27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

126. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, kvartaði hér undan þeim ummælum, sem ég hafði hér um hans afstöðu eða ábyrgð á þessu frv., þessari söluskattshækkun, sem hér er verið að ræða um. Ummæli mín í þessum efnum um hv. þm. eru fullkomlega eðlileg. Ég benti á það, eins og aðrir ræðumenn hafa hér gert, að þessi söluskattshækkun, sem hér er á ferðinni nú, er bein afleiðing af samþykktinni um EFTA–aðild. Þetta viðurkennir t.d. ríkisstj. algerlega. Og því er það, að ég tel þá aðila, sem stóðu að samþykkt aðildarinnar að EFTA, ábyrga fyrir þeirri stefnu, sem fram kemur í þessu frv. um hækkun á söluskatti.

Það eru ekki bara stjórnarflokkarnir, sem eru ábyrgir fyrir afleiðingunum af því, að við göngum í EFTA, heldur og allir þeir, sem samþykktu þessa aðild. Og ástæðurnar til þess eru þær, eins og ég vék hér að, að það lá alveg skýrt og greinilega fyrir, um hvað aðildin að EFTA snerist. Hún snerist ekki aðeins um það að ganga í þennan félagsskap, heldur um það að ganga í þennan félagsskap á tilteknum, afmörkuðum grundvelli. Það lá sem sagt fyrir, að um það hafði verið samið, að það ætti að lækka tolla eftir fast ákveðnum reglum, en í staðinn skyldi koma hækkun á söluskatti. Þetta lá fyrir. Enginn hafði verið dulinn þessa og þar með ekki þessi hv. þm., sem átti sæti í EFTA–nefnd.

Auðvitað vita hv. þm. það, að aðildinni að EFTA fylgdu ýmsir skilmálar, t.d. þeir, að það var nokkurn veginn gefið mál, að það mundu skapast í ýmsum tilfellum erfiðleikar fyrir innlenda iðnaðarvöruframleiðslu, og jafnvel gæti af því hlotizt atvinnuleysi í einstaka tilfellum. Þeir, sem samþykktu EFTA–aðild, bera þar af leiðandi ábyrgð á þessum afleiðingum sem og öðrum varðandi málið. Menn geta ekki skotið sér undan því og sagt: Þetta kemur okkur ekki við. Nákvæmlega sama er það, að þeir, sem samþykktu EFTA–aðild, voru að samþykkja það um leið, af því að það var yfirlýst stefna, að það skyldi hér taka upp mismunandi tolla í viðskiptum við einstakar þjóðir. Þetta var eitt af skilyrðunum, sem lágu fyrir. Alveg eins var með það atriði, að það átti samkv. EFTA–samningum að veita útlendingum tiltekna aðstöðu til atvinnurekstrar í landinu. Þeir, sem samþykktu EFTA–aðildina, gerðu það á þeim grundvelli, sem fyrir lá.

Ég tel því, að það sé vitanlega hlægilegt og í rauninni broslegt, þegar þeir, sem samþykktu EFTA–aðild, koma svo á eftir og segja: Já, en ég vildi samþykkja EFTA–aðild á allt öðrum grundvelli heldur en þeim, sem fyrir lá. Um það var vitanlega ekki að ræða. Hér lá engin till. fyrir um það. Það var gerð hér full grein fyrir því, á hvaða grundvelli EFTA–aðildin byggðist. Og ég tel, að í þeim efnum hafi ekkert verið undan dregið. Meira að segja hafði ríkisstj. lýst yfir því alveg skýrt og greinilega, hver stefna hennar í atvinnu— og viðskiptamálum væri, með aðildinni að EFTA. Hún taldi t.d., að það væri til bóta, að útlendingar yrðu hér í ríkara mæli en áður, þátttakendur í ýmsum atvinnurekstri í landinu. Þetta liggur fyrir bókað. Þetta var yfirlýst stefna. Þeir, sem samþykktu EFTA–aðild, gerðust vitanlega ábyrgir fyrir þessari stefnu um leið. Þeim, sem vildu EFTA–aðild á allt öðrum grundvelli, bar vitanlega að flytja till. um það og setja þau skilyrði þar fram, en ekki að samþykkja þá till., sem ríkisstj. lagði fyrir og byggð var á tilteknum grundvelli.

Ég álít því, að hv. 9. þm. Reykv. geti ekki skotið sér undan því á neinn hátt að bera ábyrgð á söluskattshækkuninni, að því leyti til sem hún var beinlínis bundin við EFTA–samþykktina. Hitt skal ég taka fram alveg ljúflega, að, að því leyti til sem hér er um meiri söluskattshækkun að ræða heldur en þurfti til þess að bæta upp tekjumissinn, sem grundvöllur hafði verið lagður að með EFTA–aðild, ber hv. þm. út af fyrir sig ekki ábyrgð á því. Og það er kannske vegna þess, að hv. þm. finnur þetta, sem hann fitjar nú upp á því, að hann muni hér við 3. umr. flytja till. um það, að söluskattshækkunin verði bara 2 1/2%, því að hann finnur það, að hann er raunverulega ábyrgur fyrir söluskattshækkun sem þessu nemur. Með flutningi slíkrar till. og með því að standa síðan að málinu á þeim grundvelli, þ.e. hækka söluskattinn um 2 1/2%, þá tel ég, að hann sé fyllilega ábyrgur fyrir því, sem hann hefur gert með samþykki sínu við EFTA–aðild. En ein af mörgum ástæðum til þess, að ég og við Alþb: menn vorum á móti EFTA–aðild, voru einmitt þeir skilmálar, sem EFTA–aðildinni fylgdu.

Tilraunir hv. þm. til þess að benda hér á einhverjar aðrar leiðir, sem hefði mátt taka upp, eru vegna þess, sem ég hef hér sagt, í raun og veru alveg út í hött. Þær eru líka að mínum dómi broslegar. Hér er vitanlega ekki um það að ræða að ætla skyndilega að fara að innheimta sérstakan eignarskatt, sem nemur 500 millj. kr. á ári eða meira, á þeim grundvelli, sem eignarskattar eru á lagðir og innheimtir hér. Það þarf að gera stórkostlega breytingu, svo að viðunandi grundvöllur fáist fyrir slíku og ég álít því, að ábending í þá átt sé mjög ótímabær, eins og málin standa.

Sama er að segja um ábendingar um virðisaukaskatt. Það vitum við allir, að slíkur skattur verður ekki tekinn upp hér í skyndi og í eðli sínu er virðisaukaskatturinn ekkert annað en söluskattur með tiltekinni aðferð. Ég geri því ekki stóran mun á virðisaukaskatti og söluskatti. Hann getur orðið, í vissum tilvikum a.m.k., nokkru öruggari í innheimtu og er það kostur, en hann hefur marga sömu galla og söluskatturinn, í sambandi við álagningu á ýmiss konar nauðsynjar. Hér er því ekki um það að ræða, sem hv. þm. minntist hér á, að ríkisstj. hefði getað valið aðrar leiðir. Hún valdi leiðina, skýrði frá því, flutti till. um það og þeir, sem greiddu þeirri till. atkv., hlutu vitanlega að gera það á þeim grundvelli, sem markaður var.

Mér finnst, að afstaða hæstv. fjmrh. til þeirra till., sem hér hafa komið fram um aukið eftirlit í sambandi við innheimtu söluskatts, sé allt of neikvæð. Auðvitað vitum við það, að þegar tekin eru upp öryggisákvæði um innheimtu á söluskatti, þá má búast við því, að þau öryggisákvæði verði ekki fullkomlega þétt í öllum tilfellum. En þau geta bætt ástandið frá því, sem það er. Ég álit því, að hæstv. fjmrh. ætti að taka undir þær till., sem við þrír þm. stöndum hér að því að flytja, til þess að gera innheimtuna á þessum skatti betri en hún hefur verið. Það er enginn vafi á því, að ef það lægi fyrir, að árlega skyldi fara fram gaumgæfileg athugun eða rannsókn á söluskattsframtölum og söluskattsgreiðslum, samkv. útdrætti, hjá 10% af þeim aðilum, sem eiga að greiða söluskatt, þá mundi það veita mikið aðhald og það mundi koma upp um ýmsa og þar af leiðandi í framtíðinni draga úr söluskattssvikum. Það dugir ekki að segja það, að skattayfirvöldin hafi heimild til að gera þetta og á meðan þau hafa ekki notað þessa heimild, er því eðlilegt, að Alþingi komi með sínar till. um, að þetta verði tekið upp. Þegar fjmrh. veit, hvernig allt er í pottinn búið, þá á hann að taka þessu fegins hendi og mæla með, að þetta verði samþ.

Auk þess er enginn vafi á því, að ef teknir yrðu upp á öllum viðskiptastöðum peningakassar, sem sérstakt eftirlit yrði haft með af umboðsmönnum rn. og inn á skyldi stimpla öll söluskattsskyld viðskipti, þá mundi það auka á aðhald og tryggja skil á söluskatti til mikilla muna frá því, sem nú er. Það er engin tilviljun, að aðrar þjóðir hafa tekið upp þessa aðferð. Ég segi ekki, að þessi atriði mundu verða til þess að gera innheimtuna fullkomlega 100% eða tryggja það, að allt kæmi til skila. En mér finnst, að þegar till. í þessa átt eru fluttar, þá séu viðbrögð hæstv. ríkisstj. allt of neikvæð. Hún sér alltaf einhverja annmarka á því að samþykkja slíkar till. Og t.d. það atriði, sem hæstv. fjmrh. minntist hér á, að það mundi verða einhverjum vandkvæðum bundið að koma þessum peningakössum fyrir og láta þá ná sínum tilgangi, þar sem það ætti sér stað í ýmsum tilvikum, að varan væri lánuð, en ekki greidd við afhendingu, það breytir vitanlega hér engu um. Öll slík viðskipti verður þá að skrifa og það þarf að gefa fyrirmæli um það, að sérstakar nótur skuli gefnar út í sambandi við slíkt og svo er vitanlega hægt að stimpla slík viðskipti, ef þau eru söluskattsskyld, inn í kassann eftir sem áður. Ég álít, að slík undantekningaratriði geti ekki verið til þess að afsaka það, að þetta kerfi er ekki tekið upp.

Ég skal svo ekki ræða um þetta mál frekar. Ég hef lýst afstöðu minni og okkar Alþb.-manna til frv. Við erum andvígir söluskattinum og við erum andvígir þeirri hækkun hans, sem felst í þessu frv., bæði að því leyti til, sem leiðir beinlínis af EFTA–aðildinni og eins í sambandi við þá viðbótartekjuöflun til ríkissjóðs, sem hér er lagt til, að eigi sér stað. Við erum andvígir þessum hækkunum, en gerum þó tilraunir til þess að fá nokkrar lagfæringar á gildandi lögum um söluskatt, en það breytir eigi að síður ekki þeirri meginafstöðu okkar, að við erum á móti söluskattinum og á móti þessu frv. Það er okkar meginafstaða.