28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3024)

19. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta verða ekki nema örfá orð. Það vakti athygli mína, að hv. 2. landsk. þm. sagði áðan, að í raun og veru mætti segja, að það væri fyrir of mikinn flýti, að þessi mistök hefðu átt sér stað í byggingunum, en svo endar hann aftur ræðu sína á því að segja, að þetta hefði dregizt langt fram yfir það, sem um var samið, að koma þessum byggingum áfram. Ég segi fyrir mig, að mér hlýtur að hafa misheyrzt, því að þetta kemur ekki heim og saman. Hv. þm. sagði svo til það sama sem Alþýðublaðið var búið að segja áður, að ég væri að koma einhverju óorði á allt þetta hverfi væri að rakka það niður, eins og þeir sögðu. Ég vil minna á, að í minni ræðu um daginn nefndi ég aðeins eina byggingu á nafn, Leirubakka 18 og 20, til samanburðar og til þess að hægt væri að skoða og vitnaði í byggingarkostnaðinn. Hvar er Leirubakki? Er hann ekki inni í Breiðholti? Þetta hefur farið fram hjá bæði hv. þm. og enn fremur þeim, sem ritstýra Alþýðublaðinu.

Hv. 3. landsk. þm., Jón Þorsteinsson, var að tala um og vitna mjög í, hvernig Vísir hefði hagað sér í sambandi við þessar byggingar. Það getur vel verið, að það sé vitleysa hjá mér, en ég hélt, að dagblaðið Vísir styddi þessa hæstv. ríkisstj., og það getur þá ekki verið af þeim ástæðum, að hann var að gefa í skyn, að ég mundi vera í einhvers konar bandalagi við Vísi. Ég hélt, að það væri í raun og veru hv. þm. Jón Þorsteinsson, sem væri í bandalagi við Vísi, en ekki ég, en þó var það nú svona, að þetta blað hefur séð ástæðu til þess að athuga þessa framkvæmd, þrátt fyrir bandalagið.

Hv. þm. Jón Þorsteinsson sagði, að það hefði ekki verið á færi framkvæmdanefndarinnar að ákveða, hvernig byggt var. Það getur vel verið. En hver ber ábyrgð á því? Er það þá skipulag í Reykjavík, sem segir alveg fyrir um það og þrátt fyrir alla sérfræðinga, erlenda og innienda, er ekkert farið eftir því, heldur farið eftir einhverjum ákveðnum, fyrir fram ákveðnum reglum í þessu, þó að allir aðilar, sem reynt er að ráðfæra sig við, leggi til hið gagnstæða? Hver ber ábyrgðina? Það væri ákaflega fróðlegt að vita.

Hv. þm. Jón Þorsteinsson furðaði sig á því, að ég hefði eitthvert samband við fólkið þarna inni í hverfinu og vissi ýmislegt, sem þar hefði skeð. Ég er nefnilega ekki alveg viss um, að það sé rétt hjá hv. 2. landsk. þm. eða hv. þm. Jóni Þorsteinssyni, að fólkið sé svona ánægt. Ég þekki nefnilega svolítið til þarna í Breiðholtshverfinu.