05.11.1969
Sameinað þing: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (3040)

30. mál, hagnýting á saltsíld

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd, er rannsaki möguleika á aukinni hagnýtingu saltsíldar til útflutnings. Þessi rannsókn beinist að framleiðslu á síldarflökum og sölu á þeim í smápakkningum. Eftirtaldir aðilar tilnefni menn í nefndina: Landssamband ísl. útvegsmanna einn mann, félög síldarsaltenda sameiginlega einn mann, síldarútvegsnefnd einn mann og viðskmrn. einn mann. Formaður nefndarinnar verði skipaður án tilnefningar. Nefndin skili tillögum sínum eigi síðar en í febrúarlok 1970.“

Eins og till. ber með sér, legg ég áherzlu á, að athugun fari fram á því, að hve miklu leyti mögulegt sé að hefja flökun saltsíldar í stórum stíl til útflutnings, bæði til þess að auka verulega verðmæti aflans og einnig til þess að tryggja fólki við síldarstörf sem tryggasta vinnu. Langt mál mætti tala um vinnuþáttinn, en ég læt nægja að undirstrika, að mjög mikil vinna er við vinnslu síldarinnar, eins og gamlar venjur hafa verið að hagnýta síldina. En nú, þegar alvarlegt atvinnuleysi er í landinu, hljóta menn að geta sameinazt um það að efla alla starfsemi, sem veitir aukna vinnu, og það mun flökun saltsíldarinnar og frágangur flakanna í minni pakkningar vissulega gera. Raunar væri þetta eitt sér fullkomlega nægileg ástæða til þess að gefa gaum að aukinni hagnýtingu saltsíldar og hefjast þegar handa í stærri stíl um flökun síldar. En hinn þátturinn er eigi að síður mikilvægur, og mun ég í stórum dráttum fjalla um hann.

Ég tel, að þótt aflabrestur sé nær alger á síldveiðum nú í ár, megi ekki fara svo, að menn gefist upp að ná í síldina, og þess vegna verðum við að leita úrræða til þess að tryggja áframhald þessara veiða. Aflabresturinn kemur eðlilega þegar mjög hart niður á þeim, er beint starfa við síldveiðar og vinnslu síldarinnar í landi. Það er vitað, að verði ekki brugðið við skjótt með tillögum til úrbóta, munu langflestir gefast upp við þessar veiðar næsta ár og leita eftir öðrum leiðum til útgerðar á skipum sínum. Þótt nú séu aðeins um 60 skip á veiðum, voru þau lengi vel í sumar og haust aðeins um 40. Þá er mönnum, sem um þessi mál fjalla, ljóst, að hættulegt er, að þeim fækki mikið niður fyrir 40, því að það hefur sýnt sig, að nauðsynlegt er, að nokkur skip séu jafnan úti til þess að finna og fylgjast með síldinni. Sárafá skip geta hæglega farið á mis við veiði. Það sýnir reynslan.

Það er mín skoðun, að stór hætta sé á ferðum, ef síldarútgerð lognast því sem næst niður hér á landi. Menn hafa að vísu litla samúð með síldinni sumir hverjir í dag, en fáist t.d. ekki beitusíld, þá verður lítið víða um þorskfiskútgerð.

En hvað er þá til ráða í svo miklum vanda? Það verður að gera stórátak til aukinnar hagnýtingar á þeim takmarkaða afla, sem á land kemur. Þótt aflinn minnki raunverulega margfalt, þarf verðmæti hans auðvitað ekki að minnka að sama skapi, og það gerir það heldur ekki, því að síldarafurðir eru eftirsóttar og við minna framboð hækkar verðlag þeirra mjög skjótlega. En það er höfuðatriði við minnkandi afla að fara vel með það sem veiðist og hagnýta það í eins verðmæta vinnslu og nokkur kostur er. Þótt t.d. verðlag á saltsíld hafi hækkað mjög undanfarið, einkum þó á stórsíldinni, mundi fást meira en tvöfalt fobverð fyrir hvert kg af flakaðri saltsíld í minni pakkningum. Auk þess veitti flökunin, eins og áður segir, mikla vinnu. Ekki þarf að óttast um eftirspurn, því að síldin er því sem næst ófáanleg, og það verður að segjast eins og er, að ekki eru miklar líkur á því, að síldarmagn aukist verulega við landið á næstu árum, ef draga má ályktanir af þeim atburðum, sem eru að ske nú í þessu. Og margar þjóðir vilja hefja friðun á síldinni. Eftir því sem ég hef heyrt, verður fundur um þessi friðunarmál um n.k. mánaðamót í Moskvu, því að mönnum lízt ekki á þá þróun, sem orðin er. Og það er merkilegt skref í áttina að skynsamlegri tilhögun við veiðarnar, sem þarna yrði stigið, ef samkomulag verður á þessum fundi. Vonandi haga menn veiðum sínum á næstunni þannig, að þess sé að vænta, að stórsíldin fái að njóta sín, og drepi ekki svo mjög smásíldina sem verið hefur undanfarin ár. Í skýrslu, sem liggur fyrir hjá Jakobi Jakobssyni fiskifræðingi, kemur í ljós, að Norðmenn hafa á þremur árum drepið 15 millj. hektólítra af smásild. En sú síld væri sem fullvaxin úthafssíld margföld á við þetta að magni.

Það er skoðun mín, að rétt sé að athuga alla möguleika á aukinni hagnýtingu mjög gaumgæfilega, áður en stórframleiðsla er hafin í þessum efnum til þess að forðast mistök, sem alltaf geta átt sér stað, ef geyst er farið út í hlutina.

Þá er lagt til, að hið opinbera hafi forustu um athugun á þessu máli og hagsmunasamtök við síldarvinnslu hafi menn í þessari nefnd. Þótt sumir hafi ótrú á nefndaskipan, þá veltur auðvitað allt á því, að í nefndina komi menn, sem áhuga hafa á málinu og vilja framgang þess.

Nokkuð hefur verið gert af því að flaka síld, og hef ég það beint eftir forstjóra einnar slíkrar söltunarstöðvar, þar sem flökun fer fram, að þetta sé vel hægt með góðu skipulagi og nokkuð arðvænlegt. Það þarf að athuga, hvernig dreifing á þessum afurðum er heppilegust. Á t.d. að selja flakaða síld með hjálp síldarútvegsnefndar, eða eiga þeir, sem standa í svona vinnslu, að hafa frjálsar hendur til sölu, eins og reyndar er gert ráð fyrir í 4. gr. reglugerðar um síldarútvegsnefnd í dag, þegar um minni pakkningar er að ræða? Í landinu eru nú um 100 söltunarstöðvar frá fyrri uppgangsárum. Um helmingur þeirra hefur ekki séð síld í sumar, að því er ég hef frétt. Og mér er sagt, að til Siglufjarðar hafi ekki komið síld í sumar og mundu það einhvern tíma hafa þótt nokkur tíðindi. Í þessum stöðvum er bundið mikið fjármagn, margir tugir millj. Það er því geysilegt fjárhagslegt atriði að koma sem flestum þeirra í gang aftur, ef það er mögulegt og þá t.d. við aukna nýtingu saltsíldar. Rétt er að undirstrika, að þótt menn hefji flökun síldar, þarf mjög litla nýja fjárfestingu. Jafnvel mætti sennilega víða hefja þessa starfsemi án fjárfestingar, en þá væri um handflökun að ræða. Hins vegar kostar síldarflökunarvél, sem vel mun passa, innan við 1/2 millj. kr. með tilheyrandi færiböndum. Þótt söltun í trétunnur minnki og upp úr tunnum sé tekið til. frekari vinnslu, þá er samt góð eftirspurn eftir heimatilbúnum tunnum, en þó er hugsanlegt, að um tvínotkun á tunnunum sé að ræða, ef mestöll síldin færi í flökun. En hér eru fram undan geysilegir möguleikar fyrir plastiðnaðinn í landinu, sem fengi stórkostlega eftirspurn eftir umbúðum, sem hann gæti að öllu leyti framleitt hér innanlands. Og þetta er mjög þýðingarmikið atriði.

Það er sama með hvaða hætti litið er á þetta mál. Jákvæðar hliðar blasa við, og ég leyfi mér að halda því fram, að nú geti orðið svipuð þáttaskil í hagnýtingu saltsíldar og þegar stigið var það heilladrjúga skref að hefja frystingu á þorski og ýsu og auka með því verðmæti aflans að sama skapi í landinu. Oft hefur verið þörf að fara vel með síldina, en nú er brýn nauðsyn að gera slíkt. Sjómenn okkar sönnuðu það enn einu sinni í sumar og haust, að þeir eru jafnan í fararbroddi um dugnað og hafa nú skilað yfir 60 þús. tunnum af sjósaltaðri síld að landi, þótt um óravegalengdir sé að ræða. Alls er nú söltun komin nokkuð yfir 120 þús. tunnur og er útflutningsverðmæti varla undir 350 millj., e.t.v. meira vegna verðhækkana. Þó að ekki væri nema helmingur tekinn til flökunar, mundi það þýða verðmætaaukningu upp á ekki minna en 200 millj. Stundum hefur verið fjallað um minni mál en það á hv. Alþ.

Eins og kemur fram í grg., hefur þróunin verið sú, að þátttaka báta í síldveiðum var 1965 234 skip, en í dag eru aðeins um 60 skip að veiðum og fari svo, að ekki verði eitthvað gert til að hjálpa upp á síldveiðar næsta ár, þá er það mín spá, að aðeins sárafá skip reyni að hefja síldveiðar og sennilega ekki eitt einasta muni reyna söltun til að byrja með. Þetta tel ég svo hættulega þróun, að fram hjá þeirri staðreynd eða þessu útliti er ekki hægt að ganga þegjandi. Ég vil líka benda á, að ég hef athugað verðmæti pr. kg á útflutningnum 1968, og til fróðleiks vil ég aðeins drepa á örfáar tölur, þannig að hv. þm. sjái, hve verðmætaaukningin yrði mikil með því að taka síldina til frekari vinnslu hér í landi.

Ísvarin síld beint úr íslenzkum skipum var þá seld á 5.90 kr., fryst síldarflök á 14.20 og heilfryst síld á 7 kr. pr. kg. Síðan koma ýmsar flokkanir á saltsíld, þar sem verðið var frá 11.60 kr. upp í 19 kr. eftir sérverkun, en hins vegar voru saltsíldarflök, það litla, sem þá var flutt út, seld á 43.50 kr. pr. kg, þannig að það fer ekkert á milli mála, að verðmætaaukningin er meiri en tvöföld í flestum tilfellum.

Herra forseti. Að lokinni þessari fyrri umr. vil ég leggja til, að þessari till. sé vísað til allshn.