28.04.1970
Efri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (2926)

233. mál, lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi láta koma hér fram til skýringar á því, með hverjum hætti þetta frv. er flutt, og af hverju það er lagt hér fram, þegar ljóst er, að það getur ekki náð endanlegri afgreiðslu. Ástæðan til þess, að frv. ber þannig að, sem raun ber vitni um, að það er ekki flutt sem stjfrv., heldur eftir ósk minni, sem fer með mál lífeyrissjóðanna, af fjhn., er sú, að þetta mál hefur verið mjög síðbúið í hendur ríkisstj., þannig að það hefur ekki unnizt tími til þess að taka endanlega afstöðu til málsins. Ástæðan til þess, að rétt þótti engu að síður að leggja frv. fram, er sú, að eins og hv. frsm. fjhn. og form. hennar kom inn á í ræðu sinni, þá eru í þessu frv. að finna ýmiss konar nýmæli, sem eru allt annars eðlis en hafa gilt um lífeyrissjóði til þessa. Og þá er það fyrst og fremst um að ræða það atriði, hvernig eigi að haga mótgreiðslum á móti iðgjöldum bænda til lífeyrissjóðsins. Á sínum tíma, þegar þetta mál var til meðferðar, þá strandaði það einmitt á því, að það fannst ekki lausn á þessu vandamáli, en eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, þá er sú almenna regla í því efni, að launþegi greiðir vissan hluta iðgjalds og vinnuveitandi greiðir iðgjald á móti. Nú er í venjulegri merkingu þess orðs ekki um að ræða neinn vinnuveitanda varðandi bændur, og það er því í þessu frv. farið inn á þá braut í till. n., sem það hefur samið, að gert er ráð fyrir því, að litið verði á neytendur búvöru sem vinnuveitendur bænda. Persónulega tel ég þessa hugsun ekki þurfa að vera fjarri lagi, en það er ekki sízt þetta atriði, sem veldur því, að rétt þótti að sýna þetta mál, ekki til að hefja sérstakar umræður hér á Alþ. í lok þings, heldur til þess, að það gæfist kostur á því milli þinga að íhuga þetta mál og þeir aðilar, sem á því hefðu áhuga, létu þá í ljós skoðanir sínar á því, sem gætu þá legið fyrir, þegar frv. kæmi aftur til meðferðar í haust. En eins og nú standa sakir, þá má telja, að lífeyrissjóðir nái nú til allra þeirra, sem eru raunverulegir launþegar í þjóðfélaginu, og af þeim sökum er það, að hugmyndin um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn er í rauninni ekki í sviðsljósinu, ef svo má segja, eins og sakir standa, eftir að stofnaðir hafa verið sérstakir lífeyrissjóðir fyrir alla launþega með ýmsum hætti og þá helzt í frjálsum samningum.

Það getur hins vegar farið svo og þarf ekki að vera útilokað, að þegar lífeyrissjóðir eru komnir á með sérsjóðum fyrir alla landsmenn eða meginþorra þeirra, að þá sé rétt að taka það mál upp til athugunar og íhuga, hvort það eigi með einhverjum hætti að steypa þeim saman. Það er annað mál, sem naumast verður á dagskrá núna á næstunni. Og ég tel aðeins rétt að skýra frá því, að það hefur nýlega verið sett á laggirnar n. til þess að íhuga það, hvaða starfshópar í þjóðfélaginu enn þá eru utan lífeyrissjóða auk bænda, og jafnframt að þessi n. geri þá um það till. til ríkisstj., með hvaða hætti hugsanlegt væri, að þessir aðilar gætu gerzt aðilar að lífeyrissjóði, annaðhvort sérstökum lífeyrissjóðum eða þeim sjóðum, sem þegar væru til, og raunverulega er þar um að ræða, að því að ég hygg, nær eingöngu hópa, sem eru sjálfstæðir vinnuveitendur í einhverju formi, þannig að úrlausnarefnið verður nokkuð svipaðs eðlis eins og á sér stað um bændur, og spurningin er því sú, hver eigi að teljast vinnuveitandi þessara starfshópa. Þetta er það sérstaka atriði, sem ég vildi leggja áherzlu á, auk þess að skýra það, hvernig stendur á því, að málið er lagt svona fram.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða um það, nema kannske eitt atriði, sem er rétt að benda á, og það er, að það er gert ráð fyrir, að það gildi hið sama um bændur í þessu sambandi og um félaga verkalýðssjóðanna, sem stofnaðir voru með samningum á síðasta ári og tóku gildi um síðustu áramót, þ.e. að gamlir bændur fái þegar réttindi, þótt ekki sé til í sjóðnum fé handbært til þess að standa undir því, með svipuðum hætti og á sér stað varðandi verkamenn. Undir þessum framlögum verði staðið með tvennum hætti, annars vegar frá Stofnlánadeild landbúnaðarins og hins vegar frá ríkissjóði.