12.01.1970
Sameinað þing: 29. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3056)

64. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. þm. Vestf. leyft mér að flytja till. um bætta læknisþjónustu í strjálbýli, er hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að athuga möguleika á því að fá lækna frá nálægum löndum, og þá fyrst og fremst hinum Norðurlöndunum, til þess að gegna um lengri eða skemmri tíma læknisþjónustu í einstökum læknishéruðum hér á landi, sem nú eru læknislaus.“

Ástæðan til þess, að við flm. þessarar till. höfum lagt hana hér fram, er það öngþveiti, sem ríkir í heilbrigðismálum kjördæmis okkar. En það er því miður síður en svo einsdæmi. Í sumum öðrum landshlutum er ástandið ekki miklu betra í þessum efnum. Hin læknislausu héruð á Vestfjörðum eru í dag þessi samkv. upplýsingum landlæknisskrifstofunnar: Bíldudalslæknishérað, Flateyrarlæknishérað, Suðureyrarlæknishérað, Súðavíkurlæknishérað og Reykhólalæknishérað, en það hefur þó þá þjónustu, að þangað kemur tvisvar í mánuði læknir frá Reykjavík, þegar flugveður leyfir, og hefur þar viðtalstíma. En allir sjá, hversu ófullkomin slík læknisþjónusta er.

Þegar rætt hefur verið um þetta vandamál, læknisskortinn, hér á hv. Alþ., finnst mönnum það að vonum ekki rétt geðþekkt. Af hálfu heilbrigðisyfirvalda hefur margt verið gert til þess að bæta úr læknisskortinum, en það hefur ekki tekizt. Allt situr við hið sama. Fólk í sumum héruðum er læknislaust árum saman. Hver mundi sætta sig við slíkt nema það fólk, sem þá á einskis annars úrkosti? Læknarnir vilja ekki fara í hin fámennu héruð um skemmri tíma, hvaða laun sem í boði eru. Það er dapurleg staðreynd.

Í þessari till. er, eins og áður er getið, lagt til, að reynt verði að fá erlenda lækna frá nálægum löndum til þess að firra algerum vandræðum í þessum efnum. Nokkrir erlendir læknar hafa starfað hér á landi, m.a. á Vestfjörðum. Störf þeirra hafa yfirleitt gefizt vel, í einstökum tilfellum jafnvel mjög vel. Ég geri mér ljóst, að landlæknir hefur þrátt fyrir þetta ekki mikla trú á því, að erlendir læknar leysi þetta vandamál, og má vel vera, að hann hafi rétt fyrir sér. En ég leyfi mér að benda á, að nú munu vera um 70 íslenzkir læknar í Svíþjóð einni, og mætti ætla, að þeir hafi átt sinn þátt í því að hjálpa frændum okkar og vinum, Svíum, til þess að leysa þeirra vandamál vegna læknaskorts. Þá má einnig geta þess, að samtals eru nú um 130 íslenzkir læknar erlendis, sumpart við framhaldsnám og sumpart við læknisstörf. Að sjálfsögðu verður að vænta þess, að einhverjir þessara íslenzku lækna, sem erlendis dvelja, komi heim og einstakir þeirra kunni að fást í héruð úti á landi. Þó ríkir ekki mikil bjartsýni um það hjá heilbrigðisyfirvöldum, sem hafa sína reynslu, sína bitru og sáru reynslu í þessum efnum. En kjarni málsins er sá, að við flm. þessarar till. teljum, að einskis megi láta ófreistað til þess að tryggja fólki læknishjálp, einnig í fámennum og afskekktum héruðum. Þess vegna er þessi till. flutt.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.