12.12.1969
Sameinað þing: 23. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (2943)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er vafalaust það mál, sem nú ber hæst í íslenzkum stjórnmálum — mál, sem alveg vafalaust getur ráðið miklu, ekki aðeins um atvinnu- og efnahagsþróun þjóðarinnar í framtíðinni, heldur einnig um menningartengsl hennar við aðrar þjóðir og þannig í raun um mótun þjóðfélagsins, beint og óbeint, á mörgum ef ekki flestum sviðum.

Málið hefur verið lengi á döfinni, og nú í samfellt tvö ár hafa fulltrúar allra þingflokka unnið að því að rannsaka það og undirbúa. Samt er það deginum ljósara, að gömlu stjórnarandstöðuflokkarnir hvor fyrir sig eru í reynd innbyrðis mjög ósammála um afstöðu til málsins, m.a. vegna þess að þeir eru næsta óvissir um, hvort þeim sé líklegri til ávinnings meðal kjósenda sá kosturinn að snúast gegn því eða hinn að fylgja því. Efnisrök málsins virðast mér eftir málflutningi þeirra hér s.l. mánudag sýnilega ekki neitt aðalatriði.

Hér kemur ekki síður til sú tregða, sem allir gömlu flokkarnir eru haldnir af, að unna mótherjum sínum sem allra sjaldnast sannmælis eða fylgja máli, sem þeir hafa forgöngu um. Í orði kveðnu kann sú regla að hafa viðurkenningu allra flokka, að afstöðu til mála beri að móta eftir því einu, hvaða mat menn leggja á það, hvort það horfi til bóta fyrir þjóðina í heild og alla alþýðu manna, en ekki eftir því, hverjir hafi um það forgöngu. Á borði hefur það hins vegar of oft og of lengi orðið reyndin, að önnur sjónarmið, svo sem meiri eða minni ímyndaðir flokkshagsmunir, hafa ráðið úrslitum, og þó öllu fremur, þegar um stórmál hefur verið að ræða. Mér þykir alveg augljóst, að sú sundurleita og loðna afstaða, sem komið hefur fram hjá talsmönnum Alþb. og Framsfl. í þessu máli, sé mjög af þeim toga spunnin, að þeir telji sér nauðsynlegt að játa helzt ekki fylgi sitt við neitt stórmál, sem núv. ríkisstj. hefur haft veg og vanda af.

Ég hef alltaf verið andvígur núv. hæstv. ríkisstj., og á því hefur vissulega engin breyting orðið. En það fær ekki haggað þeirri skoðun minni, að ekkert mál sé af því illa, aðeins vegna þess að hún er því meðmælt, né af því góða bara vegna þess, að hún sé því andstæð. Það er hlutlægt mat á málefninu sjálfu, sem öllu hlýtur að skipta.

Ég mun hér ekki að sinni a.m.k. tína til neinn fjölda aukaatriða og smáatriða, sem tengd eru þessu máli með einhverjum hætti, heldur halda mig eingöngu og í stuttu máli við aðalatriðin, sem mér þykja sköpum skipta og þeim flokki, sem ég hef staðið að að mynda, þykir sköpum skipta í sambandi við afstöðuna til þessa máls.

Ég mun einnig skipta málefninu í tvo meginþætti og tel það rökrétt, EFTA-aðildina sjálfa annars vegar og hins vegar hliðaratriðin, spurningarnar um það, hvernig eftirmeðferð málsins skuli hagað eða hagað ekki. Þetta tel ég vera eðlilegt, þar sem fyrra atriðið varðar einvörðungu samningana út á við við EFTA-löndin, en hið síðara er aðeins okkar eigin heimilismál, þar sem við eigum einir og sjálfir við okkar eigin mál að fást, mál, sem geta verið stöðugum breytingum undirorpin, eftir því hvernig hjólið snýst stjórnmálalega séð í okkar landi, og eiga því raunverulega ekki — nema þá a.m.k. að mjög takmörkuðu leyti — að varða meginspurninguna, sem hv. alþm. eru nú skyldir að svara: Er rétt fyrir okkur og hagkvæmt að taka upp þá efnahagssamvinnu, sem felst í aðild að EFTA, eða er þessu öfugt farið?

Svar mitt við þessari spurningu er hiklaust, að það sé ekki aðeins hagkvæmt heldur og nauðsynlegt, vegna þeirrar atvinnu-, efnahags- og lífskjaraþróunar, sem ég æski og vil vinna að, að Ísland gerist aðili að Fríverzlunarbandalaginu. Ég tel það líka nauðsynlegt af menningarlegum og félagslegum ástæðum, og ég tel það beint og ótvírætt hagsmuni íslenzkrar launastéttar.

Flestum hlýtur að vera augljóst, að við lifum nú um skeið a.m.k. tímabil þróunar til stóraukinnar efnahagssamvinnu þjóða í milli og skiptingar þróaðra landa í efnahagsblokkir. Allar þjóðir V.-Evrópu hafa nú, að Spáni og Íslandi undanskildu, skipt sér í tvær efnahagsheildir, EFTA og Efnahagsbandalag Evrópu, og tekið sínar ákvarðanir í þessum efnum, að því að ég bezt veit, af frjálsum og fúsum vilja og þá af þeirri ástæðu einni, að þær telja sér aðildina vera hagstæða. Þessar blokkir eru þó að flestu gerólíkar að eðli og gerð. Efnahagsbandalagið er ekki aðeins viðskipta- og tollabandalag, heldur á pappírnum a.m.k. einnig vísir að framkvæmd eins konar stórveldisdrauma um pólitíska sameiningu V.- Evrópu í eitt ríki undir sameiginlegri yfirstjórn — ríki, þar sem hvert Evrópuland fyrir sig yrði eins konar hreppur í sýslunni og afsalaði sér sjálfsákvörðunarrétti sínum í hinum mikilsverðustu málum. Innan þessa bandalags er gildandi nær ótakmarkaður réttur til flutnings fjármagns og vinnuafls landa í milli. Og enn hefur þetta bandalag þau ákvæði í stofnsamningi sínum, að samfélag, — eins og það mundi þýða orðrétt eftir enska nafninu í stofnsamningi, þátttökuríkin eru bundin af honum um aldur og ævi, geta ekki farið úr bandalaginu, þó að þeim síðar þætti hagstætt eða nauðsynlegt. Undir slíkar skuldbindingar geta Íslendingar auðvitað aldrei beygt sig, og breytir það engu um, þótt Rómarsáttmálinn hafi ekki til þessa, hvað hrein stjórnmálaleg ákvæði snertir, verið miklu meira virði en pappírinn, sem hann hefur verið skráður á.

Allt eðli EFTA-sáttmálans er þessu gjörólíkt. Þar er einvörðungu um að ræða tollabandalag, sem leiða á til innbyrðis fríverzlunar í tilteknum greinum, og þar með væntanlega til hagstæðari verkaskiptingar í framleiðslugreinum þeim, sem sáttmálinn nær til, og í kjölfarið til örari hagvaxtar og efnalegra framfara, þ.e. undirstöðu betri lífskjara. Þessi sáttmáli gerir engri þjóð að skyldu að halda sig lengur innan bandalagsins en hún telur sér þátttöku hagkvæma, og pólitískur ákvörðunarréttur er í engu skertur. Það segir svo sína sögu, að engin þeirra þjóða, sem í bandalagið hafa gengið, hafa enn talið sér hagstætt að hverfa þaðan.

Þar sem aðild að Efnahagsbandalaginu er óhugsandi af okkar hálfu, ekki síður en hún er óhugsanleg t.d. fyrir Svíþjóð, Finnland og Sviss, þó að það sé af nokkuð ólíkum ástæðum, þá er spurning okkar sú, hvort farsælla muni að tengjast tollabandalagi þeirra Evrópuríkja, sem EFTA-löndin, þ. á m. öll Norðurlöndin, skipa, eða fylgja Franco-Spáni einum í sinni efnahagslegu útlegð.

Við Íslendingar eigum meira undir hagstæðum utanríkisviðskiptum en allar aðrar þjóðir V.-Evrópu, og gefur því augaleið, að hagur okkar af rýmkuðum mörkuðum fyrir útflutningsframleiðslu okkar ætti og hlýtur raunar að vera mikilvægari en flestra eða allra annarra. Efnahagsleg einangrun er okkur því hættulegri en flest annað. Okkur er brýn nauðsyn, hvað markaði snertir, að eiga sem flestra kosta völ, ef vel á að fara. Það sannar líka öll saga okkar og reynsla bæði fyrr og síðar. Sumir segja að vísu: 100 millj. manna EFTA- markaður er okkur næsta lítils virði. Þar ríkir gnótt vöruframboðs og hörð samkeppni. Við erum fyrst og fremst matvælaframleiðendur, og EFTA-löndin hafa nóg að bíta og brenna. Þriðji heimurinn er okkar æskilegasti markaður. Þar ríkir hungur; þar er því næg eftirspurn. — Þessi kenning er t.d. að mér sýnist ein aðaluppistaðan hjá helzta hagfræðingi Alþb. Gallinn á þessu og veikleiki röksemdanna er aðeins sá, að enn sem komið er a.m.k. geta þessar þjóðir ekki, þó fegnar vildu, mettað fólk sitt með neyzlu íslenzkra matvara, ekki keypt okkar vörur og allra sízt á okkur hagstæðu verði, og því síður sem vörurnar eru unnar í fullkomnaxri og dýrari neyzluform, eins og við hljótum að stefna að. Reynist svo síðar, að þetta verði mögulegt, er engu spillt við EFTAaðild að þessum fræðilega hugsanlegu mörkuðum, að því er ég bezt fæ séð a.m.k.

Reynslan er líka auðsjáanlega sú í utanríkisviðskiptum okkar, að hagstæðustu markaðir og hæsta markaðsverð hefur að öllum jafnaði verið meðal auðugri þjóðanna, og er þar auðsæjast dæmið um það, að hæsta fiskverðið á hálfunnum fiski hefur verið um skeið og er enn á bandaríska markaðnum, þ.e. hjá auðugustu þjóð veraldarinnar. Og varla er það vegna matvælaþurrðar þar í landi. Einstaka maður dregur af því þá fljótfærnislegu ályktun, að vegna hins tiltölulega hagstæða verðs á fiskflökum í Bandaríkjunum nú, beri okkur að stefna að því að einskorða okkur að mestu eða öllu við þennan markað, nema þá e.t.v. að einhverju leyti við Sovétríkin.

Ef við veldum einangrunarstefnuna, er augljóst, að slík þróun fylgdi fljótt í kjölfarið, þ.e. að við værum bundnir við þessa tvo markaði, og mundu þá koma í ljós allir verstu annmarkar þess að eiga fárra kosta völ, hvað markaði snertir. Ég held, að samningar okkar síðustu árin, t.d. við Sovétríkin við síðustu gengisfellingu, um sölu þeirra fisktegunda, sem þá var enn þröngt um á öðrum mörkuðum, ættu að verða okkur nokkur leiðarvísir í þessu efni, en þá vorum við tilneyddir að stórlækka verð okkar t.d. á ufsa og karfa og gefa Sovétmönnum verulegan hluta af þeim ávinningi, sem framleiðendum átti að vera tryggður með gengisfellingunni.

Með inngöngu í EFTA náum við á ný möguleikum á markaði fyrir freðfisk í Bretlandi og sennilega víðar í V.-Evrópu við verði, sem mjög svarar til þess verðs, sem við nú njótum í Bandaríkjunum, eða jafnvel enn þá hærra, og líku ætti að geta gegnt um aðrar fiskafurðir. Og með EFTA-aðild hlýtur verðlag á Sovétmarkaði að markast af brezka og evrópska verðinu yfirleitt og þá sjálfsagt til verulegrar hækkunar frá því, sem nú er. Á Evrópumarkaði stöndum við þá einnig í fyrsta skipti um langt skeið á sama samkeppnisgrundvelli og Norðmenn, sem hafa átt þar kost á tollfrjálsum innflutningi, meðan við höfum neyðzt til að nota verulegan hluta af andvirði framleiðslu okkar til þess að greiða tolla, sem EFTA-löndin hafa verið undanþegin. Í þessu sambandi skipta að mínu viti ekki máli þær tímabundnu neyðarráðstafanir, sem Bretar gerðu varðandi fiskinnflutning — ekki a.m.k., þegar til framtíðarinnar er litið. Ég minnist þess á síðasta þingi, þegar framsóknarmenn báru fram frestunartillögur sínar um það, að sótt yrði um aðild að EFTA, þá var fisktollurinn í Bretlandi önnur aðalástæðan fyrir þeirri frestun. Sú ástæða a.m.k. ætti að vera brottfallin nú.

Í sambandi við samanburð á evrópskum og bandarískum markaði er þess einnig að gæta, að vegna hárra tolla í Bandaríkjunum á fullunnum sjávarafurðum, eins og fishsticks og öðru slíku, neyðumst við til að kaupa þar mikið vinnuafl til fullvinnslu á framleiðslu okkar, vinnuafl, sem við getum sjálfir auðveldlega lagt fram sjálfir okkur til hagsbóta, þ.e. ef kostur væri á tollfrjálsum innflutningi, eins og möguleikar skapast til á EFTA-markaði, eftir að aðild að honum er fengin. Við heyrðum að vísu hv. 4. þm. Austf. leika sér s.l. mánudag með tölur, sem áttu að sanna það, að því sem næst engu máli skipti fyrir okkur, hvort tollar á fiski og hvers konar fiskafurðum yrðu felldir niður gagnvart útflutningi okkar, og komst þar niður í fáa milljónatugi á ári, sem heildarverðmæti útflutningsins kynni þá að hækka um. Gagnvart framtíðinni eru þó þessar tölur að mínu viti allar falstölur, þar sem þær eru fengnar frá því tímabili, þegar útflutningur okkar hefur stöðugt verið að dragast saman vegna bættrar samkeppnisaðstöðu Norðmanna og fleiri, sem þeir hafa hlotið með EFTA-aðild sinni, þ.e. þeirrar aðstöðu að geta notið tollfrelsis, á meðan við höfum orðið að klífa 10 og allt upp í 30% tollmúra, og höfum þess vegna verið smátt og smátt að gefast upp og verið að leita annarra markaða.

Í öðru lagi gleymdi þessi hv. þm. og fyrrv. forsvarsmaður sjávarútvegsins, annaðhvort viljandi eða óviljandi, þeim stóra þætti málsins, sem snýr að áhrifum af niðurfellingu tolla, og þar með hækkuðu verði á EFTAmarkaði, á aðra markaði, og þá ekki sízt á Sovétmarkaðinn, sem a.m.k. oft, ef ekki jafnan, hefur mjög mótazt af evrópska fiskverðinu og þá sérstaklega því brezka. En staðreynd er það, að samanburður á verði á þessu ári, t.d. á þorskblokk, sem er aðalútflutningsvaran, sýnir, að brezka lágmarksverðið, sem við eigum að fá, er 9–10% hærra en það verð, sem við fáum í Sovétríkjunum, og um það bil 2% hærra en verðið, sem við höfum a.m.k. til skamms tíma fengið í Bandaríkjunum.

Ég vil nú spyrja: Gerir þessi hv. þm. ráð fyrir því, að við Íslendingar munum sætta okkur við óbreytt verð eða Sovétmenn muni yfirleitt bjóða okkur upp á óbreytt verð, eftir að lágmarksverðið í Bretlandi og aðrir möguleikar á EFTA-markaði eru orðnir staðreynd? Hv. þm. gerði því að vísu skóna, að brezkir fiskframleiðendur mundu stöðugt undirbjóða okkur og hindra þannig nokkurn raunverulegan aðgang okkar á brezkan markað á því lágmarksverði, sem um hefur verið samið. Hann sagði líka, að samkeppnin við Norðmenn gæti ekki staðizt. Hv. þm. veit þó vel, að brezk útgerð nýtur mikils ríkisstyrks, en er þó þjóðinni ónóg, og einnig hitt, að brezka ríkisstjórnin hefur fullan hug á að draga úr þeim styrkjum m.a. með því að stuðla að almennt hærra fiskverði þar í landi. Þess vegna benda allar líkur til þess, að lágmarksverðið, sem um hefur verið samið, verði að miklu leyti eða öllu leyti raunhæft fyrir okkur.

Ég veit, og það er ekki nein ný saga fyrir mig, að hv. 4. þm. Austf. hefur óbilandi vantrú á getu íslenzks iðnaðar til nokkurrar samkeppni á jafnréttis- og samkeppnismörkuðum. Slík skoðun frá honum kemur sjálfsagt öðrum ekki á óvart frekar hér á hv. Alþ. En hitt hefðu menn þó kannske haldið, að hann héldi betur við trú sína á íslenzkan sjávarútveg en svo, að hann fullyrti, að við hefðum á engan hátt í fullu tré við Norðmenn, eftir að samkeppnisaðstaðan hefur verið jöfnuð með tollfrelsi beggja. En það fór ekki alveg ósvipað, að það sögulega gerðist á þessum sama fundi, að hv. form. þingflokks Framsfl. afneitaði hér Páli postula, og á eftir kom svo hv. 4. þm. Austf. og afneitaði sjávarútveginum með þessum hætti.

Ég er alveg sammála hv. 4. þm. Austf. um það, sem hann annað veifið sagði í ræðu sinni, að fullvinnsla íslenzkra sjávarafurða er örugglega eitt stærsta efnahagslega framfaramál okkar Íslendinga. En ég spyr: Ef að því ber að stefna, að mikill eða jafnvel meiri hluti fiskafurða okkar seljist fullunninn úr landi, hvar eru þá markaðsmöguleikarnir helztir? Er líklegt, að vanþróuðu löndin kaupi slíkar vörur í stórum stíl á dýrasta vinnslustigi? Ég held, að það sé a.m.k. afskaplega ólíklegt. Verður auðveldara fyrir okkur í framtíðinni að klífa tollmúra í Bandaríkjunum með slíka framleiðslu heldur en það er nú í dag? Ég vil auðvitað ekkert fortaka um það, hvort það kann að reynast mögulegt einhvern tíma, en það tekur áreiðanlega sinn tíma eins og fleira, ef það er þá mögulegt. A.m.k. er það ekki stefna íslenzks sjávarútvegs í dag að reyna slíkt. Þeir byggja það á því að fullvinna vöruna í landinu sjálfu vegna tollanna. Og hafa ekki draumarnir um mikinn útflutning á niðursuðuvarningi til Sovétríkjanna, sem einu sinni átti að bylta helzt öllu okkar atvinnulífi, rætzt frekar illa? Þar er að vísu um nokkurn markað að ræða, en verðið er óhagstætt og ekki nein örugg vissa eða einu sinni neinar líkur fyrir því, að þar sé um aukningu að ræða á næstu tímum. Það ber þó að hafa alla möguleika í huga og nýta þá, eftir því sem fremst er mögulegt. En það er ekki sennilegt að mínu viti, að Íslendingar geti sett traust sitt á þá markaði. Mín skoðun er sú, að þrátt fyrir samkeppni, sem ríkir á EFTA-markaði, séu þar, þegar til lengdar lætur, langmestar líkur á því að geta selt fullunna gæðavöru á hæsta vinnslustigi úr fiskafurðum okkar, og að það gerist ekki, nema tollmúrarnir séu brotnir niður. En ekki ber, þrátt fyrir það, að líta fram hjá öðrum þeim möguleikum, sem kunna að vera fyrir hendi.

Ég tel þess vegna alveg tvímælalaust, að val einangrunarstefnu gagnvart evrópskum fiskmarkaði hlyti að leiða til stórfellds tjóns, ef ekki í einstöku tilfellum til verðhruns, einnig á þeim mörkuðum, sem þá kynnu að standa okkur opnir. En varðandi sjávarútveginn er auðvitað aðeins eitt dæmi af mörgum um það, hvert einangrunarstefnan mundi leiða okkur í markaðsmálum, þ.e. í þá átt að verða sífellt háðari þrengra markaðssviði og þá í langsamlega flestum tilvikum lækkandi eða lægra verðlagi.

Ég tel, að ef við veldum einangrunarstefnuna, yrðu afleiðingarnar á pólitíska og menningarlega sviðinu engu lítilvægari. Það er nær því algjört lögmál, að í kjölfar einskorðaðra viðskipta eflast stjórnmálaleg og menningarleg tengsl þess aðilans, sem stærri er. Sovézk og bandarísk menning eða ómenning, hvort sem menn vilja heldur kalla það, mundu togast á um áhrifasvæðið Ísland, en það eru þau áhrif, sem við Íslendingar hljótum sízt að æskja. Við erum V.-Evrópuþjóð, við erum Norðurlandaþjóð og það viljum við vera. Ef viðskiptaböndin slitna milli okkar og lýðræðisþjóða V.-Evrópu í stöðugt ríkara mæli og þ. á m. Norðurlanda, þá hljóta menningartengslin smátt og smátt að fara sömu leið. Og við verðum í æ ríkara mæli togaðir og teygðir milli stórveldanna í austri og vestri. Ég skal engu spá um það, hvor yrði þar hinum yfirsterkari, enda hvor tveggja tilhugsunin jafnógeðfelld öllum þorra Íslendinga. En í þessu sambandi verður ekki fram hjá því komizt að benda á þá samfylkingu, og þá á ég við utanþings, hérlendra Sovétdýrkenda og bandarísksinnuðustu afturhaldsmanna, sem er deginum ljósari í afstöðu þeirra í þessu máli. Niðurstaða mín í þessum veigamikla þætti EFTA-málsins, einangrun eða einangrun ekki frá viðskiptum við lýðræðisþjóðir V.-Evrópu, er því augljóslega sú, að val einangrunarinnar, þótt aðeins sé tekið tillit til útflutningsframleiðslu okkar, eins og hún nú er, sé háski fyrir þjóðina, efnahagslegur, menningarlegur og stjórnmálalegur háski, sem við verðum að sporna við og forðast.

Annað þeirra meginatriða, sem móta afstöðu mína og míns flokks til EFTA-aðildar, er sú samtvinnaða þörf, ég vil segja lífsnauðsyn, sem okkur er á því: 1) að verða í síauknum mæli iðnaðarþjóð, 2) að taka upp nýja stefnu, sem treyst geti, eftir því sem verða má, hagstæða verðlagsþróun. Hömlun skefjalausrar verðbólgu, eins og þeirrar, sem geisað hefur allt frá stríðslokum og sjaldan ákafar en á viðreisnartímabilinu, verður að hefjast þegar í stað, ef nokkur von á að vera til þess, að iðnþróun og iðnvæðing verði hér staðreyndir, sem geti bjargað út úr þeim ógöngum, sem við þjóðinni blasa að óbreyttri stefnu í þessum málum. EFTA-aðild ein tryggir auðvitað ekki slíka stefnubreytingu, en hún mun örugglega þrýsta á hana og auðvelda hana. Þörf nýrra, stórra árganga af íslenzku vinnuafli á næstu einum til tveimur áratugum, svo ekki sé lengra farið, verður ekki svarað með því einu, að þjóðlegar og hefðbundnar atvinnugreinar verði efldar, þótt þar séu fyrir hendi vafalausir og miklir möguleikar, ef rétt er á haldið, og þá alveg sérstaklega í fiskiðnaði, sem EFTA-aðild vissulega mun bæði styrkja og styðja mjög verulega og það strax frá upphafi. Fyrr en síðar þarf hér að skapast sú tæknimenntun og verkmenning, að við getum með líkum hætti og ýmsar aðrar smærri þjóðir V.-Evrópu unnið iðnaðarvörur í stórum stíl, ekki aðeins úr innlendum hráefnum, sem megináherzlu ber þó að sjálfsögðu að leggja á fyrst um sinn, heldur einnig síðar úr erlendum hráefnum og selt þær á heimsmarkaðsverði, á samkeppnisfæru verði og samkeppnishæfar að gæðum. Aðild að EFTA er kannske ekki hvað sízt eins konar 10 ára áætlun um það að ná þessu marki, og þessu marki má vafalítið ná, ef vel er á málum haldið.

Til viðbótar dugandi og hæfu vinnuafli höfum við mikla óbeizlaða orku í fallvötnum og jarðhita, en ýmsar aðrar þjóðir V.-Evrópu, þ. á m. sumar þeirra, sem við einna bezt lífskjör búa, hafa raunar ekkert annað að selja en verkmenntun sína, tækni og tækniþjálfun. Engar náttúruauðlindir, ekkert hráefni, enga orku. Við höfum að vísu fjarlægð og flutningavandamál við að etja meira en þessar þjóðir, en á móti kemur sá auður, sem í náttúruorkunni býr, þannig að hér skortir í rauninni ekki annað en við reynumst færir um að efla verkmenningu okkar, tækniþekkingu og stjórnunar- og sölutækni til þess að geta skapað okkur jafnræði við þessar þjóðir um margháttaða iðnaðarframleiðslu, og þá einnig um lífskjör.

Þessum lífsnauðsynlegu markmiðum náum við ekki á næsta áratug, nema hér hefjist skipuleg atvinnuuppbygging, stjórn fjárfestingar- og peningamála, og ekki heldur nema hér takist sættir með fjármagni og vinnuafli um árvissar launa- og lífskjarabætur án örari verðbólguþróunar en í viðskiptalöndum okkar. Ef sívaxandi atvinnuleysi, lækkandi raunlaun eiga ekki að vera lífskjör okkar næstu ár og áratugi, eins og nú er, verða þessi markmið að nást. Við stjórnarandstæðingar vantreystum að vonum núv. ríkisstj. mjög í þessum efnum, en slíkt getur ekki að mínu viti ráðið úrslitum um afstöðuna til EFTA-aðildar. Við hljótum í fyrsta lagi að ræða þetta mál á þeim grundvelli, að núv. ríkisstj. og ríkisstjórnarsamstarf reynist ekkert eilífðarfyrirbæri. Ég frábið mér a.m.k. að ræða málið á öðrum grundvelli, því að ég held miklu fremur, að hún eigi sér ekki langra lífdaga auðið héðan af. Hitt fæ ég heldur ekki séð, að jafnvel með óbreyttri ríkisstj. væri þessum mikilvægu málum betur borgið, ef við stæðum utan EFTA, heldur miklu fremur hið gagnstæða. Það hefur verið fullyrt af EFTA-andstæðingum, að EFTA-aðild væri eins konar trygging fyrir núv. hæstv. ríkisstj. Ég segi aðeins: mjög hljóta þessir menn að örvænta um sína túlkun á málinu fyrir þjóðinni og gengi sitt framvegis, sem þannig álykta. Mitt álit er þvert á móti það, að EFTA-aðild skapi margfaldan þrýsting á stefnubreytingu í grundvallaratriðum frá þeirri stefnu, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur fylgt.

Spurningin um EFTA-aðild eða ekki er auðvitað fyrst og fremst spurning um áhrif slíkrar aðildar á atvinnuvegi þjóðarinnar, bæði í náinni framtíð og þegar til lengri tíma er litið. Áhrif hennar á atvinnuvegina og þróun þeirra ráða svo að sjálfsögðu mestu um launa- og kjaraþróun vinnustéttanna. Séu þessi áhrif jákvæð og atvinnuvegunum hagstæð, leiðir beint af því, að öll aðstaða verkalýðshreyfingarinnar til að ná fram hærri raunlaunum og hærri lífskjörum breytist til hins betra.

Hagsmunalegur ávinningur þjóðarheildarinnar af EFTA-aðild er strax verulegur og augljós, hvað snertir aðalatvinnuvegi okkar, sjávarútveg og landbúnað. Deilur manna um þennan ávinning eru í rauninni aðeins um það, hversu mikill ávinningurinn sé, en ekki um það, hvort hann sé fyrir hendi eða ekki. Að því er þessar greinar snertir, er því auðsætt, og raunar ekki umdeilt, að aðildin gerir þessar greinar sterkari fjárhagslega og eykur getu þeirra til að auka atvinnu og bera betri laun en ella væri mögulegt. Fríverzlun tryggir lægra verðlag að öðru jöfnu en vænta má, ef iðnvarningur er framleiddur innan tollmúra. Lægra verðlag er því neytendum ekki aðeins hagstætt, heldur einnig allri útflutningsframleiðslu og þess vegna stuðningur við hana og hlýtur að auka hæfni hennar til að greiða sómasamleg laun.

Sá kjarni spurningarinnar, sem þá stendur eftir, er raunverulega sá, hvort okkur tekst betur með EFTA-aðild á næstu 10 árum smám saman að ná því marki að vera fyllilega samkeppnishæfir í útflutningsgreinum okkar jafnt þeim, sem við nú stundum og þeim grein­ um, sem okkur þykir síðar hentugt að glíma við, án þess að sú samkeppni byggist á því, að laun séu lægri hér en meðal samkeppnisþjóðanna. Ég tel, að það verði eitt meginhlutverk verkalýðshreyfingarinnar á næstu árum að tryggja það með raunsærri kjarabaráttu, að þessu skilyrði verði fullnægt, og ég vísa m.a. í þessu efni til þess, að sambandsstjórnarfundur Alþýðusambands Íslands lagði á það sérstaka áherzlu í ályktun sinni nú fyrir nokkru, að Alþýðusambandið teldi breytingu, verulega breytingu á kaupgjaldi enn nauðsynlegri, ef af EFTA-aðild yrði.

Með EFTA-aðild útilokast að mínum dómi, eða verður a.m.k. stórum örðugra en áður, að beita því þrátefli, sem hér hefur verið beitt allt of lengi og hindrað hefur flestu fremur raunverulegar kjarabætur — því bragði að veita launahækkunum jafnóðum út í verðlag og láta launastéttirnar borga kauphækkanirnar sjálfar. Gengisfellingar eða hliðstæðar hagstjórnaraðferðir með tilheyrandi verðbólgu, sem hér hefur verið beitt til þess að halda launum niðri, eru ósamrýmanlegar þeirri iðnþróunarstefnu, sem EFTA-aðild gerir mögulega og okkur er lífsnauðsyn að taka upp. Verði því hér nokkur vitleg stjórnarstefna ráðandi, mun því grundvöllur kjarabaráttu verkalýðshreyfingarinnar breytast á þann veg, að hann verður raunhæfari en verið hefur. Það, sem vinnst, mun síður glatast en áður, veróur tryggara í hendi. En stóru kollsteypurnar hverfa úr sögunni, kollsteypurnar, þar sem hverri launahækkun er svarað með gengisfellingu og öðrum álíka hætti, væru stórlega torveldaðar. Engir ættu að verða slíku fegnari en sú verkalýðshreyfing, sem lifað hefur sitt aldarfjórðungsstríð a.m.k. fyrir bættum launakjörum og hefur tekizt frá stríðslokum að um það bil tífalda sjálfa launahæðina, en stendur nú samt, hvað raunverulegan kaupmátt snertir, í sömu sporum og þá, eða jafnvel verr, meðan verkalýðshreyfingunni annars staðar á Norðurlöndum hefur tekizt að tvö- til þrefalda raunlaun á sama tímabili.

Varðandi launakjörin má hér baeta því við, því veigamikla atriði, að EFTA-aðild hlýtur að þrýsta mjög á og styðja við þá kröfu íslenzkrar verkalýðshreyfingar, að launakjör verði hér sem líkust og tíðkast meðal grannþjóðanna. Sömu markaðir, svipað verðlag á útflutningsgreinum hljóta að vera hér þung lóð á metaskálunum og stuðla að jöfnuði landa í milli fremur en hitt. Niðurstaða mín er því sú, að EFTA-aðild skapi að öðru jöfnu traustari grundvöll fyrir árangursríkri kjarabaráttu og jafnframt fyrir fullri atvinnu. Ég sagði að öðru jöfnu því að það sé fjarri mér að ætla, að aðild að EFTA sé einhver töfraformúla, sem flestan eða allan vanda geti leyst. Þvert á móti held ég, að hér sé fyrst og síðast um að ræða innanlandsmál okkar, okkar eigin heimilismál, þar sem vitleg hegðan okkar sjálfra ræður úrslitum. EFTA-aðild tryggir okkur ekki lausn þessara heimilismála, en ef rétt er á haldið, mun hún létta okkur viðunanlega lausn þeirra.

Ég hef áður látið í ljósi það álit mitt, að sú samningsgerð, sem hér liggur fyrir, hafi farið vel úr hendi, enda er auðsætt, að í nær öllum greinum hefur verið orðið fullkomlega við þeim óskum, sem Íslendingar settu fram varðandi undanþágur og skilmála vegna sérstöðu þjóðarinnar. Hitt er svo annað mál, að undirbúningur sumra þátta málsins hefur að mínu viti ekki verið sem skyldi, og á ég þar sérstaklega við það, að sérfræðilegar athuganir á stöðu íslenzks iðnaðar með tilliti til EFTA-aðildar hafa ekki verið svo fullkomnar sem vera hefði þurft, þótt þar hafi verið verulega bætt um með skýrslu Guðmundar prófessors Magnússonar, sem birt var þm. fyrir fáum dögum og ég tel, að sé vafalaust vel unnið verk miðað við tíma og aðstæður, og alveg ástæðulaust að vanþakka það verk, sem þar hefur verið unnið, eins og hér hefur verið gert í umr. Enn hefur á það skort, að gerðar hafi verið nægilegar athuganir á því, og enn síður áætlanir um það, hvaða greinum nýs útflutningsiðnaðar helzt bæri að snúa sér að, ef af EFTA-aðild yrði. Það má að vísu segja, að til slíkrar athugunar sé enn nokkur tími og tækifæri á því fjögurra ára tímabili, sem nú fer í hönd, áður en staða iðnaðarins í heild breytist til muna. En allt um það hefur hér skort á um undirbúning, sem verður að teljast sanngjarnt, að farið hefði fram. Þetta skapar að vonum óþarfa efasemdir og tortryggni, sem ég tel, að komast hefði mátt hjá, ef nægilega vel hefði verið að unnið.

Þá ber og að harma, að málið hefur ekki verið kynnt þjóðinni sem skyldi, áður en að úrslitastundu var komið, og hygg ég það helztu orsök þess mótbyrs, sem enn gætir gegn málinu. En ég hygg, að hann muni eyðast, þegar hlutlausar upplýsingar eru gefnar og koma fram. Mér þykir t.d. alveg auðsætt, að einstaka mótmælaályktanir, sem hafa verið birtar í blöðum að undanförnu og ekki eru að vísu enn a.m.k. orðnar margar né sérstaklega sterkum rökum styrktar, eigi flestar rætur í ófullnægjandi vitneskju um þetta mikla og að ýmsu leyti flókna mál. En ekkert af þessari gagnrýni minni á málsmeðferð og undirbúningi málsins á fyrri stigum er þó í mínum augum svo veigamikið, að það geti ráðið úrslitum um afstöðu til málsins í heild sinni. Ég tel, að hagsmunir þjóðarinnar, hagsmunir allrar alþýðu manna, krefjist þess, að við höfnum efnahagslegri einangrunarstefnu og treystum á allan hátt efnahagssamvinnu og menningartengsl við aðrar Evrópuþjóðir og þá sérstaklega Norðurlöndin án þess að láta nokkuð af sjálfsákvörðunarrétti okkar af hendi. Okkur er lífsnauðsyn að iðnvæðast og skapa með þjóðinni öflugri iðnþróun til þess að tryggja tilverugrundvöll og lífsskilyrði okkar á komandi árum fyrir vaxandi þjóð og til þess að tryggja efnahagslegt öryggi hennar. Ég tel, að aðild að EFTA geti verið lykill að slíkri þróun, og því beri okkur ekki að hika við að samþykkja hana.

Með þessu er þó á engan hátt goldið jáyrði við hugsanlegri stefnu og reyndar á suma grein yfirlýstri stefnu hæstv. ríkisstj. varðandi ýmsa þætti í eftirmeðferð málsins. Þá stefnu,hennar, sem nú hefur verið staðfest með flutningi frv. um söluskatt t.d., þ.e. þá að jafna tekjumissi ríkissjóðs vegna niðurfellingar tolla alfarið með því að hækka söluskatt, sem gengur nokkurn veginn jafnt yfir allar nauðsynjar almennings, tel ég fráleita, eins og nú stendur og mun berjast gegn henni eftir því, sem mitt atfylgi dugir þar til. Ég tel og, að þessi stefna sé mjög misráðin af hæstv. ríkisstj. og verkalýðshreyfingin hljóti að snúast öndverð gegn slíkri skattastefnu, og þó allra frekast nú, þegar laun hafa verið lækkuð svo geypilega, sem raun er á, og samsetning neyzlunnar orðið slík, sem nú er hjá láglaunafólki. Og þess vegna mun verkalýðshreyfingin neita að taka fyllsta tillit til þessarar stefnu við næsta tækifæri, þegar hún semur um kaup sitt og kjör. Ég held, að það hefði verið miklu ráðlegra fyrir hæstv. ríkisstj. að leita samráðs við verkalýðshreyfinguna um meðferð þessa máls, og sannast að segja vil ég ekki trúa því, fyrr en ég tek á, að þessi þáttur eftirmeðferðar málsins verði knúinn hér fram á einni viku, heldur verði það mál allt athugað betur og bæði þm. og öðrum gefið betra tækifæri en gert er með fárra daga meðferð hér á þinginu til þess að útkljá það.

Annað atriði eftirmeðferðar þessa máls vil ég einnig gera örlítið að umtalsefni, þ.e. varðandi breytingar á l. um iðju og iðnað og l. um verzlunaratvinnu. Með þessum fylgifrv. virðist mér, að reynt sé að tryggja eða jafnvel sé fulltryggt, að íslenzk stjórnvöld hafi þrátt fyrir ákvæði gr. EFTA-sáttmálans úrslitavald um það, hver eða hvort erlend fyrirtæki fái hér aðstöðu til atvinnurekstrar eða ekki. Með þessum frv., ef þau verða að l., verður raunverulega sú ein meginbreyting á frá núv. skipan þessara mála, að valið og valdið verður hjá ráðh. og ríkisstj., en ekki hjá Alþ. eins og nú er. Hér er auðvitað ekki um úrslitaatriði að ræða, þar sem það má ætla, að engin ríkisstj. eða a.m.k. það geti trauðla gerzt, að ríkisstj. gefi atvinnurekstrarleyfi til handa útlendingum, nema nokkurn veginn sé tryggt, að meirihluta þingvilji sé að baki, og hingað til hefur það a. m. k. reynzt auðvelt fyrir núv. hæstv. ríkisstj. að fá vilja sínum framgengt, þegar um rétt erlendra aðila til atvinnurekstrar hefur verið að ræða. En hugsanlegt er, a.m.k. fræðilega, að ríkisstj. hafi ekki meiri hl. á Alþ. fyrir hugsanlegum ákvörðunum ráðh. eða ríkisstj. um þetta efni, og ætti slík ákvörðun þá ekki í slíku tilfelli neinn rétt á sér. Þess vegna þykir mér sjálfsagt, að hér verði gerð sú breyting á, að úrslitavaldið í þessum efnum verði framvegis sem hingað til í höndum Alþ.

Ég orðlengi ekki frekar um þetta mál nú að sinni. Niðurstaða mín í málinu er augljós. Ég er þessu máli fylgjandi, og ég veit ekki betur en sá flokkur, sem ég hef staðið að að mynda, sé það heill og óskiptur.