09.03.1970
Efri deild: 52. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (2898)

164. mál, breyting á lausaskuldum bænda í föst lán

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta, er við framsóknarmenn flytjum hér í hv. Ed., er um það að breyta lausaskuldum bænda í föst lán og um skuldaskil hjá bændum. Þau gögn, sem fyrir liggja um þessi mál, eru fyrst og fremst álit harðærisnefndar á hag bænda, og er það byggt á framtölum frá 4769 bændum, það er þeirra bænda, sem hafa yfir 80 ærgildi og tekjur að meiri hluta til af landbúnaði. En í þessa mynd vantar framtöl frá nokkur hundruð bændum, sem ekki höfðu skilað framtölum árið 1968. Rannsókn harðærisnefndar er því byggð á efnahag bænda, eins og hann er samkv. framtölum þeirra til skatts í árslok 1967.

Í Árbók landbúnaðarins fyrir árið 1969 eru birtar rannsóknir harðærisnefndar. Þar er grundvölluð vinna, sem þægilegt er að bæta við, ef ástæða þykir til og vilji er fyrir hendi. N. hefur reiknað út skuldir, eignir, nettótekjur og brúttótekjur bænda, og voru heildarskuldir bændastéttarinnar í árslok 1967 1 milljarður 250 millj. kr., og þar af lausaskuldir kr. 491 millj. 416 þús. Meðalskuld á bónda er 262 þús. kr., meðallausaskuld 103 þús., meðalbrúttóárstekjur 400 þús. og meðalnettóárstekjur 123 þús. kr. Rúmlega helmingur bænda eða 2747 skulda undir tvöföldum nettótekjum sínum. Yfirleitt eru bændur þessir efnahagslega vel settir, nema ef vera kynni, að þeir eigi eftir að byggja upp á jörðum sínum. Öðru máli er að gegna með þá bændur, sem skulda meira en nemur tvöföldum nettótekjum. Margir þeirra bænda eiga í fjárhagserfiðleikum, en þó einkum þeir, sem skulda yfir fjórfaldar nettótekjur sínar, en það eru rúmlega 1000 bændur. Yfir 600 þeirra skulda meira en sexfaldar nettótekjur sínar og þar af að meðaltali nálægt því 300 þús. kr. í lausaskuldum. Augljóst er, að þessir bændur eiga yfirleitt erfitt með að standa í skilum, en þó sérstaklega þeir, sem hafa lausaskuldir yfir 400 þús. kr., og eru þeir nokkuð margir. Þessir bændur hafa einnig mun lægri nettótekjur en hinir, og liggur það m.a. í mjög þungri vaxtabyrði og verri afkomu almennt. Sjálfsagt hefur það mikið að segja, hvenær bændur þessir hafa byrjað búskap, keypt vélar og byggt upp á jörðum sínum, eða hvort það var fyrir eða eftir viðreisn, fyrir gengisfellingarnar eða eftir.

Þegar litið er á skuldir bænda miðað við brúttótekjur, kemur í ljós, að rúmlega 22% eða 1062 bændur skulda meira en nemur einföldum brúttótekjum, og þar af eru 902 bændur, sem skulda undir tvöföldum brúttótekjum, en 160 skulda yfir tvöfaldar brúttótekjur sínar. Telja má, að búskapargeta þessara bænda sé vonlaus án sérstakrar fyrirgreiðslu. Sjálfsagt eru þeir bændur mun fleiri, sem hafa þunga skuldabyrði og þurfa því á sérstakri fyrirgreiðslu að halda. Séu teknar skuldir bænda miðað við eignir á sama tíma og að framan greinir, þá hafa 3983 bændur innan við 40% af fasteignum sínum veðbundnar. En 395 bændur hafa á milli 40 og 60% fasteigna veðbundnar og 85 bændur á bilinu milli 60 og 70%, en 102 bændur eru með yfir 75% fasteigna sinna veðbundnar. Það virðast því vera frá 400–600 bændur, sem eiga í verulegum erfiðleikum með veð til þess að geta breytt lausaskuldum í föst lán.

Hér er stuðzt við mat harðærisnefndar á fasteignum. Hins vegar hefur nýja fasteignamatið, sem unnið er að, ekki öðlazt gildi enn þá, þrátt fyrir þann langa tíma og þá milljónatugi úr ríkissjóði, sem búið er að leggja í það mat. En þó hefur það mat verið notað í sambandi við þau lausaskuldalán, sem veitt hafa verið á þessum vetri. Eftir því, sem ég hef kynnzt þessu mati, þá er það mjög misjafnt eftir landshlutum, og gefur það ekki þá réttu mynd af fasteignum bænda, sem mér finnst, að fasteignamat þurfi að gera, en vonandi verður matið samræmt, svo að það geti orðið sá rétti grundvöllur, sem unnt er að byggja á, bæði lánveitingar og annað, sem við það verður miðað af opinberum aðilum.

Það lætur nærri samkv. mati harðærisnefndar á efnahag bænda, að útkoman sé svipuð í þeim samanburði, sem hún gerir á skuldum miðað við nettótekjur og brúttótekjur annars vegar og eignir eða veðhæfni jarðanna hins vegar. Í þessum samanburði kemur fram hópur bænda, sem á í miklum fjárhagserfiðleikum. Hér liggur það ekki ljóst fyrir, hve margir bændur eiga þar hlut að máli og þurfa sérstakrar aðstoðar við. Þær tölur, sem ég hef nefnt, eru byggðar á framtölum bænda 1968, og sýna þær efnahag þeirra í árslok 1967 eða fyrir rúmum þremur árum síðan. Margt getur breytzt á skemmri tíma, en eitt er víst, að efnahagur þeirra bænda, sem stóðu höllum fæti fyrir þremur árum, hefur ekki batnað. Sumir hafa án efa flosnað upp og aðrir komnir á vonarvöl, og eru þeir líklega fleiri.

Dýrtíðin, kalið, grasleysið og óþurrkarnir hafa skapað mörgum bændum erfiðan fjárhag. Síhækkandi rekstrarkostnaður samhliða lækkandi tekjum sýna, hvert stefnir. Hagtíðindin skýra nú sem fyrr frá því, að bændur séu langtekjulægsta stétt þjóðfélagsins. Þá er það einnig upplýst af Framleiðsluráði landbúnaðarins, að bæði mjólkurframleiðsla og kindakjötsframleiðslan var minni á árinu 1969 en árið áður. Hækkun á áburði varð s.l. ár t.d. 33.3%, og allir aðrir rekstrarliðir hjá bændum hækkuðu einnig mikið, auk þess sem fóðurkaup verða bændum í stórum hluta landsins miklu dýrari á þessum vetri en jafnan áður, þar sem heyskapur var mjög erfiður og heyin því bæði lítil að vöxtum og léleg að gæðum. Þar af leiðir, að útgjöld öll verða mun meiri á þessu ári en oftast áður.

Þá má á það benda í þessu sambandi, að samkv. búreikningum frá 118 bændum fyrir árið 1968 hækkuðu meðalskuldir þeirra um 40 þús. kr. eða úr 373 þús. kr. í ársbyrjun í kr. 413 þús. í árslok 1968. Eignir þessara bænda hækkuðu hins vegar á móti um 16 þús. kr., svo að árstapið varð um 24 þús. kr. En samkv. búreikningum hafa meðalskuldirnar hjá bændum verið allmiklu meiri en kom fram í því áliti, sem birt er frá harðærisnefnd. Launagreiðslugeta þeirra bænda, sem færðu búreikninga, reyndist vera kr. 27.27 á klst., sem er ekki einu sinni hálfur taxti þeirra verkamanna, sem búa við lægstan launaskala. Það gefur því augaleið, að það er ekki við því að búast, að hægt sé að borga niður skuldir né komast hjá skuldasöfnun með svo lágum tekjum. Það má heita vonlaust fyrir bændur að byggja yfir sig, því að þau lán, sem þeir fá, eru svo lág samanborið við kostnað, að lausaskuldasöfnun verður þeim óbærileg. Síðustu 10 árin hafa lánin numið sem hér segir, og er þá miðað við hús, sem er 120 fermetrar eða 350 rúmmetrar, og heildarkostnaður áætlaður hinn sami og hjá Hagstofu Íslands á hverju ári fyrir sig:

Árið 1960 var kostnaður á rúmmetra talinn 1228 kr. og húsaverð því alls 429.800 kr., lánsupphæð 90 þús. kr. og lán af kostnaðarverði 20.9%. Árið 1962 var þessi kostnaður á rúmmetra kominn upp í 1562 kr. og húsaverð 546 þús. 700 kr., lánsupphæð 150 þús. og hluti í láni sem hluti af kostnaði 27.4%. Árið 1964 er rúmmetrinn kominn upp í 1834 kr., húsaverðið í 641 þús. 900, lánið áfram 150 þús. og lán af kostnaðarverði 23.4%. En það ár fá allir bændur, sem byggðu, nokkurn styrk eða framlag frá Landnámi ríkisins, og nam það framlag 9.3% það ár. Árið 1965 er rúmmetrinn kominn upp í 2044 kr. eða húsið upp í 715 þús. 400, en lánið 260 þús. og nemur þá 36 3% af kostnaðarverði og ríkisframlagið 8.4%. Árið 1967 er rúmmetrinn 2767 kr., húsaverðið alls 968 þús. 450 kr., lán 260 þús. eða 26.8% af kostnaði og framlagið 6.2%. Árið 1968 var rúmmetrinn kominn upp í 2765 kr., húsaverð alls 967.750 kr., lánið 300 þús. og nam því 31% og ríkisframlagið 6.2%. S.l. ár er talið, að rúmmetrinn hafi kostað 3975 kr. og húsaverð alls 1 millj. 391 þús. 250 kr., lánið 300 þús. og nam því 21.6% af kostnaði. Og ríkisframlagið komið niður í 4.3%, en var upphaflega, þegar það kom á, 9.3%.

Þannig hafa bæði lán og ríkisframlag farið lækkandi með hverju ári, sem liðið hefur, og verða því bændur að leggja fram allstóran hlut annars staðar að en í gegnum þau lán, sem þeir fá frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, til þess að koma húsnæði yfir sig og sína. En húsnæðisþörfin er þó talin vera ein af lágmarksþörfum hvers og eins íbúa þjóðarinnar. Hér er miðað við meðalíbúðarhús og þann kostnað, sem Hagstofa Íslands reiknar árlega á rúmmetra í húsum, og er sá kostnaður undir raunverulegum kostnaði. Og þannig er það nú, að rúmmetri í íbúðarhúsum í sveitum er talinn vera sem næst 4500 kr. eða rúmum 500 kr. hærri en Hagstofa Íslands gefur upp í sínum útreikningum. 80% af kostnaði íbúðarhúsa verða bændur að leggja til annars staðar frá, og er þá ekki um að ræða lán nema með 10% vöxtum, annaðhvort sem víxlar eða viðskiptaskuldir. En mig minnir, að lánin í Breiðholti, þau sem síðast hafa verið veitt, hafi verið með 5% vöxtum, og ég held, að í sumum tilfellum séu heildarlánin sem næst 100% af kostnaðarverði íbúðanna.

Sem kunnugt er voru afgreidd frá Alþ. á s.l. ári lög um að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Reglugerð samkv. þeim l. var gefin út 9. júlí sama ár. Þar var fram tekið m.a., að vextir skyldu vera 9% og lánin aðeins ná til greiðslu á lausaskuldum vegna framkvæmda hjá bændum á árunum 1961–1968, enda áttu þeir bændur, sem sæktu um lánin, ekki að vera í neinum vanskilum, hvorki við Stofulánadeild eða Veðdeild Búnaðarbankans í árslok 1968. Umsókn skyldi komin til Stofnlánadeildar fyrir lok októbermánaðar ásamt öllum tilheyrandi gögnum.

Um mánaðamótin ágúst–september s.l. var aðalfundur Stéttarsambands bænda haldinn. Þar var samþ. svo hljóðandi till., með leyfi forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1969 mótmælir eindregið reglugerð við lög um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, þar sem með ákvæðum hennar eru þessi lög gerð allt of óhagstæð fyrir bændur, og útiloka þau fjölda bænda algerlega frá að geta hagnýtt sér þau. Þess vegna skorar fundurinn á landbrh. að breyta reglugerð umræddra l. m.a. þannig, að vaxtaprósenta lánanna verði færð til samræmis við vexti af lánum húsbyggjenda í Breiðholtshverfi í Reykjavík samkv. brbl. frá s.l. vori. En þótt slík lagfæring fáist, geta lánin ekki bjargað þeim bændum, sem lent hafa í mestum efnahagserfiðleikum s.l. ár. Þess vegna skorar fundurinn á landbrh. að gera ráðstafanir í samráði við stjórn Stéttarsambands bænda, t.d. með frestun afborgana fastra lána og lengingu lána og lengingu lánstíma, til að koma í veg fyrir, að þeir verði að hætta búskap, sem leiddi til þess, að fjöldi jarða færi í eyði.“

Eftir að till. þessi kom til hæstv. landbrh., sá hann sinn hlut vænstan með því að breyta reglugerð 1. þann 16. sept. á þann veg, að bankavaxtabréfin skyldu auk þess, sem áður er um getið, ná til greiðslu á skuldum vegna hvers konar fjárfestingar og jarðakaupa, þ.e. til framkvæmda, hvers konar fjárfestingar og jarðakaupa. Þessi viðbótarreglugerðarákvæði vissu allt of fáir bændur um, þar sem reglugerðin var aldrei auglýst, en hennar getið í einu dagblaði, að ég held, einu sinni. Og fór því svo, að margir þeir bændur, sem annars hefðu sótt um lausaskuldalán, gerðu það ekki, vegna þess að þeir vissu ekki um breytingu þá, sem gerð var á reglugerðinni, og margir höfðu sent sín gögn áður til Búnaðarbankans og miðuðu þau gögn við þá reglugerð, sem þeim var kunnugt um, en hún takmarkaði mjög þau lán, sem þeir gátu fengið. Þegar lög um lausaskuldir voru samþ. á Alþ., þá hélt ég, að þar mundi fást úr því skorið, er þau kæmu til framkvæmda, hverjir hefðu þörf fyrir fyrirgreiðslu umfram það, sem l. ákváðu. Ég er á allt annarri skoðun nú um þessi mál, og færi fyrir þeirri skoðun minni eftirfarandi rök:

1. Upphaflega reglugerð lausaskuldalaganna frá 9. júlí 1969 var svo þröng og takmörkuð, að þeir bændur, sem voru skuldugir, en höfðu ekki staðið í framkvæmdum, sóttu ekki um lausaskuldalán, því að þeir töldu það þýðingarlaust, þar sem skuldir þeirra féllu ekki undir ákvæði reglugerðarinnar.

2. Einstaka lánadrottnar neituðu að taka við bankavaxtabréfum upp í skuldir, þar sem enginn var skuldbundinn til að taka bréfin upp í viðskipti, t.d. Seðlabankinn að taka þau upp í bindifé banka, sparisjóða og innlánsdeilda, eða Seðlabankinn að taka bréfin upp í önnur viðskipti hjá bönkum, sparisjóðum og verzlunum.

3. Vextir af bankavaxtabréfum vegna lausaskuldanna þóttu allt of háir, þar sem það er aðeins 1% munur á þeim og víxlavöxtum eða viðskiptavöxtum verzlana.

4. Allmargir bændur, sem voru komnir í vanskil við Stofnlánadeild landbúnaðarins og Veðdeild Búnaðarbankans, gátu hvergi náð í lán til þess að borga vanskilin við bankann og töldu því vonlaust að sækja um lán og hafa ekki sótt um þau enn þá, vegna þess að þeir fá hvergi peninga að láni til þess að borga vanskilin með. Þessir bændur koma því hvergi fram á sjónarsviðið, vegna þess að það hefur verið miklu verr að þessu máli staðið en þurfti að gera. Þótt löggjöfin í þeim efnum sé gölluð, þá var hægt að halda betur á málum en orðið hefur í reyndinni.

5. Breyting sú, sem gerð var á reglugerðinni 16. sept., var fáum bændum kunn sakir þess, að hún var ekki auglýst, og fresturinn aðeins lengdur um 10 daga til að skila umsókn og gögnum. Tíminn var útrunninn, áður en þeir bændur, sem annars höfðu sótt um lán, vissu, að þeir gætu komið til greina með að fá fyrirgreiðslu á lausaskuldum sínum.

6. Nokkrir bændur voru svo illa settir, að þeir höfðu engin afgangsveð til þess að fá meiri föst veðlán en þeir þegar höfðu og hafa, svo að þeir sóttu ekki um lausaskuldalán, þar sem þeim var ljóst, að þeir yrðu jafnt eftir sem áður að sitja með lausaskuldir sínar, þar sem ekki var um neina aðra fyrirgreiðslu að ræða en þá að breyta vissri tegund skulda eftir því, hvernig þær væru tilkomnar, í föst lán eftir því, sem veðin leyfðu í hverju einstöku tilfelli.

Það, sem ég hef hér nefnt, og ýmislegt fleira, hefur valdið því, að allmargir bændur, sem þurfa á því að halda að koma skuldamálum sínum í viðunandi horf, hafa ekki sótt um lán. Fyrir suma hefur það enga þýðingu, en svo eru aðrir, sem hefðu án efa fengið einhverja fyrirgreiðslu, ef þeim hefði strax verið kunnugt um reglugerðarbreytingu þá, sem gerð var. Það þurfti að auglýsa reglugerðina og hafa umsóknarfrestinn lengri, eins og ég hef heyrt, að Búnaðarbankinn hafi viljað, en ekki fengið því ráðið, að hafa umsóknarfrest til 31. des. s.l. ár í staðinn fyrir til októberloka. Það er því útilokað, eins og ég hef fært rök að, og að fenginni reynslu af framkvæmd lausaskuldalaganna frá í fyrra annað en taka málið upp að nýju, ef forráðamenn þjóðarinnar vilja bændum ekki verr en þeir láta stundum í ljósi, þegar þeir rumska annað slagið.

Það er enginn vafi á því, að það þurfa fleiri bændur fyrirgreiðslu á skuldamálum en þeir 460, sem þegar er búið að veita lán, ýmist þannig að þeir hafa komið öllum lausaskuldum sínum í bankavaxtabréf eða þá að hluta til, og hefur það farið eftir ýmsum aðstæðum. Ég hef ekki tölur yfir það, en það hefur sína þýðingu að vita, hvað þeir bændur eru margir, sem hafa fengið eða hafa komið öllum lausaskuldum sínum í föst lán. Og það væri líka fróðlegt að vita, hvað það væru margir bændur, sem hafa afgangslausaskuldir, þrátt fyrir það að nokkur hluti þeirra er þegar kominn í föst lán. Þetta hefur allt sína þýðingu.

Það munu alls hafa borizt umsóknir til Búnaðarbankans um lausaskuldalán frá 640 bændum. 180 hafa enga fyrirgreiðslu fengið, og munu fæstir fá, eftir því sem hæstv. landbrh. upplýsti við setningu búnaðarþings. Þá taldi hann aðeins um örfáa bændur að ræða, sem ættu eftir að fá lán, og verið væri að athuga, hvað gera skyldi við þá bændur, sem ekki fengju lausaskuldalán, sakir þess að fjárhagur þeirra væri svo illa kominn.

Ég hef heyrt, að það væru nálægt 300 bændur, sem væru í vanskilum við Stofulánadeild og Veðdeild Búnaðarbankans. Af framansögðu má það ljóst vera, að það er hópur bænda, sem þarf að fá fjárhagslega fyrirgreiðslu, ekki aðeins með því að breyta lausaskuldum í föst lán, heldur og einnig með skuldaskilum. Frv. okkar framsóknarmanna er því tímabært og kemur í góðar þarfir, þar sem það er miðað við hagkvæm lán og skuldaskil, sem eigi verður hjá komizt í allmörgum tilfellum. Skuldir bænda við Bjargráðasjóð Íslands eru orðnar allmiklar, og falla þær á bændastéttina af fullum þunga á næstu árum. Á þessum vetri lánar Bjargráðasjóður Íslands sveitarfélögum 76 millj. kr. til þess að endurlána bændum til fóðurkaupa. Skuldir þær, sem fyrir voru hjá Bjargráðasjóði vegna harðinda, voru 32 millj. kr., svo að þessar skuldir alls nema því 108 millj. kr., sem bændur hafa tekið síðustu þrjú árin vegna harðindanna og eiga að borga, áður en langir tímar líða. Það er að vísu mikill kostur við þessi lán, að þau eru vaxtalaus, en þau verður að greiða á næstu árum. Bjargráðasjóðslánin ein eru 21600 kr. á hvern bónda í landinu til viðbótar við allar aðrar skuldir, sem á þeim hvíla, og þeir þurfa að rísa undir.

Það frv., sem hér um ræðir, fjallar einkum um tvennt: Annars vegar að breyta lausaskuldum í föst lán og hins vegar um skuldaskil. I. kafli frv. fjallar um það að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, en reginmunur er á frv. þessu og núgildandi l. frá 1969, um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. En aðalmunurinn felst í eftirtöldum atriðum:

1. Að lögin nái til lausaskulda hjá fyrirtækjum bænda, sem komið hafa upp vinnslustöðvum, en ekki fengið nægjanleg stofnlán.

2. Að l. taki einnig til lausaskulda, sem hafa myndazt vegna bústofns- og fóðurkaupa.

3. Að l. nái yfir skuldasöfnun á tímabilinu frá 1960 til og með 1969.

4. Að vextir verði ekki yfir 6%. 5. Að lánin verði til 25 ára.

6. Að heildarlánsupphæð megi vera 80% af matsverði.

7. Að einnig verði tekið veð í vélum bænda og vinnslustöðva þeirra.

8. Að Seðlabankinn kaupi bankavaxtabréfin á nafnverði.

En í öllum þessum atriðum er reginmunur á því frv., sem hér liggur fyrir varðandi breytingu á lausaskuldum í föst lán, og þeirri löggjöf, sem ég hef hér lýst, eins og hún hefur orðið í framkvæmd.

II. kafli frv. fjallar um skuldaskil. Þar er gert ráð fyrir því, að stjórn Skuldaskilasjóðs verði skipuð 5 mönnum, sem landbrh. skipar eftir tilnefningu eftirtalinna stjórna: Búnaðarbanka Íslands, Sambands ísl. samvinnufélaga, Stéttarsambands bænda, Búnaðarfélags Íslands. Fjmrh. tilnefni einn mann í stjórnina. Stjórnin er valin með tilliti til þess, að allar þær stofnanir, sem tilnefna menn í stjórnina, hafa meira eða minna með skuldir bænda að gera og þurfa að taka sínar ákvarðanir þar að lútandi.

Ríkissjóður skal leggja Skuldaskilasjóði til það fjármagn, sem þarf í fyrstu. Gert er ráð fyrir því, að sjóðurinn fái allt að kr. 50 millj., sem ríkissjóði er heimilt að taka að láni til 10 ára og endurlána það með sömu kjörum til Skuldaskilasjóðs. Fjár til greiðslu vaxta og afborgana af lánum samkv. 8. gr., þ.e. þeirri gr., sem ég hef lýst, skal aflað með tvennum hætti, þ.e. árlegum fjárveitingum næstu 10 ár frá og með 1971, og árgjöldum af lánum þeim, sem bændum er veitt úr Skuldaskilasjóði. Til viðbótar því stofnfé, sem Skuldaskilasjóði er aflað úr ríkissjóði, skal stjórn sjóðsins heimilt að gefa út handhafaskuldabréf, sem mega nema samtals allt að 75 millj. kr. Bréfin skulu vera gildur gjaldeyrir til greiðslu á skuldum eldri en frá 1. janúar 1970, að svo miklu leyti, sem þær eru ekki tryggðar með fasteignaveði, svo og til greiðslu á árgjöldum af fasteignaveðslánum, sem fallin eru í gjalddaga, og víxlum, enda hafi skuldin myndazt fyrir árslok 1969. Bréfin skulu vera gildur gjaldeyrir af hendi einstaklinga og stofnana í viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Trygging fyrir skuldabréfum er stofnfé sjóðsins, skuldabréfin frá lántakendum og ábyrgð ríkissjóðs. Vextir skulu vera 6% og skuldabréfin til sama tíma og lánin, þ.e. allt að 25 ára og innleysast á þeim tíma.

Fé Skuldaskilasjóðs skal einungis varið til lánveitinga handa bændum, og skilyrði fyrir þessum lánveitingum eru eftirfarandi:

1. Að umsækjandi reki landbúnað sem aðalatvinnuveg.

2. Að skuldir hans í hlutfalli. við eignir og árstekjur séu svo miklar, að sjóðsstjórnin telji honum ókleift að standa við skuldbindingar sínar eða reka bú sitt á heilbrigðum grundvelli, nema hann fái einhverja eftirgjöf skulda.

3. Að umsækjandi geti sett þá tryggingu fyrir láninu, er sjóðstjórnin telur gilda.

4. Að hann geti að dómi sjóðsstjórnar staðið straum af árlegum greiðslum á lánum sínum, er hann hefur fengið stuðning samkv. l. þessum samhliða heilbrigðum búrekstri.

Meginefnið um framkvæmd skuldaskila er hliðstætt þeim reglum, sem gilda undir slíkum kringumstæðum hjá öðrum atvinnuvegum, og einnig að nokkru stuðzt við l. um kreppulánasjóð frá 1933.

Eins og fram kemur í 19. gr. frv., er reiknað með því, að það verði að gefa eftir skuldir í nokkrum tilfellum, og er Skuldaskilasjóði ætlað að taka þátt í þeirri eftirgjöf að hálfu leyti á móti lánadrottni. Þátttaka Skuldaskilasjóðs í eftirgjöf er á því byggð, að lausaskuldir bænda eru yfirleitt ekki hjá ríkisbönkum eða ríkisfyrirtækjum né heldur með ábyrgð ríkissjóðs, eins og á sér stað í sjávarútvegi og þeim fyrirtækjum, sem þar til heyra. Krafan um það, að ríkissjóður taki þátt í þessum skuldaskilum, er því jafnréttiskrafa, sem framkvæmd er með öðrum hætti innan annarra atvinnuvega, en lendir þó á sameiginlegum sjóði þjóðarinnar, þegar á bjátar. Hér getur aldrei orðið um stórar fjárhæðir að ræða.

Ég tel, að að öðru leyti skýri þetta frv. sig sjálft, þar sem um er að ræða almenn ákvæði, og skal ég ekki nánar fara út í það.

Herra forseti. Ég tel, að landbúnaðurinn sé íslenzku þjóðinni nauðsynlegur. Hann er að verðmæti til tveir milljarðar 970 millj. kr. og sparar því mikinn gjaldeyri og aflar þjóðinni mikils gjaldeyris eða eftir því, sem ég get bezt komizt að, milli 600–700 millj. kr. Hann er undirstaða iðnaðarins í vaxandi mæli og heldur uppi atvinnulífi í fjölmörgum kauptúnum og kaupstöðum landsins. Það verður víða atvinnuleysi, ef byggðum býlum fækkar og samdráttur yrði í landbúnaðarframleiðslu. Því ber hv. Alþ. og alþm. að efla landbúnaðinn með því að samþykkja frv. þetta, sem treystir í nokkru efnahag bænda. En hafa ber það í huga, að það er ekki nóg að breyta lausaskuldum bænda í föst lán með því að framkvæma skuldaskil, nema búið sé betur að bændastéttinni eftirleiðis en verið hefur um skeið, þar sem það hefur sýnt sig, að þrisvar sinnum á 8 árum hefur orðið að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Það þarf jafnframt að endurskoða þá löggjöf, sem getur haft áhrif á afkomu bænda til hins betra. Nefni ég þar þá fyrst og fremst lög um lánakjör landbúnaðarins, þ.e. stofnalánasjóðirnir. Lánstíminn þarf að lengjast, vextir að lækka, sérskattur og erlend lán með gengisáhættu að hverfa úr lánakerfi landbúnaðarins, svo að bæði félagsleg uppbygging í landbúnaði og framtak bænda á býlum sínum geti haldizt í hendur. Verkefni, sem vinna þarf, blasa víða við, en undirstöðum þeirra verkefna má ekki gleyma, en það eru bændurnir og þeirra skyldulið, sem á því hefur sitt framfæri. Minna vil ég hv. þm. á það, að bóndi er bústólpi, og bú er landstólpi, og því skal hann virður vel.

Legg ég svo til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.