23.03.1970
Efri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

53. mál, byggingarsamvinnufélög

Frsm. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. heilbr.- og félmn. tók fram, varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls, sem liggur hér fyrir til umr. Eins og fram kom hjá honum enn fremur, hefur meiri hl. n. gert till. um meginbreyt. á frv., eins og það var lagt fram, og meiri hl. kveður stuðning sinn við frv. að lokum vera háðan því, hvernig þessum brtt. öllum kann að reiða af. Við hv. 1. þm. Vesturl. skipum minni hl. n. og höfum skilað sérstöku nál. á þskj. 443, og í lok þess er getið um örfáar minni háttar breyt., sem við viljum gera við frv.

Þetta frv. var fyrst flutt á hv. Alþ. árið 1967, og því var vísað til ríkisstj. á þeim forsendum, að yfir stæði heildarendurskoðun á húsnæðismálalöggjöfinni og þar á meðal á löggjöf um byggingarsamvinnufélög, og því var treyst, eins og stendur í frávísunartill., að endurskoðun yrði hraðað og henni lokið á því ári (þ.e. 1968) og jafnframt við þessa endurskoðun, sem í gangi væri, yrði höfð hliðsjón af reynslunni um það, hvernig starfsemi byggingarsamvinnufélaga hefði tekizt, hver þáttur þeirra ætti að vera í lausn húsnæðisvandamálanna. Allt átti þetta að gerast með það fyrir augum að skapa byggingarsamvinnufélögunum heilbrigðan og eðlilegan starfsvettvang til frambúðar, eins og þar stóð.

Nú er ekki vitað, að heildarendurskoðun, að því er varðar byggingarsamvinnufélög, hafi farið fram, enda kom það fram í máli hv. frsm. meiri hl., að svo er ekki. En óþarfi er að skýra nánar frá því, hversu mjög fyrirgreiðsla og aðstoð af hálfu þessara byggingarfélaga hefur veitt fjölda fólks hvarvetna um land nauðsynlega aðstöðu til þess að koma sér upp íbúðum. Og þá vil ég sérstaklega taka það fram, að þátttaka í byggingarsamvinnufélögum hefur ekki sízt verið mikil af hálfu fólks í þjóðfélaginu, sem býr við lakari efnahag.

Það, sem hefur verið byggingarsamvinnufélögum Þrándur í Götu lengi, og er enn, ekki sízt nú í seinni tíð, eru söluerfiðleikar á ríkistryggðum skuldabréfum, sem félögunum eru fengin í hendur. Sölutregða á þessum bréfum hefur hamlað mjög gegn því, að hægt væri á hverjum tíma að koma við hagkvæmum rekstri og halda fullu gengi þessa félagsforms. En hitt hlýtur að vera auðsætt, að af opinberri hálfu má það vera metið, hversu mikla þýðingu þessi byggingarstarfsemi hefur haft.

Það frv., sem hér er um að ræða, fjallar aðallega um tvenn nýmæli, þótt nokkur fleiri séu sem hafa minni þýðingu. Það er í fyrsta lagi að tryggja þessum byggingarsamvinnufélögum góða fyrirgreiðslu um hentugar lóðir á hverjum tíma og þannig, eins og það er orðað í frv., að sveitarstjórnum sé skylt að láta þessi félög sitja fyrir um lóðaúthlutun. Sums staðar, er talið, að allverulega hafi skort á, að sveitarstjórnir hafi veitt nægilega greiða og eðlilega aðstoð að þessu leyti, og sérstaklega mun þetta hafa verið áberandi áður og fyrr, en dregið úr upp á síðkastið og breyting orðið til bóta. Það verður að viðurkenna. En eigi að síður verður að telja þetta nýmæli eiga fyllsta rétt á sér, og m.a. á það að stuðla að því, að byggingarframkvæmdir þessara félaga verði sem stöðugastar og hægt sé að halda þeim áfram í réttri röð án tafar. Og ég hygg, að hv. frsm. meiri hl. hafi ekki fyllilega gert sér það ljóst, að þetta fyrirmæli l. er fyrst og fremst sett fram í þessu skyni.

Þá er það hitt nýmælið, sem er stærra í sniðum, og er því ætlað að leysa fjármögnunarvandamál byggingarsamvinnufélaga og skapa nokkuð öruggan markað fyrir verulegt magn af skuldabréfum, sem félögin gefa út árlega og tryggð eru með ríkisábyrgð. Í frv. er lagt til, að sú skylda sé lögð á herðar Seðlabanka Íslands, að hann kaupi árlega á nafnverði hin ríkistryggðu skuldabréf félaganna fyrir eigi lægri fjárhæð en 75 millj. kr., en þetta fer þó eftir þörf á hverjum tíma, og vitaskuld hlýtur, ef slíkt ákvæði væri samþ., að verða að setja frekari reglur um framkvæmd, að því er snertir þetta ákvæði, það gefur augaleið. Við í minni hl. lítum svo á, að svo brýn sé nauðsyn á þessari fyrirgreiðslu af hálfu Seðlabankans, að í raun og veru sé ekki undankomu auðið. Það má að vísu deila um þessa fjárhæð, 75 millj. kr., en ég hygg, að hún sé eða geti verið nokkuð raunveruleg. Auk þess ber svo að lita á það, að slík fjármögnun mundi mjög auka á byggingarframkvæmdir, yrði til atvinnuaukningar í byggingariðnaðinum einmitt núna á tímum atvinnuleysis byggingariðnaðarmanna og landflótta af völdum þessa atvinnuleysis.

Því hefur verið haldið fram af hálfu frsm. meiri hl., að Seðlabankinn yrði að draga úr margs konar annarri nauðsynlegri fyrirgreiðslu, ef slíkt ákvæði yrði samþ. Það má kannske deila um hluti eins og þessa. Við í minni hl. teljum Seðlabankann hins vegar þess umkominn að standa undir þessari kvöð, ef vilji væri fyrir hendi og aðstaða hans þannig í þessum efnum, að það yrði engum verulegum vandkvæðum bundið fyrir Seðlabankann eftir sem áður að leggja öðrum góðum málum lið og efnahagslega aðstoð, eftir því sem nauðsyn krefði. Við teljum því þetta ákvæði mjög eðlilegt og alls enga ástæðu til þess að láta sitja við eina umsögn Seðlabankans, eins og hún hefur birzt í bréfi, sem kom til n., og skal ég lesa nokkurn hluta þessa bréfs upp, með leyfi hæstv. forseta. Í bréfi Seðlabankans segir m.a. þetta:

„Seðlabankinn er efnislega mótfallinn umræddu ákvæði. Hann telur, að það hljóti að verða mat bankastjórnar Seðlabankans hverju sinni, hvort bankinn veiti slíka fyrirgreiðslu, enda hlýtur slíkt að fara eftir peningalegum aðstæðum og efnahagsástandi hvers tíma.“

Þetta eru orð Seðlabankastjórnarinnar. Við í minni hl. erum ekki öldungis á sama máli og Seðlabankinn um þetta. Þess vegna leggjum við það undir dóm Alþ., hvert sé mat þess á greindu ákvæði, og við viljum vænta þess, bæði í þessum málum og öðrum svipuðum, að það fáist úr því skorið, hvort sú skoðun fái staðizt, að Seðlabankastjórnin geti ætíð, hvernig sem á stendur, ráðið um það, hvern fjárhagslegan styrk eða fyrirgreiðslu bankinn veiti hverju sinni, alveg án hliðsjónar af mati Alþ. Þess vegna viljum við í minni hl. láta umsögn Seðlabakans liggja á milli hluta.

Ég vil með nokkrum orðum ræða um till. meiri hl. á þskj. 408. Það er auðsætt, að með samþykkt þeirra er frv. svo lemstrað, að það er ekki svipur hjá sjón. Þar eru gerðar till. um að fella niður þau höfuðnýmæli, sem í frv. felast. Ætla ég nú að leyfa mér að taka hverja till. fyrir með örfáum orðum.

Um 1. till. á þskj. 408: Ég vil segja það, að till. meiri hl. er með óákveðnara orðalagi og þess vegna alls ekki til bóta. Hins vegar má kannske segja það, að þetta sé ekki mikilvægt atriði að öðru leyti.

Um 2. brtt.: Ég hygg, að með þessari brtt. sé dregið úr lánsfjárhæð þeirri, sem ætlazt er til, að ríkissjóður ábyrgist byggingarsamvinnufélögum. Mér skilst, að hámarkið mundi nema allt að 75%. Það má segja, að þetta muni ekki miklu, enda er þetta hámarksfjárhæð í báðum tilvikum. Þá er í sömu till. gert ráð fyrir því að vísitölubinda þessi lán, og er þá ekki greint, hvort það eigi að vísitölubinda þau miðað við helming vísitölu eða við hana fulla. Þetta er mjög vafasamt ákvæði. Það er bæði loðið og teygjanlegt, og sennilega að minni hyggju á það alls ekki rétt á sér þarna, eins og á stendur. Að öðru leyti tel ég ekki þörf á að ræða frekar þessa brtt. n.

Um 3. brtt., þ.e.a.s. um ákvæði frv. um skyldur Seðlabankans að kaupa bréf fyrir 75 millj.: Meiri hl. n. gerir till. um það, að sá liður falli niður. Að sjálfsögðu leggjumst við gegn þeirri brtt., og í raun og veru teljum við í minni hl., að einmitt þetta ákvæði frv. sé höfuðforsenda þess, að þessi löggjöf geti orðið vel og sæmilega framkvæmd.

Við 4. brtt. er það eitt að segja, að hún virðist aðallega vera gerð til samræmis við 2. brtt. meiri hl., og að því leyti er ekkert að athuga við hana. Meiri hl. er þar að breyta í samræmi við 2. brtt. sína, en að öðru leyti er þessi brtt. ekki snertandi efnisákvæði.

Þá er komið að 5. brtt. Hún er fram komin samkv. beiðni fulltrúa byggingarsamvinnufélaganna, og við í minni hl. erum með sams konar brtt., og ekkert frekar um það að segja.

Þá komum við að 6. brtt., þar sem lagt er til af hálfu meiri hl. n., að ákvæðin um forgang að lóðum falli niður. Eins og ég hef áður sagt, þá er þetta allmikilvægt ákvæði, og ég á ekki von á því, að það muni skemma fyrir öðrum byggingarfélögum, sem starfa á líkum grunni, og kannske mætti segja, að það mætti koma þeim, eins og byggingarfélögum verkamanna og öðrum slíkum þarna inn, ef því væri að skipta. En við leggjumst í minni hl. algjörlega á móti því, að þessi gr. falli niður.

Síðasta brtt. frá meiri hl. n. á þskj. 408 fjallar um það, að 15. gr. frv. verði niður felld. þ.e. undanþáguákvæðið á greiðslu opinberra gjalda. Nú vil ég halda því fram eða tel það líklegt, að því sé þannig farið í sambandi við Breiðholtsframkvæmdir, að þar sé undanþága frá opinberum gjöldum, og ég sé nú ekki stórlegan mun á byggingarsamvinnufélögunum og Breiðholtsáætlunarframkvæmdum að þessu leyti. Mismunurinn er aðeins sá, að hið opinbera hefur með stjórn að gera á framkvæmdum í Breiðholti, en einstaklingar úr byggingarsamvinnufélögum hafa með stjórn að gera í hinu tilfellinu. Hverju þetta kann að muna, að vera undanþeginn greiðslu af þessu tagi, skal ég ekki segja nánar um, en sjálfsagt munar það miklu. Það dregur úr þeim, sem hafa takmarkað fjármagn milli handa. Við í minni hl. leggjumst gegn því, að þessi gr. falli niður.

Þá hef ég í stuttu máli rakið afstöðu okkar í minni hl. til frv., sem hér liggur fyrir, og enn fremur til þeirra tillagna, sem hér liggja fyrir af hálfu meiri hl. heilbr.- og félmn.

Þá vil ég aðeins minnast á aðrar till. okkar í minni hl. Þær eru í raun og veru minni háttar. Ein þeirra er aðeins leiðrétting á prentvillu, en hinar tvær eru fram komnar sakir beiðni fulltrúa frá byggingarsamvinnufélögum.

Það var eitt atriði, sem kom fram réttilega í ræðu hv. frsm. meiri hl., í sambandi við 4. gr. C. Þar stendur: „Skylt er félmrh. fyrir hönd ríkissjóðs.“ Sú athugasemd hv. frsm. og ábending, að hér eigi að standa fjmrh., er alveg hárrétt og ætti að takast til greina við frekari meðferð málsins.