27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

126. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Ég hef ekki mikla löngun til að karpa við þennan hv. þm. um þetta atriði, en hann vék sér greinilega undan því, sem ég hafði hér lagt aðal áherzlu á, að ríkisstj. hafði gert grein fyrir því í till. sinni um aðild að EFTA, hverjir skilmálarnir væru og um hvað væri búið að semja og skýrði þar líka frá því, að um leið og tollarnir yrðu lækkaðir, þá yrði söluskattur hækkaður. Það þurfti ekki að standa í neinum EFTA–sáttmála. Það stóð ekki í EFTA–sáttmála, að við ættum að lækka tollana um 30% í fyrsta áfanga, en það var bara samið um það. Það voru skilyrði. Það voru þau skilyrði, sem lágu fyrir, þegar till. var flutt hér á Alþ. og ríkisstj. hafði ekki dregið neitt undan með það, að það, sem þessu ætti að fylgja sem bein afleiðing, væri söluskattshækkun. Og auðvitað þýðir ekkert fyrir þennan hv. þm. að neita því, að hann vitanlega greiddi atkvæði um till. ríkisstj. á þeim grundvelli, sem ríkisstj. lagði till. fram á, en ekki á einhverjum allt öðrum grundvelli, sem hann hafði hugsað sér.