19.12.1969
Sameinað þing: 27. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (2973)

134. mál, frestun á fundum Alþingis

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér hefur verið minnzt á, að e.t.v. þyrfti að setja brbl. um nú fyrir áramót, eru lífeyrissjóðsgreiðslur til aldraðra launþega, sem samið var um í maí í vor. Sá samningur er gildandi að sjálfsögðu, og frá áramótum eiga greiðslur að koma til þessara manna. Greiðslur hefjast auðvitað ekki 1. jan. En ég sé ekki, að það sé út af fyrir sig nauðsyn að gefa út brbl. Hitt hefði að sjálfsögðu verið miklu skemmtilegra, að Alþ. hefði afgreitt þetta mál sem lög fyrir áramót, áður en þetta á að taka gildi. Það eina, sem ég teldi, að þyrfti í raun og veru lagastaðfestingar, eru sjálfsagt þær greiðslur, sem ríkissjóður og aðrir aðilar taka á sig vegna þessa máls. Ef talið er nauðsynlegt að afgreiða það fyrir áramót, verður það að gerast. Að öðru leyti get ég ekki séð í fljótu bragði, að þörf sé á brbl. vegna þess arna.