18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (2958)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala hér langt mál, m.a. af því, að hv. 6. þm. Reykv., sem var að ljúka máli sínu, hefur vikið að æðimörgum af þeim atriðum, sem ég hafði hugsað mér að ræða hér um, og gert það á þann hátt, að ég sé mér ekki fært að bæta þar neinu við. Enda ætla ég, að það megi vera nokkuð glöggt, að þau atriði, sem hann ræddi hér um, ættu að standa nokkuð skýrlega fyrir mönnum. Fullyrðingar hæstv. viðskmrh. í ýmsum þeim greinum, sem hann ræddi hér um, fá ekki staðizt.

Það var sérstaklega eitt atriði, sem ég ætlaði að fara um nokkrum orðum, þ.e. um hina margumræddu 16. gr. EFTA-sáttmálans. En það er sú gr., sem fjallar um hinn gagnkvæma atvinnurekstrarrétt borgara EFTA-landa, og það er býsna merkilegt, að það skuli vera togazt jafnmikið á um það, hvað í þessari grein felst, og raun er á. Það birtist mönnum sem sé þannig, að það virðist vera, að það, sem í gr. stendur, sé óskiljanlegt. Mér sýnist það hins vegar vera mjög skiljanlegt og á býsna skýru máli. Það hefur verið gefin út sérstök grg. um það, hvað í þessari 16. gr. felst í þessum efnum, og það kemur m.a. fram í þeirri skýrslu, sem viðskmrn. hefur sent frá sér og EFTA-nefndin svonefnda. Í þessari skýrslu segir, að í þessari gr. felist eftirfarandi. Þar segir, að gefin hafi verið út sérstök yfirlýsing um það, hvað í gr. raunverulega felist, og nú les ég upp orðrétt úr þessari skýrslu:

„Var ákveðið, að ákvæðin um atvinnurekstur, þ.e. veitingu sömu kjara og eigin þegnum er veitt, skyldu ná til eftirfarandi fyrirtækja. a) Viðskiptafyrirtækja, sem verzla með vörur af EFTA-uppruna, þ.m.t. umboðsfyrirtæki, útibú og dótturfyrirtæki og sjálfstæð fyrirtæki, sem starfa í því skyni að auka vörusölu milli aðildarríkjanna.“ Allt sýnist mér þetta vera auðskilið og segja talsvert mikið. „b) Fyrirtækja til samsetningar, vinnslu og þjónustu, sem taka til vara af EFTA-uppruna og fluttar eru út frá einu aðildarríki til annars.“ Þetta er líka mjög auðskilið mál, og í þriðja lagi segir, að þetta nái til: „Fyrirtækja til framleiðslu á vörum af EFTA-uppruna, ef verulegur hluti þeirra á að flytjast út til annarra aðildarríkja.“

Við þetta er síðan bætt þeirri túlkun í EFTA-skýrslunni, eins og þar segir, að í Noregi séu t.d. gildandi lög í þessum anda um það að setja sérstakar takmarkanir með aukalagasetningu gegn því, að hinir erlendu aðilar fái rétt til þess að koma upp fyrirtækjum í Noregi í þeim greinum, sem norsk stjórnarvöld óska ekki eftir.

Nú hef ég veitt því athygli, að hæstv. viðskmrh. hefur lagt á það mikla áherzlu, að það sé túlkun ríkisstj. á þessu samningsákvæði, að þetta nái ekki til sjávarútvegsfyrirtækja. En þó var orðalag hæstv. ráðh., sem hann hafði hér um þetta atriði í kvöld, býsna athyglisvert. Ráðh. tvítók þetta orðalag, en það var á þá leið, að það væri skoðun ríkisstj., að þetta næði ekki til „fiskvinnslu á því sviði, sem telst til sjávarútvegs ...“ Það nær ekki til fiskvinnslu á því sviði, sem telst til sjávarútvegs. Hvað þýðir þetta? Hvaða fiskvinnsla telst ekki til sjávarútvegs? Það er sú vinnsla, sem ég hafði gert hér að umtalsefni í minni fyrri ræðu, eins og t.d. niðursuða, niðurlagning, framleiðsla á frystri rækju, af því að hún fellur líka undir EFTA-ákvæði, og ég hafði einmitt í minni ræðu sagt, að ég gæti vel gengið inn á það, að það sé hægt að þræta um það atriði, hvort þessi ákvæði 16. gr. eiga að ná til almennra frystihúsa, vegna þess að það er hægt að deila um það, hvort fryst fiskflök teljast EFTA-vara, fullkomin EFTA-vara, eða ekki.

Í grg. fyrir þeirri till., sem ríkisstj. hefur lagt fram, þá segir hún, að fryst fiskflök séu EFTA-vara. Og samkv. þessu orðalagi af hálfu ríkisstj. ættu frystihús einnig að falla undir þetta. Ég býst alveg við því, að af Breta hálfu muni því verða haldið fram, að þegar þeir semja um það, að fryst fiskflök skuli njóta EFTA-meðferðar, sé um leið frystihúsaiðnaðurinn kominn undir þetta ákvæði. En ég sagði hér í minni fyrri ræðu, að ég vildi gjarnan ganga inn á það með ríkisstj., að við reyndum að halda því fram, að fryst fiskflök væru ekki fullkomin EFTA-vara og á þeim grundvelli reyndum við að neita því, að þeir ættu rétt samkv. EFTA-samkomulaginu á því að hafa hér gagnkvæman rétt á við Íslendinga til að koma upp frystihúsum. Ég vil gjarnan ganga inn á þetta. En þar með er ekki öll sagan sögð. Við teljum, að það sé hluti af okkar fiskiðnaði, og það er það í raun og veru, þegar um er að ræða að byggja hér t.d. upp niðursuðuiðnað eða niðurlagningariðnað úr fiskafurðum eða t.d. til þess að frysta eða sjóða niður rækjur, en það fellur undir EFTA-ákvæðin. Menn taki því eftir því, að raunverulega viðurkennir hæstv. ráðh. — þó með óbeinum orðum, en nú skora ég einnig á hann að gera aths. við þetta, ef hann treystir sér til að þessi gagnkvæmi atvinnurekstrarréttur nái ekki aðeins til hins almenna iðnaðar, þ.e. til þess að koma upp almennum iðnfyrirtækjum, heldur einnig til þess sjávarútvegsiðnaðar, eins og hann er venjulega kallaður, sem fellur undir EFTA-reglurnar.

Ég hafði að vísu skýrt frá því hér í umr., að ég hefði spurt tiltekinn norskan sérfræðing, sem mætti á fundi EFTA-nefndarinnar, um það, hvort hann teldi, að þetta næði einnig til frystihúsarekstrar. Og ég sagði, að hann hefði svarað því, að ef þar væri talið, að frysti fiskurinn félli undir EFTA-reglur, þá næði þessi regla einnig til frystihúsabygginga og frystihúsarekstrar. Það fer heldur ekkert á milli mála um það, að það eru fleiri en þessi norski sérfræðingur, sem hefur litið svona á, og það eru fleiri en ég, sem líta svona á. Ég hef hér í höndunum m.a. ræðu, sem einn af þeim sérfræðingum, sem ríkisstj. stóð fyrir að fá hingað til landsins, flutti hér á Íslandi. Það var danskur maður, Tyge Dahlgård, og hann vék m.a. í sinni ræðu að þessu sérstaka atriði, af því að það var búið að ræða við hann um þetta. Og það var varðandi það atriði, sem hafði komið upp hjá Dönum, þegar um það var að ræða, að Færeyjar bættust við sem EFTA-land eða fylgdi Danmörku með inn í EFTA. Og þá skýrði þessi danski ambassador og fyrrv. ráðh. frá því, að það hefði einmitt komið upp hjá þeim sú spurning, hvort þeir ættu að hafa sérstakan fyrirvara á um hin gagnkvæmu atvinnurekstrarréttindi í Færeyjum með fiskiðnaðinn þar sérstaklega í huga. Ég skal lesa aðeins hérna upp örfáar línur úr ræðu þessa danska sérfræðings, sem tekur af öll tvímæli um það, hvernig hann leit og þeir litu á þetta. Hann sagði í sinni ræðu:

„Máske kan det have sin interesse at nævne, at vi í forbindelse med overvejelserne og vilkárene for Færøernes tilslutning til EFTA netop var inde på, at tage et forbehold for etableringsretten angående handel med og produktion af EFTA-varer hovedsageligt fremstillet af fisk.“

Það fór ekkert á milli mála, enda kemur hann að því síðar í ræðunni, að þeir féllu að vísu frá því að gera þennan sérstaka fyrirvara vegna Færeyja, af því að þeir töldu alveg víst, að Bretar mundu setja gagnskilyrði á móti slíkum skilyrðum. Og þetta hafði einnig komið fram margsinnis í viðræðum í EFTA-nefndinni, þegar ríkisstj. einmitt hafði það í huga að setja svona skilyrði af okkar hálfu viðvíkjandi þessum gagnkvæma atvinnurekstrarrétti, að nefndin óttaðist einmitt það, sem hér hefur verið minnzt á í þessum umr., þ.e. að Bretar kynnu að notfæra sér þetta skilyrði af okkar hálfu til þess að áskilja sér einhver sérréttindi í staðinn. Og því var þetta látið niður falla.

Hæstv. viðskmrh. veit það einnig, að það var búið að afhenda okkur í EFTA-nefndinni sérstakt plagg um það, að gert yrði ráð fyrir því að setja hér sérstök lög um það, að það skyldi þurfa að sækja til íslenzkra stjórnarvalda jafnt af útlendingum sem innlendum mönnum um réttindi til þess að koma upp fyrirtækjum í almennum iðnaði og verzlun, eins og nú hefur verið gert, og einnig er í þessu plaggi — og það í fyrstu röð — minnzt á lög varðandi fiskvinnslu hvers konar, þ.e. frystingu fisks, niðursuðu, mjöl- og lýsisvinnslu og annað, sem kann að koma þar til greina. En það var fallið frá þessu öllu saman — og vegna hvers? Einfaldlega af þeim ástæðum, að ríkisstj. vildi ekki liggja undir því, að hún væri að undirskrifa samning við erlenda aðila þess efnis, að við hefðum ekki lengur leyfi til þess að veita Íslendingum rétt til þess að koma upp fiskiðnaðarfyrirtækjum fram yfir það, sem við hefðum leyfi til þess að veita útlendingum um leið. Ríkisstj. vissi það, að einmitt þetta atriði, sem ég hafði gert fsp. um í EFTA-nefndinni, gæti komið upp, að t.d. atvinnurekandi í Vestmannaeyjum óskaði eftir því að fá leyfi til þess að koma upp fiskiðnaðarfyrirtæki, en á sama tíma óskaði brezkur aðili eftir leyfi líka til þess að koma upp slíku fiskiðnaðarfyrirtæki, og þá áttum við samkv. reglunum að vera skuldbundnir til þess að neita báðum, ef við vildum ekki þann erlenda; við hefðum ekki leyfi til þess að taka landsmanninn fram yfir. Ríkisstj. var að skjóta sér undan þessu og velur svo þá leið að segja í sífellu, að útlendingar hafi engan rétt í þessum efnum, en reynir þó að segja það á þann hátt, að hún geti leyft sér, eins og hæstv. viðskmrh. hefur hér gert og er nú sérstaklega laginn við að gera, eins og hér hefur verið vikið að, að segja á eftir: Ég hef aldrei neitað því nákvæmlega, að við fengjum ekki þennan rétt varðandi t.d. niðursuðuiðnaðinn og niðurlagningariðnaðinn — bara af því að hann minntist ekki á það. En þessi gagnkvæmi atvinnurekstrarréttur nær samkv. samningnum og samkv. orðanna hljóðan og samkv. meiningu samningsins til þessarar greinar fiskiðnaðar alveg eins og til almenns iðnaðar.

Hitt er svo aftur annað mál, hversu mikil hætta kann af þessu að stafa í framkvæmdinni. Það getur verið erfitt að segja til um það. Ég er þó á þeirri skoðun, að þegar að því kemur, að útlendir aðilar eiga að fá sama rétt og landsmenn sjálfir, t.d. til þess að koma hér upp fiskiðnaði á sviði niðursuðu eða niðurlagningar eða annarri slíkri úrvinnslu á fiski, þá muni koma ýmsir áhugamenn, sem leiti eftir slíkum rétti. Ég hef því talið allan tímann, að við gætum ekki með neinu móti undirskrifað EFTA-samningana athugasemdalaust og haft 16. gr. eins og hún er. Ég held, að hæstv. ríkisstj. eigi ekki að reyna að fela þennan sannleika fyrir neinum. Þetta er svona. Það er hægt að sanna þetta með enn þá fleiri tilvitnunum, að þessu er svona varið. Það er líka alveg tómt mál að tala um það, að þessi gagnkvæmi atvinnurekstrarréttur nái ekki til iðnaðar í sjávarútvegi vegna þess, að það hafi verið undanskilið í þessum efnum, að þessi gagnkvæmi réttur næði ekki til náttúruauðæfa. Það er rétt, eins og segir í EFTA-skýrslunni, að þetta átti ekki að ná samkv. þeirri skýringu, sem þar er gefin, til eignarréttaraðstöðu varðandi náttúruauðæfi. Sem sé, hinir erlendu aðilar áttu ekki að fá sama rétt og landsmenn t.d. til þess að eignast skóga í Noregi eða til þess að nýta fiskimiðin við strendur landsins. Það er enginn ágreiningur um það, að þetta nær ekki til fiskveiðanna. En þetta nær til þeirrar úrvinnslu úr aflanum, sem fellur undir EFTA-reglurnar. Á því er enginn vafi.

Það voru hér auðvitað mjög mörg önnur atriði, sem hefði verið freistandi að víkja hér að. Hæstv. viðskmrh. viðurkenndi svona í öðru orðinu, að það gætu orðið hér á nokkur vandkvæði fyrir innlendan iðnað að mæta hinni erlendu samkeppni, en í hinu orðinu vill hann ekkert úr þessu gera og telur þá, að það eigi ekki að vera hætta á því, að atvinna eigi að minnka við iðnaðarstörf í landinu. Þegar við í EFTA-nefndinni ræddum þessi mál á sínum tíma hvað eftir annað og rn. og hæstv. ráðh. sendu okkur ýmiss konar grg. um málið, þá var allt annað uppi á teningnum. Þá viðurkenndu menn alveg hreint út, að það mætti fyllilega búast við því, að einstaka iðngreinar mundu lenda í miklum erfiðleikum. Ég hef hér í höndum t.d. eitt plagg, en þar er sérstaklega verið að gera grein fyrir öðrum þætti þessara mála, sem var tekjuöflun ríkissjóðs; þ.e. hvernig færi með niðurfellingu á verndartollum. En orðalagið, sem þar kemur fram í þessari skýrslu, sem samin er af viðskmrn., segir þó nokkuð til um það, hvernig menn á þeim tíma litu á það, hvernig sennilega færi fyrir ýmsum okkar iðngreinum. En í þessari skýrslu segir orðrétt á þessa leið:

„Aftur á móti eru mjög miklar líkur til þess, að tolltekjur af ýmiss konar fullunnum iðnaðarvarningi muni heldur hækka en lækka við lækkaða tolla, en litlu hægt að spá um tekjutap ríkissjóðs á hinum ýmsu stigum aðlögunarinnar.“

Það er sem sé verið að gera ráð fyrir því, að með lækkun tollanna aukist svo innflutningur, að tekjurnar hækki eiginlega eftir sem áður. En svo er bætt við:

„Hér má einnig nefna, að framleiðsla á nokkrum iðnaðarvörum mun sennilega leggjast niður á vissu stigi aðlögunarinnar og breytast þá innflutningstollar úr verndartollum í tekjutolla og þarfnast því ekki frekari lækkunar samkv. ákvæðum EFTA.“

Það var einmitt það, að á vissu skeiði, eftir að tollalækkunin fór að segja til sín, þá mátti búast við því, að sumar iðngreinar legðust niður að fullu og öllu, en um leið og við vorum hættir að framleiða viðkomandi vöru, þurftum við ekki lengur að fella niður alla tolla. Þá gátum við tekið aftur upp toll, því að þá var hann orðinn af sjálfu sér tekjuöflunartollur, en ekki verndartollur. Og þá var hægt að benda á það, að ríkið gæti haldið áfram þessum tekjustofni í tollformi, af því að þá væri búið að losa sig við innlendu iðngreinina. En nú koma menn hér á eftir og bera sig æðikarlmannlega og segja: Innlendi iðnaðurinn stendur þetta allt af sér. Nei, sannleikurinn er sá, að þeir, sem þetta segja nú, hafa sagt allt annað áður, og þeir vita miklu betur. Þeir vita það, að það eru allar líkur til þess, að margar af hinum vernduðu iðngreinum dragist verulega saman og nokkrar þeirra muni hreinlega gefast upp í samkeppninni við hinar erlendu. Og það er þetta, sem vitanlega leiðir til þess, eins og við höfum bent á, í veiku atvinnuástandi í landinu, að atvinnuleysisvandamálið mun vaxa það verður stærra, það verður erfiðara viðfangs. Þess vegna er það, sem ég og aðrir, sem hér vörum við þátttöku í EFTA eins og sakir standa, lýsum eftir því: Hvar eru hinir nýju möguleikar? Hvað á að koma í staðinn fyrir það, sem mun hverfa? Hvar eru þessir nýju möguleikar? Og það hefur vitanlega ekki farið fram hjá neinum hv. alþm., sem hefur fylgzt með þessum umr., að þeir, sem hér mæla með aðild Íslands að EFTA, geta í raun og veru ekki nefnt neina verulega, sennilega möguleika á nýjum útflutningi hjá okkur, eins og sakir standa. Talið um það, að það megi búast við því, að húsgagnaiðnaður okkar verði fær um það á næstunni að keppa við erlendan húsgagnaiðnað, vita allir hæstv. ráðh. og allir hv. þm., að er hreinlega út í bláinn. Einn af þekktustu iðnrekendum hér í nágrenninu var spurður nú fyrir nokkrum dögum af Alþýðublaðinu, hvernig honum litist á þessi mál, og þessi húsgagnaframleiðandi endaði sitt viðtal við Alþýðublaðið á þessa leið:

„Ég álit að stór hluti þeirra...“, þ.e. húsgagnaiðnaðargreinanna, fyrirtækjanna, „... fari í rúst, en vona hins vegar að úr þeim rústum rísi stór útflutningsiðnaðargrein.“

Já, það þarf talsvert mikla trú til. Fyrst skal leggja þetta í rúst, af því að það þolir ekki samkeppni, en upp úr rústunum vonar maður nú, að eitthvað nýtt komi. Nei, það er enginn vafi á því, að það eru ekki miklar líkur til þess, að á þessu sviði, t.d. varðandi húsgagnaframleiðslu, geti verið um mikinn nýjan útflutning að ræða. Það sama er að segja um aðra stærstu af þessum vernduðu iðngreinum, sem er fataiðnaðurinn í landinu. Það eru engar teljandi líkur til þess, að okkur takist að finna markað erlendis fyrir föt, sem búin eru til hér uppi á Íslandi, eða það mun a.m.k. líða alllangur tími, þar til við höfum eitthvert gagn af slíkum útflutningi. Ég held hins vegar, að það sé enginn vafi á því, að fataiðnaðurinn mun einnig komast í erfiðleika, þegar hann hefur misst þá tollvernd, 60 og 65%, sem þessi iðngrein nýtur nú. Og ég endurtek það, sem ég sagði hér áður, að ég hef heldur enga trú á því, að málmiðnaðurinn, sem verið hefur um langan tíma ein af okkar stærstu iðngreinum, sé líklegur til þess að geta keppt á erlendum markaði, svo að nokkru nemi, miðað við þá stöðu, sem hann hefur nú. Við vitum það, að aðstaða hans er á engan hátt sú, að það sé líklegt nema aðeins í sérstökum tilfellum. Við vitum t.d. mætavel, að nú, þegar um það er að ræða, að Íslendingar fari í það að endurnýja nokkuð af fiskiskipastóli sínum, þá sækjast allir þeir, sem hugsa sér að kaupa hin stærri skip, eftir því að fá að láta byggja þau skip erlendis, m.a. af því, að þeir fá skipin þar á lægra verði.

Ég segi því það sama og ég hef sagt áður, að mér sýnist alveg augljóst, að þetta mál liggur þannig fyrir, að beinn hagnaður okkar af aðild er sáralítill fyrir okkar útflutningsgreinar. Möguleikarnir eru mjög óvissir, en vandkvæðin eru alveg augljós. Við leiðum yfir okkur margs konar hættur og mikinn vanda, og það er alveg greinilega verið að stefna að því að umbreyta íslenzku efnahagslífi á þann hátt, að það geri síður en svo að styrkja okkar efnahagslega sjálfstæði. Það greinilega veikir það.

Og að lokum aðeins örfá orð í sambandi við þær till., sem hér liggja nú fyrir í málinu. Afstaða okkar Alþb.- manna kemur greinilega fram. Við erum andvígir aðild að EFTA miðað við núverandi aðstæður og viljum því fella till. Við getum stutt þá rökst. dagskrá, sem fram kemur á þskj. 209, því að hún miðar að því að vísa þessu máli frá til frekari athugunar og frekari undirbúnings. Við mundum að vísu hafa kosið að hafa orðalag á þessari rökst. dagskrá nokkuð á annan veg, en eigi að síður getum við stutt hana. En síðan flytjum við till. á þskj. 207 um það — verði málinu ekki skotið á frest a.m.k. — að það verði látin fara fram þjóðaratkvgr. um það, hvort Ísland á að gerast aðili að Fríverzlunarsamtökum Evrópu eða ekki. Ég þarf ekki að rökstyðja þá till. hér með mörgum orðum. Það hefur verið gert hér af öðrum. Ég skal svo láta máli mínu lokið að þessu sinni, þar sem nú er líka alllangt liðið á nótt