10.11.1969
Efri deild: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (2847)

73. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er vissulega stórt mál á ferðinni, eins og hv. 1. flm., frsm., lagði áherzlu á hér í sinni ræðu áðan. Það frv., sem fjórir hv. framsóknarmenn í þessari d. hafa nú lagt fram um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, hefur að geyma ýmis nýmæli, og ég tel vafalítið við nokkuð fljótlega athugun, að mörg þau nýmæli séu til verulegra bóta og sum tvímælalaust til mikilla bóta. Álitamál er að sjálfsögðu um eitt og annað í sambandi við það, hvernig á að leysa þessi stóru mál, svo sem hvernig eigi að afla verulegs aukins fjármagns til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég er á þessu stigi ekki tilbúinn til þess að segja ákveðið um það, hvort ég aðhyllist að öllu þá fjáröflunartillögu, sem hér er bent á í frv., eða hvort þar kæmi eitthvað annað fremur til greina eða að nokkru leyti. Ég tel sjálfsagt að athuga þetta frv. gaumgæfilega og minnast þess, að hér er um svo stórt mál að ræða, sem allt of lengi hefur verið látið dankast, að það er óhjákvæmilegt að gera verulega bragarbót í þessum efnum. Ég hygg, að öllum sé það nú orðið ljóst, að hér þarf mikils við. Hér þarf að afla mikils fjár, til þess að hægt verði að auka stórum útlán byggingarsjóðsins, og það þarf að gera margvíslegar breyt. á þeim l., sem gilda um húsnæðismál og afskipti ríkisvaldsins af þeim.

Mér þykir miður, að hæstv. félmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessar umr., en um það er ekki að sakast, fyrst hann hefur fjarvistarleyfi, og því miður er nú enginn hæstv. ráðh. viðstaddur um þetta stóra mál. Ég hefði talið ástæðu til þess að ræða og þá alveg sérstaklega við hæstv. félmrh. um það, hvaða hugmyndir eru uppi hjá ríkisstj. um lausn húsnæðismálanna, um þær lausnir, sem eru alveg óhjákvæmilegar og ríkisstj. hlýtur að vera farin að hugsa um. En ég hefði einnig haft hug á því að spyrja um það, hvað liði efndum á fyrirheitum, sem gefin voru fyrir um það bil fjórum og hálfu ári, ég vil segja efndir á hátíðlegum loforðum, sem þá voru gefin um heildarendurskoðun a.m.k. ákveðinna þátta húsnæðismála og ég hygg skömmu síðar fyrirheit um heildarendurskoðun allra þessara mála og jafnvel að steypa þeim málaflokkum með ýmsum mismunandi lögum, sem um þetta hafa gilt, í eina heild.

Ég vil aðeins rifja það upp, að í sambandi við lausn kjaradeilu verkalýðsfélaga og atvinnurekenda sumarið 1965 gaf hæstv. ríkisstj. sérstaka yfirlýsingu um húsnæðismál, eins og hv. alþm. muna. Nokkur helztu ákvæði þeirrar yfirlýsingar sáu svo dagsins ljós í lagafrv., sem ríkisstj. flutti um haustið. Þar á meðal voru hin kunnu ákvæði um að byggja skuli, eins og það var orðað, hagkvæmar íbúðir fyrir láglaunafólk, þ.e.a.s. það var byggingaráætlunin í Breiðholti, sem þar sá dagsins ljós eða lagður var hinn lagalegi grundvöllur að. En eitt þeirra alveg ákveðnu og afdráttarlausu fyrirheita, sem fram komu í yfirlýsingu ríkisstj. þetta sumar, var endurskoðun l. um verkamannabústaði o.fl. Það var 4. liður yfirlýsingarinnar, og, með leyfi hæstv. forseta, var hann á þessa leið:

„Unnið verði að því af hálfu ríkis og sveitarfélaga að tryggja láglaunafólki húsnæði, sem ekki kosti það meira en hóflegan hluta árstekna. Í þessu skyni verði nú hafin endurskoðun I. um verkamannabústaði og gildandi lagaákvæða um opinbera aðstoð vegna útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis með það fyrir augum að sameina í einum lagabálki og samræma öll ákvæði um opinbera aðstoð við húsnæðisöflun láglaunafólks. Ríkisstj. hafi fullt samráð við verkalýðsfélögin um þessa endurskoðun laga um húsnæðismál láglaunafólks.“

Í framhaldi af þessu var því lýst yfir og skýrt frá því í blöðum og hér á Alþ., að með bréfi 15. okt. 1965 hafi hæstv. félmrh. falið húsnæðismálastjórn að framkvæma þessa endurskoðun, sem þarna var um að ræða og átti að fara fram. Ég hygg þó, að nokkru síðar hafi verið tekin ákvörðun um það, að jafnframt skyldi húsnæðismálastjórn hafa með höndum allsherjarendurskoðun á l. um húsnæðismálastjórnina sjálfa og taka þá alveg sérstaklega fyrir, með hverjum hætti mætti auka fjáröflun til húsnæðismálasjóðs.

Eftir því sem ég hef frétt um framvindu þessarar endurskoðunar, þá mun hún hafa farið af stað, eins og ráð var fyrir gert, og jafnvel hafa verið komin allvel á veg, en nú lengi hefur ekkert heyrzt mér vitanlega um þessa endurskoðun, og það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að spurt sé, hvað henni líði, hvort henni sé ekki að verða lokið. Það eru sem sagt liðin meira en fjögur ár, síðan húsnæðismálastjórn var falið að framkvæma þessa endurskoðun, og mér vitanlega er henni ekki lokið enn, og hefur ekkert heyrzt opinberlega um niðurstöður eða hvar þetta mál er á vegi statt. Mér þykir ólíklegt, að húsnæðismálastjórn sjálf láti sér það öllu lengur lynda, að hafa verið falið verkefni, sem hún ekki kemur frá sér. Mér þykir einnig næsta ólíklegt, að verkalýðshreyfingin láti sér það lynda, að eitt af þeim atriðum, sem beinlínis var gert samkomulag um, gefin yfirlýsing um af hálfu ríkisstj., verði ekki framkvæmt. Og mér þykir í rauninni afar ólíklegt, að hæstv. ríkisstj. ætli að láta það um sig spyrjast öllu lengur, að þessi heildarendurskoðun löggjafar um húsnæðismálastjórn sé látin dragast úr hömlu.

Þar sem hæstv. félmrh. er ekki hér, á þingi í dag, þá geri ég þetta mál ekki að frekara umtalsefni nú, en geri ráð fyrir að fara þá hina venjulegu fsp.-leið og leggja fram fsp, um þetta mál, sem ég tel brýnt, að upplýsist, og þá heldur fyrr en síðar.