28.04.1970
Efri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (2925)

233. mál, lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og tekið er fram í grg. fyrir þessu frv., er það flutt af fjhn. samkv. beiðni hæstv. fjmrh., en með þeirri yfirlýsingu frá nm., að þeir hafi óbundnar hendur um afstöðu til frv., þannig, að þar sem hér er í rauninni um formsatriði að ræða varðandi flutning þessa frv., þá ber mér í rauninni ekki nein skylda til þess að hafa framsögu fyrir því, en með tilliti til þess, að eins og getið er um í grg. fyrir frv., — ég átti sæti í þeirri n., sem undirbjó þetta frv., — vil því leyfa mér að fara um það fáeinum orðum.

Eins og tekið var fram í grg. lífeyrissjóðsnefndarinnar, sem hér er birt, er hugmyndin um slíkan lífeyrissjóð bænda ekki ný. Það var þegar á árinu 1962, — að landbrh. skipaði n. til þess að gera till. um slíkan lífeyrissjóð. En þessi n. hætti störfum, og kom þar tvennt til, að niðurstaða hennar var sú, að miklir erfiðleikar yrðu á því að skapa fjárhagslegan grundvöll fyrir slíkan lífeyrissjóð, og í öðru lagi var þá byrjað að vinna að því, að komið yrði á fót lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Síðan hefur þetta mál m.a. með tilliti til könnunarinnar á möguleikum á því að koma á fót lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn legið niðri, þangað til að á Búnaðarþingi 1969 var kosin þriggja manna n. til að athuga, hvernig bændur gætu á hagkvæmastan hátt orðið aðilar að almennum lífeyrissjóði eða ef tiltækt þætti, hvort stofna skyldi sérstakan lífeyrissjóð fyrir bændastéttina. En vorið 1969 gerðist svo það, sem skapaði alveg ný viðhorf í þessum málum, að það varð liður í allsherjarsamningum milli vinnuveitenda og launþega, að komið yrði á fót lífeyrissjóðum fyrir meðlimi verkalýðssamtakanna. Það hefur lengi þótt eðlileg og sjálfsögð regla, sem segja má, að komið hafi að nokkru til framkvæmda þegar á stríðsárunum, þegar vísir myndaðist til núverandi fyrirkomulags í verðlagsmálum landbúnaðarins, að bændur nytu í meginatriðum svipaðra kjara og launastéttirnar í landinu. En síðan hefur það verið meginregla, sem fylgt hefur verið við verðlagningu búvörunnar, að hún tryggði bændum sambærileg lífskjör við aðrar vinnandi stéttir, eins og það hefur verið orðað. Þegar nú eru komnir til framkvæmda sérstakir lífeyrissjóðir fyrir allan þorra launþega, þá er eðlilegt, að þetta mál verði tekið upp á ný.

N. sú, sem skipuð var á Búnaðarþingi 1969, hefur svo ásamt stjórn Stéttarsambands bænda samið sérstakt frv. um hugsanlegt fyrirkomulag slíks lífeyrissjóðs, og n. sú, sem undirbúið hefur þetta frv., hefur haft það mjög til hliðsjónar, og má segja, að í meginatriðum hafi verið á þessu frv. frá n. Búnaðarþings og Stéttarsambands bænda byggt. Þetta er aðdragandinn að því, að þetta frv. hefur verið lagt fram.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að rekja að öðru leyti einstök ákvæði þessa frv., enda þar um mjög tæknilegt mál að ræða, þannig að ég býst við, að hv. þdm. hefðu af því litla ánægju með tilliti til þess, hve skammt er síðan, að þessu frv. var útbýtt, enda hefur mér skilizt, að hugsunin sé ekki sú, að þetta frv. verði afgreitt á þingi því, sem nú situr, þannig að menn hafi það þá til athugunar í sumar, en þess má þá vænta, að endanleg löggjöf um þetta verði sett á komandi haustþingi.

Þess má geta, að auðvitað er sá vandi á við ákvörðun iðgjalda til lífeyrissjóðs bænda, að bændur hafa auðvitað þá sérstöðu miðað við launþega, að þeir hafa engan eiginlegan atvinnurekanda, sem lagt geti fram á móti iðgjöldum þeirra á sama hátt og atvinnurekendur launþega. En til þess að bændur búi í þessu efni við sambærilega aðstöðu og aðrir, þá er gert ráð fyrir því í frv., að álag komi á búvöruna, þannig að neytendur greiði þá í sjóðinn hliðstætt því, sem atvinnurekendur greiða launþega. Þetta er sú leið, sem lagt er til, að farin sé, og þó að um hana megi ef til vill deila, þá kom lífeyrissjóðsnefnd ekki auga á annan möguleika í því sambandi.