væri ljóst, hvaða verkefnum er verið að vinna að í þessari stofnun um þessar mundir.