08.12.1969
Sameinað þing: 20. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2941)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér er vissulega um stórmál að ræða. Aðild Íslands að EFTA mundi óhjákvæmilega hafa hér víðtæk áhrif. Eigi að svara á rökstuddan hátt þeirri spurningu, hvort Ísland eigi að gerast aðili að EFTA, er að mínum dómi nauðsynlegt að reyna að átta sig á grundvallaratriðum EFTA-samningsins og einnig á nokkrum aðalatriðum varðandi efnahagslega og viðskiptalega aðstöðu Íslands. Eins og þegar hefur komið fram í þessum umr., eru grundvallaratriði EFTA-samkomulagsins þau, að reyna að koma á svonefndum frjálsum viðskiptum á milli EFTA-landanna innbyrðis með svonefndar iðnaðarvörur, þ.e.a.s. EFTA-löndin skuldbinda sig til þess að fella niður tolla og viðskiptahömlur í sambandi við viðskipti með þessar vörur. Þetta er meginatriðið í EFTA-samkomulaginu. Ef við líka reynum að átta okkur á því, hver eru þýðingarmestu atriðin varðandi efnahagslega og viðskiptalega stöðu Íslands eins og nú háttar, kemur það í ljós, að þýðingarmestu atriðin í atvinnumálum okkar eru tengd við sjávarútveg og landbúnað. Þar er um að ræða okkar grunnatvinnuvegi. Þegar kemur til utanríkisviðskipta, liggur það fyrir, að utanríkisviðskipti þjóðarinnar eru þannig, að um 90–95% af útflutningi þjóðarinnar flokkast undir sjávarútvegsframleiðslu og 1015% undir landbúnaðarvörur. M.ö.o., tiltölulega mjög lítið er um það að ræða, að við Íslendingar flytjum út svonefndar iðnaðarvörur. Þó er það svo, að nokkrar af þeim vörum, sem við flokkum almennt undir sjávarútvegsvörur, geta orðið að þessum iðnaðarvörum samkv. nánari skilgreiningu við ákveðna vinnslu á þessum vörum í landi. Það eru einmitt þessar staðreyndir, sem hafa orðið þess valdandi, að því hefur verið lýst hér yfir á Alþ. og í stjórnmálaumr, á Íslandi á undanförnum árum hvað eftir annað, m.a. af ráðh. í núv. ríkisstj., að þeir teldu, að aðild Íslands að EFTA skipti ekki verulegu máli fyrir okkur Íslendinga, vegna þess að útflutningi okkar væri þannig háttað; að hann kæmi hérna tiltölulega lítið við sögu. Í þessum efnum tel ég alveg nauðsynlegt, að menn átti sig á því, að þýðingarmestu útflutningsvörur okkar Íslendinga, eins og nú háttar, falla ekki undir EFTA-samkomulagið. Því er t.d. þannig varið, að útflutningsvörur okkar eins og nýr fiskur eða ísvarinn fiskur flokkast ekki undir EFTA-meðferð. Saltfiskur flokkast ekki undir EFTA-meðferð, saltsíld ekki heldur, frosin síld ekki heldur, enginn heilfrystur fiskur flokkast undir þetta samkomulag. Allt þetta stendur fyrir utan, og ef við bætum því svo við, að síldarmjöl er ekki tollað í viðskiptalöndum okkar, kemur í ljós, að allar þýðingarmestu útflutningsvörur okkar eru fyrir utan það samkomulag, sem hér er verið að ræða um. Það er vitanlega þessi staða, sem hefur gert það að verkum, að við höfum flýtt okkur með gát í sambandi við EFTA-aðild á undanförnum árum. Útflutningi okkar hefur verið svona háttað og er svona háttað. Allt öðru máli hefur gegnt um ýmsar aðrar þjóðir, sem flytja út í mjög stórum stíl iðnaðarvörur, sem njóta vissra hlunninda, ef þær komast undir EFTA-ákvæði í viðskiptum á milli þjóða. Fyrir þeim hefur þetta mál því legið á allt annan veg en hjá okkur.

En eins og ég sagði áður, eru nokkrar vörur, sem við flytjum út, sem falla þó undir EFTAákvæðin. — Einn þýðingarmikinn vöruflokk hljóp ég yfir í sambandi við útflutningsvörur okkar, sem ekki falla undir EFTA-reglurnar, en það eru landbúnaðarvörur. Það er t.d. útflutningur okkar á kindakjöti. Hann er þarna alveg fyrir utan. — En hvaða afurðir eru það, sem við flytjum út nú í dag, þar sem um gæti verið að ræða hugsanlegan ávinning af EFTA-aðild? Það er lýsi, síldarlýsi og þorskalýsi. Þorskalýsi mundi skipta okkur tiltölulega litlu máli því að það flytjum við út til 60–70 landa og EFTA-löndin skipta hér ekki verulegu máli. En það er rétt, þegar við höfum mikið af síldarlýsi, gæti EFTA-aðild haft þar nokkuð að segja fyrir okkur á beinan hátt. Þar er um að ræða 10% innflutningstoll í Bretlandi, en þangað seljum við allmikið af síldarlýsi okkar. En því er ekki fyrir að fara nú og hefur ekki verið um skeið, að á þetta reyni. Það er einnig um bað að ræða, að við flytjum út nokkuð af fiskimjöli, sem fellur undir ákvæði EFTA-samkomulagsins. En við seljum líka fiskimjölið til margra annarra landa og höfum auðveldlega getað komið því þannig fyrir á undanförnum árum, að við höfum ekki þurft mikið á enska markaðanum að halda fyrir fiskimjöl okkar. Undir þessi ákvæði EFTA-samkomulagsins mundu falla nokkrar vörutegundir, sem við flytjum út af niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum. En þar er um mjög lítinn útflutning að ræða miðað við heildarútflutning. Ég kem svo kannske nánar að því síðar, hvað EFTA-markaður hefur að segja fyrir okkur varðandi þessar vörur. Til viðbótar við þessar vörur, sem ég hef nú talið, má telja niðursoðna rækju, frystar rækjur. Þar koma líka til nokkur hlunnindi í sambandi við EFTA-markaðinn. En um aðrar vörur er varla að ræða, þar sem við gætum haft beinan hag af EFTA-aðild í sambandi við niðurfellingu á tollum í viðskiptalöndum okkar.

Ég hef veitt því athygli, að allar þær þjóðir, sem við höfum samband við og standa í eitthvað svipuðum sporum og við stöndum nú varðandi spurninguna um það, hvort við eigum að ganga í slíkt viðskiptabandalag sem EFTA er eða ekki, hafa gjarnan staðið þannig að málum, þegar um svona vandamál er að ræða, að þær hafa látið vinna nákvæma skýrslu um hugsanlegan ávinning og einnig hugsanleg vandkvæði við það að gerast aðilar að nýju viðskiptabandalagi. T.d. höfum við fengið í hendur þykkar bækur frá Norðurlöndum um það, hvernig þeir hafi þar metið það, bæði til tekna og gjalda, þar í landi, hvað það hefur að segja fyrir þær þjóðir að standa ýmist utan Efnahagsbandalagsins eða á sínum tíma í sambandi við þátttökuna í EFTA. Þar hefur málið greinilega verið sett þannig upp, að menn gera sér grein fyrir því, hvaða útflutningsvörur hefur viðkomandi þjóð, hvaða óhagræði hefur þjóðin af því að standa utan við viðskiptabandalagið og hvaða hugsanlegan vinning getur þjóðin haft af því að gerast aðili að viðkomandi bandalagi. Það vekur auðvitað athygli í sambandi við þetta mál hér, að ríkisstj. leggur ekki þetta mál fyrir á þennan hátt, sem gert er hjá öðrum þjóðum. Hér verða menn í rauninni, þeir, sem eru aðallega talsmenn þátttöku okkar í EFTA, að viðurkenna það strax í byrjun, að eins og nú háttar hér hjá okkur, getum við ekki hlotið beinan ávinning af þátttöku í þessu bandalagi nema að mjög óverulegu leyti. Þeir verða að játa það. EFTA-nefndin svonefnda gerði nokkra athugun á því, hvað þátttaka Íslands hefði að segja fyrir útflutning okkar, ef um þátttöku Íslands hefði verið að ræða í EFTA, beint í krónum talið miðað við útflutning. Niðurstöður EFTA-nefndarinnar voru þær, að miðað við útflutning árið 1965 hefði hér getað verið um það að ræða, að við hefðum sloppið við tollagreiðslur erlendis af útflutningsvörum okkar, sem nema 40.4 millj. kr. Og miðað við útflutninginn árið 1966 var hér um að ræða niðurfellingu tolla, sem námu 14.4 millj. kr. Og miðað við útflutninginn árið 1967 gat hér verið um að ræða, að við hefðum sloppið við tolla, sem námu 23 millj. kr. Ég hef gert athugun á þessu, hvernig þessu hefur verið varið núna á 7 fyrstu mánuðum þessa árs miðað við útflutning okkar. Og þá kom í ljós, að þeir tollar, sem við hefðum e.t.v. getað sparað okkur, ef við reiknum allt saman, en við það þarf nú að gera sérstaka aths., þá hefðu tollarnir numið á þessum 7 fyrstu mánuðum ársins þó nokkru innan við 10 millj. kr. Það er því alveg augljóst, að eins og útflutningi okkar er háttað nú, eins og okkar framleiðslulíf er nú í dag, er hér hugsanlegur ávinningur sáralítill borið saman við heildarútflutning okkar.

Það er svo mál út af fyrir sig, þegar menn telja það, að okkar verði ávinningurinn af öllum tollunum, sem hér er um að ræða. Það er auðvitað mesti misskilningur, að málið liggi þannig fyrir. Ég skal t.d. nefna dæmi. Það er rétt, við höfum selt nokkuð af fiskimjöli, eins og ég sagði, til Bretlands. Nú er gífurlega hátt verð á fiskimjöli á erlendum markaði, feiknaleg eftirspurn eftir því að fá fiskimjölið. Haldið þið virkilega, að við borgum þann toll, sem lagður er á fiskimjölið í Bretlandi miðað við núverandi kringumstæður? Nei, það eru brezkir notendur, sem verða að borga allan þann toll, en ekki við. Þeir verða vitanlega að borga okkur hliðstætt verð og við getum fengið annars staðar. Og þannig er þessu einnig varið í fjölda mörgum öðrum tilfellum. Það er vitanlega alveg rangt að halda því fram, að það verði aðeins beinar tekjur hjá útflytjandanum, þegar um slíka tollaniðurfellingu er að ræða. En það skiptir vitanlega ekki höfuðmáli í þessum efnum, vegna þess að hér er um svo óverulegan ávinning að ræða miðað við núverandi aðstæður. En þá er því gjarnan haldið fram, þegar þessi mál eru rædd, að þetta geti breytzt. Það sé hugsanlegt, að við getum haft meiri hag af þátttökunni í EFTA en þessar tölur segja til um. Jú, það er vissulega rétt. Það er hugsanlegt. Í fyrsta lagi benda menn á það, að nýlega hafi verið gerður samningur við Breta um niðurfellingu á innflutningstolli á freðfiskflökum á brezkum markaði, 10% tolli. Og hér er það sagt alveg blygðunarlaust, að með því, að við gerðumst aðilar að EFTA, mundi það lágmarksverð, sem nú hefur verið samið um, jafngilda því verði, sem við búum nú við á Bandaríkjamarkaði. Þeir voru nú auðvitað miklu gætnari, sem skrifuðu skýrsluna. Hæstv. ráðh. orðaði þetta svona í sinni ræðu, ég tók eftir því. En þeir, sem skrifuðu þá skýrslu, sem hér liggur fyrir, voru auðvitað gætnari í sínu orðalagi og sögðu þar, að það mundi vera orðið svipað verð miðað við þetta lágmarksverð á einni tegundinni af frosnum fiskflökum, sem var í sambandi við frosna fiskblokk svonefnda. Og það er miklu nær hinu sanna, þó að það standist nú ekki lengur, því að blokkin í Bandaríkjunum hefur hækkað síðan þessi samanburður var gerður, og lágmarksverðið er þegar orðið lægra. En því er hins vegar skotið undan, að meginsalan til Bandaríkjanna á þorski er í öðrum umbúðum, þar sem verðið liggur miklu hærra en þetta lágmarksverð og er enn á uppleið. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að þó að þetta lágmarksverð, sem hér hefur verið samið um, — þó að við gætum notið þess að einhverju leyti, þá er það svo lágt, — að við myndum ekki notfæra okkur þennan markað miðað við þær markaðskringumstæður, sem við búum við í dag.

Það er svo mál út af fyrir sig, þegar reynt er að halda því fram, að þessir samningar, sem þarna hafa verið gerðir um innflutning á frosnum fiskflökum á brezkan markað, tryggi okkur þar eitthvað, jafnvel þó að við vildum nú selja samkv. þessu lágmarksverði. Ég tel, að hér sé um sáralitla tryggingu að ræða. Í fyrsta lagi er það svo, að Bretar vilja ekki sjálfir skuldbinda sig til þess að hlíta þessu lágmarksverði. Þeir beittu sér fyrir því í þessum samningum, fulltrúar Breta, að hafa lágmarksverðið sem hæst. Og því svöruðu m.a. fulltrúar Norðmanna og Íslendinga, að ef lágmarksverðið yrði sett svona hátt, eins og Bretar lögðu til, þýddi þetta í rauninni að bola okkur út af markaðinum. En nú er það allt í einu orðið svo, að þetta lágmarksverð á bara að liggja laust fyrir okkur. En fulltrúar Norðmanna og fulltrúar Íslendinga, sem stóðu í þessum samningum, börðust fyrir því að hafa lágmarksverðið lægra. Það liggur fyrir skjalfest. Af hverju? Af því að þeir vildu vitanlega hafa rýmri aðstöðu fyrir okkur að komast inn á brezka markaðinn. En Bretarnir höfðu hugsað sér það allan tímann að hafa lágmarksverðið nokkuð hátt, til hvers? Til þess að þeir gætu fyrst tekið til sín enska markaðinn að öllu því leyti, sem þeir gátu framleitt á hann. Þeir áskildu sér forgangsrétt að brezka markaðinum, en síðan vilja þeir segja við Norðmenn, Dani og Íslendinga: Það, sem við leggjum ekki markaðinum til sjálfir, um það getið þið fengið að berjast. En þó áskiljum við okkur margvíslegan endurskoðunarrétt í sambandi við þessi mál. Ef við teljum, að það sé orðin truflun á brezka markaðinum, ef komið er með innflutning upp í 33 þús. tonn, þá áskiljum við okkur allan rétt til þess að taka þetta til endurskoðunar. Nú liggur það fyrir, að bæði Danir og Norðmenn hafa á undanförnum árum verið inni á þessum markaði og Norðmenn m.a. komið upp fiskiðnaðarverksmiðju í Bretlandi og búa í þeim efnum við allt aðra aðstöðu en við Íslendingar. Það er auðvitað enginn vafi á því, að þeir, sem hafa verið fyrir inni á þessum markaði og flutt inn á þennan markað, sem nemur öllu þessu magni, hafa hér alveg ólíka aðstöðu við okkur. Mín niðurstaða er því sú, að þessir samningar, sem gerðir hafa verið um lágmarksverð á frystum fiskflökum inn á brezkan markað, eru mjög lítilvægir fyrir okkur miðað við núverandi aðstæður. Ekki vil ég segja það, að þetta sé einskis virði. Ef svo færi, að það yrði veruleg breyting á öðrum mörkuðum, er vitanlega alltaf gott að geta komið inn einhverju fiskmagni á brezkan markað, a.m.k. þeim tegundum, sem helzt hæfir að selja þangað. En kringumstæðurnar í dag eru á engan hátt þessar. Sannleikurinn er sá, að við eigum fulla möguleika á því að selja meira fiskmagn en við ráðum yfir fyrir miklu betra verð en þarna er um að ræða. Við vitum, að þróunin á Bandaríkjamarkaði hefur verið sú á þessu ári, að við höfum aukið sölu okkar þangað um yfir 50% og nú á síhækkandi verði, og sölumenn okkar þar óska eftir því, að þeim verði tryggt fiskmagn á næsta ári, sem nemur nærri 70% aukningu frá þessari aukningu. Og það er alveg sýnilegt, að víð ráðum ekki við það nema gerðar verði sérstakar ráðstafanir að hafa þetta fiskmagn til, svo að brezki markaðurinn knýr ekkert á um það, að við gerumst aðilar að EFTA, eins og nú standa sakir. Síður en svo.

En þá er gjarnan rætt um það, að það geti nú fleiri möguleikar komið hér til í sambandi við útflutning okkar til EFTA-landa, og ekki vil ég neita því, að það geti ekki orðið um einhverja möguleika að ræða. En á hvaða sviði er hér þá helzt um möguleika að ræða? Ef við lítum á fiskiðnaðinn, ef við lítum á möguleika t.d. fyrir niðursuðuiðnað úr sjávarafla, en þar yrði um að ræða niðurfellingu á nokkrum tollum, sem fyrir eru, þá tel ég fyrir mitt leyti, og það hygg ég, að allir geri, sem eru nokkuð kunnugir þessum markaðsmálum, að möguleikarnir til að koma nýjum, niðursoðnum sjávarafurðum eða niðurlögðum sjávarafurðum inn í EFTA-löndin séu miklu minni en möguleikar okkar í löndum utan EFTA, miklu minni. Það fer ekkert á milli mála, að hörðustu keppinautar okkar á þessu sviði eru einmitt lönd innan EFTA. Þar er um að ræða t.d. Norðmenn og Dani, og brezki markaðurinn er þannig, að hann hefur alltaf verið tiltölulega verðlágur og erfiður markaður, og í sambandi við fullunnar sjávarafurðir er hann sérstaklega erfiður, enda hefur reynsla okkar orðið sú, að að því leyti til, sem við höfum byggt upp þennan iðnað okkar og reynt að vinna okkur þar upp nýja markaði, þá höfum við leitað inn á önnur svið til annarra landa, þar sem jafnvel hefur verið um að ræða miklu hærri innflutningstoll en í Bretlandi. Við höfum selt niðursuðuvörur okkar á Bandaríkjamarkaði, við höfum sérstaklega selt niðursuðuvörur okkar með sérstökum samningum til Sovétríkjanna og við höfum selt niðurlagningar- og niðursuðuvörur okkar í Tékkóslóvakíu. Í þessum löndum hafa komið fram miklu meiri möguleikar fyrir okkur en á brezka markaðinum, því að enginn getur talað um möguleika í þessum efnum fyrir alvöru í Noregi eða Danmörku. Þó vil ég ekki neita því, að í einstaka greinum geti það ekki komið fyrir, við höfum t.d. sett nokkuð af niðursoðnum hrognum inn á brezkan markað, en tollurinn þar hefur verið 5%. Hann hefur satt að segja ekki skipt miklu máli. Og ég geri því ekki ráð fyrir því, að þar geti heldur verið um neina stórkostlega aukningu að ræða. Enda kemur það greinilega í ljós í þeirri skýrslu, sem hér er lögð fram með þessari þáltill. að þeir aðilar, sem eru að reyna að gera hér grein fyrir nýjum möguleikum okkar til útflutnings til EFTA-landa, snúast þannig í kringum þennan möguleika, að þeir hafa ekkert nýtt fram að færa, ekki neitt. Það er enginn vafi á því, áð við Íslendingar eigum mikla möguleika á stórkostlega auknum útflutningi í sambandi við fullvinnslu á sjávarafla okkar, því að enn þá höfum við unnið úr okkar sjávarafla tiltölulega lítið. Við höfum aðallega staðið þar í frumvinnslu. En fullkomnari úrvinnsla hefur verið sáralítil. Við þurfum auðvitað að snúa okkur að þessum verkefnum, nýta þessa möguleika. En við þurfum í þeim efnum alveg fyrst og fremst að byggja upp þessar framleiðslugreinar. Þar eigum við allt verkefnið óunnið, og við þurfum síðan að reyna að ryðja okkur braut inn á hina ýmsu markaði eftir því, sem aðstæður eru til, en við skulum ekki láta okkur koma það til hugar, að við leysum þetta vandamál aðeins með þátttöku í EFTA. Þar er um að ræða marga aðra markaði, sem eru miklu girnilegri og líklegri, og við verðum vitanlega að reyna að haga viðskiptamálum okkar þannig, að við séum ekki að loka þeim jafnvel með þátttöku okkar í EFTA, eins og ég óttast að sumu leyti, að aðild okkar að EFTA, eins og nú er ætlað að standa að henni, geti beinlínis þýtt í reynd.

Það hefur þegar komið fram í umr. hér, að ætlunin er sú að standa þannig að þátttökunni í EFTA að lækka hér tiltölulega háa innflutningstolla, sem nú eru hjá okkur á ýmsum iðnaðarvörum, lækka þá tolla um 30% eingöngu frá EFTA-löndum, þegar um innflutning frá EFTA-löndum er að ræða. Hér kemur auðvitað fram mjög mikil mismunun í tollum eða í viðskiptaaðstöðu á milli einstakra landa. Þetta þýðir í framkvæmd, að þegar um verður að ræða innflutning á ýmsum iðnaðarvörum, sem t.d. eru nú í 80 eða 90% tollflokki, eins og margar þessar iðnaðarvörur eru, að hér verður um umtalsverða tollalækkun að ræða á þeim vörum, sem keyptar eru heim til Íslands frá EFTA-löndum. En hins vegar á gamli, hái tollurinn að standa áfram, ef sams konar vara er keypt inn til landsins t.d. frá löndum eins og Bandaríkjunum eða Tékkóslóvakíu, svo að ég taki dæmi. En hverjar geta afleiðingarnar orðið af því, að við förum að mismuna viðskiptaþjóðum okkar á þennan hátt í tollum? Af þeirri reynslu, sem við höfum haft, dettur mér ekki í hug annað en t.d. Tékkar bregðist nú við á svipaðan hátt og þeir gerðu áður í ekki ósvipuðu tilfelli í viðskiptum okkar við þá þjóð, og segi, þegar við reynum t.d. að selja þeim niðurlagðan ufsa, saltufsa, sem við köllum sjólax, — og teljum þar vera þýðingarmikinn markað fyrir okkur, og er tvímælalaust okkar bezti markaður í sambandi við sjólax, ja, við njótum verri kjara hvað tolla áhrærir með innflutning á okkar vörum til Íslands en t.d. Bretar, Danir og Norðmenn. Við munum taka tillit til þess í verðinu sem við gefum fyrir sjólaxinn frá Íslandi. Með öðrum orðum, að útkoman verði sú, að útflutningur okkar verður raunverulega að greiða fyrir þau hlunnindi, sem innflutningurinn frá EFTA-löndum fær í sambandi við EFTA-aðild. Það er enginn vafi á því, að í þessum efnum er um verulega hættu að ræða. Ég fyrir mitt leyti vil ekki gera kaup af þessu tagi. Það er enginn vafi á því, að það er þýðingarmikið fyrir okkur, það þekkjum við af reynslunni, að geta átt viðskipti og gagnkvæm viðskipti við þær þjóðir, sem standa utan EFTA, ekki síður en þjóðirnar, sem eru í EFTA; og við verðum því að fara mjög gætilega í viðskiptamálum okkar að búa þeim ekki miklu verri kjör en hinum.

Það er bent á, að það geti verið um fleiri möguleika að ræða til ávinnings fyrir okkur af EFTA-aðild en þá, sem eru bundnir við framleiðslu úr sjávaraflanum. Og þá er komið að möguleikunum, sem snúa að hinum almenna iðnaði okkar. Ég efast ekki um það, að hv. alþm. hafi kynnt sér þær skýrslur, sem fram hafa verið lagðar af hálfu ríkisstj. varðandi þessi mál. Hér hefur verið t.d. á það minnzt, að einn prófessor hafi samið mikla skýrslu, stóra gula bók, sem við alþm. höfum fengið og sem heitir íslenzkur iðnaður og EFTA, og þar átti að gera grein fyrir öllum þeim möguleikum; sem tengdir væru nú við EFTA-þátttöku okkar. Já, og það kom hér fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að þessi prófessor hafi verið skipaður til þessa verks fyrir löngu síðan og væri búinn að vinna lengi að þessu verki. Og svo telur hann hér auðvitað upp alla þessa möguleika, sem nú munu opnast fyrir okkur við aðild að EFTA. Og hvað hefur hann nú komið auga á? Prófessorinn segir í lok þessarar skýrslu á þessa leið: „Af þeim iðnvarningi, sem nú er framleiddur, vænti ég einkum útflutnings í eftirtöldum greinum: ...“, og svo eru þær taldar upp, og svo kemur næsti kafli þar á eftir: „Af nýrri framleiðslu virðist einkum um að ræða: ...“ og svo kemur sú upptalning. Nú er rétt að víkja að báðum þessum þáttum hjá þessum prófessor, hvað hefur hann nú komið auga á? Jú, prófessorinn segir, að fyrstu möguleikar okkar, sem taldir eru hér upp, séu tengdir við flokkinn spuni og vefnaður. Þar telur hann um einhverja möguleika að ræða, og hvað er það, sem þar er helzt tilfært? Jú, hann segir, að það muni nú skapast margvísleg vandamál í þessum greinum, m.a. það vandamál, að einn gildasti þátturinn í þessari framleiðslu, sem er teppa- og gólfdreglaframleiðsla, muni alls ekki standast samkeppni, svo varla yrði nú þar um útflutning að ræða. Hann telur einnig, að ef eigi að vera um að ræða útflutning á prjónavörum, verði í rauninni að koma til lækkunar á íslenzku ullinni. Þeir verndartollar, sem nú hafi beinlínis verið hér til verndar ullarbands- og ullargarnsframleiðslunni í landinu, verði að hverfa, ef um útflutning eigi að vera að ræða. Engin bein dæmi nefnir prófessorinn í þessari grein um líklegan útflutning, segir aðeins, að í þessari grein búist hann við auknum útflutningi, en verður þó að taka fram, að ein aðalframleiðslan í þessari grein, gólfdregla- og ullarteppaframleiðslan, geti ekki staðizt samkeppni. Ég hygg að það hafi fleiri þingmönnum farið svipað og mér, að geta ekki sannfærzt af þessari röksemd prófessorsins, að þarna sé um mikla möguleika að ræða fyrir okkur. Og anzi er ég hræddur um, að jafnvel þó að staðið yrði vel að því að reyna að byggja upp framleiðslu á prjónavarningi hér á Íslandi, þá þurfi sú starfsgrein talsvert langan tíma til uppbyggingar, til þess að hún verði fær um að keppa t.d. á brezka markaðinum.

Önnur greinin, sem prófessorinn nefnir, er prjónaiðnaður. Umsögn hans um prjónaiðnaðinn er á margan hátt alveg táknræn fyrir alla skýrslu hans, og ég vil lesa hér upp meginið af því, sem hann segir um þessa grein, af því að mér finnst þetta alveg lýsandi dæmi um þá vísindamennsku, sem hér hefur verið lögð til grundvallar. Þegar hann er búinn að segja nokkur inngangsorð um það, hvernig gangi hjá þessari vesalings iðngrein, og hefur ýmislegt þar á dagana drifið að undanförnu, og búinn að geta þess, að næstum allur útflutningur í þessari grein hafi farið til Rússlands, þá segir prófessorinn:

„Hins vegar verða fyrirtækin í þessari grein að keppa við erlend risafyrirtæki meira en áður, einkum frá Englandi, ef gengið verður í EFTA. Er erfitt að segja fyrirfram, hvort áhrifin á iðngreinina í heild yrðu jákvæð eða neikvæð, en hún hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni á undanförnum árum, svo að nokkur ástæða er til bjartsýni. Um 75%–85% starfsliðs munu vera konur.

Hins vegar skulum við ekki gleyma því, að vefjariðnaður hefur átt í örðugleikum á Norðurlöndum, vegna þess að samkeppni hefur aukizt frá láglaunalöndum. Einnig eru „útibúin“ í Portúgal fræg (sbr. Melkaskyrtur). Við þurfum þó ekki að óttast þetta í augnablikinu, vegna þess að launin eru hér tiltölulega lág.“ Það er nú vissara að segja, að þetta væri nú bara í augnablikinu. — „Þess hefur meira að segja orðið vart, að Norðurlandafirmu hafa alvarlegan áhuga á því að hefja hér framleiðslu í vefjariðnaði til útflutnings.“ — Þau eiga sem sagt í erfiðleikum heima, en hér í augnablikinu er kaupið lágt, og þau eru að hugsa til hreyfings hér.

Og svo kemur lokaniðurstaðan með skáletri, en þar er nú dreginn saman allur vísdómurinn í greininni: „Hér er ein af tækifærisgreinunum, en auðveldara er að sjá, hverju við sleppum en hvað við hreppum. Ástæða er til bjartsýni.“ – Þetta finnst mér alveg táknrænt upp á þessi vinnubrögð öll og þær upplýsingar, sem alþm. fá í þessum efnum. Þetta er í rauninni allsherjarlýsing á þessum stórkostlegu möguleikum: erfitt er að sjá hvað við hreppum, en við sjáum þó hverju við sleppum, ástæða er til bjartsýni. — Upp á þetta er boðið, þetta eru möguleikarnir, sem við stöndum frammi fyrir.

Næsta grein, sem prófessorinn minnist á með nýja möguleika fyrir útflutning okkar, er húsgagnagerð. Um húsgagnagerðina segir prófessorinn í áliti sínu m.a. þetta: „Húsgagnaframleiðslan hefur, eins og áður er sagt, verið mjög illa stödd síðustu 2 árin, t.d. nam tapið 1968 rúmum 20 millj. að því er ætlað er, eða um tvöföldum afskriftum.“ En, eins og síðar segir hér í greininni, „ástæða virðist til bjartsýni“. Erlendir sérfræðingar, sem stundum hafa þótt duga vel, hafi verið fengnir hingað til þess að athuga ýmsar iðngreinar og gefa skýrslur um þær, og prófessorinn minnist t.d. í þessum kafla hér á einn slíkan:

„Skipulagsvandamál í íslenzkri húsgagnaframleiðslu munu vera nokkur, eins og kemur fram í skýrslu Niels Högh um trésmíðaiðnaðinn. Athyglisvert er t.d., að Högh taldi, að í einungis einu þeirra fyrirtækja, sem hann heimsótti, væri hægt að tala um kerfisbundna áætlun og stjórnun á framleiðslunni.“ Og síðan segir hann: „Stærri markaðir myndu gera kröfur til algerrar endurskipulagningar í rekstri stærri fyrirtækja í átt til fjöldaframleiðslu.“ Niðurlagið á þessum kafla er svo á þessa leið: „Við höfum hlutfallslega yfirburði í launum.“ Þar lá hundurinn grafinn. Með öðrum orðum, að eitt af þessu, sem tengt er við vonina miklu, að það skapist hér nýir möguleikar, er tengt við það, að það munu opnast fyrir okkur einhverjir nýir markaðir í EFTA-löndum, m.a. fyrir húsgögn, fyrir mublur, þó að mubluframleiðsla okkar sé að dragast saman og verða að litlu sem engu, og nú býr hún við 90% tollvernd, það er 90% innflutningstollur á flestum tegundum af mublum. Að vísu vitum við það, að húsgagnaiðnaðurinn hefur orðið hart úti í sambandi við stórminnkandi kaupgetu í landinu, sem nú hefur gengið yfir, en prófessorinn segir hér í grein sinni um það, að svona sveiflur, sem stafi af minnkandi kaupgetu og bitni mjög hart á greininni, það verði að reyna að komast fram hjá þeim m.a. með því að opna fyrir útflutning. Það er svo líklegt, að útflutningur mundi bjarga þessari grein miðað við allar aðstæður. Það þarf mjög trúaða menn til að búast við því, að þarna verði um verulegan útflutning að ræða á næstu árum, eins og allt er í pottinn búið.

Næsti möguleikinn, sem prófessorinn sá, var útflutningur á innréttingasmíði, eldhúsinnréttingar eiga að vera útflutningsvara frá okkur. Fyrir nokkrum árum var verndartollur á eldhúsinnréttingum lækkaður hér hjá okkur úr 90% í 60%. Við það varð stórkostlegur samdráttur í þessari grein, þannig að hún riðaði til falls. En nú leika menn sér að því að tala um það, að við munum hafa einhvern möguleika á þessu sviði að flytja út eldhúsinnréttingar eða aðrar innréttingar til EFTA-landa. Ja, þvílík fjarstæða! Mér er sagt af kunnugum manni, – vegna þess að það er á það minnzt hér, að það muni hafa farið fram einhver athugun á þessu, að einn húsgagnaframleiðandi hafi farið með eina eldhúsinnréttingu til sýningar í Færeyjum og selt hana þar á þriðjungsafslætti og það sé eini útflutningurinn, sem orðið hefur í þessari grein.

Þá er næsta greinin, sem prófessorinn tengir vonir sínar við, skinna- og leðuriðnaðurinn. Það er enginn vafi á því að mínum dómi, að iðnaður okkar á þessu sviði kemur til með að vaxa upp, og einhvern tíma verðum við færir um að vinna úr skinnum okkar og flytja út ýmiss konar skinnavöru. En það þýðir auðvitað ekkert annað en að viðurkenna það eins og það er, að þessi iðngrein er mjög skammt á veg komin til þess að ætla að láta hana keppa á hörðustu samkeppnismörkuðum. Svo er rétt að athuga það, að að því leyti til sem við flytjum þessa vöru út í dag, þá flytjum við hana aðallega til Bandaríkjanna, yfir miklu hærri tollmúra heldur en yfirleitt eru oftast nær í Evrópu. Það er auðvitað ekkert sem bendir til þess, að í EFTA-löndum skapist einhver sérstakur markaður fyrir þessa vöru fremur en í mörgum öðrum viðskiptalöndum okkar.

Næsta greinin, sem prófessorinn minnist á sem nýja möguleika, er málm- og skipasmíði. Þar kom það nú loksins! Nú á að segja okkur það, að með því að við göngum í EFTA, muni Íslendingar fara að smíða skip fyrir EFTA-lönd, fyrir Breta, fyrir Norðmenn. Mikil er trú þín, kona, var sagt eitt sinn. Að búast við því að íslenzkar skipasmíðastöðvar geti keppt viðskipasmíðaiðnaðinn í þessum löndum! Hér tala þeir menn, sem ekkert þekkja til. Við vitum það, að þrátt fyrir það að kaupgjald sé á Íslandi miklu lægra en í nágrannalöndum okkar, þá er enn þann dag í dag mun dýrara að byggja skip á Íslandi en í nágrannalöndunum. Og allir þeir, sem þurfa að láta byggja fyrir sig a.m.k. hin stærri skip, sækja fast á það að fá leyfi til þess að fá að byggja þau erlendis. Auðvitað hafa þeir líka margfalda reynslu á við okkur í þessum efnum. Mín skoðun er sú, að við þurfum að leggja okkur fram um það að reyna að byggja upp skipasmíðaiðnað okkar og gefa honum kost á því að smíða a.m.k. smærri fiskibáta okkar og þar nokkuð upp eftir. Þær eru ekki stærri íslenzku skipasmíðastöðvarnar en svo, að þær gætu haft nægileg verkefni á þessu sviði að smíða fyrir okkur sjálfa smæstu skipin, en að gera því skóna, að við förum að taka hér þátt í útflutningi í skipasmíðum, það er vitanlega hrein fjarstæða. Auðvitað veit ég það, að það kemur alltaf fyrir, að það koma einhverjir menn annað hvort frá Indlandi eða einhvers staðar annars staðar, Brasilíu, og vilja kaupa einhvern bát eða eitthvað þess háttar. Einhverjir koma til með að smíða slíkan bát hér á landi, en því fer vitanlega víðs fjarri, að þátttaka okkar í EFTA stuðli eitthvað að útflutningi á þessu sviði, enda njótum við engra sérstakra fríðinda í þessum löndum, þvert á móti er þetta þannig, að skipasmíðaiðnaður t.d. í Bretlandi er raunverulega stórkostlega styrktur. Sé nýtt togveiðiskip smíðað í Bretlandi, fá þeir nú í beina eftirgjöf af byggingarkostnaði um 40%.

Málmsmíðaiðnaður okkar hefur legið í rauninni alveg í rusli á undanförnum árum og átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Dettur einhverjum það í hug, að við getum, svo nokkru nemi, haslað okkur þar völl miðað við núverandi aðstæður, að þar þurfi ekki alllangan og mikinn aðdraganda til? Tækni og kostur stórfyrirtækja er einmitt langsamlega mestur í málmsmíðaiðnaði. Það er því hreinlega út í hött að tala um það, að búast hér við einhverjum útflutningi. Ég efast að vísu ekkert um það, að það getur auðvitað alltaf komið til greina, að hér verði um framleiðslu á einni og einni vélategund að ræða, einhverjir góðir íslenzkir hugvitsmenn finna upp öllu betri vél til þess að skelfletta rækju og annað þess háttar en aðrir og slíkt getur vitanlega komið til greina, en hér getur ekki verið um að ræða neina stórfellda möguleika til útflutnings á næstunni.

Síðasti möguleikinn, sem prófessorinn minntist á, var svo í sambandi við niðursuðuiðnað, og ég hef þegar vikið að því.

Þetta voru aðeins þær iðngreinar, sem við eigum nokkuð fyrir af, og möguleikar, sem hann telur, að tengdir séu við þessar iðngreinar. En hvaða nýjar greinar áttu svo að koma til sögunnar, alveg nýjar? Prófessorinn nefndi þessar greinar: a) efnaiðju hvers konar, b) rafeindaiðnað, c) framleiðslu á nýjum tegundum í veiðarfæraiðnaði, málmsmíði o.fl., málmsmíðin kemur nú aftur. Ja, ég kannast við það, að nú fyrir stuttu voru nokkrir áhugamenn hér að berjast fyrir því að fá að koma upp veiðarfæragerð af sérstakri tegund hér í landinu og vildu fá nokkra fjárhagsfyrirgreiðslu í þeim efnum. Það gekk auðvitað seint og stirðlega að fá úr því skorið, hvort það væri möguleiki á því að koma upp þessari veiðarfæragerð. Málið var auðvitað sent til athugunar hjá prófessor, og prófessor gaf sitt álit á málinu, og hann sannaði það einfaldlega, að það ætti ekki að hafa veiðarfæragerð á Íslandi, því að það borgaði sig ekki. Svo kemur hér annar prófessor og segir okkur, að þarna sé um útflutningsgrein að ræða. Ég hef lengi haft trú á því, að við Íslendingar þyrftum að eiga veiðarfæragerðir fyrir okkur sjálfa. Vel getur komið til þess, að við seljum útlendingum þar eitthvað. Ég held hins vegar, að samkeppnin við EFTA-aðilana, eins og Bretland, sem hefur einhver þekktustu fyrirtæki í veiðarfæragerð í heiminum, og samkeppnin við Norðmenn, sem eru gamalgrónir í þessum efnum, hún verði býsna erfið, og það verði meira að segja fullhart fyrir okkur að halda velli hér heima í samkeppni við þessa aðila, þótt við gerum því nú ekki skóna á þessu stigi málsins, að um mikinn útflutning verði þarna að ræða.

Ég veit það, að það er vitanlega hægt að tala um nýjar greinar eins og þessar á þennan hátt, að segja efnaiðja hvers konar og rafeindaiðnaður, en segja ekkert frekar um það. Við höfum engin dæmi um það, við vitum, að það hefur verið talað talsvert mikið um sjóefnaverksmiðju o.s.frv., sem ábyggilega er mjög langt undan. Það liggur ekkert á að ganga í neitt EFTA vegna þess útflutnings enn þá. Og rafeindaiðnað hér, - ég veit ekki til þess, að hann sé eiginlega til. Það er ábyggilegt, að þessir möguleikar, sem hér er minnzt á, verða að teljast ósköp fátæklegir.

Ég vil þó taka það alveg skýrt fram, að ekki vil ég neita því, að hér geti ekki verið um einhverja möguleika að ræða, einhvern útflutning umfram það, sem verið hefur. Og ekki neita ég því heldur, að það komi ekki þeir tímar, að okkur takist að byggja upp eitthvað af þessari iðnaðarframleiðslu og verða þar hlutgengir í. En ég neita því gersamlega, að uppbygging þessara greina velti að einhverju verulegu leyti á þátttöku okkar í EFTA eða ekki þátttöku. Við þurfum fyrst að snúa okkur að þeim verkefnum að byggja upp þessar greinar, að við þurfum m.a. að gera það með gagnkvæmum viðskiptasamböndum við ýmsar þjóðir, eins og við höfum gert, þegar við erum að byggja upp iðngreinar okkar. Við gerum það ekki á þann einfalda hátt, að við göngum aðeins í EFTA. Þessi mál leysast ekki þannig. Ég held fyrir mitt leyti, að það sé alveg augljóst, að möguleikar eða hugsanlegir möguleikar fyrir okkur til ávinnings af þátttöku í EFTA séu litlir. Það er mín niðurstaða. Miðað við þá útflutningsvöru, sem við höfum í dag, sem við getum framleitt, sem við framleiðum, liggja viðskipti okkar annars staðar, yfirgnæfandi. Og það er ekki á neinn hátt líklegt, að til komi nýjar útflutningsgreinar, sem sérstaklega sé hægt að byggja hér upp vegna EFTA-þátttöku okkar.

Þá er líka rétt að líta á hina hlið málsins, því að auðvitað er hægt að segja, eins og hæstv. viðskmrh. sagði, ekki getur það verið neitt verra fyrir útflutning okkar, þó að við förum í EFTA. Og það er rétt. Í flestum greinum er það svo, að við megum selja til annarra landa, þó að við göngum í EFTA; það bannar enginn okkur það. Það getur, eins og ég sagði, orðið torvelt vegna tollamismunarins í einstaka tilfellum, en ég geri þó ekki mjög mikið úr því. Og ekki dettur mér í hug að halda því fram, að staða okkar versni eitthvað verulega við þáð að ganga í EFTA, staðan fyrir útflutning okkar. En ávinningurinn er lítill, ábyggilega lítill, eins og sakir standa. En hvaða vandkvæði fylgja því fyrir okkur að ganga í EFTA, eins og nú standa sakir? Í fyrsta lagi hefur verið bent á það, að talsvert mikil hætta sé á því, að allmargar tollverndaðar iðngreinar, sem fyrir eru í landinu, kunni að dragast saman, það geti orðið um minni atvinnu að ræða heldur en verið hefur. Í EFTA-skýrslunni var greint frá því, að hér væri um 17 iðngreinar að ræða, sem nytu verulegrar tollverndar og að í þessum iðnaði ynnu nú í kringum 4000 manns. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að þegar sú tiltölulega mikla tollvernd hverfur, sem þessar greinar búa við í dag, þá hlýtur að verða um talsverðan samdrátt í þessum greinum að ræða, og ég held, að það geti varla leikið nokkur vafi á því, að í sumum tilfellum munu iðngreinarnar gersamlega gefast upp. En menn segja, ja, en sakar það svo mjög mikið þó að einhver samdráttur yrði í þessum tollvernduðu greinum? Ég fyrir mitt leyti gæti vel fallizt á það, að þarna yrði um einhvern samdrátt að ræða og jafnvel að einhver af þessum greinum hyrfi algerlega úr sögunni, ef um það væri að ræða, að það lægi fyrir, að aðrar framleiðslugreinar kæmu í staðinn, sem væru betri. En miðað við það atvinnuástand, sem er í landi okkar nú og þá efnahagsstöðu, sem við höfum, tel ég það mjög glannalegt að gera viðskiptasamninga, sem gætu leitt til þess, að atvinnuleysið í landinu yrði meira en það er nú. Talið er að atvinnulausir menn í landinu hafi verið í kringum 2000 um síðustu mánaðamót, og ef að líkum lætur, bendir allt til þess, að um enn meira atvinnuleysi verði að ræða hér á næstu mánuðum. Þannig hefur þróunin jafnan verið á þessum árstímum. Ráðstafanir, sem gætu orðið til þess að draga úr atvinnumöguleikum við þær starfsgreinar, sem þó eru fyrir í landinu, tel ég háskalegar miðað við núverandi kringumstæður. Ég álít, að við verðum að taka fullt tillit til þess, að í þessum tollvernduðu greinum er um að ræða verulega fjárfestingu, talsvert húsnæði og talsvert mikið af vélum og tækjum. Það er ekkert auðvelt mál að yfirgefa þetta á tiltölulega stuttum tíma, nema þá að það liggi alveg á borðinu, hvað við tekur.

Ég held líka, að mál þessi verði ekki afgreidd á svo ódýran hátt eins og mér fannst koma hér fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að segja fyrst í inngangi síns máls, að allt stefni að því, að það þurfi að verða miklu meiri verkaskipting á milli þjóða og allt sæki í stærri efnahagsheildir. Þar komi fram kostir stórreksturs og stórfyrirtækja, og þá auðvitað vandkvæði smáreksturs og hins verndaða reksturs. En svo segir hann, þegar komið er að því að gera grein fyrir vandamálunum, sem skapast, — ég gat í rauninni ekki skilið hann á annan veg, að íslenzkur iðnaður muni alveg spjara sig, það sé engin veruleg hætta fyrir hann. Við vitum þó, að iðnaður okkar er rekstur smáfyrirtækja, hann er eflaust í mörgum greinum heldur óhagkvæmur borið saman við stórrekstur, og ég held að það þýði ekki annað en að viðurkenna þá staðreynd, að á hreinum og sléttum samkeppnisgrundvelli veldur okkar smái iðnaður ekki því verkefni að keppa við erlendu stórfyrirtækin. Og þó að um það yrði að ræða, að á fyrstu fjórum árunum yrði ekki verulega mikil breyting á tollverndinni, er rétt að gera sér grein fyrir því, að samdráttareinkenni munu koma fram strax í iðnaðinum, því að um leið og búið er að slá því föstu, að tiltekin iðngrein eigi að mæta fullri samkeppni frá hinum stóra, þroskaða iðnaði erlendis, þá vitanlega hætta viðkomandi aðilar hér heima að halda áfram að kaupa vélar og endurnýja, vegna þess að þeir vita það, að þeir hljóta fyrr eða síðar að verða að hverfa af markaðnum. Samdráttareinkennin munu strax fara að gera vart við sig.

Fyrstu vandkvæði, sem ég sé við EFTA-aðild, eru þau, að íslenzkur iðnaður er ekki fær um að standast samkeppni við stóriðnað annarra EFTA-landa. Hér yrði um samdrátt að ræða, — atvinnuvandamálið stóra, sem við glímum við, yrði enn þá stærra. Það er engin tilviljun, að iðnverkafólkið í landinu lýsir yfir andstöðu sinni við EFTA-aðild. Það veit, að það er einmitt það, sem kæmist fyrst í vandann.

Ég tel, að á engan hátt sé hægt að miða við umsögn iðnrekenda. Reynslan hefur sýnt, að margir iðnrekendur gerðu það t.d. hér fyrir nokkrum árum, þegar tollverndin var nokkuð minnkuð og innflutningur var gefinn nokkru frjálsari en áður, þá sneru ýmsir iðnrekendur sér ósköp rólega að því að gerast umboðsmenn erlendra aðila og taka að sér að selja framleiðslu þeirra í sömu greinum og þeir höfðu áður staðið að framleiðslu á hér heima. Margir iðnrekendur segja sem svo: fyrst þetta á yfir að ganga, þá sjáum við okkur einhvern veginn farborða. Við förum bara í verzlun eins og hinir. En iðnverkafólkið stendur frammi fyrir vandamálinu. Það vill kannske fá eitthvað um það að vita, hvað á að taka við, ef ákveðnar iðngreinar dragast saman, og atvinnan minnkar.

Annað vandamál, sem ég tel, að komi upp í sambandi við þátttöku í EFTA, eru skattlagningarmálin. Hér er stefnt að því að fella niður tolla, verndartolla, sem munu nema í kringum 1000 millj. kr. Þó verður sú upphæð að vera nokkru hærri, þegar búið er að leggja einnig niður hráefnistolla og tolla á ýmsum vélum. Hér er því stefnt að því að fella niður tolltekjur upp á nokkuð á annan milljarð. En því er hins vegar lýst yfir, að ríkissjóður ætlar ekkert að gefa eftir, hann ætlar að innheimta þessa sömu summu eftir öðrum leiðum. Og einu upplýsingarnar, sem fengizt hafa, eru þær, að í staðinn fyrir mismunandi háa innflutningstolla á hinum ýmsu vörutegundum eigi að koma söluskattur, sem á að leggjast jafnt á allar vörur, jafnt þær allra brýnustu lífsnauðsynjar sem og ýmsar aðrar vörur, sem verður að telja miður þarfar eða nauðsynlegar. Ég álít, að hér sé einnig um svo stórkostlegt vandamál að ræða, sem ekki hefur verið gert upp, hvernig með á að fara, að það geti í rauninni enginn nema þá ríkisstj. og hennar lið, sem ræður hér alveg málum og er kannske búin að koma sér saman um, hvernig hún ætlar að innheimta þessar tekjur eftir nýjum leiðum, staðið að því að gera þær samþykktir, sem leiða af sér svo stórkostlega skattabreytingu í landinu, á sama tíma og því er lýst yfir, að það eigi helzt af öllu að færa þetta yfir í margfalt ósanngjarnari skattheimtu en verið hefur. Ég er á því, að það sé nauðsynlegt að vinna að því að lækka ýmsa innflutningstolla og gera þar talsverðar breytingar á. En það þarf líka að huga vel að því, hvernig á þá að skipa skattheimtunni, þeirri nýju skattheimtu, sem í staðinn kemur. Þarna er um annað mikilvægt vandamál að gera.

Ég er ekki ásáttur með það, að þó að við stefnum að því að lækka innflutningstolla á mublum úr 90% niður í 0, að samþykkja það á sama tíma, að það eigi að hækka söluskatt á soðningu, kjöti og mjólk úr 71/2% upp í 15%. Ég er ekki kominn til með að samþykkja það fyrir mitt leyti. Ég tel það ekki sanngjarnt. En það er eitthvað líkt þessu, sem hlýtur að gerast miðað við þær yfirlýsingar, sem fram hafa komið, þegar öll breytingin hefur gengið í gegn. Ég veit, að söluskattshækkunin verður ekki alveg svona mikil, ekki á fyrsta spretti. En þegar öll aðgerðin hefur gengið í gegn, hlýtur hér að verða um hækkun að ræða, sem nálgast þetta. Þarna er um stórfelld vandamál að ræða í sambandi við aðildina að EFTA.

Ég hef áður minnzt á þau vandkvæði, sem fylgja tollamismunun á milli þjóða. Þar tel ég vera um verulega hættulegt mál að ræða, sem mjög geti hitnað á útflutningi okkar í ýmsum tilfellum. Þá eru þau vandkvæði, sem tengd eru við hina svonefndu 16. gr., þ.e.a.s. um atvinnurekstrarréttindi annarra EFTA-borgara. Það er býsna athyglisvert, hvernig haldið hefur verið á því máli af hálfu ríkisstj. Ég tel, að það leiki enginn vafi á því, að með því að samþykkja EFTA-samkomulagið, eins og það liggur fyrir, er gengið inn á það „meginprinsipp“, að í vissum tilvikum eigi erlendir aðilar að fá jafnréttisaðstöðu við innlenda aðila í sambandi við atvinnurekstur. Við Alþb.-menn höfum marglýst því yfir hér á Alþ., að við erum andvígir þessu atriði í „prinsippi“. Við álítum, að það eigi að tryggja landsmönnum sjálfum meirihlutaaðstöðu varðandi atvinnurekstur í landinu og í einstökum fyrirtækjum.

Ríkisstj. hefur viljað túlka þessa grein þannig, að hér sé ekki um mjög mikilvægt atriði að ræða. Verður þó að játa, að þessi gagnkvæmu atvinnurekstrarréttindi nái til heildsölufyrirtækja, til svonefndra dótturfyrirtækja, til umboðsfyrirtækja, til samsetningarfyrirtækja og til fullvinnslufyrirtækja, sem framleiða svo nefnda EFTA-vöru, sem aðallega er ætluð til útflutnings til EFTA-landa. Þetta er það sem ríkisstj. viðurkenndi. Orðalag þeirrar greinar, sem við undirskrifum, nær þó miklu lengra en þetta.

Því hefur verið haldið fram og er m.a. haldið fram í grg. þessarar till., að þessi gagnkvæmu atvinnurekstrarréttindi nái ekki á neinn hátt til fiskiðnaðar. Ég tel, að miðað við þær upplýsingar, sem við höfum fengið í EFTA-nefndinni, sé hér ranglega skýrt frá, og ef ríkisstj. hefur virkilega viljað tryggja, að þessu væri svona farið, átti hún að setja alveg tvímælalausan fyrirvara um þetta atriði, eins og ég hafði m.a. lagt til. Í grg., sem fylgir þáltill., segir um þetta atriði á bls. 7, þar sem reynt er mjög að fletja þetta mál þannig út, að hér sé ekki verið að gefa erlendum aðilum gagnkvæman rétt til þess að koma hér upp og reka neins konar fyrirtæki í fiskiðnaði. En þar segir orðrétt á þessa lund:

„Í fyrsta lagi er fiskistofninn innan fiskveiðitakmarkanna að sjálfsögðu ein af náttúruauðlindum landsins. Þess vegna hafa erlendir aðilar engan rétt til að stofna til framleiðslu til hagnýtingar á honum. Í öðru lagi er freðfiskur ekki skilyrðislaus EFTA-vara í sama skilningi og iðnaðarvörur, þar eð sérreglur hafa gilt og gilda enn um hann í Bretlandi.“

Ja, hvernig stendur nú á þessu orðalagi, að menn segja í fyrsta lagi er fiskistofninn innan fiskveiðitakmarkanna að sjálfsögðu ein af náttúruauðlindum landsins? Við vinnum nú meiri fisk en þann, sem veiðist innan landhelginnar. Menn hafa kannske ekki viljað taka of mikið upp í sig þarna. En það, sem hefur komið fram og kom m.a. skýrt fram á fundi, þar sem norskur sérfræðingur mætti hjá EFTA-nefndinni, var það, að þau ákvæði, sem segja, að þessi gagnkvæmi réttur annarra EFTA-borgara nái ekki til hagnýtingar á sérstökum auðlindum viðkomandi lands, eins og t.d. í sambandi við skógarhögg í Noregi, og þá hins vegar fiskveiðar hér hjá okkur Íslendingum. Eg sætti mig fullkomlega við þá skýringu og tel hana rétta, að þessi gagnkvæmi réttur nái ekki til fiskveiða. En ég spurði gagngert að því, hvernig færi varðandi fiskiðnaðarfyrirtæki, ef t.d. brezkur aðili, og það var auðvitað engin tilviljun að ég nefndi það, sækti um það, að fá að koma upp fiskiðnaðarfyrirtæki, t.d. frystihúsi í Vestmannaeyjum og það gerði Vestmanneyingur líka, hvort það teldist þá vera brot af okkar hálfu á reglunum að mismuna þannig, að við leyfðum Vestmanneyingnum að koma upp þessu fiskiðnaðarfyrirtæki, en bönnuðum Bretanum það. Og svarið var alveg skýrt, að ef um er að ræða vöru, sjávarútvegsvöru, sem flokkast undir EFTA- meðferð; þá hefur Bretinn sama rétt og Vestmanneyingurinn í þessu tilviki. Það er ekki hægt að mismuna þarna. Enda er auðvitað úrvinnsla t.d. á timbri í Noregi komin inn á iðnaðarsviðið, og úrvinnsla á þeim fisktegundum hjá okkur, sem flokkast undir EFTA-meðferð, er komin undir iðnað.

Ég tel því, að í þessum efnum sé hreinlega skýrt rangt frá. Það er svo hins vegar mál út af fyrir sig, eins og reyndar kemur fram miklu víðar í þessari þáltill. og grg., sem henni fylgir, að mér sýnist, að hér sé um svo mikinn áróður á köflum að gera, að það er slegið úr og í og sagt sitt á hvað, að það sé varla frambærilegt. T.d. er sagt á bls. 5, — þá er verið að telja upp kostina:„... sjávarafurðum, sem eru EFTA-vörur; eru þessar helztar: Freðfiskflök, lýsi, fiskimjöl, loðnumjöl“ o.s.frv. Þar er nú ekkert verið að draga við sig, að freðfiskflök séu EFTA-vara, en á bls. 7 er vissara að segja það, freðfiskflök eru ekki skilyrðislaus EFTA-vara, því að þá þurftu menn að nota fyrirvara.

En hvað um það, ég vil fyrir mitt leyti fallast á þá skýringu að segja, að freðfiskflök eru ekki „absolút“ EFTA-vara, og ég vil halda því fram, að t.d. í viðskiptum við Breta hafi þeir ekki fullkominn rétt til þess að koma hér upp venjulegu frystihúsi hjá okkur til þess að vinna freðfiskflök, þó að þar gildi um sérstakur samningur, af því að þeir vilja ekki fallast á þessa vöru sem fullkomna EFTA-vöru. En það eru auðvitað til ýmsar aðrar fiskúrvinnslugreinar en aðeins í sambandi við framleiðslu á freðfiskflökum. Það eru t.d. til niðursuðufyrirtæki, sem falla alveg undir EFTA-meðferð, og spurningin er, hvort erlendir aðilar hafi þennan rétt gagnvart þeirri vinnslu eða ekki.

Það er sem sagt ekki aðalatriðið að mínum dómi, að þræta um það, hvort réttur útlendinganna samkvæmt orðanna hljóðan er þarna aðeins meiri eða minni. Ríkisstj. viðurkennir í þeirri grg., sem hér kemur fram, að útlendingarnir fá jafnréttisaðstöðu í ýmsum greinum við landsmenn, og ég er á móti því að fallast á slík sjónarmið. En hitt er svo alveg jafnaugljóst, að ráðh. hafa lýst því yfir hvað eftir annað, þegar þessi mál hafa verið rædd, að þeir telji það beinlínis til kosta við þátttöku í EFTA, að það muni vera hægt að fá fleiri útlendinga til þátttöku í íslenzku atvinnulífi en áður. Um það er hvað greinilegast dæmi í þeirri skýrslu, sem viðskmrn. samdi einmitt varðandi framkvæmdina, eða skilninginn á 16. gr., en niðurlagið í umsögn rn., þegar það var búið að telja að það hefði nú alls konar ráð til þess að halda útlendingum í burtu, ef það vildi, þá segir rn. alveg orðrétt á þessa leið: „Hins vegar telur rn., að undir vissum kringumstæðum geti verið mjög æskilegt, að erlend fyrirtæki hafi hér einhvern atvinnurekstur með höndum; t.d. iðnaðarframleiðslu til útflutnings. EFTA-aðild mundi auðvelda slíka starfrækslu.“

Það fer auðvitað ekkert á milli mála, og kemur víða fram í ritgerðinni hjá prófessornum, sem talar um möguleika iðnaðarins, að það er hvað eftir annað vikið að því, að það muni verða meiri möguleikar eftir en áður á því að fá útlenda aðila til þess að setja hér upp fyrirtæki, framleiða hér, með EFTA-markaðinn í huga. Og rn. sjálft tengir miklar vonir við, að með aðild að EFTA verði meiri möguleikar á þessu sviði. Það er því alveg tvímælalaust stefnt að þessu marki, og 16. gr. opnar algerlega fyrir þetta, m.a. af því að við settum þar engan beinan fyrirvara um í sambandi við þá samninga, sem fram fóru. Það var ekki farið fram á það af hálfu ríkisstj. að fá neinn skýran fyrirvara um það, að til þess arna ætti ekki að koma.

Þessi atriði, sem ég hef gert að umtalsefni, eru auðvitað ekki öll vandkvæðin, sem eru tengd aðild. Áður hefur verið minnzt á það hér í þessum umr., — og ég get farið um það fáum orðum, — að það er mjög margt, sem bendir til þess, að EFTA sé að leysast upp, að nokkur helztu EFTA-ríkin gangi í Efnahagsbandalagið. Og þá vaknar auðvitað spurningin: Til hvers að vera í þessu kapphlaupi núna, rétt áður en EFTA leysist upp, og ganga í EFTA? Er það kannske meiningin, að það eigi að drífa okkur inn í Efnahagsbandalagið í beinu framhaldi af þessari samþ.? Það er ekkert í okkar efnahagslífi eða viðskiptalífi, sem knýr á um EFTA-þátttöku okkar nú. Við getum eins vel beðið nú, eins og við höfum beðið undanfarin 10 ár. Skýringarnar, sem komu fram hjá hæstv. viðskmrh. á því, hvers vegna við værum að ræða um EFTA-aðild nú, en hefðum ekki gert það á undanförnum árum, eru t.d. eins og þessi, sem ég skrifaði niður eftir honum: Á undanförnum árum hefur verð á afurðum okkar á erlendum markaði farið hækkandi og allt hefur gengið vel og þetta hefði ekki skipt okkur máli, en nú þarf á þessu að halda. — Ég er anzi hræddur um, að hæstv. ráðh. megi fara að endurskoða þessa skýringu, því að hvernig er ástandið núna í dag? Útflutningsvörur okkar hafa nú ekki hækkað á öðrum tíma öllu betur en þær gera nú. Hvenær hefur saltsíldin hækkað annað eins og nú? Hvenær hefur lýsið hækkað annað eins og nú? Hvenær hefur mjölið komizt í annað eins verð og nú? Þegar síldar- og fiskimjöl fór upp í 21 shilling einingin, eða próteinið, fyrir nokkrum árum, var sagt, að þetta gífurlega háa verð hefði beinlínis sprengt efnahagskerfið hjá okkur. Nú er það komið yfir 27, og við höfum aldrei séð annað eins verð. Verð á hraðfrystum fiski fer líka mjög hækkandi á erlendum mörkuðum. Það má segja, að það hafi sjaldan verið eins miklar verðhækkanir á útflutningsvörum okkar eins og nú. Þessi skýring hjá hæstv. ráðh. dugar því ákaflega skammt. Það er ekki það, sem rekur á eftir honum með að fara inn í EFTA, það er eitthvað annað.

Ein af þeim röksemdum, sem reynt er mjög að halda á lofti í sambandi við aðild að EFTA, er sú, að við verðum að horfa til framtíðarinnar. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, hvernig muni fara í íslenzkum þjóðarbúskap t.d. á næsta áratug, við verðum að hafa það í huga, er sagt, að á næsta áratug muni bætast við 20 þús. einstaklingar á vinnumarkaði okkar. Við verðum að ætla þessum fjölda einhver ný verkefni. Og maður skyldi helzt halda, að við værum að fara inn í EFTA upp á alla óvissuna í von um það, að þannig yrði til vinna handa öllum þessum nýja fjölda. Ekki neita ég því, að vissulega þurfum við að gera okkur grein fyrir því, hvernig á að ráðstafa vinnuafli okkar á komandi áratug. En ég segi: möguleikar okkar Íslendinga eru nú alveg tvímælalaust tengdir við það að snúa okkur að því stóra verkefni, sem við höfum varla byrjað á, sem er að fullvinna þann sjávarafla, sem við eigum nokkurn veginn vissan að fá á land á hverju ári. Við höfum aðeins, eins og ég sagði áðan, staðið í frumvinnslu á þessum afla. Það hefur verið bent á það, einnig af ýmsum stuðningsmönnum ríkisstj., að það mætti tvö- til þrefalda útflutningstekjur þjóðarinnar, ef við ynnum sjávarafla okkar t.d. á svipaðan hátt eins og V.-Þjóðverjar vinna sinn sjávarafla. Við þurfum að snúa okkur að þessu verkefni, og engin aðild að bandalagi, hvort sem við værum að fara í Efnahagsbandalag eða jafnvel sameinað Efnahagsbandalag og EFTA, gæti leyst okkur undan þeim vanda, að við verðum sjálfir að byggja upp þennan iðnað. Hann byggist ekki upp bara á þann hátt, að við göngum í eitthvert bandalag. Það er á þessum sviðum, sem við eigum auðvitað gífurlega möguleika til aukins útflutnings.

Ég vil t.d. segja það, eins og ég sagði á fundi með framleiðendum fyrir nokkrum dögum, að þegar það gerist núna, að einn af okkar þekktustu sölumönnum, sem selur líklega meira fyrir okkar hönd á erlendum vettvangi en nokkur annar Íslendingur, — þegar hann nú kemur til landsins og segir: mig vantar fisk af svipaðri tegund og þið hafið framleitt, upp á 100 millj. kr. til viðbótar við það, sem verið hefur, þá er ég alveg sannfærður um það fyrir mitt leyti, að við getum haft til þennan fisk. Við þurfum að gera nokkrar ákveðnar fjármálalegar ráðstafanir, til þess að hann verði til. Það er full ástæða sagði ég á þessum fundi til þess, að þeir, sem fá svona boðskap, fari á fund ríkisstj. og segi henni frá því, af því að við vitum, að ríkisstj. er að leita og leita og leita innan um mublur og hitt og annað að einhverjum nýjum möguleikum til útflutnings, og hún vill mikið á sig leggja til þess að fá nýjan útflutningsiðnað. Það á að segja henni frá þessum möguleika, hann liggur á borðinu, við getum notað hann. Við eigum ekki að vera hræddir við að nota hann. Þarna eru möguleikar til aukins útflutnings. Það er á þessu sviði, sem þarf að vinna, og síðan auðvitað halda áfram jöfnum höndum með það að þroska útflutningsiðnað okkar.

Ég get tekið undir með hæstv. ráðh., þegar hann talar um útflutningsiðnað, en ég held bara, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, á hvaða sviði verður þessi útflutningsiðnaður byggður upp. Þar held ég, að hæstv. ríkisstj. mætti lesa eina ágæta grein, sem birtist í Fjármálatíðindum fyrir nokkru eftir Jóhannes Nordal, og reyndar annan hagfræðing til viðbótar. Þegar hann var upp úr síðustu gengislækkun að reyna að gera sér grein fyrir því, hvað væri til bragðs fyrir okkur Íslendinga, hvernig við ættum að glíma við öll þessi vandamál okkar í efnahagsmálum, þá voru niðurstöðurnar þessar, ég skal lesa svolítinn kafla af því. Í þessari grein segir m.a.:

„Þegar könnuð eru þau tækifæri, sem framundan eru til aukningar í útflutningi ber tvímælalaust fyrst að telja aukningu í útflutningi sjávarafurða, sem einkum hlýtur að byggjast á meiri vinnslu afurðanna hér innanlands, betri nýtingu aflans og nýtingu fiskstofna, sem nú eru lítt eða ekki notaðir.“

Hann segir áfram: „Í öðrum flokki er uppbygging annars útflutnings og gjaldeyrisaflandi starfsemi, sem nýtur á einhvern hátt góðra ytri skilyrða hér á landi. Má þar til nefna stóriðju byggða á ódýrri raforku og jarðhita, ullar- og skinnaiðnað og annan iðnað, sem byggist á séreinkennum þess hráefnis, sem hér er fyrir hendi; aukningu ferðamannastraums vegna sérkenna landsins og náttúrufegurðar; og minkaeldi vegna hagstæðs loftslags og óvenjulega ódýrs fóðurs.“

Ég vil nú ekki segja, að ég sé að öllu leyti sammála, hvorki þessari grein allri né reyndar því, sem þarna segir, menn hafa misjafna trú á því. En niðurstaða þessara tveggja hagfræðinga, sem ríkisstj. hefur æðioft tekið talsvert mikið tillit til, var þó sú, að nr. 1 kom sjávarútvegurinn og þeir möguleikar, sem tengdir eru við hann, nr. 2 önnur þau hráefni, sem skapa hér einhver sérkenni hjá okkur. Þarna voru möguleikarnir. Og þessir ágætu menn bentu á það, að lega Íslands og staða öll til viðskipta væri þannig, að við ættum óhægara um vik en flestar aðrar þjóðir, vegna þess að flutningskostnaður til landsins og frá landinu væri gífurlega mikill. Þeir sögðust hafa reiknað út, að telja mætti, að fragtkostnaðurinn til Íslands og frá Íslandi næmi 5% af þjóðarframleiðslunni á hverju ári. Ég held, að þeir, sem hafa þetta í huga og reyna að kynna sér þessi mál, komist að niðurstöðu um það, að þeir möguleikar okkar, sem liggja næst og við eigum að snúa okkur að, eru miklir og þeir liggja á þessu sviði. En það þýðir ekki að ætla að víkja þessu öllu frá sér, gefast upp við þann vanda, sem er því samfara að byggja upp útflutningsiðnað í þeim greinum, þar sem einhver möguleiki er fyrir hendi, og kasta sér út í einhverja óvissu í einhverju nýju bandalagi og segja: mubluútflutningur eða eitthvað annað hlýtur að bjarga okkur. Það er illa farið að halda þannig á málunum að mínum dómi.

Ég held, að við þurfum ekki að örvænta á neinn hátt um það, að við höfum nóg handa okkar fólki, viðbótarfólki á vinnumarkaðinum, að gera á komandi áratug, ef við nýtum þá möguleika, sem við sjáum, að við höfum. En það þarf að snúa sér að því verkefni.

Eitt af því, sem ég fyrir mitt leyti tel verst við þá ákvörðun, að Ísland gangi í EFTA nú; er einmitt, að mér finnst, að allar aðalröksemdirnar, sem fram koma frá talsmönnum EFTA, vera bundnar við þetta, sem kom hvað eftir annað fram m.a. í ræðu hæstv. viðskmrh., að þeir slá því föstu í byrjuninni: það eru engar líkur til þess, að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn geti tekið við því nýja fólki, sem kemur hér inn á vinnumarkað á næsta áratug. Þeir slá því föstu, að þarna sé ekki um möguleika að ræða. Þeir hugsa sér í mesta lagi að halda þarna í horfinu, en ætla sér að treysta á möguleika, sem ég held fyrir mitt leyti, að verði litlir í reynd og mjög lítilfjörlegir.

Út af fyrir sig óttast ég ekki aðild að EFTA. Ég held, að það gerist engin ósköp hér. Ég býst þó við, að afleiðingarnar verði þær á næstu árum, að hér verði nokkur samdráttur í innlendum iðnaði, það verði þrengra um það að fá atvinnu. Kjör vinnandi fólks versni á margan hátt. Ég býst við því, að það verði miklu torsóttara fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu að sækja fram til hækkaðs kaupgjalds, eftir að við erum orðnir aðilar að EFTA, því að það mun miskunnarlaust dynja á verkalýðshreyfingunni, þegar hún fer fram á hækkað kaup, að ef hún hækki kaupið, fáist útlendingarnir heldur ekki til þess að koma með sín fyrirtæki hingað. Þá verði ávinningurinn af EFTA lítill, sem alltaf var verið að vitna í hér í skýrslunni. Og svo hitt, að það verður sagt við verkalýðinn: ef kaupið hækkar, drepið þið hinn veikbyggða iðnað, sem nú verður að berjast við stóriðnað stóru landanna á frjálsum grundvelli. Ég held því, að EFTA-aðild eins og sakir standa hafi í för með sér margvisleg vandkvæði, sem við þurfum ekki að kalla yfir okkur, leysi nálega engin vandamál okkar, og því hefði verið æskilegra að láta málið liggja áfram, sjá hverju fram vindur í samningum á milli EFTA-landanna og Efnahagsbandalagsins, sjá, hverju fram vindur í efnahagssamtökum Norðurlanda og nota tímann til þess að snúa okkur að okkar eigin verkefnum, notfæra okkar eigin möguleika, þá sem við eigum. Það held ég, að við hefðum átt að gera. Ég sé, að hér hefur liðið þó nokkuð á tímann og þó að það væru ýmis atriði, sem ég hefði nú viljað víkja að nánar, læt ég mínu máli lokið nú, en niðurstaða mín er sú, að það er óhagkvæmt eins og sakir standa fyrir okkur að gerast aðilar að EFTA. Ég álít, að þjóðin hafi heldur ekki fengið að ræða málið á þeim grundvelli, sem eðlilegt hefði verið, og því eigi að fresta málinu og alls ekki að samþ. það hér á Alþ., án þess að það verði lagt undir þjóðaratkvgr. a.m.k.