27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

126. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, hefur flutt hér till. til breyt. á 1. gr. frv. um það, að í stað þess, að söluskatturinn verði ákveðinn 11%, verði hann ákveðinn 9 1/2, en það jafngildir 2% hækkun á söluskattinum frá því, sem nú er.

Ég er andvígur því, að söluskatturinn verði hækkaður um 3 1/2%, og einnig því, að hann hækki um 2%. Ég tel, að till. í þessa átt gefi aðeins það í skyn, að sá, sem hana flytur, geti hugsað sér það, að söluskattsprósentan verði sú, sem lagt er til í till. hans. Þær brtt., sem við hér í minni hl. fjhn. fluttum við frv., voru um að bæta nokkrum nýjum gr. við gildandi lög, sem allar miða að því að lækka þann söluskatt í innheimtu, sem er nú samkv. lögum og miða að því að gera innheimtuna á söluskatti öruggari en hún hefur verið. Við fluttum hins vegar enga till. um 1. gr. frv., sem beinlínis fjallar um ákvörðun söluskattsins, en þar er afstaða okkar sú, að við erum á móti þessum söluskatti. Ég tel, að það sé ekki á neinn hátt hægt að skilja till. sem þessa á annan veg en þann, að sá, sem hana flytur, vilji á óbeinan hátt viðurkenna, að það sé réttmætt að hækka söluskatt um 2%, en of mikið að hækka hann um 3 1/2, m.ö.o. að það sé réttmætt að hækka söluskattinn nokkurn veginn til jafns við það í krónum talið sem tollalækkuninni nemur.

Ég skil mæta vel tilfinningar hv. 9. þm. Reykv. í þessum efnum, með tilliti til þeirrar afstöðu, sem hann hefur tekið til þessa máls, en það breytir ekki afstöðu minni til þess. Ég get ekki tekið þátt í að greiða atkv. með till. sem þessari. Ég vil t.d. benda á það, að ekki hefur þessum hv. þm. né öðrum dottið í hug, þegar hér hafa legið fyrir till. um að lækka gengi krónunnar um svo og svo mörg prósent, 40% í sumum tilfellum, að flytja þá till. um, að lækkunin skyldi vera 35%. Það hefur að vísu einu sinni komið fyrir, að einn hv. þm. hafði beinlínis lagt til, að gengislækkunin yrði minni. En hann ætlaði sér og lýsti því yfir, að hann mundi standa með slíkri till. og standa að slíkri gengislækkun. En ég vildi í þessum efnum spyrja hv. þm.: Hvernig stendur á því, að hann flytur hér ekki till. um það, að eignarskattur skuli hækkaður um 500 millj. kr., eins og hann benti á í umr., að hægt væri, í staðinn fyrir að fara þessa söluskattshækkunarleið? Af hverju kemur hann ekki með þá till.?

Nei, afstaða okkar Alþb.–manna til þessa frv. er sú, eins og komið hefur fram í þessum umr., að við erum á móti söluskattinum og algerlega á móti allri þeirri hækkun á honum, sem felst í þessu frv. og 1. gr. frv. fjallar um. Við viljum ekki á neinn hátt taka undir það, að við séum eins og að gefa í skyn að við gætum sætt okkur við hálfa hækkun. Það gerum við ekki. Við munum því ekki taka þátt í atkvgr. um þessa brtt. hv. þm. og teljum enda að það sé rétt, að þeir einir greiði atkv. um hana, sem vilji gefa það í skyn, að þeir geti sætt sig við þessa hækkun á söluskattinum.

Aðrar brtt., sem hér hafa komið fram og miða að því að lækka gildandi söluskatt, mun ég styðja, en þessa till. get ég ekki stutt af þeim ástæðum, sem ég hef nú greint, og mun því ekki taka þátt í atkvgr. um hana.