28.04.1970
Efri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (2927)

233. mál, lífeyrissjóður bænda

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta það koma fram strax hér við 1. umr. þessa máls, að ég er að sjálfsögðu mjög hlynntur þeirri hugmynd að stofnaður yrði lífeyrissjóður fyrir bændur. Um hitt skal ég ekki segja á þessu stigi, hvort einstök atriði í þessu frv. eru þannig úr garði gerð, að þau þurfi ekki einhverrar frekari athugunar við.

En ég vil þó að gefnu tilefni benda á það, að hugmyndin um lífeyrissjóð fyrir bændur er ekki nýtilkomin, og hún er meira að segja talsvert eldri en kom fram hjá hv. frsm., form. fjhn., vegna þess, að það var þegar á Alþ. 1957, sem flutt var þáltill. um stofnun lífeyrissjóðs fyrir alla landsmenn, eða um athugun á því. Sú till. var samþ., og það var n. sett á laggirnar samkv. þeirri þáltill., og hún skilaði áliti eftir eðlilegan tíma og lagði það til, að það yrði horfið að stofnun slíks lífeyrissjóðs. Frekari athugun á þessu efni var síðan gerð af einstökum ákveðnum embættismanni, og skilaði hann þar á eftir allítarlegri skýrslu um það. Svo var það, að ég hygg, eftir að Alþ, hafði enn á ný endurtekið vilja sinn í þessu efni, að skipuð var enn ný n. til þess beinlínis að semja l. eða frv. að l. um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Og satt að segja veit ég nú ekki betur en að sú n. sé enn starfandi, svo að mér sýnist það nú í sjálfu sér kannske hafa verið dálítil ofrausn að fara að stofna nýja n. til þess að athuga það, hverjir yrðu nú utan við lífeyrisréttindi, eftir að samningar hafa verið gerðir um það mál við einstakar stéttir. Mér hefði nú sýnzt, að það hefði mátt fela þessari n., sem hefur haft þetta verkefni með höndum um nokkur ár, að athuga það einnig.

Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta, að það hefur verið mörkuð af Alþ. ákveðin stefna í þessu efni, sem sé sú stefna að stofna lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Og ég veit ekki betur en að hæstv. ríkisstj. hafi haft það á sinni stefnuskrá, þeirri síðustu, að koma þeim lífeyrissjóði á fót. A.m.k. þori ég algerlega að fullyrða, að það hefur verið eitt af margundirstrikuðum stefnumálum annars stjórnarflokksins, Alþfl. Og vitaskuld hefur inni í þessum hugmyndum um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn verið hugmyndin um lífeyrissjóð fyrir bændur.

Hitt er svo rétt, eins og hæstv. fjmrh. drap á, að framkvæmdir í þessu efni hafa orðið nokkuð á aðra lund, og hefur þróunin orðið þannig, að með samningum hafa sífellt fleiri sérsjóðir verið myndaðir og sífellt fleiri stéttir samið um þau hlunnindi sér til handa, sem fólgin eru í lífeyrisréttindum. En alltaf hafa auðvitað einhverjir orðið útundan, og enn er það svo, að bændur eru í þeim hópi. Og þeir eru náttúrlega langsamlega stærsti hópurinn, að ég hygg, sem nú eru að verða útundan, eftir að gengið hafa í gildi lífeyristryggingar sjómanna almennt og verka manna.

Það er að mínum dómi auðvitað algerlega óviðunandi ástand, og þess vegna sjálfsagt að hraða því, að settur sé lífeyrissjóður fyrir bændur.

Þó að ég að vísu vilji ekki hér fara út í að ræða einstök atriði í þessu frv., af því að því var útbýtt nú rétt áðan og þess vegna hefur ekki gefizt kostur á að athuga það rækilega, þá er það þó ljóst, að undirbúningur þessa frv. er allvandaður, þar sem fyrst og fremst hefur verið þannig að því unnið, að n., kjörin af Búnaðarþingi og stjórn Stéttarsambandsins hafa tekið saman frv. um þetta efni, og síðan hefur svo starfað sérstök n., sem hefur samið frv. á grundvelli þeirrar athugunar og þess frv., sem þegar hafði verið gert. Og mér skilst, að það hafi verið samkomulag í þeirri n. um þetta mál. Ég þori ekki alveg að segja um það, hvort það hefur eitthvað verið vikið þar frá eða ekki, en mér skilst, að það hafi a.m.k. í öllum höfuðatriðum verið fullt samkomulag um málið. Ég geri því ráð fyrir því, að þetta mál sé mjög vel undir búið og það sé í raun og veru þannig úr garði gert, að það sé ekki líklegt, að Alþ. telji sig hafa ástæðu til að gera á því stórar breytingar.

Þessum l. er að vísu ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en 1. janúar 1971, svo það má segja, að það sé nægur tími til stefnu og hægt að afgreiða það á haustþingi. En miðað við þá afgreiðslu, sem hér er á sumum öðrum málum, þá fyndist mér alls ekkert fráleitt, að það kæmi til greina að afgreiða þetta mál nú, sé áhugi fyrir hendi í þá átt. Og ég býst við því, að það sé nægilegur þingstuðningur fyrir hendi við það. Hvort sem er, er þetta þess háttar löggjöf, að það getur alltaf komið til, að það þurfi að athuga eitthvað nánar, þegar farið er að framkvæma. Þetta vildi ég aðeins segja, að mér sýnist þessi möguleiki vera fyrir hendi, ef áhugi er á því að fá þetta mál afgreitt nú. Hæstv. fjmrh. lét þess getið, að það hefði ekki verið tekin afstaða í ríkisstj. til þessa máls. Það er þá a.m.k. þannig, að það hefur ekki verið gerð nein samþykkt um þetta í ríkisstj. Hins vegar vil ég nú ekki skilja þetta svo, að ríkisstj. sé ósammála um þetta mál, en ef svo væri, þá væri náttúrlega gott að fá upplýsingar um það.

Að öðru leyti vil ég endurtaka það, sem ég hef þegar sagt, að ég tel sjálfsagt að koma þessari hugmynd í framkvæmd sem allra fyrst, og ég vil styðja að því.