28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (3021)

19. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það lítur út fyrir, að hv. 3. landsk. þm., Jóni Þorsteinssyni, hafi orðið illa við, þegar farið var að ræða þessi mál á hv. Alþingi. Ræða hans bar þess merki og ekki síður yfirlýsing hans í Alþýðublaðinu, annaðhvort í gær eða í dag.

Eins og hv. þm. er kunnugt, var þessi ræða mín flutt hér, þar sem ég hafði framsögu í sambandi við þál., sem við fluttum nokkrir þm. Framsfl. Þessi þál. er þess efnis, að Alþ. kjósi sjö manna nefnd til þess að athuga og rannsaka, hvað sé rétt og satt í þessum málum. Það kom ekki fram í ræðu hv. þm. Jóns Þorsteinssonar, hvort hann legðist gegn þessari till., en þó var andinn í ræðu hans þannig, að hún væri algjörlega óþörf. Ég er á allt annarri skoðun, og ég vona, að meiri hl. hv. þm. sé á annarri skoðun. Ég held, — enda viðurkenndi hv, þm. það, — að byggingarkostnaðurinn hér sé meiri en t.d. á Norðurlöndum. Hann viðurkennir það, en hins vegar vildi hann meina, að við bærum meira í húsnæðið. Ég skal ekkert um það segja, ég hef aldrei komið til annarra landa, og þess vegna get ég ekki um það dæmt. En þeir, sem hafa verið þar, a.m.k. sums staðar, telja, að t.d. í Svíþjóð séu víða byggðar sambærilegar íbúðir og enn fremur í Finnlandi. Þetta er sögusögn annarra, og það er bezt, að það rétta komi fram, og það væri gaman, að þetta væri athugað af fróðum mönnum.

Alþýðublaðið sagði, að ég hefði verið hér með illmælgi o.s.frv., en ég verð að minna á og benda á það sérstaklega, að hv. þm. Jón Þorsteinsson taldi upp marga af þessum göllum, sem ég benti á, og viðurkenndi þá. Hann sagði að vísu, að ég hefði ýkt sumt af þessu. En hann gat ekki um annað, t.d. í sambandi við innréttingarnar. En það vill svo vel til, að ég hafði með mér þrautreyndan og þekktan byggingarmeistara, sem ég kæri mig ekki um að nefna hér, en get aðstoðað nefndina, ef hún vill skoða íbúðirnar, sem ég skoðaði, sýnt henni og talað við það fólk, sem hefur byggt þessar íbúðir. Hann sagði t.d., þessi byggingarmeistari, og það hafa viðurkennt fleiri menn, sem eru byggingarfróðir, að innréttingarnar væru þannig, að það væri alls engin fagvinna á þeim mörgum hverjum. Ég get alveg sagt ykkur, að t.d. á skápshurðum var sjónarmunur. Það var eins og þetta hefði allt sigið og brenglazt. Þetta eru íbúðir, sem búið er að búa í eitt ár. Hvar sést þetta? Það þarf að lyfta upp sumum hurðunum til þess að geta lokað þeim, og mörg af þeim gólfum, sem ég skoðaði, voru þannig, að ég mundi ekki telja annað, og byggingarmeistarinn gerði það ekki heldur, — það má meira marka það en mína dómgreind, — en að það yrði að taka þessi gólf alveg upp. En hv. þm, sagði, að það ætti að bæta úr þessum göllum. Þegar ég skoðaði þessar íbúðir fyrir jólin, vissu a.m.k. engir af eigendunum um það, að til stæði að bæta úr þessum göllum. En það er vel, ef þessi þáltill. og blaðaskrif og annað hafa orðið til þess, að þetta verði gert, því að sannarlega eru þessar íbúðir nógu dýrar til þess, að þeim sé skilað í sómasamlegu ástandi.

Eitt af því, sem hv. þm. Jón Þorsteinsson gat um, að hefði komið fram í ræðu minni, var, í hvaða ástandi bessar íbúðir hefðu verið, sem ég vitnaði til. Ég tók það fram, að þær væru frágengnar og m.a.s. lóðin. (Gripið fram í: Í hvaða húsi eru þær?) Ég fór svo víða. (Gripið fram í: Hvaða byggingarsamvinnufélag byggði þær?) Það voru bæði byggingarsamvinnufélög og einnig hópar af fólki. (Gripið fram í: Já, ég vil gjarnan fá húsnúmerin, ef það væri hægt.) Þú skalt fá þau. (Gripið fram í: Já, þakka þér fyrir.) Ég hef það ekki hér hjá mér á blöðum, en þetta voru t.d. byggingarfélag bankamanna og ýmis slík félög. Hann sagði, að ég hefði ekkert minnzt á, hvaða stærð væri á þessum íbúðum. Ég sagði, að hún væri svipuð eða sú sama, ég mældi það ekki upp, en hún var um 90 fermetrar, eins og er á fjögurra herbergja íbúðunum, sem kosta 1132 þús. kr. (Gripið fram í: Þær eru ekki 90 fm.) En það er allt í lagi með það. Fyrst við komum okkur ekki saman um þetta, þá vona ég og skora á hv. þm. að standa að því, að þessi þál. verði samþykkt og fengnir til menn, sem skoði þetta allt niður í kjölinn og byggingarkostnað í landinu. Það er ekki annað, sem við förum fram á.

Ef við tökum t.d. útbúnaðinn á geymslunum, hef ég aldrei séð annað eins nokkurn tíma. Þar getur ekkert verið til friðs, vegna þess að í því efni, sem skilrúmin eru byggð úr, er ekki hægt að koma fyrir læsingu eða neinu. Það er hægt að taka þetta frá hjörunum, jafnvel með nöglum, og ganga inn um þetta.

Hv. þm. sagði, að við hefðum skoðað örfáar íbúðir. Ég skoðaði það margar, að ég var orðinn uppgefinn, ég taldi þær ekki. Og sums staðar sagði fólkið: Þetta eru nú bara beztu íbúðirnar, sem eru í þessum blokkum. En gallarnir voru þó æðimargir á þessum góðu íbúðum. Ég gat ekki um það heldur, að ég kom t.d. inn í svefnherbergi, þar sem var skápur á milli klósettsins og svefnherbergisins og sást í gegn. Ég hef hvergi komið í íbúðir með svona fyrirkomulagi, aldrei á ævi minni. Og það væri hægt að telja upp hér þangað til kl. 5 ýmis smáatriði, sem koma raunar ekki málinu við, því að það er ekki það, sem verið er að deila um, heldur hitt, hvort þessar íbúðir í heild séu forsvaranlegar og hvort þær séu með svipuðu verði og byggingar, sem eru byggðar af öðrum.

Eitt af því, sem hv. þm. sagði, var um blaðamenn Vísis, að þeir hefðu komið þarna upp eftir og talað við fólk. Ég er nú á því, að þessi ferð blaðamanna Vísis hafi verið út af því, að einn af formönnum húsfélags þarna skrifaði Húsnæðismálastofnuninni bréf og kvartaði mjög yfir ýmsum frágangi á þessum byggingum. Ég held, að það hafi verið fyrst og fremst vegna þessa bréfs, sem Vísir fór á stúfana. Hann hefur kannske líka átt viðtal þarna við fólkið.

En mér er tjáð, að það sé fyrst og fremst þetta bréf, sem sjálft fólkið skrifaði eða aðili í umboði þess, sem varð kveikjan að Vísisfréttinni. Það væri ákaflega ánægjulegt, ef fyrrv. formaður framkvæmdanefndar hefði þetta bréf og vildi lofa hv. Alþ. að heyra það. Ég er ekki viss um, að þar sé minna sagt en það, sem ég hef sagt eða aðrir um þessar byggingar.

Á eitt verður að líta í þessu sambandi, þegar verið er að tala um byggingarkostnaðinn. Og það er, að það er dálítið önnur aðstaða, sem samvinnubyggingarfélögin hafa haft og aðrir, sem byggja. Það er fjármagnsskorturinn, sem flestir verða við að búa, en er ekki til að dreifa í sambandi við þessar byggingar, því að ég veit ekki betur en þeir hafi getað fengið peninga hjá Húsnæðismálastofnuninni jafnóðum og þeir þurftu. Þetta er stórt atriði í málinu, sem hefði átt að lækka byggingarkostnað til stórra muna. Og ef svo er sem ég hef grun um, að þessar íbúðir séu langtum dýrari en aðrar byggingar byggðar á sama tíma, þá þarf að taka þetta með í reikninginn, þegar þetta er athugað. Sannleikurinn er sá, að önnur byggingarstarfsemi hefur dregizt saman, vegna þess að þessar hyggingar sátu fyrir fjármagninu. Þær fengu fyrst allt, sem þær þurftu eða notuðu, og síðan var hinu deilt á milli húsbyggjenda í landinu.

Hv. þm. sagði, að þessir stigar þarna, sem ég sá og virtust í lausu lofti, — það væri þannig, að annað bæri þá uppi, þeir væru í raun og veru ekkert tengdir veggnum. Það getur vel verið. En byggingarmeistarinn, sem var með mér þarna, sagðist aldrei hafa séð neitt því líkt nokkurs staðar. Hv. þm. sagði, að þessar íbúðir væru U-laga og þeir hefðu fengið danskan arkitekt sem nokkurs konar ráðunaut, þegar þetta fór af stað. Hvers vegna fóru þeir ekki eftir ráðleggingum arkitektsins? Ráðlagði arkitektinn að byggja þessar U-íbúðir? Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum, að enginn muni hafa ráðlagt slíkar byggingar. Það hefur verið fullyrt við mig, að það tíðkist ekki, t.d. á Norðurlöndum, að tengja saman hornin, sem er sennilega ein orsök þessara miklu galla á íbúðunum í Breiðholti og hefur áreiðanlega aukið byggingarkostnaðinn mjög mikið, eftir því sem fróðir menn tjá mér. En aðrir segja, að þetta muni vera til. Ef enginn ráðleggur slíkar byggingar; hvers vegna var þetta þá gert?

Annars er það ekki mín meining, að það sé eitthvert sérstakt byggingarform, sem við eigum að hafa. Ég hef sjálfur verið við að byggja margar byggingar í samvinnufélagi, og ég hef reynslu fyrir því, að á þeim tíma, sem það var gert, kom það langtum betur út en aðrar byggingar byggðar á sama tíma. En það var ekki vegna þess, að ekki væri reiknuð öll vinnan, og ég veit ekki, hvernig það gæti verið, eins og hv. þm. sagði hér áðan, að það kæmi ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár, hver byggingarkostnaðurinn í samvinnubyggingunum raunverulega er. Það þekki ég ekki. Ég hélt, að það væri í þeim byggingum eins og öðrum, að byggingarkostnaður væri gerður upp jafnóðum og menn vissu alltaf, hver kostnaðurinn væri á því stigi, sem húsið eða byggingin stæði.

Hins vegar hefur ekki verið upplýst, og var ekki gert í þessari ræðu, sem hv. þm. flutti hér áðan, hver væri raunverulegur byggingarkostnaður Breiðholtsíbúðanna. Það hefur ekki komið fram nein skrá yfir það, hvað það sé í raun og veru, sem framkvæmdanefndin á í tækjum og öðrum eignum, hve mikið sé búið að afskrifa og hver sé í raun og veru munurinn á söluverðinu og því, sem eftir stendur. En kunnugir efa, að það geti verið nálægt því 50 millj., eins og virðist þarna vera. En þetta eru allt saman aukaatriði, ef hv. þm. vill standa að því í sínum flokki að samþykkja þessa till. og láta fara fram réttlátt mat bæði á þessum og öðrum byggingum hér í Reykjavík og annars staðar, og ef við erum sammála um það, að þeir aðilar, sem byggja ódýrast, — hvort sem það eru Breiðholtsbyggingarnar eða aðrar, eigi að sitja fyrir fjármagninu, enda hlýtur það að vera sú krafa, sem þjóðin gerir til þeirra, sem ráða þessu máli.

Hv. þm. sagði áðan, að menn hefðu staðið í skilum þarna, flestir borgað rentur og afborganir. Mér er ekki kunnugt um það, en ég hefði viljað spyrja hv. þm. að því, hvort búið væri að þinglýsa kaupunum á íbúðunum. Það eru ekki margir dagar síðan mér var tjáð, að það væri ekki búið. Mér kæmi ekki á óvart, — ef það er meining hæstv. ríkisstj. og framkvæmdanefndarinnar, að þessir húsbyggjendur borgi þau gjöld, sem krafizt er, en t.d. þeir, sem byggja í samvinnubyggingarfélögunum, þurfa ekki að borga, — þótt erfitt yrði fyrir þá að greiða þau gjöld, enda er greiðslan þá ekki 1132 þús., heldur næstum því 1160 þús. Eitt af því, sem við skulum hafa í huga, er, að fyrir þetta fólk þarf auðvitað að gera allt, sem hægt er. Þegar samið var um þessar byggingar, var stefnt að því og samið um það, að þeir, sem væru með lægstu tekjurnar, verstu aðstöðuna, fengju þessar íbúðir, en ég get ekki betur séð, þegar gengið er frá þessum kaupum, en að ætlazt sé til þess, að þeir, sem hafa keypt þær, séu allir hátekjumenn, ef þeir eiga að geta staðið undir þessum kostnaði. Og má mikið vera, ef það kemur ekki fram á næsta ári, að þetta fólk getur engan veginn staðið undir þessum greiðslum. Það má mikið vera. Ég skil ekki, hvernig það á að geta það. Þetta ætti hv. þm. og aðrir, sem bera ábyrgð á þessu, að hugleiða. Ég er það minnugur, að ég man eftir því, þegar farið var af stað með þessar byggingar. Þá var það sagt og því lofað, að þetta yrðu ódýrustu byggingarnar, það væri verið að lækka mikið byggingarkostnaðinn. Ég get ekki séð, að það hafi komið fram, heldur hið gagnstæða. Og ég veit ekki, hvort það er í raun og veru verjandi — ég verð að segja verjandi — að semja um það, eins og gert var á þeim tíma, þegar júnísamkomulagið var gert, — að semja um það í raun og veru að gefa eftir af kaupkröfum til þess að láta byggja svona byggingar. Eðlilegra væri að mæta kröfum þessa fátæka fólks öðruvísi en að verið væri að verzla með það í kaupgjaldssamningum.

Það er náttúrlega ýmislegt, sem hægt væri að segja um þetta, en ég geri ráð fyrir því, að ég og vinur minn, Jón Þorsteinsson, hv. 3. landsk., getum ekkert síður talað um þetta í blöðunum en hér á hv. Alþ., og ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar á þessum vettvangi. En ég vil endurtaka þá áskorun mína, að hann standi að því að samþykkja þessa till., því að geri hann það ekki, tel ég, að ekki sé hægt að skilja annað en hann sé eitthvað hræddur við að láta athuga þessa byggingarstarfsemi.