04.11.1969
Efri deild: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (2825)

61. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta flytjum við hv. þm., Karl Guðjónsson, og ég. Þetta mál er gamalkunnugt hér í d. Það var flutt hér í fyrra, og það er ástæðulítið af minni hálfu að fara mörgum orðum um það eða aðdraganda þess, enda mun ég ekki gera það nema í örstuttu máli. Málið er þannig vaxið, að háöldruð kona austur í V.-Skaftafellssýslu óskar þess að fá keypta af ríkissjóði jörðina Holt í Dyrhólahreppi, en þá jörð hafði hún fyrir röskum þrem áratugum neyðzt af óviðráðanlegum ástæðum að selja í hendur ríkissjóði vegna þess, að óttast var, að framburður vatna eyddi miklu af landi jarðarinnar. Nú eru breyttar aðstæður í þessu efni og ekki talið líklegt, að af þeim völdum, sem áður var talið, færi jörðin illa eða verði fyrir tjóni.

Það hefur komið í ljós, að þetta mál á ákaflega erfitt uppdráttar, og það sýnist vera algert ofurefli hv. Alþ. að koma þessu að vísu litla máli, en mikla réttlætismáli, fram með viðeigandi hætti, Sú tregða, sem hér er á ferðinni, að málið fái fulla afgreiðslu á þingi, er okkur flm. þessa frv. með öllu óskiljanleg. Mótbárur þær, sem fram hafa komið, eru að okkar áliti og fjölmargra annarra mjög léttvægar og jafnvel fáfengilegar. T.d. sú mótbára, að ríkissjóði sé akkur í því að selja ekki þessa jörð, og það sé vegna þess, að aðrar ríkisjarðir sitt hvorum megin við þessa jörð hljóti illt af, komist þessi jörð aftur til sinna fyrri eigenda. Þetta er okkur, sem erum kunnugir staðháttum þarna, með öllu óskiljanlegt. Og yfirleitt ætlum við, að ríkissjóði mætti vera mjög mikill akkur í því að selja margar hverjar ríkisjarðir, því að það er í raun og veru sannleika sagt, — svo mikið veit ég sem umboðsmaður ríkisjarða, — er það mikill kostnaður, sem leiðir af því fyrir ríkissjóð, að eiga margar hverjar af þessum jörðum, og sú stefna hefur, eftir því sem ég bezt veit, verið uppi hér í hv. Alþ. að samþykkja slík frv. sem þetta, og jarðasölur ríkissjóðs hafa yfirleitt fengið mjög greiðan gang í gegnum þingið þar til allt í einu nú. Það er ekki eins og það megi ekki koma við í samningum af hálfu ríkissjóðs ýmsum atriðum í sambandi við sölu á þessari jörð og öðrum, sem koma til greina, að ríkissjóður selji. T.d. er engin hætta á því, — en sú mótbára hefur þó verið borin fram af þeim, sem vilja ekki mál þetta fram, — að skaðabótaskylda ríkissjóðs mundi verða með þeim hætti að nýju, að ríkissjóður yrði beinlínis að kaupa þessa jörð, ef ágangur vatna þarna í kring verði meiri en nú er ætlað, og líkur því sem áður var. Það mætti svo sem setja ákvæði inn í afsal um það, að ríkissjóður væri ekki skyldur að kaupa þessa jörð, en hins vegar hefði hann forgangsrétt að kaupum á jörðinni, ef nauðsyn teldist til vegna annarra ríkisjarða, þegar tímar líða. Ýmsu fleira mætti koma inn í slíkt afsal, og ekkert er við því að segja. Þess vegna munu slíkar mótbárur alls ekki haldbærar.

Eins og ég sagði í upphafi og við vitum flest í þessari d., þá fékk þetta mál mjög góðan framgang í d. í fyrra, en strandaði í Nd. Þennan góða framgang og skjóta, sem það fékk hér, viljum við flm. hér með þakka, og við væntum þess fast lega, að hv. d. afgreiði málið með ekki minni myndarskap en hún gerði á síðasta þingi.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Hv. þm. eru jafnkunnugir því og við flm. Að lokum vil ég óska þess, að málið nái að fara til 2. umr. að þessari 1. umr. lokinni, og fari til landbn.