27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

126. mál, söluskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vill halda því fram, að um enga möguleika aðra sé að ræða til þess að afla ríkissjóði tekna vegna tekjulækkunar, sem hann hefur orðið fyrir, en að fara í söluskattinn. Það er eina bjargráðið, sem hann sér. Hann telur allt annað ómögulegt. Eignarskattinn getur hann ekki hugsað sér að hækka. Það er alveg gefinn hlutur, því eignarskattar hér á landi eru sama sem engir. Og til þess að afla 100 millj. kr. tekna með eignarskatti, þá skal það játað, að það yrði að hækka gífurlega mikið eignarskatt á stóreignum. En það er líka skattlagning, sem kæmi misjafnlega niður á bökin, eftir því hvað þau væru breið og sterk. En slík tekjuöflun finnur ekki náð fyrir augum hæstv. ríkisstj., ekki heldur skattlagning á hátekjur. Vissulega eru þessir möguleikar og margir aðrir fyrir hendi, ef hæstv. ríkisstj. vildi fara aðrar leiðir en söluskattsleiðina. En hún er einsýn á þetta og vill bara setja kíkinn fyrir blinda augað, þegar um allar aðrar leiðir er að ræða.

Hv. 4. þm. Austurl. kom hér upp í ræðustól áðan til þess að tilkynna, að hann ætlaði að sitja hjá við atkvgr. um till. mína. Ég sá, að þá færðist breitt bros yfir andlitið á 4. þm. Reykv. og hann sagði með ánægjubrosi: „Ja, það er stundum gott að sitja hjá.“ Þetta var Framsóknarkvak, sem kom frá hjartanu og hann gladdist yfir því, að nú hefði honum bætzt einn hjásetumaður. Jú, þetta er ekki nema eðlilegt. Ég skil þetta. En hvað þýðir það að sitja hjá við atkvgr. um till., sem er um það að freista þess á síðustu stundu að lækka söluskattsinnheimtu um nokkur hundruð millj. kr.? Þýðir þetta nokkuð annað en það, að hv. þm. segir: „Það skiptir engu með nokkur hundruð millj. kr. innheimtu til eða frá af alþýðu manna í landinu. Ég læt mig það engu skipta og sit á rassinum.“ Þetta þýðir það. Ég hefði vænzt þess, að hv. þm. hefði stundum viljað lyfta sér úr sæti, einhvern tíma endranær til þess að létta nokkur hundruð millj. kr. skattlagningu af almenningi, en nú hefur hann ekki þrek til þess. Hann er sjálfur búinn að taka þátt í því núna í hv. fjhn. að stuðla að lækkun tekna hjá ríkinu með niðurfellingu tolla, sem sennilega nema a.m.k. 4—5 hundruð millj. kr. — hátt í 8 hundruð millj. kr. alls. Þegar tilraun er svo gerð til þess á síðustu stundu hér í hv. d. að setja skattheimtunni þau takmörk, að ekki verði farið lengra en að fá tekjur á móti þeirri tekjulækkun, sem ríkissjóður hefur orðið fyrir, svo tekjuaðstaðan verði þannig óbreytt, þá er bara setið hjá.

Mér kemur þetta svo sem ekkert á óvart, þegar ég hugsa til liðins tíma. Það hefur alltaf verið stefna þessa hv. þm. að greiða atkv. með útgjaldatill., en að vera hreinn og saklaus af því í allri skattapólitík að greiða atkv. með meiri tekjuöflun á móti. Það má vel vera að hann haldi, að það fáist einhver pólitísk uppskera af svona pólitík, en ég er alveg viss um, að þetta er svo harðsoðin loddarapólitík, að hann fær engin atkv. út á þetta. Það er alveg augljóst.

En hinu verður ekki neitað, að það skiptir nokkru máli að freista þess allt fram á síðustu stundu að draga úr skattlagningunni og það skildi hv. 1. þm. Vestf. vel, enda var það ekki torskilið. En fari svo, að þetta takist ekki og till. mín verði felld vegna hjásetu nokkurra manna, sem láta sig þessi mál nú engu skipta, þá er það a.m.k. víst, að ekki hefði tekizt að koma söluskattinum lengra niður með því móti. Þá hefur það verið fullreynt á síðustu stundu, hvort ekki er hægt að draga úr þessari skattlagningu og sýna þó nokkra ábyrgðartilfinningu í því að sætta sig við að búið var að leggja drög að nýrri skattlagningu fyrir afgreiðslu þessa frv.