04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (3059)

64. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu á þessari þáltill., sem er jákvæð, eins og hv. þm. hafa nú heyrt. Fyrri flm. till., Sigurður Bjarnason, er nú horfinn af þingi. Ég veit reyndar, að ég mæli fyrir munn hans líka, er ég þakka fyrir þessa afgreiðslu. Að sjálfsögðu mundu menn helzt óska þess, að ekki þyrfti til þess að koma að leita til annarra þjóða um lækna í læknislaus héruð á Íslandi. En líf og heilsa fólks í héruðum, sem eru læknislaus ár eftir ár, er meira virði en svo að okkar dómi, að það megi hika við að reyna þessi úrræði, ef þau eru tiltæk, og þess vegna var till. flutt. Erlendir læknar hafa starfað hér á Íslandi við góðan orðstír ýmsir, og get ég nefnt alveg nýtt dæmi úr mínu kjördæmi hvað þetta snertir. Í Patreksfirði í Barðastrandarsýslu hafa verið tveir læknar til þess að gegna tveimur læknishéruðum. Það eru einu læknarnir í allri Barðastrandarsýslu. En eftir að þetta mál var flutt, flutti annar læknirinn í burtu, og nú er eftir einn, og það er útlendingur, læknir frá Jórdaníu. Nú er búið að setja hann sem héraðslækni, og hann hefur starfað þarna við góðan orðstír. Þetta sýnir, að erlendir læknar geta sannarlega komið í góðar þarfir á Íslandi, þegar í nauðir rekur. Ég vil ekki orðlengja frekar um þetta mál, en endurtek þakklæti mitt til hv. n., sem hefur sýnt fullan skilning á þessari þörf.