23.03.1970
Efri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

53. mál, byggingarsamvinnufélög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Áður en gengið verður til atkv. um frv. til l. um byggingarsamvinnufélög, sem liggur fyrir þessari hv. d., flutt af mér og hv. 1. þm. Norðurl. v., langar mig til þess að segja hér aðeins örfá orð, en ég mun ekki stofna til langra orðahnippinga út af þessu máli, við erum búin að ræða þetta mál mikið, bæði við fyrri flutning þess og eins nú.

Hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur lagt fram allmargar brtt. á frv. þannig vaxnar, að mjög lítið af upphaflegum tilgangi frv. nær fram að ganga, ef þær breyt. verða samþ. Eins og hér hefur verið rakið, eru fyrst og fremst þrjú nýmæli í áðurnefndu frv. Það er í fyrsta lagi það, að tryggð verði sala ríkistryggðra skuldabréfa. Sú leið, sem bent er á í frv., er, að Seðlabankanum verði gerð sú skylda að kaupa þau bréf fyrir allt að 75 millj. kr. árlega, ef þörf krefur. Þessa breytingu leggur meiri hl. til að fella niður, og verður þá málefnum byggingarsamvinnufélaganna að þessu leyti á sama hátt fyrir komið og verið hefur undanfarna áratugi og leitt hefur til þess, að þetta félagaform er nánast ekkert nema dauður bókstafur. Ég tók svo eftir, að við umr. hér í gær sagði hv. frsm. meiri hl., 3. landsk. þm., að hagurinn af því fyrir menn að byggja saman ætti að vera nægur og það væri líklega bezt að hafa enga löggjöf um byggingarsamvinnufélög. Þetta er náttúrlega sjónarmið út af fyrir sig, og það er eðlilegt, að þeir sem hafa þetta sjónarmið, sjái ekki ástæðu til þess að tryggja sölu hinna ríkistryggðu skuldabréfa eða tryggja framgang þessa félagsforms. En aðrir líta svo á, að byggingarsamvinnufélögin séu félagsskapur, sem bæði inniheldur réttindi og skyldur, og skyldurnar eru fyrir hendi samkv. gildandi l., og það er engin breyting á þeim, þó að brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. nái fram að ganga. Þessi félög þurfa eftir sem áður að hlíta því, að það sé endurskoðandi frá fjmrn., sem fer yfir reikninga þeirra, en frjáls félagssamtök einstaklinga eru ekki háð þeirri kvöð. Félagar þeirra eru eftir sem áður háðir því skilyrði að mega ekki selja íbúðirnar nema með tilteknum takmörkunum, sem eiga að koma í veg fyrir, að gróði, sem myndast af verðbólguhækkunum, renni til einstaklinga, heldur á hann áfram að vera í vörzlu félagsins og annar að njóta góðs af, þegar einn sleppir yfirráðum yfir húsnæði. Þetta álít ég eðlilegt, ef félagsskapurinn er megnugur að standa við skuldbindingar sínar, þ.e.a.s. ef einstaklingurinn nýtur jafnframt réttindanna. Og til þess var þessi till. sett fram af hálfu okkar flm., að það væru ekki einungis skyldur, sem fylgdu því að vera í byggingarsamvinnufélagi, heldur líka réttindi.

Hv. 3. landsk. þm. minnti á það hér í gær, að það væru viss réttindi, sem fylgdu því að vera í byggingarsamvinnufélagi, þar sem opinberir lífeyrissjóðir vildu kaupa ríkistryggð skuldabréf af meðlimum sínum, þannig að margur maður gengi í byggingarsamvinnufélag beinlínis til þess að njóta þeirra réttinda. Þetta kann að vera svona í framkvæmd, en hér er um hreint framkvæmdaatriði að ræða, og í raun og veru er engin ástæða til þess að skipa málum með þessum hætti. Ríkissjóður tekur veð fyrir ríkisábyrgðinni, og ég get ekki séð annað en hvaða lífeyrissjóður, sem er, væri fullsæmdur af því að taka það veð, þannig að milliganga ríkissjóðs í þessu skyni sýnist óþörf. Ég vil enn fremur minna á það hér, að ábyrgð ríkissjóðs er nú í formi einfaldrar ábyrgðar. Það vill segja, að skuldareigandi verður að leita fullnustu í veðinu fyrst, áður en kemur til þess, að hann geti leitað til ríkissjóðs um greiðslu, og hygg ég þannig, að í reyndinni sé ríkisábyrgðin í flestum tilfellum næsta lítils virði. Ég viðurkenni, að það var öðruvísi háttað um þetta, meðan ríkissjóður gekk í sjálfskuldarabyrgð á skuldabréfunum. Þá var það til mikils hægðarauka fyrir skuldareigandann að geta snúið sér að svo sterkum aðila, sem ríkissjóður er, og fengið greiðsluna hjá honum.

Ég álít þess vegna, að það sé mjög mikil skemmd á frv. okkar að fella út raunverulega alla möguleika fyrir byggingarsamvinnufélög til þess að láta meðlimi sína njóta þeirra réttinda, sem þeir eiga samkv. gildandi l. að njóta, en hefur í framkvæmd verið næsta lítils virði.

2. brtt. hv. meiri hl. af stærri gerðinni er sú, að hann vill ekki, að byggingarsamvinnufélög njóti neinna forgangsréttinda um lóðaúthlutun. Ég skal nú ekki hafa mörg orð um þetta. Hv. frsm. minni hl. gerði mjög vel grein fyrir því í gær, hvaða tilgangi þetta ákvæði á að þjóna samkv. till. okkar, þ.e., að félögin geti haldið áfram viðstöðulaust eða eftir því, sem við verður komið af öðrum ástæðum, að halda uppi byggingarframkvæmdum, en þurfi ekki að leggja hendur í skaut langtímum saman oft og einatt, eins og viljað hefur til, vegna þess að á lóðum hefur staðið. Þeir, sem staðið hafa fyrir byggingarframkvæmdum og þá vafalaust ekki sízt hv. 3. landsk. þm. þekkir það af reynslunni, hvers virði það er að geta haldið áfram við byggingarframkvæmdir, að þurfa ekki að stöðva og bíða eftir því t.d., að lóð sé fyrir hendi.

3. brtt. var svo um skattfrelsi byggingarsamvinnufélaganna. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um það heldur. Þar er meiningamunur, og ég hygg, að allur þessi meiningamunur eigi rót sína að rekja til þess, sem ég sagði í upphafi, að hv. meiri hl. sýnist, að byggingarsamvinnufélög eigi ekki að njóta neinnar sérstakrar lögverndar og það sé alveg eins gott, að þau séu bara frjáls félög einstaklinga, sem komi sér saman um að byggja saman og njóti hagræðis af því að vera fleiri um framkvæmdina, en við aftur hinir, sem flytjum þetta frv. og sem stöndum að áliti minni hl., teljum, að þetta form hafi sýnt það, að það er heppilegt til þess að koma upp ódýrum og heppilegum íbúðum, og það geti verið hið bezta fyrir einstaklingana, sem völ er á.

Hv. meiri hl. hefur lýst yfir því, að stuðningur hans við frv. sé undir því kominn, hvaða afgreiðslu þessar brtt. fá. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti og okkar flm., að við hljótum að verða andvígir þessum brtt., þar sem þær fella niður úr frv. alla meginkosti þess, sem þar eru að okkar dómi. Engu að síður vil ég lýsa yfir því, að verði þær brtt. samþ., mun ég a.m.k. fyrir mitt leyti þó samt sem áður fylgja því, að ný lög um byggingarsamvinnufélögin verði sett, með því að í öðrum gr. frv. en þeim, sem ég hef gert hér að umtalsefni, eru nokkur nýmæli, sem ég hygg, að til bóta séu.

En meginvandkvæði byggingarsamvinnufélaganna eru vitanlega þau, að þessi bréf, sem eiga að vera réttindi félagsmannanna, er ekki hægt að selja á nafnverði, vegna þess að það vill enginn kaupa þau. Og sú regla hefur verið tekin upp hér af hv. heilbr.- og félmn. að senda till. til umsagnar Seðlabankanum svona til þess að spyrja þá, hvort þeir vilji nú ekki fallast á, að Alþ. geri þeim það að skyldu að kaupa þessi bréf. Ég lít svo á, að Alþ. sé engan veginn bundið af umsögn Seðlabankans um þetta atriði og það eigi og hafi vald til þess að skylda Seðlabankann til svona hluta og það meira að segja, þó að þeir herrar, sem þar ráða ríkjum, séu ekki hrifnir af því. Og hvernig á að koma þeirri kvöð í lög, að einhver aðili í landinu sé skyldugur til þess að kaupa ríkistryggð skuldabréf byggingarsamvinnufélaga, ef Alþ. treystir sér ekki til þess að gera það, af því að viðkomandi aðili vill fremur fá að ráðstafa fjármagninu að geðþótta? Ég sé það ekki. Ég álít, að Seðlabankinn sé eins og aðrar ríkisstofnanir undir þá sök seldur að verða að hlýða landslögum, og ef Alþ. skyldi sýnast að leggja kvöð á Seðlabankann, t.d. að kaupa ríkistryggð skuldabréf, þá ætti að gera það alveg án tillits til þess, þó að bankastjórum Seðlabankans kynni að þykja þessa stundina, að þeir gætu varið þessum fjármunum betur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að eyða tíma hv. þd. í langar umr. um þetta. Það er, eins og ég sagði í upphafi, búið að tala svo mikið um þetta mál og búið að lofa því svo oft, að byggingarsamvinnufélögin eins og aðrir þættir húsnæðismálalöggjafarinnar fái sérstaka endurskoðun og athugun, að það er algerlega þýðingarlaust að vera að kveða þá vísu einu sinni enn.