16.03.1970
Efri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í C-deild Alþingistíðinda. (2861)

91. mál, umferðarlög

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að gefa megi út undanþágu frá umferðarlögunum, sem annars krefjast þess, að þeir, sem aka bifreiðum til mannflutninga, þurfi af öryggisástæðum að hafa til þess sérstakt viðbótarpróf, svokallað meirapróf. En undanþágan, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er miðuð við það, að þó þurfi ekki slíks prófs til ess að aka skólabörnum í sveitum landsins. Ég verð að segja það, að grundvallarhugsunin í þessu frv. er mér feikilega fjarlæg, og það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. n. sagði hér áðan, að okkur í minni hl. finnst það óhæfa, að önnur og minni próf skuli þurfa til þess að tryggja öryggi barna í flutningum, skólabarna, en annars fólks. Það má vel vera, að við séum ekkert mjög fjölliðaðir um þessa skoðun, en hún verður engu að síður ekki frá mér tekin. Ég tel, að þess, sem nauðsynlegt er talið til almenns farþegaflutnings, eigi einnig að krefjast til flutnings skólabarna. Meiri hl. leggur til, að þetta frv. verði samþ. og aftan við það krækt viðbótargrein, eða við eina gr. þess verði bætt því ákvæði, að undanþágan skuli bara gilda í eitt ár í senn og viðkomandi undanþáguhafi skuli hafa náð 20 ára aldri og að tveir aðilar, lögreglustjóri í viðkomandi umdæmi og bifreiðaeftirlit samþykki það, að viðkomandi maður sé hæfur.

Ég vil lýsa yfir því, að ég skil vel þörfina fyrir þessu. Ég veit um, að það er ekki bara einn skóli, heldur margir skólar, sem eiga í örðugleikum vegna þessa ákvæðis, en að það sé hægt að leysa úr því með þessum hætti að gefa árlega út nýjan og nýjan pappír, jafnvel til manna, sem eitt sinn er búið að meta fullkomlega hæfa, og að því er hv. frsm. meiri hl. hélt hér fram áðan, gera til hans strangari kröfur en þeirra, sem taka viðbótarpróf, það sé ég ekki til hverra bóta á að vera. Annaðhvort er maðurinn hæfur og getur fengið skírteini upp á það eða þá hann er það ekki og fær þá væntanlega ekki skírteini, en að það þurfi að gefa honum það út árlega, það sé ég ekki, hverju hlutverki á að þjóna.

Ég hef verið viðstaddur þar, sem nærfellt allur vélstjórafloti í stærsta fiskiflota landsins, í Vestmannaeyjum, var búinn að missa réttindi fyrir sínu lífsstarfi. Þeir höfðu tekið mótorpróf, vélstjórapróf, sem gaf þeim réttindi til að mega stjórna 150 hestafla vél. Svo stækkuðu vélarnar í flotanum, unz svo var komið, að í rauninni þurfti hver einasti vélstjóri með örfáum undantekningum í þessari stóru verstöð að sækja um það eins og þurfamaður úr hendi einhverra dreissugra yfirvalda oft og tíðum að fá meðmæli í þessum stað, meðmæli í hinum staðnum og að lokum stimpil hjá rn. á pappírinn sinn. Það var um árabil allstór þáttur í mínu starfi að skrifa umsóknir. Ég skrifaði stundum svona 50 umsóknir á ári, og vitanlega eru það ekki allar umsóknirnar, því að ýmsir aðrir hafa skrifað þessar umsóknir, og hvað voru mennirnir að biðja um? Þeir voru að biðja um réttindi til þess að mega iðka sitt lífsstarf, og það sama lífsstarf væri undirstaðan að því, að allir landsmenn gætu haft til hnífs og skeiðar, svo að þeir, sem trúa á undanþágu, gætu mælt með svona hlutum. Ég ætla að fá að vera þar undanþeginn.

Það er rétt, að við erum búin í nokkurri fáfræði að ganga of langt í því á ýmsum sviðum, þ. á m. hér á Alþ., að gera miklar réttindakröfur til eins og annars, jafnvel til þeirra starfa, sem hver maður getur svo séð, að ekki er nauðsynlegt allt, sem krafizt er, til þess að geta rækt starfið. Þannig er það með réttindi til þess að stjórna bifreið til fólksflutninga. Ég hef enga trú á því fremur en hv. frsm. meiri hl., að það séu ekki til mýmargir menn, sem séu ágætlega til þess hæfir að aka bifreiðum í mannflutningum, aðrir en þeir, sem hafa tekið viðbótarpróf, sérstaklega við það miðað. En hvort sem hv. frsm. meiri hl. líkar betur eða verr, þá sé ég ekki, að það sé nein réttlæting til fyrir því að krefjast þessa meiraprófs til mannflutninga, ef það á ekki að gilda líka um skólabörn. Það, að samþykkja það, að aðrir megi aka þeim, menn, sem eru ekki samkv. prófum sínum taldir til þess hæfir, það er að meta skólabörnin lægra en annað fólk, og ég tek ekki þátt í því.

Frsm. meiri hl. telur, að við í minni hl. viljum henda þessu frv. eins og öðru ónýtu skrani eða úrkasti á burt, þó að krafizt sé árlegrar undanþágu. Það er rétt, ég lít á þetta frv. sem algert skran og rusl, sem Alþ. eigi að henda frá sér. Ég er ekki farinn að sjá framan í þá alþm., sem í alvöru vilja framkvæma þetta mat, að það þurfi ekki eins að gæta öryggis skólabarna í flutningum og annarra manna, sem ferðast með bifreiðum. Hitt er rétt, og hv. frsm. meiri hl. sér nú ekkert rökrétt samhengi í því, að við gerum allt eins ráð fyrir því, að slíkt geti komið fyrir, að Alþ. samþykki slíkar undanþágur eða slík réttindi, sem frv. gerir ráð fyrir til flutnings skólabarna. Annað eins hefur nú komið fyrir, að það gæti skeð, þó að ég voni nú, að það eigi ekki eftir að ske hér, en þá gerum við ráð fyrir því, að sá hinn sami maður, sem fengið hefur þessar undanþágur, hafi þar með réttindi til þess að flytja allt fólk. Ég sé ekki annað en þetta sé fullkomlega rökrétt hugsun, að það eigi ekki að gilda aðrar og minni kröfur um skólabörn en farþega almennt í landinu.

Við í minni hl. höfum gert það að okkar aðaltill., að þessu frv. verði vísað frá með svohljóðandi rökst. dagskrá:

„Með því að Alþ. telur það óhæfu, að minni

kröfur séu gerðar til öryggis í flutningum skólabarna en almennra farþega, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Við höfum einnig lagt hér fram varatill., ef þessi rökst. dagskrártill. skyldi ekki ná fram að ganga, og hún er þannig:

„Nú verður gefin út undanþága samkv. þessum l., og skal viðkomandi ökumaður þar með öðlast almenn og fullkomin ökuréttindi til mannflutninga.“