09.03.1970
Efri deild: 52. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

176. mál, orkulög

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Rafmagnið er eitt af þeim gæðum, sem menn telja ekki hægt að vera án, eins og háttað er til um aðstöðu manna á heimilum og við atvinnurekstur nú á tímum. Þetta hefur verið viðurkennt af löggjafanum, bæði með lagasetningu um þessi efni og með því að veita fé til þess að koma rafmagninu sem víðast um byggðir landsins, þó að því miður að framkvæmdir í þeim efnum gangi hægar en æskilegt væri. Flestir landsmenn fá rafmagnið frá samveitum, en það eru takmörk fyrir því, hvort kleift þykir að leggja samveitur til þeirra byggðarlaga, sem strjálbýl eru, og hefur markið nú verið sett við það að koma samveitum til þeirra bæja, þar sem meðalfjarlægð eru tveir km eða minni. Þeir, sem eru svo í sveit settir, að geta ekki fengið rafmagn með þessum hætti, verða að afla þeirra gæða með því að koma upp litlum rafstöðvum til heimilisnota. Og þá er um tvennt að ræða, annaðhvort mótorrafstöðvar eða litlar vatnsaflsstöðvar, þar sem skilyrði eru fyrir hendi til þess að virkja vatnsafl í þessu skyni.

Samkv. orkulögunum er Orkusjóði heimilt að veita einstökum bændum, sem einir eða fleiri saman reisa mótorrafstöðvar, lán, er nemi allt að 4/5 stofnkostnaðar rafstöðvarinnar. Það er enn fremur ákveðið í orkulögum, að úr Orkusjóði sé heimilt að veita einstökum bændum, sem einir eða fleiri saman reisa vatnsaflsstöðvar til heimilisnota utan þess svæðis, sem héraðsrafmagnsveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, lán að upphæð allt að 2/3 stofnkostnaðar viðkomandi vatnsvirkjana og línulagna heim að bæjarvegg.

Hér er gerður nokkuð mikill munur á, og okkur flm. virðist, að þessi munur sé óeðlilega mikill. Vatnsaflsstöðvar eru fullkomnari og endast að jafnaði lengur en mótorrafstöðvar, ef virkjunarskilyrði eru sæmileg, og víða þarf að leggja alllanga línu frá vatnsafli, sem virkjað er, heim að bæjarvegg, en mótorrafstöð er yfirleitt hægt að reisa heima við bæ. Það er líka takmörkunum háð, hvað hægt er að leiða lágspennt rafmagn langan veg frá virkjunarstað og heim að bæ, og ef sú vegalengd fer yfir tiltekið mark, svona kringum 1 km, þá þarf spennistöð til þess að koma spennunni á nothæft stig, og hleypir það vitanlega mjög fram kostnaði við slíka virkjun. En eins og ég gat um, þá mæla orkulögin svo fyrir, að til þessara framkvæmda, þ.e. vatnsvirkjunar, línulagna heim að bæjarvegg og spennistöðva, er reisa þarf, sé einungis heimilt að veita lán, sem nemur 67% stofnkostnaðar. Hinn hlutann verður sá, sem mannvirkin reisir, að leggja fram úr eigin vasa.

Með þessu frv. er stefnt að því, að leiðrétta þetta misræmi, þannig að lán út á vatnsaflsstöð megi nema allt að 75% stofnkostnaðar, og enn fremur að heimilt verði að veita úr Orkusjóði óafturkræft framlag til þeirra vatnsaflsstöðva til heimilisnota, sem reistar eru utan þess svæðis, er héraðsrafmagnsveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, og að lán og framlag megi nema samtals allt að 90% af stofnkostnaði rafstöðva og línulagna heim að bæjarvegg.

Orkulög voru samþ. á Alþ. 18. apríl 1967. Og það fór nú svo, eins og oft vill verða, að sú d., sem síðar fjallaði um þetta mál, hafði mjög skamman tíma til athugunar og afgreiðslu málsins, og það var hv. Ed., sem fjallaði síðar um orkulögin, en þau höfðu verið alllengi til athugunar í hv. Nd. Þegar orkulög voru sett vorið 1967, var bent á þetta misræmi, sem þetta litla frv. okkar miðar nú að, að leiðrétt verði. Þá benti ég m.a. á þetta, og það fóru fram nokkur orðaskipti á milli mín og hæstv. raforkumálaráðh., Ingólfs Jónssonar, út af þessum efnisatriðum í sambandi við orkulögin. Þá leyfði ég mér að benda á þetta, sem ég hef nú gert að umræðuefni, og hæstv. raforkumálaráðh. tók vel undir þessi atriði, en benti á, sem vitanlega var rétt, eins og málið lá þá fyrir, að það væri komið að þinglausnum og væru mikil vandkvæði á, ef málið þyrfti aftur að fara til Nd. Ég hef fengið í hendur til þess að rifja þetta upp hér stutta ræðu, sem þá var haldin, en um þetta sagði hæstv. þáverandi raforkumálaráðh., Ingólfur Jónsson, m.a.:

„Þetta mál er nú komið á síðasta stig í þinginu, og það er ekki langur tími, sem Alþ. á eftir að sitja í þetta sinn, og jafnvel þótt menn hefðu áhuga fyrir að gera vissar breytingar, þá er erfitt um vik að þessu sinni. En ég mælti ekki gegn því áðan, að það gæti verið eðlilegt að hækka þetta lánshlutfall, en þetta er vitanlega alltaf matsatriði, og vitanlega getur það vel komið til greina, þó að síðar verði, að hækka þetta lánshlutfall, og ég mundi segja eins og hv. síðasti ræðumaður, að það kæmi vitanlega vel til greina eftir nánari athugun, að það þætti sanngjarnt að hafa eitthvert óafturkræft framlag. Ég vil ekkert fullyrða um það, en það er ekki í þessu frv.“

Ég hef leyft mér að rifja þetta upp, og ég legg nú fram þetta frv. ásamt 1. þm. Vesturl. í því skyni, að þetta atriði verði nú tekið til athugunar á ný, og vænti þess, að það geti leitt til þess, að menn sjái ástæðu til þess að gera þá tiltölulega smávægilegu og kostnaðarlitlu breytingu á orkulögum, sem stefnt er að með þessu frv.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.