27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

126. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr., en nokkur ummæli, sem féllu hjá hæstv. fjmrh., gáfu mér tilefni til þess að segja nokkur orð eða gera nokkrar aths. við það, sem fram kom hjá honum.

Í fyrsta lagi vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að það væri enginn eðlismunur á tollum og söluskatti, þ.e. á þeim tolli, sem hér er verið að lækka og þeim söluskatti, sem nú er verið að hækka. Ég er nú alveg hissa, að hæstv ráðh. skuli halda slíku fram, því honum ætti að vera manna bezt ljóst, að á þessum tveimur tekjuöflunaraðferðum er sá reginmunur, að tollarnir leggjast mishátt á vörurnar eftir því, hvað þær eru taldar nauðsynlegar, en söluskatturinn leggst jafnt á allar vörur. Þetta er búið að segja svo oft hér, að ég held, að hæstv. ráðh. ætti að vera búinn að taka eftir þessu og þá miklu fremur að hæstv. ráðh. hefði átt að vita þetta en aðrir. (Gripið fram í.) Enginn teljandi eðlismismunur, kom fram í ræðu ráðh. og engin meiri háttar breyting. En þetta er að sjálfsögðu meginbreyting, því annar skatturinn er innheimtur mismunandi, en hinn jafnt. Og ég er alveg hissa, að jafngreindur og gætinn maður og hæstv. fjmrh. er skuli halda slíku fram.

Þá vildi hæstv. ráðh. gera mikið úr þeim hliðarráðstöfunum, sem ríkisstj. gerði jafnhliða þessari söluskattshækkun. Og hann var í því sambandi að tala um hækkun á fjölskyldubótum, ellilífeyri og að það ætti ekki að innheimta söluskatt af fiski. Hæstv. ráðh. veit það manna bezt, að þær hækkanir á ellilífeyri og fjölskyldubótum, sem hann er að tala um, voru samþykktar í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir jólin og stóðu ekki í neinu sambandi við þessa hækkun á söluskatti. Það var þar verið að vinna upp lækkun á þessum bótum, sem átt hafði sér stað á undanförnum árum. Í því sambandi vil ég benda hæstv. ráðh. á að lesa t.d. forystugrein Alþbl. frá 25. nóv. s.l., en þar er sagt, að kaupmáttur ellilífeyris hafi minnkað um 11% síðan 1967 og þetta þurfi að vinna upp. Enn fremur er sagt, að kaupmáttur fjölskyldubóta hafi lækkað um 40% síðan 1961. Sú hækkun á ellilífeyri, sem var samþ. í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna fyrir jólin, átti að vera til þess að vinna þá rýrnun upp, sem hafði orðið á ellilífeyrinum á undanförnum árum, en ekki til þess að mæta þeim skakkaföllum, sem leiðir af hækkun söluskattsins. Í sambandi við fjárlögin voru fjölskyldubæturnar hækkaðar um 10%, eða 1/4, af þeirri rýrnun, sem átt hafði sér stað síðan 1961 og jafnvel þótt sú till. hefði verið samþ., sem við fluttum hér þremenningarnir við 2. umr., þá hefðu fjölskyldubæturnar samt ekki náð þeim kaupmætti, sem þær höfðu 1961. Þær hækkanir á fjölskyldubótum og ellilífeyri, sem áttu sér stað í sambandi við fjárlögin, voru þannig til að bæta þá rýrnun, sem orðin var áður, en bættu hana alls ekki að fullu. Þess vegna geta þær ekki á neinn hátt bætt þær hækkanir, sem verða á söluskattinum samkvæmt þessu frv. Þær ráðstafanir eru þess vegna ekki að neinu leyti í sambandi við þetta mál. Þær eru sprottnar af allt öðrum rótum. Og þess vegna er það alrangt hjá hæstv. ráðh., að í sambandi við þessa hækkun söluskattsins hafi einhverjar slíkar hliðarráðstafanir átt sér stað, eins og hann vildi halda fram. Þar var ríkisstj. að bæta upp rýrnun, sem orðin var á umræddum bótum, en ekki að vega á móti söluskattshækkuninni.

Þá kom ráðh. með þá fullyrðingu, að þróunin í kaupgjalds– og verðlagsmálum skipti engu máli, þegar um það væri að ræða að leggja á skatt þann, sem fjallað er um í þessu frv. Að sjálfsögðu skiptir það meginmáli. Það er allt annað, hvort skattar eru hækkaðir undir þeim kringumstæðum, þegar kaupmáttur launa fer hækkandi, eins og hefur t.d. verið á Norðurlöndum, eða hvort hækkun skatta á sér stað á þeim tíma, þegar kaupmáttur launa fer minnkandi, eins og verið hefur hér á landi á undanförnum árum. Hæstv. ráðh. hlýtur að geta gert greinarmun á þessu tvennu. Það er alls ekki sambærilegt að tala um þá söluskattshækkun, sem átt hefur sér stað á Norðurlöndum á undanförnum árum, þegar kaupmáttur launa hefur þar farið hækkandi og launþegar hafa þess vegna miklu betur getað risið undir þessum skattahækkunum og bera það svo saman við ástandið hér, þar sem kaupmáttur launanna hefur farið lækkandi og svo er bætt ofan á það stórhækkuðum söluskatti. Það er að sjálfsögðu allt annað. Þess vegna er það, að þróunin í kaupgjalds– og verðlagsmálum skiptir meginmáli, þegar verið er að leggja á skatta. Það skiptir að sjálfsögðu miklu í þessu sambandi, hver grundvöllurinn er, sem verið er að byggja á.

Hæstv. ráðh. vildi gera lítið úr þeirri innheimtuaðferð, sem honum hefur verið heimilað að taka upp við 2. umr. þessa máls. Ég veit ekki, hvað hæstv. ráðh. hefur fyrir sér í þessum efnum. Mér er hins vegar kunnugt um það, að víða annars staðar, t.d. í Bandaríkjunum, í Danmörku og víðar, hefur þessi innheimtuaðferð verið viðhöfð og hún hefur verið talin gefast þar vel. Það hefur a.m.k. ekki verið horfið frá henni, heldur hefur hún þvert á móti verið færð út. Það má vel vera, að það sé ekki hægt að koma henni á í öllum tilfellum, en það er áreiðanlega hægt að gera það í mjög mörgum tilfellum og hún á þá ekki siður að geta komið að gagni hér en í öðrum löndum, þar sem hún hefur verið viðhöfð.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. mjög mikið úr þessu. Ég sé, að hæstv. ríkisstj. ætlar að sitja fast við þann keip að framkvæma þá byltingu í skattamálum, sem raunverulega felst í þessu frv., þ.e. að láta söluskatt, sem leggst jafnt á allar vörur, koma í staðinn fyrir misháa tolla og þarf ég ekki að lýsa því nánar, í hverju þessi bylting er fólgin, því það hefur verið rækilega gert. Það er bersýnilegt, að ríkisstj. ætlar að framkvæma þessa stefnubreytingu án þess að henni eigi að fylgja nokkrar hliðarráðstafanir til að bæta aðstöðu þeirra, sem söluskattshækkunin bitnar þyngst á, en það eru þeir, sem hafa minnstar tekjur og hafa fyrir stærstum fjölskyldum að sjá. Þessa stefnubyltingu í skattamálum ætlar ríkisstj. að framkvæma, það liggur nú ljóst fyrir.

Við stjórnarandstæðingar höfum reynt að koma fram endurbótum á þessu frv. Í fyrsta lagi höfum við reynt að draga úr mestu rangindunum, sem af þessu mun leiða, með því að afnema söluskattinn á nokkrum helztu lífsnauðsynjunum og með því að auka fjölskyldubætur. Þetta hefði orðið til þess, að þeir, sem erfiðasta aðstöðu hafa fjárhagslega, hefðu sloppið betur en ella. Á þetta vill ríkisstj. ekki fallast. Við höfum í öðru lagi reynt annað í sambandi við þetta mál, sem ekki er þýðingar minna, þ.e. að hefja nokkurt viðnám gegn verðbólgunni í landinu. Af samþykkt okkar till. hefði það leitt, að framfærsluvísitalan hefði lækkað um 3 stig, þ.e. komið hefði verið í veg fyrir 3 stiga hækkun hennar. Þetta mundi létta álögurnar á atvinnuvegina í landinu um hvorki meira né minna en rúml. 300 millj. kr., því það er talið, að hvert eitt stig, sem framfærsluvísitalan hækkar um, auki útgjöld atvinnuveganna um 110 millj. kr. Ef inn á þessa braut hefði verið farið, hefði þarna skapazt nokkurt viðnám gegn vaxandi verðbólgu og vaxandi erfiðleikum fyrir atvinnuvegina, sem leiðir af sífelldum hækkunum og launþegar þó staðið betur eftir en áður, vegna þess að það er áreiðanlega miklu meiri hagur fyrir þá að fá kjarabætur í formi þeirra verðlækkana, sem við höfum lagt hér til, heldur en í formi beinna kauphækkana. Ríkisstj. hefur hafnað þessum till. okkar. Hún vill ekki draga úr mestu rangindunum gagnvart þeim, sem erfiðasta eiga aðstöðuna, og hún vill ekki hefja neitt viðnám gegn verðbólgunni. Af þessu hlýtur að leiða það, að þegar launþegar nú hefja samninga við atvinnurekendur á næsta vori, þá verða þeir að gera kröfur um og knýja fram miklu meiri kauphækkanir, en ella hefði þurft. Og það kemur svo til með að hafa sín áhrif á verðlagið og verðbólguna á eftir.

En ríkisstj. vill ekki hverfa að þessu ráði. Hún vill halda áfram gömlu verðbólgustefnunni, sem hefur leitt til fjögurra gengisfellinga á einum áratug, sem er algjört einsdæmi – einstætt, held ég, ja, einstætt í vestrænum löndum a.m.k. eftir síðari styrjöldina. – Við höfum reynt að aðvara hana, en hún hefur ekki viljað hlýða á það. Hún ber ábyrgðina á því, sem kemur og tekur afleiðingunum af því, en mér segir svo hugur um, að með því að vilja nú ekki ráðast gegn verðbólgunni, eins og við höfum lagt til, þá sé þess ekki langt að bíða, a.m.k. ef þessi ríkisstj. fær einhver áhrif að hafa, að hér verði fimmta gengisfellingin gerð.