28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3023)

19. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það var ein fullyrðing hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, sem kom mér til þess að fara í stólinn. Hún var sú, að verkalýðsfélögin hefðu gefið eftir af kaupkröfum sínum, til þess að þessar íbúðir yrðu byggðar. Og hann sagði: Við höfum gert það með júnísamkomulaginu. Það er tvennt rangt í þessu. Það var fyrst og fremst ekki samið um þessar íbúðir, þegar júnísamkomulagið var gert, og í öðru lagi er það engan veginn rétt, að verkalýðshreyfingin hafi gefið eftir af sínum kaupkröfum til þess að ná þessum samningum. Það er vitanlegt, að það eru fleiri mál en aðeins kaupið eitt, sem varða verkalýðshreyfinguna í samningum og utan samninga. Hana hlýtur líka að varða það, hvernig afkoma fólks er á ýmsan hátt og þá ekki sízt í húsnæðismálum. Það var vitanlegt og er búið að vera það lengi í þessum bæ, að afkoma hinna lægstlaunuðu í þessum efnum var ákaflega slæm. Þróunin hefur orðið sú, að það eru yfirleitt eignaríbúðir, sem menn búa í. Það er lítið byggt af leiguíbúðum. Því urðu allir að strekkja við það að eignast eigin íbúðir. Þetta er mál út af fyrir sig, að þessi þróun skuli hafa orðið. Hvort hún er heppileg eða ekki heppileg, má áreiðanlega um deila. En þannig stóðu mál.

Hvert leituðu menn svo til þess að fá lán til íbúðabygginga? Það var fyrst og fremst húsnæðismálakerfið, sem átti að standa undir því. Í öðru lagi höfðu menn gjarnan lífeyrissjóði að hakhjarli til þess að geta fengið lán til íbúðabygginga. Fólk; sem vinnur fyrir því lága kaupi, sem almennt er hjá verkamönnum ófaglærðum, hafði ekki bolmagn til þess að eignast íbúð með þeim lánakjörum, sem fyrir hendi voru. Þess vegna voru samningarnir 1965 um þessar sérstöku byggingarframkvæmdir gerðir. Menn horfa gjarnan miklum öfundaraugum til þess, að óeðlilega mikið fjármagn hafi farið til þessara bygginga og jafnvel verið tekið frá öðrum. Ég vil í þessu sambandi minna á það, áð um æðilangan tíma hefur drjúgur hluti af því fé, sem atvinnuleysistryggingasjóður hefur yfir að ráða, farið til húsnæðismálakerfisins. Ég segi, að stærsti hlutinn af fé atvinnuleysistryggingasjóðs er kominn frá þessu láglaunafólki, sem ekki hafði möguleika til að fá lán úr húsnæðismálakerfinu, vegna þess að það dugði ekki til. Sem dæmi vil ég nefna, að lengst af hefur 1/5 hluti af árlegum iðgjöldum til atvinnuleysistryggingasjóðs, 20%, komið frá verkamönnum í Dagsbrún vegna þeirra vinnu. Þau lán, sem húsnæðislánakerfið hefur fengið á þennan hátt, nema núna um 100 millj. kr. á ári og hafa, fram að því að þessar hyggingarframkvæmdir hófust, að langmestu leyti farið til manna, sem höfðu allt aðra og betri aðstöðu í lífinu en þetta fólk og höfðu til viðbótar húsnæðismálalánunum einmitt lífeyrissjóðslánin og ýmsa aðra aðstöðu, bæði í tekjum og lánamöguleikum, langt fram yfir þetta fólk. Þessi samningur 1965, um íbúðabyggingar framkvæmdanefndarinnar með sérstökum lánstímum og lánakjörum, var því eini möguleikinn, sem við í verkalýðshreyfingunni komum auga á, að gæti orðið til þess, að þetta fólk gæti búið í mannsæmandi húsum. Annað mál er svo, hvernig til hefur tekizt. Það er út af fyrir sig ákaflega létt verk, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson velti sér upp úr, að tína til galla á þessum byggingum. Það er hægt að gera það við allar byggingar.

Það er rétt; að þarna hafa orðið ýmis mistök, sem að miklu leyti stafa af því, að þarna eru viðhafðar nýjar aðferðir við byggingarframkvæmdir, en ég vil nú segja ekki einvörðungu vegna þess, heldur líka vegna of mikils flýtis, þ.e. að vandvirkni hefur ekki verið nóg. En þetta er svo hégómlega lítill hluti af þessu stóra máli, að það má vera eitthvað alveg sérstakt, sem að baki liggur, að menn skuli geta verið að velta sér upp úr því á þann hátt, sem bæði hefur verið gert hér og einnig í blaðaskrifum. Það er eins og verið sé að draga þetta í alveg sérstakan dilk, þessar byggingarframkvæmdir, sem engan veginn er réttlætanlegt, og ekki sízt, að það er eins og að setja eigi það fólk, sem þarna býr, í einhvern alveg sérflokk í þjóðfélaginu. Þetta hefur haft ýmsar afleiðingar og ég veit, að ef áfram heldur svona, þá mæta þeir menn, sem ástunda þessa iðju, samtökum þessa fólks, sem er í Breiðholtsíbúðunum, ekki bara íbúðum framkvæmdanefndar, heldur og öðrum íbúum þarna. Það er eins og að rakka eigi niður þetta hverfi og gera það næstum ekki byggilegt. Mér finnst þetta mjög illa farið, að menn skuli vera að þessu. Sannarlega er hægt að gagnrýna ýmislegt þarna, líka þætti í framkvæmdum framkvæmdanefndarinnar sjálfrar, hvernig hún hefur að þessu staðið, en það er eins og hv. þm. Jón Þorsteinsson hefur sagt hér, það var verið að fara inn á nýjar brautir, og það er alveg óhjákvæmilegt, að gallar og skekkjur komi fram, þegar það er gert, og ekki sízt það, að einmitt sú gerð húsa, sem þarna varð að byggja samkv. skipulaginu, var ákaflega óhentug til þeirra tilrauna, sem þarna voru gerðar, og kannske vafamál, að þær hefði átt að gera, einmitt vegna þess að það var vitað fyrir fram, hve óhentug þessi húsagerð var til þess.

Ég skal ekki lengja þessar umr. En hv. þm. Stefán Valgeirsson taldi, að mjög erfitt mundi verða fyrir það fólk, sem er í Breiðholtsíbúðunum, að standa undir afborgunum af lánum og öðrum tilkostnaði, og að ekki sé nema fyrir hátekjumenn að gera það. Það er nokkuð til í þessu. En ekki vegna þess, að þessar íbúðir hafi orðið öðrum dýrari, síður en svo. Það liggur alveg fyrir, að þær eru með því ódýrasta, sem hægt hefur verið að fá. Það liggur hins vegar í hinu, að þrátt fyrir þau góðu lánakjör, sem þarna eru á boðstólum, er það ekki kleift fyrir láglaunafólk, barnmargt fólk með einni fyrirvinnu, að standa undir þessum kostnaði. Það er alveg rétt. En það er ekki íbúðanna sök, það er á kaupgjaldsins reikning og afkomumöguleikanna í þjóðfélaginu, sem verður að skrifa þá hluti. Úr því að ég er kominn hér í þennan stól, þá vil ég leggja mikla áherzlu á það, að allir þeir, sem hér eiga hlut að máli, sjái til þess, að hægt verði að halda þessum byggingum áfram og með miklu meiri hraða en nú er áætlað. Þetta er þegar orðið langt á eftir áætlun, og ekki sízt núna, þegar hinn almenni byggingarmarkaður er mjög takmarkaður, þ.e. byggingarframkvæmdir, tel ég einmitt, að af hálfu þess opinbera, sem stendur að þessum byggingum, ætti að leggja alveg sérstaka áherzlu á að reyna að leggja meira fram til þessara bygginga, til þess að vandi þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, leysist þó fyrr en ella.