16.03.1970
Efri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (2860)

91. mál, umferðarlög

Frsm. meiri hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, sem hér er til umr. Meiri hl. n. mælir með samþykkt frv. með nokkurri breytingu, sem fram kemur í till. meiri hl. n. á þskj. 379. Minni hl. í n., sem er andvígur frv., hefur skilað séráliti. Hv. 12. þm. Reykv., Ólafur Björnsson, var ekki staddur á nefndarfundi, þegar þetta mál var afgr. úr n.

Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls í hv. d., er það fram komið vegna þeirrar miklu þarfar, sem virðist víða um land vera á því, að skólanefndum barna- og unglingaskóla sé eftir atvikum heimilað af dómsmrh. að ráða til nemendaaksturs, þegar því er að skipta, ökumenn, sem hafa ekki hlotið svokallað viðbótarpróf eða meirapróf. Skólar, sem búa við þetta akstursfyrirkomulag frá skóla og til skóla, munu alls vera í landinu um 90 talsins, eftir því sem menntmrn. hefur upplýst. Nú er það svo, að skólanefndir hafa yfirleitt þann hátt á, þegar um slíkan akstur er að ræða, að bjóða hann út fyrir hvert skólaár í senn innan sveitar eða skólahéraðs. Þegar um stærri skólahéruð ræðir, hafa skólanefndir talið hentara vegna nemendanna að notast við minni bifreiðar og stytta þannig akstursleiðir. Og við það að stytta þannig akstursleiðir með því að nota minni bifreiðar á styttri vegalengdum hefur sparazt verulegur tími fyrir nemendur, og við höfum dæmi um það, að aksturstíminn hafi stytzt allt að því 2–3 klst. á dag við þetta fyrirkomulag. Og notkun þessara minni bifreiða, sem eru yfirleitt þéttar, að ég hygg, hefur, að því er við vitum í meiri hl. n. bezt, gefizt sæmilega vel og enda vel, og öryggi nemenda hefur verið tryggt eigi að síður. Á þessum leiðum aka bílstjórar, sem skólanefnd gjörþekkir og eru enda líka þaulkunnugir vegum og öllum aðstæðum. En sem sagt, það hefur oft verið gripið til þess ráðs, bæði í mínu héraði og víða um land, að leita til ökumanna, sem ekki hafa hlotið þetta meirapróf, vegna þess einfaldlega að ekki hefur náðst til manna, sem hafa þetta viðbótarpróf, fyrst og fremst. Og jafnvel þó að viðbótarprófsmenn hafi verið til staðar í skólahéraðinu eða í sveitinni, þá hefur það oftlega komið fyrir, að þeir hafa haft öðrum störf um að gegna eða hreinlega ekki kært sig þá um þetta starf.

Varðandi það, eins og drepið var á í umr. um þetta mál í n., að leita mætti þá út fyrir skólahéruð eða sýslur, þá tel ég, að það komi vart til mála, vegna þess að slíkir réttindamenn mundu ekki telja sér henta að vera fjarvistum frá heimilum sínum, svo að langtímum skiptir, til þess að stunda slíkan atvinnurekstur sem þennan.

Ákvæði frv. og brtt. okkar í meiri hl. n. á þskj. 379 miða að því að greiða fyrir því, að góðir og gætnir ökumenn, þótt þeir hafi eigi lokið þessum meiri háttar prófum, en hafa aðstöðu til að aka og ráða yfir traustum og vel búnum farkostum, geti hindrunarlaust annazt þessa flutninga, þegar alveg sérstaklega stendur á.

Ég vil þessu næst koma að tveim umsögnum um þetta mál, sem borizt hafa n. Önnur er frá Bifreiðaeftirliti ríkisins og hin frá Félagi ökukennara. Félag ökukennara leggur til, að frv. verði fellt, án frekari rökstuðnings þó í umsögninni. Bifreiðaeftirlitið aftur á móti rökstyður nokkuð sína umsögn og leggur til, að frv. nái eigi fram að ganga. Þessa umsögn Bifreiðaeftirlitsins vildi ég lítillega gera hér að umræðuefni.

Fyrst og fremst telur eftirlitið í umsögn sinni, að auðvelt sé að fá ökumenn með viðbótarprófsréttindum til þeirrar þjónustu, sem hér ræðir um, nemendaaksturs í sveitum úti, á því sé enginn vafi. Svo mörg eru þau orð. Ef svo auðvelt væri fyrir skólanefndir víðs vegar um land að kaupa til sín slíka réttindamenn til þessarar þjónustu, eins og eftirlitið vill vera láta, þá hefði þetta frv. aldrei verið borið fram. Það aksturskerfi, sem skólanefndir víðs vegar telja bezt henta, krefst fleiri ökutækja og þar af leiðandi fleiri ökumanna. Þar í liggur eitt meginatriði þess vanda, sem við er að etja. Fullyrðing eftirlitsins fær að minni hyggju alls ekki staðizt.

Í öðru lagi telur Bifreiðaeftirlitið nauðsynlegt, að gætnir og góðir ökumenn annist akstur á skólabörnum, en ekki lítt reyndir unglingar, 1820 ára að aldri. Um þetta atriði í umsögninni er það að segja, að hér er auðvitað hárrétt til getið. En vissulega eru þeir ökumenn margir, sem eru bæði gætnir og góðir, jafnvel afburða ökumenn, þó að eigi hafi þeir hlotið viðbótarpróf. En um aldurinn 18–20 ára er það að segja, að í till. meiri hl. á þskj. 379 er einmitt tekið fram um það, að lágmarksaldur í þessu efni sé bundinn 20 ára aldri, og þannig fer að þessu leyti saman álit okkar í meiri hl. og álit Bifreiðaeftirlits ríkisins.

Í þriðja lagi segir í umsögn Bifreiðaeftirlitsins, að misbrestasamt hafi verið og sé, að bifreiðar í nemendaakstri hafi verið í lagi eða af eftirlitinu samþykktar til slíkrar þjónustu. Eigi skal þessu móti mælt, síður en svo. En í till. meiri hl. eru einmitt fullgildar skorður settar við því. Bifreiðar undanþáguökumanna verða grandskoðaðar af hálfu Bifreiðaeftirlits, áður en til notkunar eru teknar, sbr. brtt. meiri hl. n. á þskj. 379. Þannig er fyrir það girt eða á að vera fyrir það girt, að til lélegra ökutækja í þessu skyni verði gripið. Er því til fulls gætt þessarar aths. Bifreiðaeftirlitsins í brtt. meiri hl. n.

Í fjórða lagi telur Bifreiðaeftirlitið jeppabifreiðar ekki hentugar til fólksflutninga og sízt á nemendum, þegar ökumenn jeppanna hafa ekki fengið fræðslu um, hversu jeppar geta verið varhugaverðir í akstri, enda ekki byggðir sem farþegatæki. Um þetta atriði er það að segja, að það er alkunna, að Bifreiðaeftirlit ríkisins hefur skráð og skráir jeppa sem fólksbifreiðar með leyfi til flutnings svo og svo margra farþega. Vátryggingafélög taka farþegatryggingar, að því er varðar jeppa, fullkomlega til greina, og ekki er vitað, að hærri slysatryggingaiðgjöld séu greidd af jeppum en af öðrum fólksflutningabifreiðum. Svo má geta þess, að jeppar hafa hingað til, — svo vítt við vitum í meiri hl., — verið taldir alveg sérlega góð farartæki, þegar um erfiða vegi og ófærð hefur verið að ræða, og henta að því leyti mun betur, þegar því er að skipta, að vetrarlagi til farþegaflutninga, hvort sem það eru nemendur í skólum eða aðrir. Þessi hluti umsagnar Bifreiðaeftirlits ríkisins er því mér og öðrum í meiri hl. n. harla framandi og við alls ekki, því miður, alveg með á nótunum. Við þetta er svo því að bæta, að þeim, sem vanir eru að aka jeppunum, og þá eru það ekki sízt menn í sveitum úti, er trúandi til þess að vita nokkurn veginn til aksturshæfni jeppa og alla þeirra gerð og mun betur en hinum, sem grípa í slíkar bifreiðar tíma og tíma.

Í fimmta lagi varar Bifreiðaeftirlitið við því, að tryggingafélög taki að sér að tryggja bifreiðar til farþegaflutnings, án þess að fyrir liggi yfirlýsing frá Bifreiðaeftirlitinu um, að bifreiðarnar fullnægi þeim kröfum, sem gerðar verða til bifreiða, sem aka gegn gjaldi. Hér er hárrétt á litið, og í till. meiri hl. n. eru einmitt ákvæði, sem eiga að tryggja þetta.

Með frv. og brtt. meiri hl. n. er þannig til skila haldið og eftir farið öllu eða flestu því, sem umsögn Bifreiðaeftirlits ríkisins fjallar um. Aðeins verður ekki af okkar hálfu fallizt á, að alls staðar sé nægum fjölda meiraprófsmanna til að dreifa, svo að akstri, sem skólanefnd telur bezt henta, verði við komið, og þess vegna sé engin þörf undanþágu. Eins og ég hef áður sagt, fær þessi fullyrðing eftirlitsins alls ekki staðizt. Hún er ekki raunhæf, því að það eru mjög víða um land einmitt sannanir fyrir því, að slíkir menn hafa alls ekki verið tiltækir og það í mjög mörgum tilfellum. Og okkur þykir fyrir því í meiri hl., að eftirlitið skuli ekki hafa komið auga á þá miklu þörf, sem er á frv. ásamt þeim till. frá meiri hl., sem því fylgja, til þess að bæta úr þeirri mjög brýnu þörf, sem hér er á ferð. Og fyrir þessari þörf er að okkar áliti bezt séð einmitt með lagaákvæðum eins og þeim, sem getur um í frv. og brtt., eins og á stendur.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að áliti minni hl. n. Minni hl. telur það hina mestu óhæfu, eins og það er orðað, að aðrir en meiraprófsmenn aki nemendum, hvar svo sem er og hvernig sem á stendur. Það telst til óhæfu samkv. þessu, að góðir og gætnir ökumenn, tvítugir að aldri eða eldri, fái undanþágu til nemendaaksturs um mjög takmarkaðan tíma eða í hæsta lagi eitt skólaár, þegar þannig háttar, að viðbótarprófsmönnum er ekki til að dreifa. Og það sé þá að sjálfsögðu hin sama óhæfa, þótt þessir undanþágumenn verði að hlíta hverju sinni umsögn viðkomandi lögreglustjóra að undangenginni athugun hans um feril ökumannsins. Og ekki aðeins, að slík umsögn þurfi fyrir að liggja, heldur og ekki síður þurfi fyrir að liggja umsögn Bifreiðaeftirlitsins um hvern einstakan undanþáguökumann persónulega og ástand og öryggisbúnað farartækis hans. Minni hl. gerir því að till. sinni að vísa þessu vandamáli, sem hér hefur verið lagt til úrlausnar á hv. Alþ., frá frekari meðferð, eins og hverju öðru einskis nýtu úrkasti.

Ekki segir minni hl. neitt til um það, hvernig fara eigi að, þegar einhverra hluta vegna ekki næst til viðbótarprófsmanna, en það er einmitt höfuðatriðið í þessu máli, hvað í slíkum tilfellum eigi til bragðs að taka. Á þá að fella niður skólahald að einhverju leyti eða kannske öllu, ef svo gæti staðið á? Það er spurningin. Við í meiri hl. n. teljum réttara, að þá verði gripið til undanþágu með ströngum skilyrðum. Það skólaár a.m.k. yrði bráðasti vandinn leystur eftir atvikum með viðunanlegu móti. Þetta er kjarni málsins. En með hinni rökstuddu dagskrá hefur minni hl. alls ekki sagt sitt síðasta orð. Hann setur fyrir lekann, ef svo kynni að fara, að hin rökstudda dagskrá yrði ekki samþ. Í því falli leggur minni hl. til, að undanþágumennirnir öðlist rétt til frambúðar og undanþágan gildi þannig alveg takmarkalaust. Þá sé öllu óhætt og alls öryggis gætt. Undanþágan, sem var af minni hl. hálfu talin óhæfa, þó að undanþága væri, hrein undantekning, bundin óvenjulegum skilyrðum til einungis eins árs, þá er undanþágan nú orðin að prýðilegri reglu, sem bundin er með lagaákvæði og engir meinbugir á, að hún veiti hin fyllstu réttindi um alla framtíð. Hér sýnist nú okkur í meiri hl. n. nokkuð óljós röksemdafærsla og ekki kenna fyllsta samræmis.

Hitt er svo allt annað mál, og um það hefur n. alls ekki fjallað, a.m.k. ekki svo að ég viti til, hvort athuga eigi um það að leggja niður hið svokallaða viðbótarpróf og allt það stand, sem slíku prófi fylgir, og láta eitt almennt, en býsna strangt bifreiðastjórnarpróf gilda, hvert sem farartækið er og hvernig sem notkun þess er háttað. Þetta er vissulega mál út af fyrir sig. En á það mun ég ekki leggja dóm að þessu sinni. En eins og ég sagði, með þessu frv. og þeim brtt., sem meiri hl. n. hefur lagt hér fram, er verið að freista þess að leysa úr bráðum vanda með undantekningu frá lagaákvæði, sem er bundin ströngum skilyrðum, eins og vera ber.

Nú vitum við það vel, að ýmsar undanþágur hafa átt sér stað og ekki aðeins um minni háttar efni, heldur meiri háttar, t.d. í sambandi við skipstjórn, við vélstjórn, ég tala nú ekki um allar þær undanþágur, sem hafa gilt, þegar ekki hefur verið hægt að ná til kennara með fullu prófi og fullum réttindum. Það hefur verið fjöldi manna við kennslu á ýmsum skólastigum, sem hafa ekki hlotið fullnaðarpróf, en orðið að notazt við þá og verið lengi. Þannig hafa verið löðrandi í ýmsum efnum einmitt undanþágur frá ýmsum prófum vegna þeirrar þarfar, sem er á því, að störfin séu rekin og rækt, en ekki felld niður. Og hér er einmitt eitt dæmið um það, hversu mikil nauðsyn er á því að fá slíka undanþágu.

Þegar litið er til þessara ströngu skilyrða, þessara umsagna og annars, sem að skilyrðum til undanþágu lýtur, þá er það mat okkar í meiri hl. n., að það sé fráleitt að halda því fram, að öryggi nemenda sé stofnað í sérstaka hættu, ef að því ráði væri horfið, sem um getur í frv. og brtt. Ég mundi miklu fremur vilja segja það, að meiri kröfur séu með þessum hætti gerðar til ökumanns persónulega, aksturshæfni hans og farartækis hans en ella væri. Og það sýnist mér líka eðlilegt, þar sem um sérstaka undanþágu er að ræða frá lagaákvæði og miklu varðar, að vel takist til um þennan starfa, þannig að mér sýnist engum vandkvæðum bundið, að hér verði samþ. þessi undanþága.

Ég hef lýst því í stórum atriðum, hvernig þetta mál liggur fyrir, þannig að það á að vera hv. dm. alveg fullljóst, að hverju frv. ásamt með fram lögðum brtt. meiri hl. stefnir. Við leggjum því til í meiri hl., að frv. ásamt brtt. á þskj. 379 verði samþ.