18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (2954)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að gera örfá atriði þessa máls, sem komið hafa hér fram við umr., að umtalsefni. Ég vil fyrst leyfa mér að segja það, að ég er mjög ósammála því, sem hæstv. viðskmrh. hefur verið að reyna að gera hér, bæði hér áðan og eins fyrr, að túlka afstöðu manna til inngöngu í EFTA sem prófstein á það, hvort menn séu fylgjandi fríverzlun, og sem úrskurðaratriði í því efni, hvort menn vilji, að hér rísi upp nýjar iðngreinar eða ekki. Þessum málflutningi hefur ráðh. beitt hvað eftir annað, en ég held, að það sé alveg sama, hve oft hann heldur þessu fram, hann fær aldrei rétta útkomu út úr þessu dæmi, og ég ætlaði bara, ef ráðh. hefði verið hérna viðstaddur, að endurtaka það, sem ég hef áður sagt í þessu máli, að ég a.m.k. er hlynntur því, að aukin fríverzlun geti komizt á, en ég er algerlega ósammála þeirri aðferð; sem hér hefur verið viðhöfð. Og ég hygg, að það þurfi ekki að eyða löngum tíma hér til þess að rökstyðja það, því að það liggur í augum uppi.

Því er mikið haldið fram hér, að innganga okkar í EFTA hljóti að færa okkur mikla efnahagslega blessun, og það gjarnan rökstutt með því, að Norðmönnum og Dönum hafi vegnað vel í EFTA. Nú mundi ég telja, ef ætti að leggja þetta til grundvallar, að það væri kannske fremur til að gefa vísbendingu um, að erfiðleikar mundu mæta okkur á þessum mörkuðum, því að vitanlega eru þessir markaðir ekki ótakmarkaðir, og því meira, sem aðrar EFTA-þjóðir eru búnar að leggja undir sig, því minna ætti því að verða eftir handa okkur. En málið er nú ábyggilega ekki svona einfalt. Og ég ætla eins og margur hér að vitna í skýrslu Guðmundar Magnússonar prófessors, en þar segir hann á bls. 23 um þá viðskiptaaukningu, sem orðið hefur í bandalagsríkjum bæði EFTA og Efnahagsbandalagsins, með leyfi forseta:

„Ekki eru allir sammála um, hversu mikið stofnun EEC eða EFTA beri að þakka þá aukningu viðskipta, sem orðið hefur. En eins og gefur að skilja, hefði óhjákvæmilega orðið talsverð aukning á viðskiptum, að öðru jöfnu, vegna aukningar velmegunar og fólksfjölgunar, enda þótt þessi samtök hefðu ekki verið stofnuð.“

Mér finnst, að hæstv. ráðh. og þeir aðrir talsmenn EFTA-málsins hafi gleymt að vitna í þennan kafla í þeirri skýrslu, sem þeir annars halda mjög á lofti. En þar segir prófessorinn, eins og ég las, berum orðum, að menn greini á um það, hvað mikið sé að þakka stofnun bandalaganna og hve mikil viðskiptaaukning hefði orðið, þó að ekkert viðskiptabandalag hefði verið gert. Ég álít, að það sé hrein fjarstæða, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér í kvöld, að það væri ómögulegt að gera iðnþróunaráætlun fyrr en búið væri að tengjast einhverju erlendu bandalagi. Ég segi þvert á móti það, að. það er að mínum dómi fráleitt að steypa sér út í viðskiptabandalög erlend án þess að hafa gert slíka áætlun — án þess að vita, hvað það er, sem við ætlum okkar fólki að vinna, þegar breytingin er um garð gengin. (Gripið fram í.) Viðskmrh. er sjálfsagt búinn að fá sinn skammt hér í dag og langar ekki í meira; ég get út af fyrir sig vel skilið það. Ráðh. þessi sagði það, að frestur væri af þessum ástæðum versti kosturinn. En ég segi: Það er versti kosturinn að ana út í óvissuna án þess að hafa gert þær ráðstafanir, sem hægt er að gera.

Hæstv. viðskmrh. gerði hér Norræna iðnþróunarsjóðinn að heilmiklu umtalsefni í ræðu sinni áðan, og hann sagði eitthvað á þá leið, að Norðurlöndin hefðu viljað jafna metin, af því að það væri ljóst, að við EFTA-aðildina mundu þau græða í viðskiptum — þau mundu græða á viðskiptunum, en vilja ekki græða á okkur frændum sínum, þess vegna væru þeir að skila gróðanum í formi Iðnþróunarsjóðsins, 1200 millj. kr., vaxtalaust lán í 25 ár.

En hvernig skyldu þá viðskiptin verða við hin EFTA-ríkin? Ætli þau tapi þá því sem svarar gróða okkar af EFTA-aðildinni? En mér skildist það á máli viðskmrh., að vegna þess að Norðurlöndin seldu svo mikið meira til Íslands en þau kaupa frá okkur, þá yrði mismunurinn þessi. En ég sé ekki betur á innflutningsskýrslum og útflutningsskýrslum Hagstofunnar frá s.l. ári, að þessu sé svona farið um öll EFTA-ríkin að einu undanskildu. Frá Bretlandi fluttum við inn vörur 1968 fyrir 1023 millj. kr. Við seldum þeim fyrir 604 millj. kr. Þar er mismunur upp á 420 millj. kr. Bretum í hag. Frá Sviss keyptum við fyrir 70 millj. kr., en seldum þeim fyrir 26 millj. kr. Þar er mismunurinn 44 millj. kr. Svisslendingum í hag. Frá Austurríki keyptum við vörur fyrir 14 millj. 440 þús. kr., en seldum þeim fyrir 240 þús. kr. Þar er mismunur upp á 14 millj. kr. Austurríkismönnum í hag. Megum við þá ekki eiga von á því, að þessi ríki vilji líka fyrir vináttu og frændsemis sakir skila okkur einhverju af þessum mismun? Þeir svara því sem vita. En eitt EFTA-ríki hefur keypt meira af okkur en það hefur selt okkur; það er Portúgal. Portúgalar hafa keypt af okkur fyrir 228 millj. kr., en selt okkur fyrir 11 millj. kr. Ef reikningi hæstv. viðskmrh. um mismuninn í viðskiptunum við önnur norræn ríki mætti beita eins og ég hef hér gert, þá er ljóst, að allur okkar hagur á að koma frá viðskiptunum við Portúgal. Svona finnst mér þessi saga geti litið út. Ég sé, að hæstv. viðskmrh. er kominn, og það er gott; betra seint en ekki. Ég hef beint til hans nokkrum aths. út af þeirri ræðu, sem hann hélt hér áðan, og ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það, enda vona ég, að hann kynni sér það, sem hér hefur farið fram, meðan hann var í burtu.

Menn geta bent á það, að ýmsir sérfræðingar hafi látið frá sér fara álit um áhrif EFTA-aðildar. Ber þar náttúrlega hæst skýrslu Guðmundar Magnússonar, þá löngu ritgerð, en með því að hún hefur trúlega ekki þótt fullnægjandi þrátt fyrir blaðsíðutalið, þá voru þrír aðrir ungir menn fengnir til þess að gera athugun á 25 iðngreinum, sem hugsanlegt væri, að við gætum aukið útflutning á við EFTA-aðild. Niðurstöður þeirra eru mismunandi. Ég tel, að það hafi verið gott að fá þetta verk unnið, en er alveg sannfærður um eftir lestur þeirrar skýrslu, að hún hefur verið unnin í mjög miklum fljótheitum. Um niðursuðuiðnað segja þeir, að EFTA-áhrifin mundu verka vel og í spuna- og vefjariðnaði. Segja þeir engan veginn óhugsandi, að unnt reynist að flytja út gólfteppi, ef af EFTA-aðild verður. Það er sem sé heldur jákvætt. Sama er að segja um prjónlesiðnað, fataiðnað, húsgagna- og innréttingasmíði. Telja þeir, að fyllsta ástæða sé til að áætla, að útflutningsmöguleikar séu töluverðir, ef af EFTA-aðild verður.

Hins vegar hefur prófessor Guðmundur Magnússon einnig gert húsgagnaútflutninginn að umtalsefni, og hann segir í sinni skýrslu um hann — þetta eru svo margar skýrslur, að maður finnur þetta ekki alveg strax. „Ástæðulaust er að vanrækja Ameríkumarkað, þótt gengið yrði í EFTA. Þar er stór markaður og kaupgeta mikil. T.d. virðist einkum um Ameríkumarkað að ræða fyrir útflutning á skinnavöru og húsgagnaframleiðslu.“ Húsgagnaframleiðendum eru sem sé allir vegir færir. Það opnast stór markaður fyrir þá í EFTA-löndunum að áliti annarra sérfræðinga — og möguleikar þeirra eru þó einkum í Ameríku. Það er á fleiri sviðum, sem ósamræmi er milli þessara álitsgerða, og svo virðist sem þeir, sem síðar unnu að þessu, hafi ekki haft mikla hliðsjón af því, sem fyrir lá, þegar þeir unnu sitt verk. Um ullarþvott, spuna og vefnað segir þannig Guðmundur Magnússon prófessor, áður en hinir sérfræðingarnir eru búnir að tjá sig um það, að talsverðir möguleikar myndist: „Í ullarþvotti, spuna og vefnaði fylgja kostir stærra markaði ekki síður en gallar.“ Á að byggja nýju iðnþróunaráætlunina á þessu, þegar loksins verður hægt að gera hana, eftir að hæstv. viðskmrh. er búinn að koma landinu í bandalagið?

Bæði í skýrslum sérfræðinga og eins í ræðum hæstv. ráðh. hefur mikil áherzla verið lögð á það, hversu samningurinn við Bretland væri okkur sérstaklega hagstæður, vegna þess að það hefði fengizt svo hátt lágmarksverð á innfluttum fiski í Bretlandi, 25 skildingar á „stone“. En ég vil nú spyrja hæstv. ráðh, eða aðra, sem því vilja svara: Er ekki þetta lágmarksverð fyrst og fremst verndarákvæði fyrir fiskframleiðendur í Bretlandi? Og er það ekki rétt, að Bretar hafi viljað hafa þetta lágmarksverð hærra, en samningar Norðmanna og þá kannske Íslendinga líka hafi miðazt við það að lækka lágmarksverðið? Mér fyndist það ekkert óeðlilegt lágmarksverð á fiski í Bretlandi. Það er eitt af því, sem hæstv. ráðh. hafa mest talið þessum samningi til gildis. Fyrir þá, sem ekki hafa fylgzt með málinu, get ég endurtekið það, að hér er um að ræða lágmarksverð á fiskinnflutningi til Bretlands. Mér þykir það ekkert ósennilegt, að brezkir fiskframleiðendur vilji gjarnan vera lausir við samkeppni frá Íslandi og Noregi að einhverju víssu marki, þannig að þeir geti tryggt sínum mönnum eða sjálfum sér ákveðið verð fyrir fiskinn, áður en það kemur til greina; að Íslendingar og Norðmenn fari að keppa við þá. Og ég er ekkert viss um, að þegar lágmarksverðið er 25 skildingar á „stone“ og þegar það verður eftir eitt ár komið upp í 27 skildinga og eftir eitt ár þaðan í frá enn þá hærra, — þá verði svo afskaplega mikill markaður fyrir íslenzkan fisk í Bretlandi. Það fer a.m.k. allt eftir því, hvernig fiskveiðarnar hjá þeim sjálfum ganga, því að þeim er tryggður alger forgangur að þessum markaði.

Ég minntist áðan á þessar skýrslur, sem hér hafa verið gerðar mjög að umtalsefni og mikið hrósað. Ég vil segja það, að það er ágætt að fá þessar skýrslur, og ég vanþakka ekki þeim mönnum, sem þau verk hafa unnið. Þeir hafa sjálfsagt unnið sín verk, eins og hægt var við að búast miðað við þann tíma og þær aðstæður, sem þeim voru búnar til þess. En ég er ósköp hræddur um það, að þetta sé heldur lítið innlegg til þess að byggja nýja utanríkisviðskiptastefnu á, og til þess að minna hæstv. ráðh. á það, að ég er ekki einn um þá skoðun, þá ætla ég að leyfa mér að vitna hér í viðtal, sem Alþýðublaðið átti hér við Guðjón Sigurðsson, formann Iðju, þann 13. þ.m. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nokkuð að lokum?“ Þá segir Guðjón: „Mér finnst persónulega, að það þurfi að taka upp kerfisbundna athugun á því, hvers iðnaðurinn almennt er megnugur, en ekki treysta á happa og glappa aðferðina.“ Hann er sem sé alveg á því, að það verði hægt að gera iðnþróunaráætlun, þó að ekkert handalag sé fyrir hendi, eða ég skil þessi ummæli svo. Í viðtalinu segir enn fremur á einum stað: „Og höldum svo áfram að láta dæmin tala um það hve EFTA-málið er lagt fram á ótraustum grunni hvað viðvíkur iðnaðinum. Á bls. 162 er getið iðngreina og hve mörg svör fengust hjá hverri iðngrein við sérstökum spurningalista í sambandi við hugsanlega EFTA-aðild. Þar kemur fram, að svarprósenta er 12% í plastiðnaði, 75% í matvælaiðnaði, 50% í kexgerð, ekkert svar í skógerð, pappírsvörugerð, prentun, sútun og verkun skinna, gúmiðnaði, skartgripa- og góðmálmasmíði!“ Ekkert svar, ekki frá einu einasta fyrirtæki. Og hvað er þá hægt að segja um framtíð eða jafnvel nútíð þessara fyrirtækja, þegar sérfræðingarnir fá ekki eitt einasta svar frá þeim, sem við þessar atvinnugreinar vinna? Það er aðeins ein tilvitnun enn, herra forseti, í þetta viðtal.

„Hvernig horfir EFTA-aðild við iðnverkafólki?“ spyr blaðamaðurinn. „Ákaflega illa, svaraði Guðjón að bragði. Ekki verður betur séð en fjöldi iðnverkafólks verði atvinnulaust, þegar ákveðnar iðngreinar draga saman seglin eða hætta alveg störfum. Guðmundur Magnússon bendir á í skýrslu sinni, að í staðinn geti risið hér hvers konar efnaiðnaður, rafeindatækjaiðnaður og ný tegund af veiðarfæraiðnaði og málmsmíði. — Í fljótu bragði sýnist mér þetta að mestu draumórar, og get nefnt sem dæmi að lyfjaiðnaður getur ekki orðið umtalsverður fyrr en eftir langan aðdraganda, og hvað snertir rafeindataekjaiðnaðinn þá eru Japanir komnir þar svo framarlega, og þeirra iðnaður orðinn svo sjálfvirkur, að þeir hljóta að ráða á þessum markaði í framtíðinni. Er við lítum á málmsmíðina þá er skemmst að minnast hvaða viðtökur Jón Þórðarson fékk þegar hann fann upp plastfilmukælikerfið það vildi enginn banki lána fé til þeirrar verksmiðju, og ég á ekki von á snöggri hugarfarsbreytingu í þeim efnum. Ef flett er á bls. 145 í skýrslunni, þá segir þar á einum stað orðrétt: „Laun eru tiltölulega lág hér og veitir þetta hlutfallslega yfirburði. Þessir yfirburðir gætu auðvitað horfið með of miklum launahækkunum.“ Þarna er einmitt mergurinn málsins,“ segir þessi forystumaður iðnverkafólksins að lokum „— hugsanlegir yfirburðir hverfa ef við eigum von á sömu lífskjörum í iðnaðinum og frændur okkar á Norðurlöndunum.“

Þetta viðtal hlýtur hæstv. viðskmrh. að hafa lesið, þar sem það er birt í hans eigin blaði, Alþýðublaðinu, 13. des., og ég segi það, að sá maður, sem lætur þetta eftir sér hafa, er áreiðanlega ekkert síður kunnugur málefnum iðnaðarins og iðnaðarfólksins en margir þeir menn, sem hér hafa verið leiddir fram sem vitni — nema auðvitað miklu fremur. Þetta er ekki bölsýni okkar framsóknarmanna eða skammsýni Alþýðubandalagsmanna. Fyrir nokkrum árum var ég í borgarstjórn með þessum manni. Þá var hann þar fyrir Sjálfstfl. Ég skal ekkert segja, hvaða flokk hann fyllir nú, en ég veit ekki til þess, að hann sé í okkar röðum a.m.k. Þetta er ekki framsóknarbarlómur. Þetta er sennilega bara raunsæi manns, sem starfar í þessari grein og þekkir betur til en ýmsir, sem hér hafa verið leiddir sem vitni — betur en þeir, sem hér hafa gerzt talsmenn tafarlausrar inngöngu í EFTA.

Ég held, að það hafi verið hæstv. iðnmrh. mér heyrðist það í dag — sem sagði, að menn mættu alls ekki túlka skýrslu Guðmundar Magnússonar prófessors öðruvísi en hún væri né reyna að fá út úr henni annað en þar stæði. Þessu er ég fyllilega sammála. En því miður hefur það hent einn hv. þm. að reyna að lesa út úr þessari skýrslu allt annað en þar stendur. Þessi þm., sem hér er um að ræða, er hv. 7. landsk., Sveinn Guðmundsson. Ég mundi ekki vera að eltast við þetta, ef það hefði bara komið fram í ræðu hv. 7. landsk. þm. Þá hefði ég bara talið það venjulegan meðalmisskilning á því, sem í skýrslunni stendur. En vegna þess að Morgunblaðið er búið að gera þennan málflutning að sínum og það verður að ætla, að fleiri hafi farið yfir þetta, þannig að hér sé ekki um misskilning að ræða, heldur eitthvað annað, þá ætla ég að leyfa mér að leiðrétta þetta. Það þarf ekki að taka langan tíma. Málið er ljóst.

Í Morgunblaðinu í dag eru þessi ummæli höfð eftir hv. 7. landsk. þm.: „Í skýrslu próf. Guðmundar Magnússonar er átakanlega bent á það, hversu íslenzkum fyrirtækjum hefir verið mismunað með fjármagn frá lánastofnunum hér á landi. Í skýrslunni þar sem fjallað er um löng lán segir með leyfi hæstv. forseta.“ — Og hér kemur tilvitnun innan gæsalappa. Ég bið menn að taka eftir þeirri tilvitnun. Hún er svona: „Verndaðar iðngreinar eru að 28.9% fjármagnaðar með löngum lánum, en óverndaðar eða lítt verndaður iðnaður að 22.3%, og sé sleppt samvinnu- og ríkisrekstri er talan 17.8%.“ Hér lýkur tilvitnuninni. Þetta er sem sé sú orðrétta tilvitnun úr skýrslu Guðmundar Magnússonar, sem þm. leggur svo síðan út af á þessa leið: „Hér kemur afdráttarlaust fram hjá prófessornum það, sem reyndar voru mér ekki ný sannindi, að samvinnurekstri og ríkisrekstri hefir verið stórlega ívilnað með langtíma lánum, og annað sem mér var ekki jafn vel ljóst fyrr en nú, verndaður iðnaður hefir verið betur meðhöndlaður af lánastofnunum heldur en óverndaður. Ég lýsi ánægju yfir að fá þetta svo berlega fram og má segja að það skýri margt af því, sem ég hefi áður haft hugmynd um og hefi áður látið uppi hér á Alþingi.“

Nú ætla ég að leyfa mér að vitna í skýrslu Guðmundar Magnússonar orðrétt, en hann segir á bls. 107–108 þessi orð, sem hljóta að vera tilvitnun hv. þm., þó að svona slysalega hafi tekizt til eins og brátt mun koma í ljós, en þar segir:

„Verndaðar iðngreinar eru að 28.9% fjármagnaðar með löngum lánum, en óverndaðar eða lítt verndaðar að 22.3%, og sé þremur iðngreinum, þar sem samvinnu- og ríkisrekstur er stundaður, sleppt, verður talan 17.8%.“

M.ö.o. það hafa verið teknar út úr þessu úrtaki þrjár greinar til þess að fá ... (Gripið fram í: Hvaða greinar eru það?) Það ætti hv. þm. að vita, en ég skal segja honum það rétt strax. Til þess að fá samanburðinn réttari tók sá sérfræðingur, sem skýrsluna vann, Sigurður Helgason, út þrjár greinar, og ég skal gjarnan upplýsa hv. þm. og aðra um það, hvaða greinar þetta voru. Það voru Tunnuverksmiðjur ríkisins, sem voru fjármagnaðar með langtímalánum að 4%, það voru mjólkurbúin, sem voru fjármögnuð með langtímalánum að 10%, og það var kemískur iðnaður, fyrst og fremst Áburðarverksmiðja ríkisins, sem er fjármögnuð að 48% með langtímalánum. Og sú háa fjárhæð, sem Áburðarverksmiðjan hefur í langtímalánum, gerði þennan samanburð svo villandi, að sérfræðingurinn tók hana út úr til þess að fá samanburðinn milli verndaðra og óverndaðra tollgreina. En að ætla sér að nota þessa tilvitnun til þess að sanna það, að samvinnurekstur hafi fengið hærra hlutfall í langtímalánum en annar atvinnurekstur, er svo fráleitt, að það tekur varla tali. Maður getur varla ímyndað sér, að nokkur maður geti lesið þessa bók með þessum hætti. Maður hefur heyrt um svona lestur, en hefur haldið, að hann væri úr sögunni. Ef þetta verður nú leiðrétt, t.d. hér í umr. á eftir, þá er það ágætt, og í Morgunblaðinu á morgun, þá skal ég láta þetta mál fyrir mitt leyti — ég hýst við, að flestir geti fallizt á það — niður falla, því að öllum getur yfirsézt.

En ósköp er ég hræddur um, að þetta verði eitthvað svipað eins og með Búrfellsvirkjun. Áttum við ekki allir að hafa verið á móti henni? Er það ekki endurtekið við svo til hvert einasta tækifæri, sem stóriðjurekstur og raforkuþörf ber á góma: Þessir menn voru á móti Búrfellsvirkjun, þó að þingtíðindin segi auðvitað allt annað. (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Já, það er alveg rétt. Þetta er enn þá; ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Vitnin eru við höndina. Og ég óttast það, að svo fari nú enn með þetta. Þó vil ég ekki spá því. Það má vel vera, að menn sjái, að þetta er of fjarstætt þrátt fyrir allt til þess að reyna að halda því fram, og þeir sjái að sér. Ég vona, að svo verði. En því miður trúi ég því ekki, fyrr en ég sé það. Ég skal svo ekki vera að taka fleiri atriði þessa máls hér til umr. sérstaklega. Ég vil aðeins að lokum segja það, að það er ákaflega langt frá því, að það sé nokkur þversögn í þeim málflutningi að vilja undirbúa sig, áður en menn ganga til keppninnar við þróuðu iðnaðarríkin. Það er þvert á móti hygginna manna háttur, sem ég held, að hæstv. ríkisstj. hefði gott af að temja sér svona einstaka sinnum.