05.11.1969
Sameinað þing: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (3016)

19. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 19 flyt ég till. til þál., sem hljóðar þannig: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta endurskoða lög nr. 25 frá 1957, um vísitölu byggingarkostnaðar. Jafnframt verði Hagstofu Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins falið að reikna út nýjan vísitölugrundvöll, er taki gildi eigi síðar en á árinu 1971.“

Vísitala byggingarkostnaðar hefur verið reiknuð út hér á landi allt frá árinu 1914. Lengst af hefur hún verið reiknuð út einu sinni á ári; en frá því á árinu 1957 hefur vísitalan verið reiknuð út og birt þrisvar á ári hverju. Byggingarvísitalan er mjög þýðingarmikil og hefur áhrif á mörgum sviðum. Hún er manna á meðal og í opinberum umr. notuð sem mælikvarði á breytingar á byggingarkostnaði, og verðlag hins svonefnda vísitöluhúss, miðað við kostnað á rúmmetra, er að jafnaði mikið notað til samanburðar við byggingarkostnað og söluverð nýrra íbúða. Enn fremur er byggingarvísitalan höfð til viðmiðunar til að meta verðhækkanir í verksamningum. Þá eru breytingar á fjárhæð húsnæðismálastjórnarlána og brunabótamati fasteigna við hana miðaðar. Byggingarvísitalan er líka stundum notuð sem skuldabréfavísitala. Þá hefur byggingarvísitalan áhrif á framfærsluvísitöluna. Allt þetta undirstrikar nauðsyn þess, að byggingarvísitalan fylgist með tímanum, ef svo má að orði komast, og að grundvöllur hennar sé ætíð svo nákvæmur og vandaður sem frekast er kostur, en á það skortir nú mikið.

Núgildandi byggingarvísitala er að stofni til frá árinu 1955 og er byggð á rannsókn á byggingarkostnaði tiltekins sambýlishúss í Reykjavik, sem er tvær hæðir og að auki ris og kjallari. Í húsinu er ein íbúð á hvorri hæð, ein íbúð í risi og ein í kjallara eða alls 4 íbúðir. Þetta er hið svo nefnda vísitöluhús. Þessi vísitölugrundvöllur er nú úreltur, m.a. fyrir þá sök, að slík hús eru ekki lengur byggð í Reykjavík. Skipulagsyfirvöld leyfa það ekki, auk þess sem nú er bannað að byggja kjallaraíbúðir.

En það er margt fleira við núgildandi vísitölugrundvöll að athuga. Þar vantar alveg ýmsa veigamikla kostnaðarliði. Í fyrsta lagi er ekki reiknað með neinum kostnaði við lóðafrágang, sem er að jafnaði 20–30. þús. kr. á meðalíbúð. Í öðru lagi er ekki reiknað með kostnaði við flutning verkamanna og iðnaðarmanna að og frá vinnustað ásamt fæðiskostnaði á vinnustað, en þessi kostnaður fellur nú á meginþorra nýrra íbúða í Reykjavík, þar sem þær eru byggðar í úthverfum borgarinnar gagnstætt vísitöluhúsinu, sem byggt er miðsvæðis, Í þriðja lagi tekur vísitölugrundvöllurinn ekki tillit til vaxta á byggingartímanum. Er það næsta fráleitt, að vaxtahreyfingar í þjóðfélaginu skuli ekki hafa nein bein áhrif á vísitölu byggingarkostnaðar.

Vaxtadæmið er rétt að skýra nokkru nánar. Það er mjög algengt, að menn kaupi íbúðir tilbúnar undir tréverk og málningu af byggingarfyrirtækjum. Kaupsamningar eru þá að jafnaði gerðir meðan verið er að steypa upp húsin, og kaupandinn er smátt og smátt að borga inn á íbúðarverðið, unz íbúðin er afhent á framangreindu byggingarstigi. Síðan tekur það kaupandann nokkra mánuði að láta innrétta íbúðina og mála hana, og þarf hann að sjálfsögðu að leggja fram fé í því skyni. Að lokum er svo íbúðin fullgerð, og kaupandinn flytur inn.

Nú er kaupandinn spurður, hvað íbúðin hafi kostað, og leggur hann þá gjarnan saman allar þær fjárhæðir, sem hann hefur lagt út fyrir íbúðina, og segir, að þetta sé kostnaðarverðið, en gleymir þá oft og tíðum, að hann á að reikna vexti af útlögðu fé fram til þess tíma, er íbúðin er tekin í notkun og bæta vaxtafjárhæðinni við annan byggingarkostnað. Þessi vaxtakostnaður getur numið 30–60 þús. kr. á meðalíbúð í fjölbýlishúsi, en er auðvitað háður því, hversu lengi íbúðin er í byggingu, hvaða vaxtafótur er reiknaður og hvert er verðlag íbúðarinnar. Þetta vaxtadæmi er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar gerður er samanburður annars vegar á verði íbúða, sem keyptar eru í smíðum og hins vegar á verði nýrra íbúða, sem keyptar eru fullgerðar, þar sem kaupandinn greiðir ekkert eða mjög lítið af kaupverðinu fyrir fram, eins og t.d. í Breiðholtsíbúðunum. Slíkur samanburður hefur iðulega verið gerður á opinberum vettvangi án þess að reikna vextina með og af mönnum, sem telja sig fróða um byggingarmál. Vitanlega er þetta mjög villandi, en villukenningin hefur stuðzt við þennan meinbug á byggingarvísitölunni og þarf nauðsynlega úr að bæta.

Segja má, að síðustu 10–15 árin hafi ekki átt sér stað breytingar á byggingaraðferðum hér á landi, sem telja megi almennar og róttækar. Samt sem áður hefur ýmiss konar tæknileg framþróun átt sér stað í byggingariðnaðinum á þessum tíma. Íbúðagerðir og kröfur til íbúða hafa einnig tekið breytingum á þessu tímabili. Byggingarvísitalan tekur ekkert tillit til þessara atriða, þar sem hún er grundvölluð á byggingaraðferðum ársins 1955. Í þessu sambandi má minna á samþykkt gerða á síðasta aðalfundi Meistarasambands byggingarmanna, er hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Meistarasambands byggingarmanna beinir þeim tilmælum til Hagstofu Íslands, að endurskoðaður verði grundvöllur vísitölu byggingarkostnaðar, þar sem verulegar breytingar hafa átt sér stað í byggingarháttum og opinberum kröfum til húsbygginga, frá því að grundvöllur núverandi vísitölu var ákveðinn.“

Að minni hyggju er líklegt, að á næstu árum eigi sér stað örari tæknilegar framfarir í byggingariðnaðinum heldur en áður. Breiðholtsáætlunin mun leggja skerf til þeirrar þróunar, bæði með þeim nýju byggingarháttum, sem framkvæmdanefndin hefur gert tilraunir með og endurbætt að fenginni reynslu, svo og á þann hátt, að starfsemi nefndarinnar verkar sem hvatning á aðra byggingaraðila til að leita nýrra úrræða, er leiði til framfara. Sem dæmi má nefna, að stór hópur byggingarmeistara í Reykjavík stofnaði fyrir tveimur árum sérstök samtök einvörðungu í því skyni að vinna að lækkun byggingarkostnaðar. Er þess að vænta, að þessi samtök skili mjög jákvæðum árangri, þegar fram líða stundir.

Það er mjög eftirtektarvert, að þegar framkvæmdanefnd byggingaráætlunar bauð út byggingu 180 nýrra íbúða í Breiðholtshverfinu í sumar og gaf bjóðendunum kost á því að bjóða bæði eftír nýju og gömlu aðferðunum, þá sýndi það sig, að ódýrast var að byggja á grundvelli þeirrar byggingartækni, sem nefndin hafði tileinkað sér. Nýju aðferðirnar báru sigurorð af þeim gömlu, og var verðmismunurinn um 50–60 þús. kr. á hverja íbúð samkvæmt tilboðunum. Byggingarmeistararnir, sem áður höfðu gagnrýnt nefndina fyrir gagnslausar tilraunir og fyrir bruðl með almannafé, urðu að beygja sig fyrir staðreyndunum. En í byggingariðnaðinum sem svo víða annars staðar gildir sú regla, að það verða engar framfarir, ef menn þora ekki að fara inn á nýjar brautir af ótta við mistök og gagnrýni. Rétt er að hafa í huga, að það eru ekki einvörðungu tæknilegar framfarir, sem stuðlað geta að lækkun byggingarkostnaðar, heldur kemur þar ýmislegt fleira til, svo sem stærri byggingaráfangar, jöfn og árviss byggingarstarfsemi og nægilegt fjármagn.

Ég hef gert þessi mál hér að umtalsefni sérstaklega vegna þess að ég vil leggja áherzlu á, að hin nýja byggingarvísitala þarf helzt að vera þannig úr garði gerð eða grundvöllur hennar, að hann verði næmur mælikvarði á tæknilega og skipulagslega framþróun í byggingariðnaðinum.

Eins og áður segir, er grundvöllur byggingarvísitölunnar reistur á rannsókn á byggingarkostnaði sambýlishúss í Reykjavík, en auk þessarar aðalvísitölu hefur Hagstofan frá því á árinu 1957 birt svo nefnda fjölbýlishúsavísitölu, en hún sýnir, að byggingarkostnaður fjölbýlishúss eigi að vera 10% lægri á rúmmetra en byggingarkostnaður sambýlishússins. Þessi mismunur er þó nánast hrein ágizkun og styðst ekki við neinar rannsóknir á byggingarkostnaði tiltekins fjölbýlishúss. Ekkert kemur fram um það í vísitölu fjölbýlishússins, hversu stórt fjölbýlishúsið er, þ.e.a.s. hve margar hæðir og hve mörg stigahús eru í því, en þessi atriði skipta vitanlega máli um kostnaðarverð á rúmmetra.

Í blaðaskrifum um byggingarmálin, sem áttu sér stað í fyrra, kom skýrt fram af hálfu framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, að vísitala sambýlishússins væri ýmsum annmörkum háð, en vísitala fjölbýlishússins væri alls ekki viðmiðunarhæf. Reyndar féllst Hagstofa Íslands á þessi rök, því að hún birti tilkynningu í ágústhefti Hagtíðinda í fyrra, þar sem skýrt er frá því, að hætt verði að birta vísitölu fjölbýlishússins, þar sem raungildi hennar sé orðið vafasamt vegna breyttra aðstæðna.

Í tengslum við endurskoðun byggingarvísitölunnar hlýtur að koma mjög til athugunar að setja skýrar og fastmótaðar reglur, sem allir aðilar séu bundnir við, um það, hvernig reikna beri út fermetrastærð og rúmmetrafjölda íbúðarhúss. Þessar reglur hafa verið mjög á reiki. Arkitektinn, sem húsið teiknar, notar eina aðferð, byggingaryfirvöldin aðra, húsnæðismálastjórn þá þriðju, fasteignamatið þá fjórðu o.s.frv. Fróður maður hefur sagt mér, að alls séu þekktar 9 mismunandi útreikningsaðferðir, sem gefi mismunandi niðurstöður. Þessar reglur þarf að samræma og staðla, því að annars er allur samanburður að meira eða minna leyti út í hött. Miða þarf fyrst og fremst við flatarmál og rúmmál nýtanlegs íbúðarhúsnæðis. Þetta verkefni er æskilegt að leysa í sambandi við endurskoðun byggingarvísitölunnar og lagaákvæða, er hana varða.

Samfara útreikningi á nýjum grundvelli fyrir byggingarvísitölu er óhjákvæmilegt að endurskoða gildandi lög um vísitölu byggingarkostnaðar alveg á sama hátt og 1957, þegar nýr vísitölugrundvöllur var upp tekinn. Þá voru sett sérstök lög um vísitölu byggingarkostnaðar. T.d. er vísitalan nú reiknuð út þrisvar á ári, en verði breyting á þessu eftir nýja grundvellinum, þarf lagabreyting til að koma. Einnig þyrfti að lögfesta reglur um tengsl nýja grundvallarins við hinn eldri.

Í 4. gr. laga um vísitölu byggingarkostnaðar frá 1957 segir, að Hagstofan skuli í samráði við húsameistara ríkisins láta fara fram athugun á því á 10 ára fresti, hvort byggingarhættir hafi breytzt svo, að ástæða sé til að endurskoða grundvöll vísitölu byggingarkostnaðar. Að vísu hefur þessi athugun verið látin undir höfuð leggjast, og m.a. af þeim sökum er þessi þáltill. flutt. En ég tel eðlilegt, að í stað húsameistara ríkisins komi Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, en sú stofnun var ekki til á árinu 1957, þegar núgildandi lög um vísitölu byggingarkostnaðar voru sett. Er og við það miðað í þáltill., að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins fjalli um endurskoðun vísitölugrundvallarins ásamt Hagstofunni.

Mér er það ljóst, að útreikningar á nýjum grundvelli byggingarvísitölu og endurskoðun lagaákvæða um vísitölu byggingarkostnaðar er tímafrekt verk og vandasamt. Þess vegna geri ég ráð fyrir því í till. minni, að hinn nýi grundvöllur geti ekki tekið gildi fyrr en á árinu 1971.

Herra forseti. Ég legg svo til, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.