23.03.1970
Efri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (2816)

53. mál, byggingarsamvinnufélög

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru örfáar aths., sem ég vildi gera hér við ræðu hv. 11. þm. Reykv. Í þessu frv., sem hann flytur ásamt öðrum hv. þdm., er eitt af hinum meiri nýmælum það að skylda Seðlabankann til þess að kaupa ríkistryggð bréf byggingarsamvinnufélaganna fyrir tiltekna fjárhæð á ári. Þegar slíkt ákvæði er að finna í frv., þá tel ég það eðlilega starfsreglu hjá þeirri n., hvort sem það er heilbr.- og félmn. eða einhver önnur, sem fær slíkt frv. til umsagnar og athugunar, að viðkomandi stofnun sé sent frv. til umsagnar. Í því felst auðvitað ekki, að n. eða einhverjir menn í n. sendi þetta í því skyni að vera fyrir fram ákveðnir í því að styðja þau sjónarmið, sem frá Seðlabankanum eða viðkomandi stofnun koma. Það er að vísu rétt, að Seðlabankinn, eins og hér hefur verið nefnt við þessa umr., andmælti þessu ákvæði og vildi, að það yrði fellt niður. En eins og ég tók nú reyndar fram hér í framsöguræðu minni, þá réð þetta ekki úrslitum. Ég a.m.k. persónulega neita því alveg, að þetta hafi ráðið úrslitum. Það, sem ég tel, að skipti jafnvel enn þá meira máli í þessu en umsögn Seðlabankans, — maður má ekki bara líta á niðurstöðu af því, sem Seðlabankinn segir og aðrar slíkar stofnanir, heldur líka þau rök, sem þær hafa fram að færa hverju sinni, — er það, að ef Seðlabankinn á að aðstoða við íbúðabyggingar eða lánveitingar til íbúðabygginga í landinu, þá tel ég, að það sé meiri þörf fyrir aðstoð á öðrum vettvangi en til byggingarsamvinnufélaganna, þó að ég telji þau alls góðs makleg, og þá á ég fyrst og fremst við það, að Seðlabankinn aðstoði hið almenna veðlánakerfi eða Húsnæðismálastofnun ríkisins, því að það, sem hér er verið að ræða um, er í rauninni eingöngu viðbótarlán við hin almennu húsnæðismálalán, sem félagar í byggingarsamvinnufélögum eiga kost á að fá, ef þeir geta selt ríkistryggð skuldabréf. En ég álít, að þörfin sé miklu brýnni á fyrsta stiginu, þ.e.a.s. að útvega húsnæðismálastjórn fjármuni til þess að geta staðið sæmilega í skilum með lánveitingar, og menn þurfi ekki að bíða eftir því langan tíma að fá lán út á lánshæfar íbúðir, og þar sé þörfin miklu brýnni. En svo er þess að gæta líka hér, að þeir menn, sem eru í lífeyrissjóðum, — að vísu hefur það nú verið svo fram til þessa, að þeir fá nokkuð skert húsnæðismálalán, en húsnæðismálalán þessara manna að viðbættum lífeyrissjóðslánunum eru þó mun hærri en hin venjulegu húsnæðismálalán eru, — eru betur settir en almennir húsbyggjendur í landinu. Ég er alveg sammála hv. 11. þm. Reykv. um það, að það sé ekki ástæða til þess fyrir lífeyrissjóðina, þó að þeir verði að sætta sig við 2. veðrétt á eftir húsnæðismálastjórn, að krefjast ríkisábyrgðar til þess að veita þessi lán, en reglur þessara lífeyrissjóða, eins og t.d. lífeyrissjóða opinberra starfsmanna, eru þannig, og ef ég man rétt, þá er það bundið í l. Ég get alveg verið sammála hv. 11. þm. Reykv., að það sé ekki ástæða til þess að hafa þetta svona. Það er þá kannske óbeinlínis verið að beina mönnum að byggingarsamvinnufélögum, sem hafa ekki áhuga á þeim af öðrum ástæðum en þessari einu. En vegna þess að lífeyrissjóðirnir breiðast nú út og menn vonast til þess, að innan örfárra ára verði svo að segja allir landsmenn aðilar að einhverjum lífeyrissjóði, þá gefur það auðvitað augaleið, að þetta greiðir fyrir þeim mönnum, sem vilja byggja í byggingarsamvinnufélagi, að geta þá átt kost á lífeyrissjóðsláni og fái það, vegna þess að þeir eiga þá líka kost á ríkisábyrgð.

Hv. þm. gerði nokkuð að umtalsefni þetta, sem hann kallaði réttindi og skyldur byggingarsamvinnufélaga samkv. l. Ég er honum sammála að því leyti til, að ég tel eðlilegt, að þetta haldist nokkurn veginn í hendur. Ef byggingarsamvinnufélögin bera sérstakar skyldur, þá eiga þau að hafa réttindi á móti, en aðalkvöðin, sem hvílir á eigendum íbúða í byggingarsamvinnufélögum, er sú, að þeir eru háðir sérstökum takmörkunum um endursölu íbúðanna. Byggingarsamvinnufélög eiga forkaupsrétt eftir sérstökum reglum. Í reynd hefur þessi aðalkvöð, sem á þá er lögð, þó að fleira megi finna, sem miklu minna máli skiptir, reynzt dauður bókstafur í framkvæmd eðlilega vegna þess, að þegar menn vilja selja í byggingarsamvinnufélagi, þá setja þeir að forminu til þann skilmála, að heimta allt útborgað, sem ekki er áhvílandi lán fyrir. Og það er afar fátítt, að nokkur maður geti keypt íbúð með þeim skilmálum, og þar með er viðkomandi manni af félagsins hálfu gefið þetta frjálst. Þess vegna verður líka að líta á það, að þessar kvaðir, sem á byggingarsamvinnufélögin hafa verið lagðar eða félaga þeirra, hafa ekki í raunveruleika haft neitt gildi. Það er að vísu rétt, að í till. meiri hl. er ekki hróflað við þessu. Þetta er látið standa. En í frv. er þó heldur dregið úr þessari kvöð, þar sem hún er þó takmörkuð í 15 ár, í staðinn fyrir, að áður var hún ekki takmörkuð við neinn tíma.

Að því er varðar úthlutun lóða, sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni, sagði hann, að það væri erfitt fyrir þá, sem stæðu í byggingarframkvæmdum, að það stæði á lóðum, og það er út af fyrir sig hárrétt, en það hefur nú orðið svo því miður iðulega, að það hefur staðið á þessu hjá sumum bæjarfélögum. Þetta gengur dálítið upp og niður. Þetta er misjafnt, hvernig stendur á með, hvaða lóðir eru til staðar í bæjarfélagi og hvaða lóðir er búið að undirbúa, leggja holræsi og götur, þannig að hægt sé að hefja byggingar, en iðulega hefur þó þetta verið þannig, að það hefur staðið á lóðum fyrir alla. Það hefur ekki bara staðið á lóðum fyrir byggingarsamvinnufélögin, heldur hvern og einn einstakan aðila, sem viljað hefur byggja. Og það, sem við í meiri hl. höfum verið andvígir, er, að byggingarsamvinnufélögin fengju þarna forgangsrétt umfram alla aðra. Bæði finnst okkur það ekki sanngjarnt, og auk þess væri náttúrlega slíkur forgangsréttur ákaflega miklum erfiðleikum bundinn í framkvæmdinni.

En það er auðvitað rétt hjá hv. þm., svo að ég víki nú aftur að fjármálunum, að það má segja, að á sama hátt og kvaðirnar hafa orðið litlar í reynd hjá byggingarsamvinnufélögum, þá hafi þessi réttindi, sem þeim eru veitt með ríkistryggingu bréfa, líka haft minna gildi en áður, vegna þess að það hefur verið erfitt að selja þessi bréf nema með verulegum afföllum. Ég efast þó um réttmæti þeirrar stefnu, þegar haft er í huga, hvað kvaðirnar á hinn bóginn eru orðnar léttvægar svona almennt talað, að fara að skylda einhvern, sem býr yfir fjármagni, til þess að kaupa ríkistryggð bréf. Ég held, að það væri eðlilegra að reyna að búa þannig um hnútana, að þessi bréf yrðu útgengilegri. M.a. vegna þess þá er í brtt. við þetta frv. lagt til af hálfu meiri hl. n., að þarna sé hægt að breyta til og gefa út fleiri tegundir af ríkistryggðum skuldabréfum en áður var. Það, sem ég á sérstaklega við, er að þau verði vísitölubundin, því að þó að það sé auðvitað alveg rétt, að vísitölulánin eru almennt óhagstæðari fyrir lántakendur en önnur lán, þá getur þó verið, að slík bréf séu miklu seljanlegri og það verði fyrir lántakandann í reynd mun betri útkoma af því að fá ríkisábyrgð fyrir slíku bréfi og selja það affallalaust en fá ríkisábyrgð fyrir bréfum þeim, sem gefin hafa verið út hér undanfarin ár, og þurfa að selja þau með stórfelldum afföllum.