27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

126. mál, söluskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að þessu frv., vil ég víkja að því, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan í sambandi við innheimtuna á söluskattinum. Oft hafa hér á hv. Alþ. farið fram umr. um innheimtu á söluskatti og gengið í þá átt, að hún væri ekki svo sem skyldi.

Í sambandi við peningakassa þá, sem um er rætt og till. hér um á þskj. frá hv. minni hl. fjhn., þá hef ég skilið það svo, að þegar um vörupantanir væri að ræða, yrði að fara fram kassastimplun og greiðsla. Þá yrði fyrirtækið, sem afgreiddi vöruna, að greiða fyrir þessa kaupendur, þar sem það er orðið ábyrgt fyrir söluskattinum við það að afgreiða vörurnar. Það hefur ekki verið talið eða ég veit ekki til þess, að það hafi verið talin rök fyrir því, að skila ekki inn söluskatti, þó að fyrirtæki hafi ekki getað innheimt hjá viðkomandi aðila. Og auðvitað verður það að vera svo, að um leið og það afgreiðir vöruna til viðkomandi aðila, þá verður það ábyrgt fyrir skilum söluskattsins.

Ég held líka, að staðgreiðsla stuðli að nokkru leyti að vöruafgreiðslu í gegnum kassa, þó bein kassagreiðsla sé mjög að færast í vöxt. Og þegar um svo miklar fjárhæðir er að ræða, eins og hér er ætlazt til að verði, þá verður að gera allt til þess, að þær komist til skila. Því þegar söluskattur er orðinn 11 % af heildarútsöluverði vörunnar, þá skiptir það verulegu máli, hvort hann kemur á réttan stað. Ég held, að þetta muni ekki valda þeim erfiðleikum, sem mér fannst hæstv. ráðh. gera ráð fyrir.

Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. um fjárlög né afgreiðslu þeirra, en það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að við lýstum fylgi okkar við þá hækkun, sem gerð var á útgjöldum vegna verklegra framkvæmda og almannatrygginga og skal ég undirstrika það, án þess að skýra þetta neitt frekar.

Við 1. umr. þessa frv. hér á hv. Alþ. gerði ég grein fyrir afstöðu minni til málsins og jafnframt fyrir afstöðu Framsfl. Síðan sú umr. fór fram, hefur margt skýrzt betur en þá var orðið og það gefur mér tilefni til þess að segja nokkur orð til viðbótar við þessa umr. málsins. Eins og ég tók fram þá og vil endurtaka nú, tel ég að hér sé um að ræða eitt það stærsta mál, sem fram hefur verið lagt hér á hv. Alþ. að þessu sinni. Þetta söluskattsfrv. er ekki frv. um það eitt að afla ríkissjóði tekna vegna þarfa hans, heldur er hér um algera stefnubreytingu að ræða í tekjuöflun ríkissjóðs. Hér kemur í raun og veru fram viðhorf stjórnmálaflokkanna í landinu til hins almenna borgara. Þess vegna er hér um miklu meira mál að ræða, en þær 1.000 millj., sem hér er verið að afla. Það er sem sagt um algera byltingu að ræða í sambandi við þessa tekjuöflun. Það var ljóst, að það mundi verða gerð hér breyting í sambandi við, hvernig þessa fjár skyldi aflað og það kom fram í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh., að hann stefndi að hækkun á söluskatti. Okkur, fulltrúum Framsfl. í fjhn., fannst því nauðsyn bera til að nota tækifærið til þess að gera ítrekaða tilraun til að fá hinar mestu nauðsynjavörur undanþegnar söluskatti. Við töldum, að það mundi verða tækifæri til að ná þessari breytingu fram nú, þar sem allt virtist stefna að því, að um söluskattshækkun yrði að ræða. Ég verð að segja, að ég hef því orðið fyrir verulegum vonbrigðum með, að það mál okkar skuli ekki hafa fengið betri hljómgrunn hér á hv. Alþ. en raun hefur orðið á. Þó ber að virða það, sem hv. formaður fjhn. þessarar hv. d., hv. 1. þm. Reykn., lýsti hér yfir í sambandi við fiskinn, því það er sannarlega gleðilegt, að hann skuli þó eiga að vera undanþeginn söluskatti og það var skýrt fram tekið hjá hæstv. ráðh., að innheimta á þeim tekjustofni ríkissjóðs mun hafa skilað sér illa. Það ber líka að virða það, sem náðst hefur fram með andstöðu við söluskattinn á almennar neyzluvörur, að hann skuli ekki eiga að hækka á kjöti, á kindakjöti og smjöri. En lengra ná þessar lagfæringar ekki og ber að harma það, að svo skuli fara.

Mér þykir líka rétt að benda á það í sambandi við þetta mál, að hæstv. ríkisstj. notar EFTA–málið sem forsendu fyrir þeirri breytingu, sem hér er verið að gera. Ég taldi, að þegar búið var að samþykkja það hér á hv. Alþ., að Ísland gerðist aðili að EFTA, þá bæri nauðsyn til að reyna að sameina þjóðina til þess að búa sig undir þá breytingu og reyna að stuðla að því, að sem minnst átök yrðu um málið. Enda var það svo á hv. Alþ., að þegar þetta mál var tekið til meðferðar fyrir jólin, urðu um það minni deilur, en venja hefur verið um stórmál hér á hv. Alþ. En það, sem er merkilegt við þetta, er, að hæstv. ríkisstj. virðist ekki gera neitt í því að sameina þjóðina um þetta mál, heldur hefur hún tekið þann kostinn að gera sér allverulegan mat úr mismunandi skoðunum manna á því, og kennt við EFTA–málið óskylda þætti, eins og t.d. þetta söluskattsmál eða tekjuöflunina, sem væru þau eingöngu bundin því.

Nú er það rétt, eins og komið hefur fram, að tekjuöflun sú, sem hér er verið að ræða um, er ekki að öllu leyti bundin við EFTA–málið. Það 400 millj. kr. tekjutap, sem verður af völdum tollalækkananna, er ekki allt vegna breytingarinnar við EFTA–aðildina, þar eð upphaflega var ráðgert, að þetta yrðu um 360 millj. kr. En 50 millj. kr. af þeim tekjum, sem talið er að ríkissjóður muni missa, stafa af þeirri breytingu á tollskránni, að felld eru niður leyfisgjöld af bifreiðum. Sá tekjumissir er talinn nema 50 millj. kr. Áður fyrr var talið alveg óhugsandi, að ríkissjóður gæti af þeim aurum séð, þegar verið var að streða við það, að þeir gengju til vegamála í landinu, en nú hefur hins vegar verið horfið að því ráði. En það skýrir sig nú oft síðar, þó um það sé deilt, þegar málið er til meðferðar, að það er hægt að finna leiðir til þess að mæta hinum og þessum þörfum, ef að því er stefnt. Þess vegna er ekki hægt að skrifa á reikning tollalagabreytingarinnar vegna EFTA–aðildar, nema innan við 400 millj. kr. af þeirri tekjuöflun, sem hér er stefnt að. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. viljað tengja þetta sem mest EFTA–aðildinni og gera málið þannig, að það sé á þann reikning skrifað. Það hefur líka verið mikið gert að því, eins og ég gat um áðan, að blása upp andstöðu stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu á EFTA–málinu, eins og færð væri á þann reikning öll sú tekjuöflun, sem verið er að fara fram á og m.a. hefur það komið fram í þeim umr., að það er harmað, að ekki skyldu vera fleiri andstæðingar EFTA–málsins hér á hv. Alþ. heldur en raun var á. Þetta hefur komið mjög fram í blöðum stjórnarsinna og verið blásið mikið út.

Nú er það eitt af því skemmtilega, sem maður kynnist í pólitíkinni, þegar slíkar harmatölur eru fram bornar um, að andstaðan hafi verið of lítil. Þeir vita það ósköp vel, stjórnarsinnar, eins og aðrir hv. þm., að aðferð stjórnarandstöðu á hverjum tíma er jafnan sú, að þegar hún vill ekki greiða atkv. gegn máli, þá heldur hún að sér höndum við atkvgr. og afgreiðslu. Og það er auðvitað eðlilegur háttur, þar sem hún vill ekki taka á sig þá ábyrgð, sem af framkvæmdinni leiðir og ríkisstj. á hverjum tíma fer með. Í því sambandi verður mér hugsað til þess, þegar bjargráðin voru hér til meðferðar í hv. Nd. vorið 1958. Nokkur umr. hafði þar farið fram og m.a. kom það í ljós, að sumir af stjórnarliðum þá voru ekki fylgismenn málsins. En við afgreiðslu á málinu við 2. umr. gerðist það, að margir stjórnarandstæðingar sátu hjá við atkvgr. til þess að tryggja málinu framgang. Þeim var það auðvitað ljóst, að það var nægjanlegt, til þess að málið næði fram að ganga, en þeir breyttu sinni afstöðu til málsins við 3. umr., þegar þeir sáu, að þeirra liðsinnis þurfti ekki með til þess að tryggja málinu framgang. Og hver er svo ástæðan fyrir því, að þannig er á málum haldið í sambandi við EFTA–málið af hálfu hæstv. ríkisstj.? Ástæðan er kannske fyrst og fremst það mál, sem við erum að fást við nú.

Söluskattsmálið er stefnumótandi mál. Það sem hæstv. ríkisstj. ætlaði sér og þurfti á að halda í sambandi við það var, að átökin og deilurnar um EFTA–málið yrðu það miklar, að söluskattsmálið hyrfi í skuggann. Hér er nefnilega um stórpólitískt mál að ræða, eins og ég tók fram áðan, stærsta pólitíska málið, sem enn hefur verið lagt fram á hv. Alþ. að þessu sinni. Hér er um það að ræða, að beina tekjuöflun ríkisins, á hátt í einum milljarði króna, eða a.m.k. 800–900 millj. kr., að hinum almenna borgara. Þetta er mergurinn málsins. Þá munu hv. þm. hugsa: Hvernig á að standa að þessu máli, þar eð ríkissjóður verður auðvitað að fá sínar tekjur?

Ég hef áður bent á það og vil endurtaka það, að það er jafnvel hægt að nota söluskatt án þess að fara þá leið, sem hæstv. ríkisstj. fer nú. Ef gerðar eru hliðarráðstafanir til þess að bæta þeim tekjuminni í þjóðfélaginu upp það, sem er verið að gera með söluskattshækkuninni, þá er hægt að nota hann. En ef á að nota söluskattinn, eins og hér er gert, þ.e. að hækka hann án nokkurra hliðarráðstafana, þá er hann algjörlega ónothæfur, því þá er verið að mismuna fólkinu í landinu með því að færa byrðarnar yfir á bak hins almenna borgara, einmitt þeirra, sem hafa stærstu fjölskyldurnar. Þetta er mergur málsins. Kjarninn í þessu er ekki talan, sem um er að ræða, heldur stefnan. Og ef þetta á að vera stefnan, sem fylgja skal við þær breytingar, sem þarf að gera á tollinnheimtu okkar, þá endurtek ég það, að hér er um algera byltingu að ræða.

Og þá vil ég koma að því, hvernig hægt væri að mæta þessu nú með því að nota söluskattinn. Það væri í fyrsta lagi hægt að gera það með því, eins og hér hefur verið bent á, að fella niður söluskattinn af mestu nauðsynjavörunum. Ég vil taka undir það með hv. 9. þm. Reykv., að það eru engin vandkvæði á því að fella niður söluskatt af gjöldum til rafmagnsveitu og hitaveitu. Þetta er orðin almenn neyzluvara í landinu. Og það sama er að segja um olíuna til húsupphitunar. Þetta er líka afskaplega auðvelt við að fást. Þess vegna er hægt ef vilji er fyrir hendi til að fella niður söluskatt að mestu nauðsynjunum, að velja það, sem minnst hætta er á, að skapi svindl eða vanskil á söluskattinum.

Það væri líka hægt að mæta þessu með því að auka niðurgreiðslurnar á nauðsynjavörum. Hugsið ykkur bara ráðstafanirnar, sem voru gerðar hér haustið 1966, þegar niðurgreiðslurnar voru stórauknar, svo að til þeirra var varið á fjárlögum 1967 á 8. hundrað millj. kr. En nú eru þær á milli 500 og 600 millj. kr. Það var talin ástæða til að gera þetta, vegna þess að það þurfti að bæta um fyrir fólki í landinu, dýrtíðin var orðin svo mikil. En síðan er búið að fella gengið tvisvar og nú er verið að hækka söluskattinn stórkostlega. Ef það hafa verið nokkur rök fyrir því, að það hafi verið nauðsynlegt, nema vegna kosninganna 1967, að auka niður–greiðslurnar haustið 1966, hvernig er þá hægt að halda því fram, að það sé hægt að komast af með minni niðurgreiðslur nú? Það er með öllu óhugsandi að gera það, enda veit ég, að það mun enginn reyna að halda slíku fram.

Það sama er að segja um skattvísitöluna. Ef hún hefur verið réttmæt, eins og hún var ákveðin 1967, er þá hægt að gera ráð fyrir því, að persónufrádráttur 1970 sé hlutfallslega minni en þá? Hvaða rök eru fyrir því?

Það er hægt að halda því fram með réttu, að ríkissjóður megi ekki missa tekjur, en það, hvernig á að afla teknanna, hvort á að taka þær af hinum almenna borgara fyrst og fremst, það er mál, sem hægt er að deila um. Stefnan í þessu máli er deiluatriðið og mergur málsins. Þess vegna, eins og ég sagði áðan, var það nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að haga málflutningi sínum um EFTA–málið eins og hún hefur gert s.l. mánuð, því það var nauðsynlegt að láta umræðurnar snúast um það, til þess að komast laumulega fram hjá þessu. Það er ekki hægt að halda því fram með rökum, að ekki hefði verið hægt að afgr. þáttinn gagnvart tekjuöfluninni, þ.e. gagnvart EFTA, á annan hátt en hér er lagt til.

Í þriðja lagi er hægt að mæta þessum söluskatti með auknum fjölskyldubótum og tryggingum. Það, sem við gerðum við fjárlagaafgreiðsluna fyrir jólin með því að auka fjölskyldubætur, var aðeins til að mæta hluta af því, sem orðið var og á var fallið vegna gengislækkunarinnar í fyrra, en ekki til þess að mæta því, sem ókomið var. Þess vegna er, eins og hv. 4. þm. Reykv. sýndi fram á, fullkomin ástæða til að stórauka fjölskyldubæturnar og án þess að ég sé nú nógu vel að mér um skattamál þeirra á Norðurlöndum, þá tel ég mig þó vita það, að það, sem þeir einmitt gera í sambandi við tekjuöflunina, er að nota tryggingakerfið til þess að hagræða fyrir þá, sem minni hafa gjaldgetuna, en það er einmitt fólkið, sem þarf að kaupa mest af matvælunum vegna stórrar fjölskyldu. En það er þetta fólk, sem nú verður látið borga mest.

Það er líka hægt að nota tekjuskattinn og útsvörin til þess að bæta upp óþægindi af söluskattinum. Það er ekki sama, hvort við byggjum tekjuskatt og útsvör á lágum eða háum söluskatti. Það er samband á milli þess arna og það er óhugsandi annað en að taka tillit til þess, þegar svo róttæk breyting er gerð, eins og hér er verið að gera. Að mínu mati er því óhugsandi að gera slíka breytingu á tekjuöflun ríkissjóðs með einhliða hækkun söluskatts, án þess að taka þessa þætti með. Það er meira að segja hægt að nota söluskatt sem tekjuform fyrir ríkissjóð og halda þó þeirri stefnu, sem við höfum fylgt, að reyna að hagræða fyrir þá, sem lægri hafa tekjurnar. En til þess verður að nota þau hjálpartæki, sem tiltæk eru og ég hef hér drepið á, í því skyni.

Þess vegna getur hér ekki verið um annað að ræða en stefnuákvörðun hæstv. ríkisstj. um það, að þannig skuli ekki að farið, því ef hún hefði áhuga fyrir því að hagræða hlutunum í þágu þeirra, sem minni hafa tekjurnar, þá mundi hún geta gert það. Ég vil einnig segja það, að þetta kemur nú fram á versta tíma, vegna þess að tekjur fólksins í landinu eru komnar niður fyrir lágmark. Og það hefur ekki sízt gengið í þá áttina á s.l. ári.

Þess vegna endurtek ég það, að ef það hefur verið þörf fyrir að greiða niður vörur haustið 1966 vegna afkomu fólksins í landinu, þá er það nú brýn nauðsyn.

Svo vil ég einnig geta þess, hver áhrif þessi söluskattshækkun kann að hafa á sölu á innlendum afurðum. Vil ég þar fyrst og fremst nefna landbúnaðarvörurnar. Nú er það góðra gjalda vert, sem gert er, að söluskattshækkunin kemur ekki á kindakjöt og smjör. Það er nokkurs virði, svo langt sem það nær. En þetta nær heldur ekki til fleiri vörutegunda. Þess vegna fer það svo, að aðrar vörutegundir halda áfram að hækka og það gerir það að verkum, að salan er í hættu. Þetta gerir það líka að verkum, að það þrengir þá möguleika, sem bóndinn, framleiðandinn hefur til þess að ná þeim tekjum, sem hann á að hafa samkvæmt framleiðslulögunum og er sambærilegt við aðrar stéttir. Eftir því sem við komum með fleiri álögur á útsöluverðið, því minni verður hlutur bóndans í því. Það er staðreynd. Enn fremur er það vitanlegt, að það er nokkuð gert að því að selja nautakjöt og hrossakjöt og aðrar kjöttegundir fram hjá sölusamlögum, kaupmönnum og kaupfélögum, með beinni sölu. Eftir því sem álögurnar með skatti og söluskatti hækka, því meira verður um þetta. Þetta er afskaplega hjáróma, á sama tíma og löggjafinn er að gera mjög háar kröfur um meðferð á þessum matvælum, sem gerir það að verkum, að það verður að leggja stórkostlega fjármuni í það að útbúa sláturhús og annað slíkt, til þess að framleiðsluvaran sé sem bezt úr garði gerð. En þessi ráðstöfun mun hins vegar verða til þess, að miklu meira verður gert af því að selja þessar vörur beint og þar með fellur náttúrlega söluskatturinn niður. Þó að kindakjötið, smjörið og mjólkin séu undanþegin söluskatti, þá er nautakjöt, hrossakjöt, ostur, skyr og rjómi allt með söluskatti og hækkar því í verði nú, þegar lögin koma til framkvæmda. Hér er því um mjög alvarlegt mál að ræða, því það er ekki eingöngu verið að hækka verðlagið fyrir neytendurna í landinu, heldur hefur þetta veruleg áhrif á söluna á þessum nauðsynlegu neyzluvörum.

Þegar hér er komið, þá er kannske rétt að víkja betur að því en áður hefur verið gert, hvernig átti þá að bæta ríkissjóði upp tekjumissinn, svo hann næði þeim tekjum, sem nauðsyn ber til. Ég hef áður tekið það fram í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, að sú stefna á að vera gildandi, að ríkissjóður sé yfirleitt rekinn hallalaust. Halli hjá ríkissjóði vegna reksturs með venjulegum hætti á ekki að geta átt sér stað eða er a.m.k. mjög óæskilegur. Hins vegar getur komið til þeirra aðgerða í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem geta réttlætt það, að ríkissjóður sé rekinn með halla eitt ár í senn. Og þegar á að fara að gera það upp við sig, hvernig á að innheimta tekjur til ríkissjóðs nú og ef engin önnur leið er fær heldur en söluskattshækkun án þess að gera nokkrar hliðarráðstafanir, þá verður að íhuga það, hvort það sé framkvæmanlegt að leggja hana á hinn almenna borgara í landinu með þá tekjumöguleika, sem hann hefur. Verður ríkissjóður ekki að gera það upp við sig, hvort það geti ekki verið hugsanlegt, að þetta eina ár geti orðið halli, til þess að gera þessa breytingu ekki eins erfiða og hún annars yrði? Að minni hyggju er það óframkvæmanlegt að ráðast alltaf á garðinn, þar sem hann er lægstur. En það er alltaf verið að gera það, var gert 1967, með gengisbreytingunni þá, í enn þá grófara mæli með gengisbreytingunni 1968 og í þriðja sinn nú með söluskattsbreytingunni. Það er verið að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur, með því að færa þessa tekjuöflun yfir á hinn almenna borgara. Og að minni hyggju er það óframkvæmanlegt. Ég hef áður tekið það fram, að ofan á gengisbreytingarnar er ekki hægt að gera þessar ráðstafanir, miðað við það kaupgjald, sem nú er í landinu.

Ég vil að lokum undirstrika það, að það verður að leysa málefni þjóðarinnar að annarri leið en þeirri að sækja fjármagnið til þeirra, sem minnst hafa af því. Það er ekki hægt að koma efnahagsmálum þjóðarinnar á réttan kjöl eftir þessari leið, en það er jafnvel hægt að nota söluskatt sem höfuðtekjustofn þjóðfélags, jafnvel ríkis, ef jafnhliða væru gerðar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, vegna hinna tekjuminni. Og þær leiðir eru nú þekktar, en það vantar aðeins viljann til þess að fara þær.