18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (2961)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ekki munu nú aðrir á mælendaskrá, og ég skal gera mér far um að stytta mál mitt sem mest, enda nú áliðið nætur. Ég skal líka leitast við að leggja ekki sérstakan sannfæringarkraft í orð mín m.a. í því skyni, að hv. síðasti ræðumaður trúi mér ofboðlítið betur en ella, og leitast við að gefa ekki tilefni til þess, að þessar umr. þurfi að dragast enn lengur fram eftir nóttunni.

Hv. þm. Einar Ágústsson gerði að umræðuefni lágmarksverð á frystum fiskflökum innfluttum til Bretlands, og hann spurði: Er ekki lágmarksverðið fyrst og fremst verndarákvæði fyrir brezkan fiskiðnað? Það er sumpart greinilega verndarákvæði fyrir brezkan fiskiðnað, en innflytjendur flaka frá öðrum EFTA-ríkjum njóta góðs af þessu háa og hækkandi verði. Verðið er ákveðið jafnhátt og það er af hálfu Breta auðvitað fyrst og fremst til þess að vera til góðs fyrir brezkan sjávarútveg. En jafnframt hafa þeir gert sér það ljóst, að framleiðendur þessarar vöru innan EFTA munu njóta góðs af hinu háa og hækkandi fiskverði og ekki láta það standa í vegi fyrir fyrirætlun sinni um það að efla brezkan fiskiðnað með hinu háa verði og með hækkun þess. Hann spurði, hvort markaðurinn mundi ekki minnka vegna verðhækkunarinnar. Allir þeir, sem þekkingu eru taldir hafa á brezka fiskmarkaðinum og sérstaklega markaðinum fyrir fryst fiskflök, telja að neyzla muni ekki minnka í Bretlandi á frystum fiskflökum þrátt fyrir þá verðhækkun, sem nú er í vændum um næstu áramót og á næstu árum.

Hann taldi enga þversögn í því að vilja undirbúa sig rækilega, áður en gengið yrði til keppni við iðnaðarríkin, og sannarlega er þetta rétt. Við höfum verið að undirbúa okkur undir þetta undanfarin 10 ár. Það má segja, að kjarni þeirrar stefnu, sem fylgt hefur verið í efnahagsmálum á þessum áratug og kennd hefur verið við viðreisnina, sé einmitt sá m.a., að gera okkur kleift að taka þátt í viðskiptasamstarfi eins og því, sem EFTA-ríkin eiga með sér. Þetta er ekki eini tilgangurinn með henni. Megintilgangurinn með henni hefur verið sá að leitast við að bæta lífskjör Íslendinga og auka fjölbreytni og arðgjöf í íslenzku atvinnulífi. Menn geta deilt um, hvort okkur hefur tekizt þetta eða ekki, en jafnframt þessu er það tvímælalaust, að slík stefna ein gerir okkur aðild að slíkum samtökum kleifa. Ef fylgt hefði verið áfram þeirri stefnu, sem stjórn Hermanns Jónassonar fylgdi, hefði aðild að slíkum samtökum ekki verið möguleg.

Hv. þm. Jón Skaftason spurði, hvers vegna við hefðum ekki viljað leita eftir aðild að EFTA 1961–1962, en vildum það nú, og spurði, hvort könnunarviðræður 1961 hefðu ekki lýst vilja okkar til aðildar. Ég skal fara um þetta fáeinum orðum, því að fleiri ræðumenn hafa vikið að þessu atriði. Ég held, að allir — a.m.k. allir, sem báru ábyrgð á stjórn hér, og allir sérfræðingar á þessum árum, árunum 19601961 — hafi gert sér algerlega ljóst, að þá vorum við þess fullkomlega vanmegnugir að taka þátt í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi eins og Fríverzlunarsamtökin eru. Ástæðurnar til þess, að við heimsóttum höfuðborgir Efnahagsbandalagslandanna og könnunarviðræður fóru fram við EFTA-ráðið í Genf og helztu EFTA-ríkin, Norðurlöndin og Bretland, voru þær, að við töldum horfur á — ég vil segja, að við óttuðumst — að við kynnum annars að standa frammi fyrir þeim sérstaka vanda illa undirbúnir eða jafnvel óundirbúnir að vera algerlega einangraðir í Vestur-Evrópu – algerlega einangraðir frá þjóðum, sem við höfum 60% utanríkisviðskipta okkar við. Það hefði verið óforsvaranlegt að látast ekki sjá þennan vanda, þegar Bretar og fleiri EFTA-ríki sóttu um aðild að Efnahagsbandalaginu, og jafnvel var um það rætt, að EFTA í heild sameinaðist Efnahagsbandalaginu. Þá hefðu Ísland og Spánn orðið einu Vestur-Evrópuríkin, sem staðið hefðu utan við stærstu viðskiptablökk, sem veraldarsagan hefur greint frá, og horfur gátu orðið á því, að það yrði um að ræða sameiginlegan ytri toll allra þeirra 13 ríkja, sem við hefðum 60% af viðskiptum okkar við. Auðvitað óttuðumst við þetta mjög, og þess vegna varð það tvímælalaust skylda okkar að kynna bæði EFTA-ráði og EFTA-ríkjunum, Efnahagsbandalagsráði og Efnahagsbandalagsríkjunum, hver sérstaða okkar væri, ef af þessu yrði, og leitast við að kynnast því, með hvaða kjörum við gætum tengzt þessu risavaxna bandalagi, sem þarna gat verið í uppsiglingu. Þetta var ástæðan fyrir öllum þessum viðræðum.

Ég sagði þá og segi enn: Sem betur fer fyrir okkur Íslendinga varð ekkert úr þessum sameiningarhugleiðingum. Ég skal ekkert um það segja, hvað bezt hefði verið fyrir Efnahagsbandalagið eða fyrir EFTA-ríkin eins og þau voru þá. Ég skal engan dóm á það leggja. Ég talaði þá sem Íslendingur út frá íslenzkum hagsmunum, og ég tala enn sem Íslendingur út frá íslenzkum hagsmunum. Það er tvímælalaust, að það var okkur til góðs, það var okkur til hags, að þessar umr. leiddu ekki til neinnar niðurstöðu. Sá vandi, sem við hefðum þá staðið frammi fyrir, þ.e. að tengjast 13 ríkja bandalagi í Vestur-Evrópu með 60% viðskipta okkar, hefði verið voðalegur. Það hefði verið geysilega erfitt að ráða skynsamlega fram úr honum. Það varð mér enn ljósara eftir þær viðræður, sem ég tök þátt í sumarið 1961. Þó er ég ekki vonlaus um – alls ekki vonlaus um, að það hefði tekizt að finna sanngjarna og skynsamlega lausn á þeim vanda. En síðan eru liðin mörg ár og aðstæður gerbreyttar fyrst og fremst heima hjá okkur. Sú þróun hefur orðið hér, að nú getum við auðveldlega og okkur algerlega í öllum aðalatriðum að skaðlausu tekið þátt í því samstarfi, sem Fríverzlunarsamtökin eru. Ég skal ekki endurtaka rökin fyrir því öllu saman, en efnahagskerfi okkar er nú það líkt því, sem gerist á hinum Norðurlöndunum og í Vestur-Evrópu yfirleitt, að tengslin valda okkur engum sérstökum erfiðleikum og ekki þeim heldur.

Hv. þm. Jón Skaftason kvartaði yfir hikandi og breytilegri afstöðu til EFTA. Ég tel mig einmitt með þessari stuttu lýsingu minni á aðstöðubreytingunni hafa gert grein fyrir því, hvers vegna við hefðum ekki gengið í EFTA nema tilneyddir 1961 og 1962. Nú gerum við það ekki tilneyddir, heldur af því, að við erum þeirrar skoðunar, að með því séum við að þjóna réttum og mikilvægum íslenzkum hagsmunum. Hv. þm. Jón Skaftason sagði, að forystan hefði ekki verið traust í þessu máli, en sagði þó ekki neitt um afstöðu sína til málsins sjálfs. Hann ræddi aðallega um þá forystu, sem málsmeðferðin hefði sætt af hálfu stjórnarvalda. Ég dreg af þessu þá ályktun, að hann sé — og að því er ég held meiri hl. Framsfl., sem er í raun og veru fylgjandi aðild að EFTA, skilur m.ö.o. gagnsemi EFTA — á sömu skoðun og ég og skoðanabræður mínir í þessu efni. Sú skýring eða þau rök, sem hann reynir að finna fyrir andstöðu sinni, eru þau, að hér sé ekki um vont mál að ræða í sjálfu sér, heldur sé núv. ríkisstj. ekki treystandi til þess að framkvæma málið skynsamlega og með hagsmuni Íslendinga fyrir augum. Þessi röksemd er svo alkunn, og slík afsökun fyrir afstöðu til mála er svo alkunn, að ég þarf engum frekari orðum að eyða að henni. En mér þykir vænt um, að allur tónninn í ræðu hv. þm. Jóns Skaftasonar var þannig, að hann virðist gera sér grein fyrir kostum málsins, og það er mér út af fyrir sig miklu, miklu meira virði en þótt hann segi það hér, að hann beri ekki traust til okkar, sem um stjórnvölinn höldum þessa stundina eða þetta árið. En um það að ekki hafi verið haldið vel á málum, eru kannske aðrir dómbærari en við, sem í samningunum höfum staðið, eða þeir, sem eru andstæðingar okkar á þingi.

Erlend blöð hafa skrifað mikið um niðurstöðu þeirra samninga, sem Íslendingar eiga kost á eða undirbúa við EFTA-ráðið í Genf og við einstök aðildarríki EFTA-samtakanna, og ummæli um þetta hafa birzt í blöðum ýmissa stjórnmálaflokka og algerlega hlutlausum blöðum um stjórnmál, í vikuritum um efnahagsmál og á ýmsum vettvangi. Yfirleitt er það einróma dómur þeirra erlendra aðila, sem sagt hafa skoðun sína á niðurstöðu samninganna, að þeir séu Íslendingum alveg sérstaklega hagstæðir. Ég man ekki eftir ummælum erlends aðila, erlends stjórnmálamanns, erlends sérfræðings eða erlends blaðs, sem er á aðra lund en þá, að þeir samningar, sem undirbúnir hafa verið og Íslendingar eigi kost á, séu þessari litlu þjóð alveg sérstaklega hagstæðir. Og þetta ber vott um það, að við höfum verið klaufar, sem um samningana höfum fjallað; um þetta getur hver dæmt fyrir sjálfan sig. Erlendir aðilar í þessu efni ættu að mega teljast óhlutdrægir dómarar, og sannleikurinn er líka sá, að á göngum þessa húss, úti á götum og í heimahúsum hafa margir andstæðingar okkar, sem nú förum með stjórn, látið það í ljós, að niðurstaða samninganna sé næstum ótrúlega hagstæð. Einn framsóknarmaður þakkaði m.a.s. í viðtali, sem ég var áheyrandi að — þetta var ekki sagt við mig — samningsniðurstöðuna því, hve stjórnarandstaða Framsfl. hafi verið sterk og öflug og haldið uppi sterkri gagnrýni á ríkisstj., meðan á samningunum hafi staðið, og að það muni hafa hjálpað stjórninni til þess að fá jafnjákvæða niðurstöðu og hún hefur fengið. Ég efast nú um, að stjórnarandstaða Framsóknar hafi hjálpað okkur um nokkurn skapaðan hlut, en sem betur fer hefur hún ekki skaðað okkur heldur, og það er enn þá meira virði.

Út af ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar hef ég því miður ekki tíma til þess að segja annað en það, að ég harma, að hann sem annar helzti fulltrúi landbúnaðarins auk Magnúsar Gíslasonar, sem hér hefur talað, skuli vera jafnandvígur þessari samningsgerð og ræða hans bar vott um, því að ef hann vill skoða sig sem sérstakan málsvara landbúnaðarins, þá ætti hann auðvitað að gera sér það ljóst, að landbúnaðurinn hefur ekkert nema hagnað af þessari samningsgerð. Það er ekki einn stafur í samningsgerðinni og verður ekki eitt einasta atriði í framkvæmd málsins, sem rýrir hag íslenzks landbúnaðar að einu eða neinu leyti. Viðskiptahagsmunir sjávarútvegsins batna líka eingöngu, en þá kemur að gagnrýninni á 16. gr., sem ég skal gera nánar að umtalsefni á eftir og sem ég veit, að ýmsir menn, sem ég tek alvarlega og vil gjarnan ræða við um þessi efni í fyllstu alvöru, telja neikvæða fyrir sjávarútveginn. Þetta gildir ekki um landbúnaðinn. Það hefur engum dottið til hugar, að 16. gr. tæki til nokkurrar greinar landbúnaðar. EFTA-viðskiptin taka yfirleitt alls ekki til viðskipta með landbúnaðarvörur, og öllum er ljóst, að þar er ekki um að ræða nein vandamál í sambandi við atvinnureksturinn eða nokkuð skylt því. Engu að síður tókst að ná samningum um það við aðrar norrænar þjóðir, þar sem verð á kjötvörum er hvað hæst í allri Vestur-Evrópu, að þær hafa lofað að taka af okkur þegar á næsta ári 2200 tonn af dilkakjöti. Við lögðum okkur mjög fram um það, þótt við stundum séum kallaðir óvinir landbúnaðarins, að ná þessum samningum, og ég veit, að allir menn, sem hugsa í alvöru, gera sér það ljóst, að þetta er landbúnaðinum mjög mikilvægt. Hér er um að ræða nýjan markað og möguleika — ekki tryggingu fyrir sölu, eins og hann sagði réttilega, heldur mjög mikil líkindi til sölu við mun hærra verði en landbúnaðurinn hefur getað fengið fyrir sína offramleiðslu á kjöti hingað til, svo að um enga atvinnugrein á Íslandi verður sagt með jafnmiklum rétti, að hún hafi algerlega ótvíræðan hag af EFTA-aðildinni, og hægt er að segja með sanni um landbúnaðinn. Hér er auðvitað ekki um að ræða neinar stórkostlegar upphæðir; það er alveg rétt. En landbúnaðurinn á í það miklum erfiðleikum, útflutningur landbúnaðarafurða er svo miklum erfiðleikum bundinn, að mér finnst, að fulltrúar hans eigi að vera fegnir hverju spori, sem hægt er að stiga honum til hagsbóta. Ég gleðst svo sannarlega yfir þeim árangri, sem þarna hefur náðst í þágu íslenzks landbúnaðar, og mér þykir miður, að þeir eru vanmetnir af hálfu fulltrúa landbúnaðarins.

Þá kem ég að ræðu hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar. Hann sagði, að þeim bandalögum, sem störfuðu í Vestur-Evrópu, væri ekki ætlað að auka heimsviðskipti; hér væri um að ræða klúbba ríkra þjóða. Bandalögin hafa aukið heimsviðskiptin í mjög verulegum mæli. Um þetta eru til órækar sannanir með tölum í skýrslu. Í kjölfar bandalaganna hefur hvort tveggja gerzt, að viðskipti þeirra innbyrðis hafa vaxið stórkostlega og utanríkisviðskipti bandalaganna sem heildar hafa vaxið stórkostlega, svo að enginn vafi er á því, að sá tilgangur hefur náðst að auka milliríkjaviðskipti með stofnun og starfrækslu bandalaganna. Hitt er mér alveg jafnvel ljóst og hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, að stofnun bandalagsins hefur ekki stuðlað að því í neinum verulegum mæli að brúa bilið á milli ríkra og þróaðra þjóða annars vegar og fátækra og vanþróaðra ríkja hins vegar. Nokkur spor hafa verið stigin í þá átt, en engan veginn nægileg, og ég er í hópi þeirra, sem í raun og veru harma það, að þessi voldugu bandalög skuli ekki hafa sinnt því máli meira en þau hafa gert. Bandaríkin hafa verið það ríki veraldarinnar, sem mest hafa lagt sig fram um að brúa þetta bil og lagt hafa fram stærsta skerfinn af öllum þjóðum veraldar til þess að brúa bilið milli fátækra þjóða og ríkra. Ég tel, að hinar ríku þjóðir Vestur-Evrópu hafi þar látið hlut sinn eftir liggja og vona, að úr því verði bætt.

Þm. taldi, að efling norsks iðnaðar, sem hann bar ekki á móti, að hefði átt sér stað, hefði ekki átt sér stað vegna aðildar að EFTA, heldur vegna samvinnu við Svíþjóð. Það var raunar aðildin að EFTA, sem gerði samvinnu við Svíþjóð mögulega. Án aðildar að EFTA hefði engin samvinna — a.m.k. ekki sú samvinna við Svíþjóð, sem hefur átt sér stað ... (Gripið fram í.) Af sömu ástæðu og ekki tekst að koma á NORDEK, ef þm. áttar sig eitthvað svolítið á því, hvernig á því stendur. Þess þekkjast ekki dæmi úr efnahagssögu síðari áratuga í Evrópu eða annars staðar, að tvö ríki hafi gert með sér slíka samninga eins og um er að ræða í samtökum fríverzlunarlandanna. Til þess að slíkur samningur geti borið árangur, þarf mörg ríki, og auðvitað geta einhver tvö þeirra haft sérstakt gagn af, eins og Noregur og Svíþjóð hafa gert. En sönnunin fyrir því, að það er ekki eingöngu norsk-sænska samvinnan, sem hefur valdið því, að norskur iðnaður hefur stóreflzt, er það, að iðnaðurinn hefur líka eflzt í öðrum ríkjum, sem standa ein og eiga enga slíka nágranna. Það hefur gerzt í Austurríki t.d. Þar hefur iðnaðurinn stórkostlega eflzt á þeim 10 árum, sem EFTA hefur starfað. Hið sama er að segja um Sviss. Þar verður ekki borið við nálægð neins annars lands, ef það heyrir landfræðilega séð til einhvers stærra svæðis. Það er reynsla allra EFTA-ríkjanna, að sérstaklega iðnaðurinn hefur eflzt. Það var meiningin með þessu; spá hygginna manna. Sú spá hefur sem betur fer rætzt.

Það er rangt hjá hv. þm., að atkvgr. hjá iðnrekendum hafi farið þannig fram, að þeir hafi greitt atkv. fyrir hönd verkafólksins. Atkvgr. er hagað þannig, að atkvæðisrétturinn er miðaður við greidd laun, sem er auðvitað allt annað. Það hefur enginn haldið því fram, að atkv. hafi verið greidd fyrir hönd iðjuverkafólksins. En einhvern veginn verður að vega og meta atkvæðisréttinn. Það er auðvitað ekkert vit í því að láta einn iðnrekanda, sem kannske er einn í sínu fyrirtæki eða með konu sína með sér — dæmi um þetta eru til — greiða atkv. til jafns við forstjóra eða eiganda fyrirtækis, sem hefur 50 manns í sinni þjónustu og veltir millj. Þetta er auðvitað fáránlegt. Þetta væri jafnfáránlegt og verkalýðsfélag, sem hefur 20 meðlimi, ætti að hafa á Alþýðusambandsþingi sama atkvæðisrétt og það félag, sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson er formaður í og hefur 3000 meðlimi. Engum dettur í hug, að þessi atkvæðisréttur eigi að vera jafn, enda er hann ekki jafn. Atkvæðisrétturinn er á Alþýðusambandsþingi miðaður við tölu félaganna, sem í félaginu eru. (Mk: Sem eru kjörnir. Er það ekki?) Kjörnir, já. Stórt félag hefur meiri atkvæðisrétt en lítið félag, og þess vegna hefur stóra félagið meiri áhrif á niðurstöðu Alþýðusambandsþings en litla félagið, alveg eins og sá atvinnurekandi, sem rekur stórt fyrirtæki og á meiri hagsmuna að gæta, hefur meiri áhrif á niðurstöðuna fyrir iðnrekendur en atvinnurekandi, sem hefur lítið fyrirtæki og hefur mjög lítilla hagsmuna að gæta. Ég vona, að það sé ekki kominn of mikill sannfæringarkraftur í ræðu mína, þannig að Magnús Gíslason sé hættur að trúa þessu, svo að ég skal hægja á aftur.

Um 16. gr. skal ég ekki ræða í sambandi við það, sem hv. þm. Magnús Kjartansson sagði, því að ég ætla að nota ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósefssonar til þess að gera þau ummæli að umtalsefni. Mér var það til mjög mikilla vonbrigða, að hv. þm. Magnús Kjartansson skuli hafa haldið fast við ummæli sín í dag í tilefni af því, sem ég sagði í sjónvarpsumr. vegna þess, að það er alveg augljóst af því, sem tekið hefur verið upp af segulbandsspólunni, hvað ég raunverulega sagði. Þetta eru þrjár setningar, ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessar setningar aftur. Ræða mín hófst svona — það eru sex línur:

„Magnús Kjartansson sagði áðan, að við ráðh. hefðum ekki gert áhrif EFTA-aðildar á söluskattinn að umtalsefni. Sannleikurinn er sá, að söluskattshækkunin mun ekki hækka vísutölu framfærslukostnaðar um meira en lækkun tollanna mun lækka hana, þannig að vegna EFTA-aðildar mun framfærslukostnaður á Íslandi ekki hækka.“

Það er augljóst mál, að hér er ég ekki að tala um niðurstöðu fjárl.; ég er að tala um áhrif EFTA-aðildarinnar. Ef menn eru svo forstokkaðir að átta sig ekki eða vilja ekki átta sig á, hvað í þessu felst, þá er ekkert við því að segja. Ég get ekkert við því gert, þó að þm. eða einhverjir aðrir misskilji alveg skýr og augljós orð mín. Það er ekki gert á mína ábyrgð, og ég fæst ekkert um það. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta önnur en þau að segja, að það er ekki stórmannlegt að geta ekki viðurkennt það, að sér hafi orðið á. Ég held, að þm. hefði vaxið af því að viðurkenna það hreinlega, að hann hafi ekki hlustað nógu vandlega. Við sátum saman í sjónvarpssalnum, og ég lái honum það ekkert, þó að hann hafi í því heita ljósi, sem þar er, ekki tekið nákvæmlega eftir því, sem ég sagði, og var alveg tilbúinn að fyrirgefa honum það, sem hann sagði í dag. En hitt verð ég að segja, að mér þykir miður og skal ekki segja meira um það, að hann skuli halda fast við ummæli sín í dag, eftir að hafa heyrt einu sinni og nú aftur, hvað ég raunverulega sagði.

Hv. þm. gerði tryggingabæturnar nokkuð að umtalsefni. Það væri freistandi að tala ítarlega um það mál, en af því að hann sagði, að kaupmáttur tryggingabótanna hefði stórminnkað síðan 1960, þá vildi ég í sem allra stytztu máli án þess að útskýra þetta nokkuð nánar vitna hér til niðurstöðu í skýrslu um rannsókn, sem gerð var á kaupmætti tryggingabótanna á þessu tímabili. Þetta er 12 blaða skýrsla gerð af þremur fróðum mönnum, og kaflinn, sem heitir „Niðurstaða“, IV. kaflinn, byrjar svona — eftir niðurstöðum úr öllum töflum, sem á undan eru komnar:

„Augljóst er, að kaupmáttur bóta almannatrygginga hefur vaxið verulega undanfarinn áratug, og á þetta við um allar tegundir bóta.“ (Gripið fram í.) Já, já. Ég les hér bara niðurstöðuna af skýrslunum. Fjölskyldubætur eru ekki í þessu. Þetta eru elli- og örorkulífeyrir einstaklinga, barnalífeyrir, ekkjubætur og ellilífeyrir. Þetta eru sem sé lífeyrisbæturnar allar saman. Hér er sérstakur kafli um fjölskyldubæturnar. Hann er of langur til þess að lesa hann allan. (Gripið fram í.) Já, já. Niðurstaðan. Það eru orðnar nokkrar vikur, síðan ég las skýrsluna alla, og þetta er mikið töfluverk. Þess vegna datt mér í hug að taka niðurstöðuna, og hún er svona. En það er ekki rétt, sem ég sagði áður. Fyrsta taflan var um lífeyrisbæturnar, en svo er annar kafli, þar sem fjallað er um fjölskyldubæturnar; og samt sem áður byrjar heildarniðurstaðan svona. Þetta get ég því miður ekki skýrt, og hér er hvorki staður til þess né stund, en við fáum eflaust tækifæri til þess að tala nánar um það síðar.

Þá gerði hv. þm. mikið úr því, að ég hefði lýst andstöðu minni við þjóðaratkvgr. um þessa till., en hann hafði fundið tvö dæmi í þessari 23 ára þingsögu minni um það, að ég hefði greitt atkv. með þjóðaratkvgr. Ekki veit ég, hve margar till. hafa verið bornar fram um þjóðaratkvæði hér á hinu háa Alþ. á þessum 23 árum, sem ég hef setið á þingi, en þær till. skipta áreiðanlega mörgum tugum. (Gripið fram í.) Jæja, mjög margar eru þær a.m.k. En hann fann tvö dæmi um, að ég hefði greitt atkv. með þjóðaratkvæði, og ég skal í örstuttu máli skýra fyrir honum, hvers vegna ég gerði það. Þó að langt sé um liðið, síðan greitt var atkv. um Atlantshafsbandalagið, 1949, þá man ég það greinilega. Ég var nýkominn á þing þá fyrir þremur árum — og man greinilega, hvernig stóð á því, að ég taldi í því máli þjóðaratkvæði vera eðlilegt og greiddi atkv. með till., sem um það fjallaði. Í því máli var málum þannig háttað, að tveir af flokkum þingsins voru þverklofnir. Minn eiginn flokkur var klofinn í afstöðunni til málsins, og Framsfl. var klofinn til helminga um málið. Það var full ástæða til þess að ætla það, að kjörnir þm. þessara tveggja flokka, sem voru upp undir það helmingur alþm., hefðu ekki sömu skoðun á málinu og kjósendur þeirra. Það var full ástæða til þess að ætla það. Sjálfstfl. einn var óskiptur ásamt Sósfl. Þeir voru óskiptir í málinu. En næstum helmingur þm. skipaði sér í tvo flokka, sem voru klofnir í málinu. Þetta taldi ég næga ástæðu og réttmæta ástæðu til þess, að rétt væri að skjóta þessu máli til þjóðarinnar, þó að ég að öðru leyti teldi það ekki vera réttmæta eða skynsamlega meginreglu.

Að því er snertir hitt tilfellið af tveimur, þ.e. till., sem hér kom fram um bjórinn, þá man ég líka greinilega, hvernig afstaða mín til þess máls mótaðist, og hún mótaðist einfaldlega af því, að sú venja hefur einmitt skapazt um meðferð slíkra mála að hafa um þau þjóðaratkvæði. Bannið var afnumið 1935 með þjóðaratkvæði. Sú breyting, sem síðast var gerð, þó að mörg ár séu liðin síðan, var gerð með þjóðaratkvæði. Ég var og ég er enn þeirrar skoðunar, að út úr þeirri hringavitleysu, sem bjórmálið allt saman er í – það var, held ég, það eina, sem ég var sammála hv. þm. um í hans ræðu, að þar væri um að ræða fáránlegt smámál — er engin leið til nema afgreiða það á sama hátt og venja hefur áður skapazt um að afgreiða slík mál. Sú venja er frá 1935, og henni, held ég, að ætti að halda í stað þess að rugla störf þingsins ár eftir ár með bæði umr. og atkvgr. um það hér.

Að síðustu vildi ég svo segja, að hv. þm. taldi, að sú afstaða mín að vera með þjóðaratkvæði um Atlantshafsbandalagið og um bjórinn, en á móti þessu þjóðaratkvæði og á móti mörgum öðrum till. um þjóðaratkvæði, sem hafa komið fram, bæri vott um það, sem alkunnugt væri, að ég skipti mjög títt um skoðanir og hefði raunar haft allar skoðanir, sem hægt væri að hafa á öllum málum, skilst mér. Ég hef án efa haft margar skoðanir á mörgum málum, og ég hef oft skipt um skoðun á löngum stjórnmálaferli og tel mér það ekki til minnkunar, heldur frekar til gildis, ef nokkuð er — ekki einu sinni heldur til gildis, því að ég tel það svo sjálfsagt, að fullorðnir menn skipti um skoðun með breyttum aðstæðum, að þeir eigi ekki að miklast af því, og enn fáránlegra er að telja það nokkrum manni til minnkunar að taka skynsamlegt tillit til breyttra aðstæðna og láta það hafa áhrif á skoðanir sínar. Þetta er eitt megineinkenni frjálslyndra manna, ekki hvað sízt í stjórnmálum. Hitt er hið steinrunna afturhald að hafa alltaf sömu skoðun á öllum málum, hvernig svo sem hlutirnir breytast í kringum mann. En þetta á einmitt við hv. þm. Magnús Kjartansson. Hann hefur enn þá alveg sömu skoðun og hann hafði í menntaskóla, næstum um fermingu, og við þetta heldur hann sig, það er alveg sama, á hverju hefur gengið í austri og vestri. Alltaf hefur þm. sömu skoðun og hann hafði um fermingu, og við þetta væri nú ekkert að athuga, ef skoðunin hefði ekki alltaf verið röng. Það er það alvarlegasta í málinu.

Um Þjóðminjasafnsræðuna vildi ég aðeins segja það, að það er alveg skýrt dæmi um málflutninginn hjá hv. þm., að hann tók með sér fyrri hluta ræðunnar — þann hluta ræðunnar, þar sem ég var að fjalla um ummæli Winstons Churchills, útlista þau og skýra þau og taka undir það, sem ég taldi vera rétt í þeim, því að óneitanlega er mikið til í þeim skoðunum, sem í hans fleygu setningu felst. Við það að hlusta einu sinni enn á þennan fyrri hluta ræðunnar verð ég að segja það, að þar er ekkert ofsagt og ekkert vansagt, heldur allt rétt sagt. Það er rétt lýsing á tækniþróun þessarar aldar á öllum sviðum framleiðslu, viðskipta og samgangna. En svo stoppaði þm.; hann las ekki lengra. Og af hverju ekki? Af því að í síðari hluta ræðunnar er einmitt sagt frá því, að þrátt fyrir þessa þróun, sem að vissu leyti ógnar tilveru smáríkja, eigi einmitt þjóð eins og Íslendingar að leggja áherzlu á að varðveita frelsi sitt, sjálfstæði sitt og þjóðerni sitt. Og hvers vegna talaði ég svona á 100 ára afmæli Þjóðminjasafnsins? Ég varð var við það þá og hef sannarlega fundið fyrir því síðan, og margir urðu hissa á því — fjöldamargir. En af hverju? Af því að ég segi í ræðunni, að ég tel einmitt afmæli einnar elztu menningarstofnunar Íslendinga gott tækifæri til að minna okkur á alvöru tímanna, minna okkur á þá skyldu, sem við höfum við sjálfa okkur og niðja okkar, þ.e. að glata ekki sjálfstæðinu, að glata ekki fullveldinu. Þetta voru niðurlagsorð ræðu minnar, og ef þm. vildi lesa hana, þegar hann kemur heim eða á morgun eða koma með hana hingað við annað tækifæri, þá væri mér mikil ánægja að því. (Gripið fram í.)

Já. Nú kem ég að henni, og það skal vera það síðasta, sem ég segi. Nei. Þórarinn Þórarinsson er eftir, því miður, en Lúðvík Jósefsson verður á undan. Satt að segja er það, sem ég hef að segja við Lúðvík Jósefsson það, sem ég tel vera langmikilvægast í þessum umr. Það, sem þeir hinir hafa sagt, er satt að segja sem rök mjög lítilvægt, og orðaskipti okkar um þau efni, sem þeir hafa gefið tilefni til þess að tala um, eru allt of lík þessu venjulega útúrsnúningastjórnmálapexi, sem við eigum svo mjög að venjast — útúrsnúningar, sem þó verður að leggja sig niður við að svara. En Lúðvík Jósefsson ræðir efni, sem nauðsynlegt er að ræða í umr. eins og þessum, og vegna ummæla hans um 16. gr. tel ég alveg nauðsynlegt, að fram komi af hálfu ríkisstj. vissar skýringar og vissar yfirlýsingar. Og þær skýringar skal ég reyna að gefa og nauðsynlegar yfirlýsingar í því sambandi.

Rök okkar fyrir því, að 16. gr. taki ekki til freðfisks, eru tvenns konar. Í fyrsta lagi bendum við á bókaðan fyrirvara við undirskrift EFTA-samningsins 1960 um, að hún veiti ekki rétt til stofnunar nýrra fyrirtækja, sem hagnýti náttúruauðlindir. Þetta eru fyrri rökin. Hin rökin eru þau, að freðfiskur sé innan EFTA ekki skilyrðislaust EFTA-vara, sbr. fyrirvara Breta um freðfiskinn. Við reynum auðvitað að byggja upp okkar málstað í þessu efni eins sterklega og við getum, og þessi tvenns konar rök höfum við flutt, og á þau munum við leggja megináherzlu. Þessi rök hafa ekki sætt andmælum eða gagnrýni af hálfu annarra aðila, meðan á samningsviðræðunum hefur staðið. Þess vegna er það, og það vil ég undirstrika, að íslenzka ríkisstj. mun ekki taka við umsóknum erlendra aðila um leyfi til að stofna ný fyrirtæki í þeim greinum fiskiðnaðarins, t.d. frystihúsum. Umsókn um stofnun frystihúss í Vestmannaeyjum mundi verða endursend, ef hún bærist, eftir að við erum komnir í EFTA.

Ég hef heldur aldrei dregið nokkra dul á það, hvað það orðalag hjá mér þýðir, þegar ég segi, að 16. gr. taki ekki til stofnunar fiskvinnslufyrirtækja eða þess konar fyrirtækja, sem teljast megi á sviði sjávarútvegs. Þetta á við fiskiðnað og aðrar slíkar greinar, en á hins vegar ekki við þær fiskvinnslugreinar, sem við sjálfir höfum kosið að telja iðnað, og þm. taldi alveg rétt upp, hvaða greinar það eru. Það eru niðursuða, niðurlagning og frysting á rækju — af þeim greinum, sem nú eru stundaðar. En ég legg áherzlu á, að þetta er okkar eigin túlkun á málinu, en ekki túlkun, sem þröngvað hefur verið upp á okkur af öðrum aðilum, allra sízt af EFTA eða nokkrum aðila innan EFTA. Við hefðum getað túlkað þetta öðruvísi, en við vorum búnir að túlka niðursuðu sem iðnað — ekki sem sjávarútveg — af öðrum ástæðum, þegar fyrirtækið Norðurstjarnan í Hafnarfirði var stofnað. Ef við hefðum litið á það fyrirtæki sem sjávarútvegsfyrirtæki, þá hefði erlendum aðila ekki verið heimilt að leggja í það eina krónu af erlendu fé. Við sjálfir, íslenzk stjórnarvöld og fyrirtækið sjálft, vildum fá erlent fé inn í þetta fyrirtæki — 10% af stofnfénu. Ég hef ekki orðið var við neina gagnrýni á fjárfestingu þess erlenda fjár hér á landi, þvert á móti, en hún var ekki möguleg, ef niðursuða tilheyrði sjávarútvegi. Hins vegar er heimilt að leggja erlent fé í iðnaðarfyrirtæki, og þess vegna var niðursuðufyrirtæki — ekki bara þetta fyrirtæki, heldur niðursuða yfirleitt — skilgreint af okkur sjálfum sem iðnaður. En þegar við erum nýlega búnir að skilgreina niðursuðu sem iðnað vegna okkar gildandi lagaákvæða okkur í hag, þá getum við auðvitað ekki komið til Genfar eða til Breta og sagt við þá: Nú er niðursuða ekki lengur í iðnaði. Nú er hún sjávarútvegur. (Gripið fram í: Skilgreiningin er í EFTA-samningunum.) Skilgreiningin er svona. Jú, jú, það má segja það. Að vísu er skilgreiningin á freðfiski þannig í EFTA-samningunum, að hann sé EFTA-vara, og það gildir um alla nema Breta. En Bretar gerðu fyrirvara við undirskriftina 1959. Ég man ekki hvorum megin við áramótin þeir skrifuðu undir, en það var um áramótin 1959 til 1960. Þá gerðu þeir fyrirvara við þetta almenna ákvæði um, að freðfiskur skuli vera EFTA-vara. Þeir sögðu: Hann má vera það hjá ykkur, en við skoðum hann ekki sem skilyrðislausa EFTA-vöru. Þá settu þeir þennan fræga kvóta um fiskinn. Þess vegna getum við líka notað þetta sem viðbótarrök fyrir því að endursenda umsókn ekki sízt frá brezkum aðila um allt, sem viðkemur freðfiski, af því að þeir sjálfir fyrir 10 árum sögðu: Við viðurkennum ekki freðfiskinn sem EFTA-vöru algjörlega. Því skyldum við gera það núna? Það var þetta, sem norski sérfræðingurinn átti við í þeim ummælum, sem þm. vitnaði til, þ.e. að yrði freðfiskur skilyrðislaus EFTA-vara, gætum við ekki beitt því í þessari seinni röksemd, og auðvitað er þetta fullkomlega rétt. Það skildum við báðir á fundinum, sem hann var á.

En hvað er þá að segja um niðursuðuna, niðurlagninguna og frystinguna á rækjum? Er það allt saman opið? Nei, í því efni ætlar íslenzk stjórn sér að heita sams konar reglu og gagnvart almennum iðnfyrirtækjum til útflutnings, þ.e. leyfisveitingin þar mundi komin undir væntanlegri breytingu á lögum um iðju og iðnað. (Gripið fram í.) Formlega séð sami réttur beggja. Það er rétt. Formlega séð sami réttur beggja, en með fullkominni viðurkenningu af hálfu hinna aðilanna þó, að við höfum í hendi okkar að segja nei við hverju því, sem við teljum ekki æskilegt að fá inn í landið. Ef beitt yrði brögðum í þeim efnum að koma okkur í vanda, t.d. að íslenzkt fyrirtæki yrði fengið til þess að sækja á sama tíma og sama stað til þess að koma íslenzkum stjórnvöldum í vanda, þá mundu stjórnvöldin vonandi átta sig á því, að um bellibrögð væri að ræða og ekki hika við að segja nei við íslenzka fyrirtækið líka. Ef um væri að ræða erlent fyrirtæki í niðursuðu, sem við vildum ekki fá og íslenzkan atvinnurekanda, sem við vildum fá til að stofna nýtt fyrirtæki, þá er það viðurkennt, algjörlega viðurkennt, að Íslendingar hafa ótal ráð í hendi sér til þess að segja nei við erlenda aðilann, en já við innlenda aðilann án þess, að erlendi aðilinn gæti komið nokkurri vörn við, sem að gagni væri. Ég vil ekki kalla það að beita bellibrögðum að vernda það, sem við mundum telja réttmæta íslenzka hagsmuni. Það kalla ég ekki bellibrögð. Hitt hefðu verið bellibrögð, ef erlendur aðili pantaði innlendan aðila til þess að leggja inn umsókn samtímis sinni bara til þess að gera íslenzkum aðilum torveldara að segja nei.

Mergurinn málsins er sá, eins og eiginlega var viðurkennt af hv. þm., og raunar af hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni líka, að samningurinn leggur okkur ekki byrðar á herðar í þessum efnum. Hann skyldar okkur ekki til neins, sem við ekki viljum gera. Ekkert EFTA-ríkjanna hefur nokkru sinni gert nokkurn skapaðan hlut vegna kvaða innan EFTA, sem það sjálft hefur ekki viljað gera. Fyrir þessu er 10 ára reynsla. Og auðvitað er það þetta fyrst og fremst; sem smám saman sannfærir okkur um það, að fyrirvari sé óþarfur og sérstök atvinnuréttarlöggjöf sé líka óþörf og þessi túlkun á 16. gr. með breytingunni á lögum um iðju og iðnað og verzlunaratvinnu sé nægileg vörn fyrir alla réttmæta innlenda hagsmuni. Þm. vitnaði í ummæli Tyge Dahlgårds, sem ég ræddi allt þetta mál mjög rækilega við, þegar hann var hér í heimsókn og hélt þetta erindi, sem hv. þm. las úr, og hann sagði, að þeir hefðu verið að hugsa um að gera fyrirvara varðandi vöru, eins og hann orðaði það, „hovedsageligt fremstillet af fisk“. Hann nefndi nú auðvitað ekki freðfisk, því að honum var það jafnljóst og okkur, að þar þýddi ekki að gera fyrirvara. En Danir féllu frá fyrirvaranum með samþykki Færeyinga. Það fór eins fyrir Dönum og Færeyingum og okkur, sem erum búnir að vinna að þessu í 11/2–2 ár. Þeir sannfærðust eins og við um það, að fyrirvari væri ónauðsynlegur. Tyge Dahlgård tók nú beint fram í þeim kafla, sem hv. þm. las, að fyrirvari mundi hafa reynzt Færeyingum skaðlegur. Ég er ekki fjarri því, að svo hefði einnig getað orðið raunin með okkur hérna, að fyrirvari af okkar hálfu hefði reynzt okkur beinlínis skaðlegur. En þeir féllu frá fyrirvaranum með samþykki Færeyinga. Þetta er ein vísbendingin enn um það, að sú niðurstaða — ég geri ekki lítið úr málinu, það er víðs fjarri mér — sem við komumst að eftir vandlega athugun, hefði verið rétt, þ.e. að gera ekki fyrirvara, setja ekki sérstaka atvinnuréttindalöggjöf, heldur treysta á þá túlkun gr., sem við höfum marglýst, og nýjan lagastaf um rétt til þess að segja já eða nei við stofnun hvers konar nýrra fyrirtækja á landinu. Það er misskilningur hjá hv. þm., að fyrirvari, sem gerður var um náttúruauðlindirnar strax eftir stofnun EFTA, hafi eingöngu tekið til eignarréttarákvæða. Það er skýrt orðalag um, að það á við um hagnýtingu náttúruauðlinda, um eign og hagnýtingu náttúruauðlinda, og það er það orð, sem við munum koma til með að nota.

Að síðustu eru nokkur orð um ræðu hv. þm. Þórarins Þórarinssonar. Ég biðst afsökunar á því, að mér sást yfir það, þó að ræðan hjá mér væri nógu löng í eftirmiðdag, að svara fsp., sem hann beindi til mín. Hann spurði, og ég endurtek spurninguna hér: Ætlar Ísland að taka upp viðræður með öðrum EFTA-ríkjum í sumar, ef af þeim verður, um hugsanlega aðild að Efnahagsbandalaginu? Við munum ekki gera það. Við sjáum að svo komnu máli enga ástæðu til þess. Þær viðræður, sem verið er að tala um milli Efnahagsbandalagsins og einstakra EFTA-ríkja, eru viðræður milli Efnahagsbandalagsins og einstakra EFTA-ríkja, en eru ekki viðræður milli Efnahagsbandalagsins og EFTA sem heildar. Þá mundum við að sjálfsögðu eiga aðild að þeim. En ég tel okkur hafa við nóg vandamál og nóg viðfangsefni að etja í sambandi við fyrstu spor okkar innan EFTA, þó að við flækjum það mál ekki með því að eiga eða biðja um sérstaka viðræðu við Efnahagsbandalagið. Það leiðir af sjálfu sér, að við munum fylgjast nákvæmlega með því, sem gerist í þeim viðræðum, og ég skal segja það enn, að ég geri mér ljóst, að ef það leiðir til jákvæðrar niðurstöðu þá færir það Íslandi nýjan vanda, nýjan og stóran vanda, en ég óttast ekki, að það muni gerast á allra næstu árum.

Hv. þm, sagði, að við ættum að fylgja fordæmi Norðmanna í þessu máli. Þá vil ég aðeins benda á, að þeir settu engan fyrirvara um 16. gr. Þeir settu sína löggjöf um atvinnurekstrarákvæði heldur ekki í sambandi við EFTA. Þeir settu hana, þegar líkindi voru talin til þess, að Bretar mundu semja við Efnahagsbandalagið, og áður en Norðmenn sóttu um aðild að Efnahagsbandalaginu. Það er atvinnurekstrarákvæði Efnahagsbandalagssamningsins, sem er orsök þess, að þeir settu sína Kolsås-löggjöf, en ekki ákvæði EFTA-samningsins. Þetta mundi ég telja, að styrki mína skoðun og okkar skoðun í ríkisstj. enn á því máli, sem við höfum hér verið að tala um.

Að síðustu vil ég aðeins gera að umtalsefni aðaládeiluefni hans á mig í ræðu sinni í dag, sem ég svaraði í fyrri ræðu minni, en hann endurtók aftur hér í síðari ræðunni og nú með fjórum tilvitnunum í sína setninguna í hvert skiptið úr ræðu minni. Ég þarf ekki að endurtaka, um hvað við höfum deilt. Hann segir, að þegar ég hafi haldið því fram, að við gætum ekki komið á fót umtalsverðum nýjum útflutningsiðnaði án aðildar að tollfrjálsum markaði, þá hljóti ég að hafa átt við allan útflutning frá Íslandi, en ekki bara, eins og ég gaf nánari skýringu á í ræðu minni áðan, fyrst og fremst við útflutning frá Íslandi úr innfluttum hráefnum. Þeim, sem les ræðu mína í heild, getur ekki blandazt hugur um það, að þetta er meiningin, vegna þess að ég hafði rætt alveg sérstaklega um sjávarútveginn og vandamál hans, kosti aðildar að EFTA fyrir sjávarútveginn og nauðsyn þess að efla útflutningsiðnað sjávarútvegsins. Þar er rætt um landbúnaðarútflutninginn sérstaklega, og svo er rætt um þennan nýja útflutningsiðnað, sem auðvitað getur þá ekki verið annað. Við vinnum þegar úr ýmsum innlendum landbúnaðarvörum. Nýtt í þessu er ekkert nema það að fara að flytja inn hráefni til að flytja aftur út. Það er það eina, sem er nýtt. Við erum búin að vinna iðnaðarvörur úr sjávarafurðum í áratugi. Við erum búin að vinna úr landbúnaðarafurðum í áratugi, og við höfum örlítinn hreinan iðnaðarútflutning, en það nýja í þessu, sem ég hef verið að tala um í ótal ræðum, er auðvitað útflutningsiðnaður, sem ekki er stundaður nú eða hefur ekki verið stundaður, þ.e. útflutningsiðnaður úr innfluttum hráefnum. Sé þetta lesið í heild – allur minn málflutningur – getur engum blandazt hugur um þetta, og hv. þm. vitnaði í ræðu mína og sagðist hafa lesið hana. Það er mér alveg óskiljanlegt, hvernig honum hefur getað sézt yfir þá kafla, sem einmitt staðfesta það, sem ég sagði í eftirmiðdag. Mætti ég að endingu, herra forseti, lesa nokkrar setningar á bls. 11 — ekki bara eina setningu af bls. 8, 10 og 12, eins og hann las, slitnar úr samhengi, heldur hálfa síðu, 3/4 úr síðu, sem lýsir efnisatriðum máls þess, sem við erum að deila um. En það er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Að mjög vel athuguðu máli hefur ríkisstj. komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki sé hægt að treysta til frambúðar á hina svonefndu hefðbundnu atvinnuvegi Íslendinga. Í því felst síður en svo vanmat á gildi þeirra eða vantraust á framtíð þeirra. Allra sízt felst í því vanmat á gildi íslenzks sjávarútvegs eða vantraust á framtíð hans. Sjávarútvegur hefur verið og verður áreiðanlega um langan aldur aðalatvinnuvegur Íslendinga, vegna þess að hann hefur verið og verður áfram arðbærasti atvinnuvegur Íslendinga. Að sjálfsögðu á jafnan að leggja á það megináherzlu ...“ — mig langar til að endurtaka — „Að sjálfsögðu á jafnan að leggja á það megináherzlu að bæta tækni við fiskveiðar og fiskvinnslu og vinna ötullega að því að auka og bæta vinnslu hins verðmæta afla hér innanlands.“ Er ég að gleyma fiskvinnslunni? „En þetta jafngildir að sjálfsögðu ekki því, að ekki sé nauðsynlegt að renna fleiri arðbærum stoðum undir íslenzkt atvinnulíf og þá sérstaklega undir íslenzka útflutningsframleiðslu. Þetta telur ríkisstj. nauðsynlegt. Ítarlegar athuganir hafa sýnt, að vænlegasta og hyggilegasta leiðin til þess að auka fjölbreytni atvinnulífsins og bæta útflutningsskilyrði er að koma á fót nýjum útflutningsiðnaði, sem ýmist hagnýtir þá orku, sem við getum framleitt, eða það ágæta vinnuafl, sem við höfum yfir að ráða, og helzt hvort tveggja jöfnum höndum. En ef við eigum að geta komið á fót umtalsverðum útflutningsiðnaði...“ Nú sjáið þið, við hvaða iðnað ég á í setningunni um það, sem alltaf hefur verið sleppt: „En ef við eigum að geta komið á fót umtalsverðum útflutningsiðnaði, er aðild að samtökum eins og Fríverzlunarsamtökunum nauðsynleg. Þetta eru meginrökin fyrir því, að Íslendingar eigi að gerast aðilar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu.“ En enginn — ég held ekki heldur hv. þm. — ber á móti því, að við getum ekki unnið úr erlendum hráefnum hér og flutt út aftur nema eiga aðgang að tollfrjálsum markaði.