04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (3044)

30. mál, hagnýting á saltsíld

Frsm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, fjallar um aukna hagnýtingu á saltsíld.

Eins og öllum er kunnugt, er það útbreitt álit meðal landsmanna, að við þurfum að leggja mjög aukna áherzlu á að hagnýta hráefni það, sem berst á land hverju sinni, og sú till., sem ég drap á áðan, að hér lægi fyrir, fjallar einmitt um það, að saltsíldin sé betur hagnýtt en við höfum gert undanfarið.

Allshn. Sþ. fékk þessa till. til athugunar og sendi hana ýmsum til umsagnar, svo sem síldarútvegsnefnd, LÍÚ, fiskimálaráði, Sambandi ísl. sveitarfélaga og ASÍ. Bárust umsagnir frá þessum aðilum öllum nema þeim síðasttalda, og töldu allir þörf á aukinni athugun á hagnýtingu saltsíldar og lögðu yfirleitt til, að till. væri samþ., en Samband ísl. sveitarfélaga taldi, að starfstími nefndar þeirrar, sem till. gerir ráð fyrir, væri of stuttur og fiskimálaráð lagði til, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins væri gefinn kostur á að tilnefna mann í nefndina. Allshn. tók þessar athuganir báðar til greina og leggur til, að þáltill. verði samþ. nokkuð breytt, eins og hér liggur fyrir, en breytingarnar eru eingöngu þessar tvær, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fái að tilnefna mann í nefndina og að skilafrestur hennar á athugun og tillögum sínum sé lengri eða til maíloka 1970. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið.